Ferill 777. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
Þingskjal 1314 — 777. mál.
Frumvarp til laga
um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.
(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.
2. gr.
Orðskýringar.
1. Aflandskrónueignir:
a. Innstæður eftirtalinna aðila í íslenskum krónum hjá innlánsstofnunum hér á landi, hvort sem þær eru raunveruleg eign viðkomandi eða hann fer með vörslur fyrir hönd annars:
1. Erlendra lögaðila sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, útibúa þeirra og dótturfélaga í þeirra eigu.
2. Annarra erlendra stofnanafjárfesta sem fjárfesta í fjármálagerningum, þ.m.t. aðila sem fást við verðbréfun eða önnur fjármögnunarviðskipti.
b. Fjármunir á fjárvörsluinnlánsreikningi á nafni greiðanda, á geymslureikningi hjá innlánsstofnun á nafni eiganda eða umboðsmanns hans eða í formi sérgreindrar eignar kröfuhafa í vörslu greiðanda, enda hafi þeir verið greiddir í þágu erlends aðila sem á eða hefur átt kröfu á hendur lögaðila sem sætt hefur slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð eða sem gengið hefur í gegnum endurskipulagningu með nauðasamningi.
c. Skuldabréf og víxlar, útgefnir af ríkissjóði Íslands eða með ábyrgð íslenska ríkisins, í íslenskum krónum, í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið.
d. Hlutdeildarskírteini sem eru í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið og útgefin í íslenskum krónum, í verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóðum þar sem fjárfest er, beint eða óbeint, í fjármálagerningum, útgefnum af ríkissjóði Íslands eða með ábyrgð íslenska ríkisins.
e. Hlutafé, skuldabréf og hvers kyns skuldagerningar, útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðilum sem hafa farið í gegnum endurskipulagningu á grundvelli nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., eftir 28. nóvember 2008, í eigu erlendra lögaðila vegna umbreytingar krafna sem þeir fjárfestu í eftir 28. nóvember 2008. Sama gildir um endurfjárfestingu vegna andvirðis slíkra eigna sem seldar hafa verið, hvort sem er að hluta eða öllu leyti.
f. Hlutafé, skuldabréf og hvers kyns skuldagerningar, sem voru útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðilum, enda hafi fjárfestingin átt sér stað eftir 28. nóvember 2008 og greiðsla fór fram, beint eða óbeint, með úttekt af reikningi í íslenskum krónum hjá erlendu fjármálafyrirtæki.
g. Hlutdeildarskírteini sem eru í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið og útgefin eru í íslenskum krónum, í verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóðum þar sem m.a. er fjárfest, beint eða óbeint, í fjármálagerningum, útgefnum í íslenskum krónum af öðrum innlendum aðilum en íslenska ríkinu eða aðilum með ríkisábyrgð, innlánum, reiðufé og afleiðum.
h. Söluandvirði eða aðrar greiðslur vegna eigna skv. c–g-lið sem falla til á tímabilinu frá gildistöku laga þessara til 1. september 2016.
2. Erlendur lögaðili: Lögaðili sem telst ekki innlendur aðili skv. 2. tölul. skilgreiningar í 1. gr. laga um gjaldeyrismál.
3. Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands: Útboð Seðlabanka Íslands þar sem bankinn býðst til að kaupa íslenskar krónur í skiptum fyrir evrur.
4. Innlánsstofnun: Viðskiptabankar, sparisjóðir og innlánsdeildir kaupfélaga.
5. Innlendur aðili: Innlendur aðili samkvæmt skilgreiningu í 1. gr. laga um gjaldeyrismál.
6. Innstæðubréf Seðlabanka Íslands: Skuldabréf sem gefin eru út af Seðlabanka Íslands til innlánsstofnana sem varðveita aflandskrónueignir á reikningum háðum sérstökum takmörkunum eða til eigenda þeirra skv. a-lið 1. tölul.
7. Rafrænt skráð verðbréf: Verðbréf sem eru rafrænt skráð samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
8. Reikningur háður sérstökum takmörkunum: Reikningur á nafni eiganda eða vörsluaðila aflandskrónueigna skv. a- og b-lið 1. tölul. í íslenskum krónum hjá innlánsstofnun hér á landi sem auðkenndur skal með höfuðbók 21 í kerfi Reiknistofu bankanna hf. og er háður sérstökum takmörkunum samkvæmt lögum þessum.
9. Umsýslureikningur: Eigin reikningur Seðlabanka Íslands þar sem fjármálagerningar eru skráðir á nafn vörsluaðila.
10. Viðmiðunargengi: Gengi krónu gagnvart evru þar sem miðað er við 220 krónur á móti einni evru.
11. Viðskiptavinur: Aðili sem veitir vörsluaðila heimild til að koma fram í sínu nafni og vera skráður fyrir fjármálagerningum eða fjármunum.
12. Vörsluaðili: Fjármálafyrirtæki sem er heimilt að varðveita fjármálagerninga í eigu viðskiptavina sinna.
13. Vörslureikningur: Reikningur með rafrænt skráð verðbréf hjá vörsluaðila.
3. gr.
Undanþágur.
1. Þær sem eru í eigu ríkisstjórna, seðlabanka og alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að.
2. Þær sem eru til komnar vegna iðgjaldagreiðslna samkvæmt samningum í innlendum gjaldeyri um viðbótartryggingavernd til öflunar lífeyrissparnaðar í séreign og um söfnunartryggingar, eingreiðslulíftryggingar og reglubundinn sparnað á grundvelli undanþágu erlendra vátryggingafélaga og erlendra vörsluaðila lífeyrisréttinda frá takmörkunum 3. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál.
3. Þær sem eru í eigu erlendra rafeyrisfyrirtækja og nýttar eru samkvæmt undanþágu þeirra frá takmörkunum 1. og 2. mgr. 13. gr. b og 1. og 3. mgr. 13. gr. c laga um gjaldeyrismál, í þeim tilgangi að sinna greiðslumiðlun hér á landi.
4. Þær sem eru til komnar vegna fjárfestinga sem gerðar hafa verið eftir 28. nóvember 2008 fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í skilningi 2. mgr. 13. gr. m laga um gjaldeyrismál, þó ekki þegar um er að ræða beinar eða óbeinar fjárfestingar í afleiðusamningum og kröfum á hendur aðilum sem sæta slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð eða lokið hafa slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð með nauðasamningi sem felur í sér úthlutun eigna til kröfuhafa.
5. Þær sem eru til komnar vegna þátttöku í útboðum Seðlabanka Íslands á tímabilinu 28. júní 2011 til 10. febrúar 2015.
6. Þær sem eru til komnar vegna efnda aðila, sem féll undir 2. gr. laga um stöðugleikaskatt við gildistöku þeirra, á kröfum samkvæmt nauðasamningi.
7. Þær aflandskrónueignir skv. e-lið 1. tölul. 2. gr. sem eru til komnar vegna kröfu erlendra aðila á innlenda aðila á grundvelli nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., ef Seðlabanki Íslands hefur veitt undanþágu frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál, fyrir úthlutun í erlendum gjaldeyri.
8. Þær aflandskrónueignir sem voru grundvöllur gjaldeyrisviðskipta við Seðlabanka Íslands á viðmiðunargengi skv. 2. mgr. 9. gr.
9. Þær aflandskrónueignir sem eru grundvöllur gjaldeyrisviðskipta í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands á árinu 2016 á útboðsgengi fyrir fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar, þannig að uppgjör viðskiptanna fer fram með því að eigandi aflandskrónueignar afhendir fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar að frádregnu margfeldi markaðsvirðis aflandskrónueignar og hlutfalls opinbers miðgengis Seðlabanka Íslands fyrir krónu á móti evru hinn 20. maí 2016 og útboðsgengis.
II. KAFLI
Afmörkun, flutningur og takmarkanir á ráðstöfun aflandskrónueigna.
4. gr.
Afmörkun, flutningur og takmarkanir á ráðstöfun innstæðna.
Þrátt fyrir 1. málsl. 1. mgr. geta erlendar verðbréfamiðstöðvar sem starfa hér á landi og varðveita aflandskrónueignir skv. 1. mgr. á innstæðureikningum hjá Seðlabanka Íslands sótt um að þær verði fluttar á reikninga hjá Seðlabanka Íslands sem sæta sömu takmörkunum og reikningar sem háðir eru sérstökum takmörkunum. Umsókn skv. 1. málsl. skal berast eigi síðar en 1. ágúst 2016.
Úttekt af reikningum háðum sérstökum takmörkunum er einungis heimil í þeim tilvikum sem mælt er fyrir um í IV. kafla.
5. gr.
Flutningur á vörslu og takmarkanir á ráðstöfun rafrænt skráðra verðbréfa.
Við flutning skv. 1. mgr. yfirtekur Seðlabanki Íslands réttindi og skyldur reikningsstofnunar í skilningi laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Umsýslureikningur skal stofnaður hjá Seðlabankanum á nafni vörsluaðila viðkomandi aflandskrónueigna fyrir flutningsdag. Heimilt er að flytja aflandskrónueignir skv. 1. mgr. á milli umsýslureikninga vörsluaðila hjá Seðlabanka Íslands að því gefnu að slíkur flutningur hafi ekki í för með sér breytingu á eignarskráningu í verðbréfamiðstöð.
Uppgjör og efndir aflandskrónueigna skv. 1. mgr. skulu fara fram í íslenskum krónum sem leggja skal inn á reikninga háða sérstökum takmörkunum. Hafi erlend verðbréfamiðstöð sett fram beiðni skv. 2. mgr. 4. gr. skal við uppgjör og efndir aflandskrónueigna greiða inn á reikninga sem sæta sömu takmörkunum og reikningar háðir sérstökum takmörkunum hjá Seðlabanka Íslands.
Aflandskrónueignir skv. 1. mgr. sem eru varðveittar á safnreikningi viðskiptavinar hjá vörsluaðila skulu fluttar á umsýslureikning viðkomandi vörsluaðila hjá Seðlabanka Íslands í samræmi við 1. mgr. Með safnreikningi er átt við safnreikning í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.
Við flutning skv. 1. mgr. skal verðbréfamiðstöð, að beiðni Seðlabanka Íslands, upplýsa um kvöð um takmarkanir skv. 3. mgr. með því að úthluta hinni rafrænu útgáfu aflandskrónueignar alþjóðlegu bráðabirgða ISIN-auðkenni verðbréfs. Úthlutun skal eiga sér stað eins fljótt og unnt er frá því að beiðni Seðlabankans hefur borist verðbréfamiðstöð, en eigi síðar en innan þriggja virkra daga.
Komi til uppgjörs skv. 3. mgr., þar sem greiðsla fer fram með íslenskum krónum sem eru ekki háðar takmörkunum laga þessara, skal verðbréfamiðstöð aflétta kvöð skv. 5. mgr., að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
6. gr.
Takmörkun á ráðstöfun annarra aflandskrónueigna.
Eigandi aflandskrónueigna eða umboðsmaður hans skal tryggja áritun kvaðar um flutning á reikninga háða sérstökum takmörkunum á fullnægjandi hátt eftir því sem við á þannig að aflandskrónueign samkvæmt þessu ákvæði beri með sér sérstaka viðurkenningu á tilvist hennar. Komi til framsals á aflandskrónueign án þess að greiðslur skv. 1. mgr. hafi verið fluttar á reikninga háða sérstökum takmörkunum skal kvöð skv. 1. málsl. hvíla áfram á framsalshafa eða þeim sem fengið hefur eignina afhenta á annan hátt, óháð því hvort hann er grandlaus um tilvist kvaðarinnar eða ekki. Eigandi aflandskrónueignar samkvæmt þessu ákvæði skal tilkynna Seðlabanka Íslands innan þriggja mánaða frá gildistöku laga þessara um aflandskrónueign sína og á hvern hátt skilyrði um áritun kvaðar á aflandskrónueign hefur verið fullnægt.
Innlánsstofnanir skulu tilkynna Seðlabanka Íslands samdægurs um allar greiðslur sem berast á reikninga háða sérstökum takmörkunum skv. 1. mgr.
7. gr.
Ákvörðunarvald á stjórnsýslustigi.
III. KAFLI
Bindiskylda og bann við veðsetningu aflandskrónueigna.
8. gr.
Bindiskylda og bann við veðsetningu.
Bindiskyldu skal uppfylla með því að ráðstafa sömu fjárhæð og nemur heildarinnstæðum hjá innlánsstofnun á reikningum háðum sérstökum takmörkunum til fjárfestinga í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands.
Innlánsstofnun skal uppfylla bindiskyldu samkvæmt ákvæði þessu innan viðskiptadags. Seðlabankanum er heimilt að skuldfæra á viðskiptareikning innlánsstofnunar næsta viðskiptadag þá fjárhæð sem upp á vantar til að bindiskylda samkvæmt ákvæði þessu sé uppfyllt.
Innstæðubréf skulu varðveitt á umsýslureikningi innlánsstofnunar hjá Seðlabankanum.
Óheimilt er að veðsetja aflandskrónueignir skv. 1. tölul. 2. gr. og innstæðubréf Seðlabanka Íslands skv. 10. gr.
IV. KAFLI
Heimild til úttektar af reikningum háðum sérstökum takmörkunum, gjaldeyrisviðskipta og fjárfestinga.
9. gr.
Tímabundin heimild til úttektar og gjaldeyrisviðskipta.
Fram til 1. nóvember 2016 skulu eigendur aflandskrónueignar skv. e–g-lið 1. tölul. 2. gr. hafa heimild til gjaldeyrisviðskipta við Seðlabanka Íslands á viðmiðunargengi fyrir fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar, á þann hátt að uppgjör viðskiptanna fer fram með því að eigandi aflandskrónueigna afhendir til Seðlabankans fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar að frádregnu margfeldi markaðsvirðis aflandskrónueignar og hlutfalls opinbers miðgengis Seðlabankans fyrir krónu á móti evru hinn 20. maí 2016 og viðmiðunargengis.
Markaðsvirði aflandskrónueignar í skilningi 2. mgr. skal ákvarða þannig:
1. Þegar verðbréf eru skráð í kauphöll skal miða við markaðsvirði þeirra við gildistöku laga þessara.
2. Markaðsvirði annarra aflandskrónueigna en skv. 1. tölul. skal miðast við rökstutt mat óháðs löggilts endurskoðanda á gangvirði eða kostnaðarvirði eignarinnar við gildistöku laga þessara eins og það er skilgreint samkvæmt lögum um ársreikninga en það skal þó aldrei vera lægra virði en nafnvirði. Sá sem óskar eftir gjaldeyrisviðskiptum skv. 1. málsl. skal afla matsins á eigin kostnað og skal endurskoðandinn staðfesta óhæði sitt. Seðlabanka Íslands er heimilt að óska frekari skýringa eða hafna niðurstöðum mats ef sýnt þykir að það sé ekki byggt á fullnægjandi forsendum.
Ef eigandi aflandskrónueignar nýtir heimild skv. 2. mgr. skal sú aflandskrónueign sem lá til grundvallar þeim viðskiptum undanþegin takmörkunum laga þessara, að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
10. gr.
Heimild til fjárfestinga í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands.
Innstæðubréf tilgreina ekki gjalddaga, bera breytilega ársvexti og endurgreiðsla höfuðstóls er einungis heimil samkvæmt ákvörðun útgefanda. Vextir greiðast eftir á, einu sinni á ári. Við útgáfu skulu bréfin bera 0,5% ársvexti sem skulu endurskoðaðir af Seðlabanka Íslands á vaxtagjalddaga.
Innstæðubréf skulu varðveitt á umsýslureikningum hjá Seðlabanka Íslands.
Söluandvirði, innlausnarvirði og vexti af innstæðubréfum Seðlabanka Íslands skal flytja á reikninga háða sérstökum takmörkunum.
11. gr.
Almenn heimild til millifærslu og úttektar vaxta- og arðgreiðslna.
Heimilt er að taka út áfallna vexti, verðbætur vaxta og arð að undangenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
Með vöxtum skv. 2. mgr. er átt við vexti af innstæðum á reikningum háðum sérstökum takmörkunum, skuldabréfum og víxlum skv. c-, e- og f-lið 1. tölul. 2. gr. og innstæðubréfum Seðlabanka Íslands.
Með arði skv. 2. mgr. er átt við arðgreiðslu á grundvelli hagnaðar af reglubundinni starfsemi félags en þó ekki af tekjum sem myndast við sölu eigna umfram söluhagnað, af hagnaði vegna afskrifta skulda, virðismatshækkana eigna, lækkunar hlutafjár eða vegna sambærilegra þátta. Arðgreiðslur skulu fjármagnaðar með handbæru fé frá rekstri í frjálsum sjóðum en ekki með sölu eigna, lántöku, hlutafjáraukningu eða sambærilegum þáttum. Ef ráðstöfun sú sem liggur að baki greiðslu arðs er verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum skiptum og megintilgangur virðist vera að sniðganga takmarkanir á lögum þessum getur Seðlabankinn synjað staðfestingar.
12. gr.
Heimild einstaklings til úttektar.
Einstaklingi, sem er eigandi aflandskrónueigna skv. b-lið 1. tölul. 2. gr. við gildistöku laga þessara, skal heimilt að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
Hámarksúttekt hvers einstaklings skv. 1. og 2. mgr. nemur samanlagt 6.000.000 kr. á almanaksári.
V. KAFLI
Umsýslugjöld verðbréfa.
13. gr.
Umsýslugjöld verðbréfa.
a. launa- og rekstrarkostnaði,
b. kostnaði sem Seðlabankinn verður fyrir vegna viðskipta við verðbréfamiðstöð.
VI. KAFLI
Eftirlit Seðlabankans og viðurlög.
14. gr.
Eftirlit.
Í tengslum við eftirlit sitt samkvæmt lögum þessum getur Seðlabankinn gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt svo oft sem hann telur þörf á. Ákvörðun um vettvangskönnun má fullnægja með aðfarargerð.
15. gr.
Þagnarskylda.
16. gr.
Öflun upplýsinga.
Seðlabanka Íslands er heimilt að leita til Fjármálaeftirlitsins vegna gagnaöflunar í tengslum við rannsókn tiltekinna mála eins og heimildir Fjármálaeftirlitsins leyfa.
Seðlabankanum er heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að þær upplýsingar lúti samsvarandi þagnarskyldu í hlutaðeigandi ríki.
17. gr.
Dagsektir.
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila er tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum Seðlabanka Íslands nema Seðlabankinn ákveði það sérstaklega.
Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
18. gr.
Úrræði Seðlabanka Íslands gegn ólögmætri háttsemi.
19. gr.
Stjórnvaldssektir.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 65.000.000 kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 100.000 kr. til 500.000.000 kr. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. geta sektir vegna brota gegn 4.–6. gr. numið allt að fimmfaldri flutnings- eða úttektarfjárhæð. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um sektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Verði stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Seðlabanka Íslands skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
20. gr.
Máli lokið með sátt.
21. gr.
Þagnarréttur.
22. gr.
Frestur til að leggja á stjórnvaldssektir.
Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar aðila er kunnugt um að mál hans er til meðferðar. Seðlabanki Íslands tilkynnir aðila um rannsókn á meintu broti, nema ljóst sé að hann hafi áður fengið vitneskju um það. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
23. gr.
Heimildir í tengslum við rannsókn mála.
Seðlabanki Íslands getur krafist kyrrsetningar eigna einstaklings eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi hans fari í bága við ákvæði laga þessara. Um skilyrði og meðferð slíkrar kröfu fer eftir 88. gr. laga um meðferð sakamála, eftir því sem við getur átt.
Seðlabanka Íslands er heimilt að gera sérstakar athuganir og leggja hald á gögn í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, enda séu ríkar ástæður til að ætla að einstaklingar og lögaðilar hafi brotið gegn lögum þessum eða reglum sem eru settar á grundvelli þeirra eða ástæða er til að ætla að athuganir eða aðgerðir Seðlabankans nái að öðrum kostum ekki tilætluðum árangri. Skal ákvæðum laga um meðferð sakamála beitt við framkvæmd slíkra aðgerða.
24. gr.
Málshöfðunarfrestur.
VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
25. gr.
Reglugerðarheimild.
Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 5., 8., 11. og 12. gr. og VI. kafla. Reglurnar skulu samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.
26. gr.
Gildistaka.
27. gr.
Breyting á öðrum lögum.
1. Lög um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum:
a. Við 2. mgr. 13. gr. e laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal söluandvirði fjármálagerninga sem falla undir skilgreiningu á aflandskrónueign samkvæmt lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum lagt inn á reikning háðan sérstökum takmörkunum eða reikning hjá Seðlabankanum sem sætir sömu takmörkunum samkvæmt sömu lögum.
b. Við 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. g laganna bætist: í erlendum gjaldeyri.
c. 6. mgr. 13. gr. j laganna orðast svo:
Með arði skv. 1. mgr. er átt við arðgreiðslu á grundvelli hagnaðar af reglubundinni starfsemi félags en þó ekki af tekjum sem myndast við sölu eigna umfram söluhagnað, af hagnaði vegna afskrifta skulda, virðismatshækkana eigna, lækkunar hlutafjár eða vegna sambærilegra þátta. Arðgreiðslur skulu fjármagnaðar með handbæru fé frá rekstri í frjálsum sjóðum en ekki með sölu eigna, lántöku, hlutafjáraukningu eða sambærilegum þáttum. Ef ráðstöfun sú sem liggur að baki greiðslu arðs er verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum skiptum og megintilgangur virðist vera að sniðganga takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa getur Seðlabankinn synjað staðfestingar.
d. Við 13. gr. n laganna bætast fimm nýjar málsgreinar sem orðast svo:
Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna flutninga aflandskrónueigna á reikninga háða sérstökum takmörkunum eða reikninga hjá Seðlabanka Íslands sem sæta sömu takmörkunum samkvæmt lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum skulu undanþegnar banni 3. mgr. 13. gr. b.
Sala aflandskrónueigna skv. c–g-lið 1. tölul. 2. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum skulu undanþegnar banni 3. mgr. 13. gr. b vegna þátttöku eigenda þeirra í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands eða ef uppgjör fer fram með flutningi á reikninga háða sérstökum takmörkunum eða reikninga hjá Seðlabanka Íslands sem háðir eru sömu takmörkunum í samræmi við ákvæði laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.
Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna fjárfestinga í innstæðubréfum skv. 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, og uppgjör þeirra skv. 4. mgr. sama ákvæðis, skulu undanþegnar banni 3. mgr. 13. gr. b.
Gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna viðskipta við Seðlabanka Íslands skv. 9. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum skulu undanþegnar banni 3. mgr. 13. gr. b og 1. mgr.13. gr. c.
Eignir sem fengið hafa staðfestingu skv. 4. mgr. 9. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum skulu undanþegnar banni 3. mgr. 13. gr. b og 1. mgr. 13. gr. c.
e. Við 1. mgr. 13. gr. p laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í tengslum við eftirlit sitt samkvæmt lögum þessum getur Seðlabankinn gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt svo oft sem hann telur þörf á. Ákvörðun um vettvangskönnun má fullnægja með aðfarargerð.
2. Lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
Þrátt fyrir ákvæði laga þessara hefur Seðlabanki Íslands einn heimild til milligöngu um eignarskráningu verðbréfa sem falla undir c–g-lið 1. tölul. 2. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum frá þeim tíma sem varsla þeirra er flutt til Seðlabanka Íslands skv. 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneyti í samvinnu við forsætisráðuneyti og Seðlabanka Íslands. Frumvarpið er einn liður í þeirri áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem var birt opinberlega í júní 2015. Með því er lagt til að lögfest verði ákvæði um meðferð krónueigna sem háðar hafa verið takmörkunum frá setningu fjármagnshafta. Um er að ræða eignir í eigu eða vörslu erlendra aðila sem eru líklegar til að leita útgöngu við losun fjármagnshafta með neikvæðum áhrifum á gengi íslensku krónunnar. Gjarnan hefur verið vísað til þessara krónueigna sem aflandskrónueigna 1 þar sem þær eru í vörslu erlendra aðila og verða ekki löglega seldar fyrir gjaldeyri nema í viðskiptum við aðra erlenda aðila og gengi í þeim viðskiptum er annað en á við um vöru- og þjónustuviðskipti innlendra aðila sem þá fara fram á innlendum gjaldeyrismarkaði, svokölluðum álandsmarkaði. Þessar krónueignir eru hins vegar varðveittar hjá innlánsstofnunum og verðbréfafyrirtækjum hér á landi. Heitið aflandskrónur hefur fest sig í sessi í umræðu um þessar eignir og er hugtakanotkun í frumvarpinu í samræmi við það.
Megintilgangur frumvarpsins er að aðgreina aflandskrónueignir tryggilega svo að mögulegt verði að stíga næstu skref í losun fjármagnshafta og koma á frjálsum milliríkjaviðskiptum með krónur á ný án þess að fjármálastöðugleika eða stöðugleika í gengis- og peningamálum verði ógnað. Fjárhæð aflandskrónueigna nemur nú um 319 ma.kr. og virk viðskipti hafa verið með þær krónur á aflandsmarkaði, þ.e. á erlendum gjaldeyrismarkaði, á gengi sem er langt undir gengi krónunnar á innlendum gjaldeyrismarkaði. Aflandskrónueignir eru mögulega kvikari en aðrar krónueignir, enda fylgir þeim síðarnefndu svokölluð heimaslagsíða (e. home bias) 2 . Þetta á við óháð því hvort aflandskrónueignirnar eru í raunverulegri eigu innlendra eða erlendra aðila. Því má gera ráð fyrir að það mundi hafa veruleg áhrif á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða ef fjármagnsflutningar með aflandskrónueignir yrðu gerðir frjálsir. Seðlabanki Íslands hefur undanfarin ár staðið fyrir gjaldeyrisútboðum og beinum viðskiptum til að greiða fyrir útgöngu aflandskrónueigna án neikvæðra áhrifa á gengisstöðugleika á innlendum gjaldeyrismarkaði og gjaldeyrisforða bankans. Hann mun standa fyrir gjaldeyrisútboði, í kjölfar lögfestingar frumvarpsins, sem miðar að sama markmiði og gefur kost á útgöngu allra aflandskrónueigenda sem það kjósa. Seðlabankinn mun birta opinberlega nánari upplýsingar um útboðið í kjölfar samþykktar frumvarpsins á Alþingi.
Þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda til að leysa þann vanda sem felst í aflandskrónueignum verður ekki hægt að tryggja fyrir fram að hann verði að fullu leystur með fyrirhuguðu gjaldeyrisútboði, enda er þátttaka í útboðinu valfrjáls. Eigi að síður er brýnt að frekari losun fjármagnshafta tefjist ekki frekar og sér í lagi með hliðsjón af stjórnskipulegum rétti og skyldu stjórnvalda til að gæta velferðar íslensks samfélags er talið nauðsynlegt að grípa til þeirra ráðstafana sem felast í frumvarpinu.
Frumvarpið felur í sér þá skyldu á vörsluaðila aflandskrónueigna að aðgreina sérstaklega þær aflandskrónueignir sem ekki verða nýttar í fyrirhuguðu gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands. Vörsluaðilum verður samkvæmt frumvarpinu skylt að flytja aflandskrónur á reikninga háða sérstökum takmörkunum sem auðkenndir eru með höfuðbók 21 í kerfi Reiknistofu bankanna hf. og rafrænt skráðar aflandskrónueignir í þeirra vörslu á svokallaða umsýslureikninga hjá Seðlabanka Íslands. Innstæður á reikningum háðum sérstökum takmörkunum verða háðar sérstakri bindiskyldu samkvæmt frumvarpi þessu. Með þessu fyrirkomulagi er verið að gera eftirlit Seðlabanka Íslands skilvirkara án verulega aukins eftirlitskostnaðar og tryggja betur yfirsýn með aflandskrónueignum, auk þess sem dregið er úr hættu á sniðgöngu. Eðli máls samkvæmt er ekki hægt að færa rafræna vörslu verðbréfa sem ekki eru rafrænt skráð, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að allar greiðslur vegna slíkra verðbréfa fari inn á reikninga háða sérstökum takmörkunum.
Eigendur aflandskrónueigna munu áfram hafa umráða- og ráðstöfunarrétt yfir eign sinni, geta tekið út og skipt á gjaldeyrismarkaði öllum vaxtagreiðslum og stundað viðskipti með krónurnar á aflandsmarkaði. Jafnframt er lagt til að fjárfestingarheimildir aflandskrónueigenda verði rýmkaðar og hið sama á við um heimildir til úttektar af reikningum.
Þegar þessum lið í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta er lokið munu næstu skref snúa að heimilum og fyrirtækjum á Íslandi. Frelsi einstaklinga til fjármagnshreyfinga verður aukið, sem og fjárfestingarheimildir fyrirtækja og lífeyrissjóða. Sú áhersla er í samræmi við samþætta þriggja skrefa nálgun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 3 við losun fjármagnshafta og áætlun stjórnvalda frá árinu 2011. Í tæp átta ár hafa fjármagnshöftin takmarkað áhættudreifingu í eignasöfnum innlendra aðila og heft möguleika innlendra fyrirtækja til að nýta ábatasöm samstarfsverkefni við erlenda aðila. Efnahagslegt óhagræði sem af þessu hlýst fer vaxandi með tímanum og þörf fyrir áhættudreifingu í innlendum eignasöfnum hleðst upp. Það getur því tekið mörg ár að aðlaga innlend eignasöfn að æskilegri samsetningu innlendra og erlendra eigna. Þá gæti þörf fyrir beinar fjárfestingar innlendra fyrirtækja erlendis reynst töluverð. Þegar betra jafnvægi kemst á eignasöfn innlendra aðila verður sjónum aftur beint að losun fjármagnshafta á aflandskrónueignir í áföngum. Hvenær það gerist ræðst meðal annars af erlendri fjárfestingaþörf innlendra aðila, beinni langtímafjárfestingu erlendra aðila, stærð gjaldeyrisforða á hverjum tíma, þróun viðskiptajafnaðar og ytri stöðu þjóðarbúsins.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Fjármagnshöft.
Innleiðing fjármagnshafta var órjúfanlegur hluti af viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við hruni fjármálakerfisins og þeirri efnahagsáætlun sem var undirbúin og framkvæmd í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Fall viðskiptabankanna leiddi til þess að grípa varð til aðgerða og koma í veg fyrir frekara stórfellt útflæði erlends gjaldeyris. Gengi krónunnar hafði þá fallið um rúm 50% gagnvart evru frá miðju ári 2007 sem leiddi til þess að verðbólga náði hámarki í 18,6% í ársbyrjun 2009 með umtalsverðum neikvæðum áhrifum á efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja. Sett voru lög nr. 134/2008, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og Seðlabanka Íslands veitt heimild til þess að setja reglur sem takmörkuðu fjármagnshreyfingar til og frá landinu og gjaldeyrisviðskipti þeim tengd.
Á grundvelli þessarar lagaheimildar gaf Seðlabanki Íslands fyrst út reglur nr. 1082/2008, um gjaldeyrismál, hinn 28. nóvember 2008, þar sem teknar voru upp strangar takmarkanir á fjármagnshreyfingar til og frá landinu og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengdust. Markmiðið var að takmarka tímabundið fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti sem valdið gætu óstöðugleika í gjaldeyrismálum á meðan unnið væri að endurreisn íslensks efnahagslífs og fjármálakerfis.
Reglum um gjaldeyrismál var breytt nokkrum sinnum þar til þær voru innleiddar í lög um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með lögum nr. 127/2011. Rétt þótti að lögfesta þær samhliða áætlun um losun hafta frá 25. mars 2011, þar sem fjármagnshöftin mundu fyrirsjáanlega vara lengur en ætlað var í upphafi. Í kjölfarið hefur lögum um gjaldeyrismál verið breytt nokkrum sinnum. Breytingar á regluverki fjármagnshafta hafa annars vegar miðað að því að þrengja að möguleikum til sniðgöngu og í sumum tilvikum herða fjármagnshöftin þannig að tilgangur þeirra að koma á stöðugleika næði fram að ganga. Á hinn bóginn hefur verið slakað á takmörkunum fjármagnshaftanna, svo sem með þeim undanþágum sem Seðlabanki Íslands hefur veitt og gerðar hafa verið í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta. 4
Í grundvallaratriðum eru fjármagnshöftin þannig byggð upp að viðskipti sem teljast til viðskiptajafnaðar eru heimil, nema þau séu sérstaklega bönnuð, og viðskipti sem teljast til fjármagnsjafnaðar eru bönnuð, nema þau séu sérstaklega heimil. Þannig setja reglurnar takmarkanir við gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa sem tengjast viðskiptum og útgáfu fjármálagerninga, innleggi og úttekt á innstæðum, lánveitingum og lántökum, inn- og útflutningi verðbréfa, framvirkum viðskiptum þar sem íslenska krónan er einn gjaldmiðlanna, gjöfum, styrkjum og öðrum hliðstæðum hreyfingum fjármagns sem eru til þess fallnar að valda alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna vöru- og þjónustuviðskipta eru hins vegar almennt án takmarkana og einnig gjaldeyrisviðskipti á grundvelli þáttatekna, þ.e. arðs og vaxtagreiðslna til erlendra aðila. Með reglunum var jafnframt tekin upp skilaskylda á erlendum gjaldeyri þannig að innlendum aðila sem eignast erlendan gjaldeyri er skylt að skila honum til innlendra fjármálafyrirtækja innan tilskilinna tímamarka. Heimilt hefur verið að geyma slíkan gjaldeyri áfram á innlánsreikningum hér á landi.
Fjármagnshöftin eiga ótvíræðan þátt í þeim árangri sem hefur náðst á undanförnum árum við að snúa djúpri efnahagslægð í efnahagsbata, auka viðnámsþrótt endurreistra fjármálastofnana og stuðla að sjálfbærari efnahagsstöðu innlendra aðila. Í því sambandi má greina á milli eftirfarandi þátta:
1. Höftin stuðluðu að stöðugleika í gengi krónunnar sem var forsenda þess að rjúfa mætti vítahring fjármagnsútstreymis, gengislækkunar, verðbólgu, versnandi eiginfjárstöðu, aukins greiðsluvanda, minnkandi eftirspurnar og áframhaldandi dýpkunar efnahagskreppunnar. Ljóst er að án innleiðingar haftanna hefði fjármagnsútstreymið orðið mun umfangsmeira og gengið því fallið mun meira en raunin varð.
2. Höftin studdu við eignaverð með því að setja skorður við sölu eigna af hálfu fjármálastofnana, fyrirtækja og jafnvel einstaklinga á brunaútsöluvirði sem hefði getað leitt til enn frekara eignataps með tilheyrandi áhrifum á umfang þess vanda sem við var að etja.
3. Seðlabankanum var gert kleift að hækka vexti sína minna en annars hefði verið raunin, og studdi hann þar með við efnahagsbatann, dró úr fjármögnunarkostnaði hins opinbera á meðan unnið var að nauðsynlegri aðlögun ríkisfjármála og studdi við innlent eignaverð.
4. Seðlabankanum var gert kleift að lækka vexti fyrr en ella eftir snarpa hækkun vaxta í kjölfar fjármálakreppunnar.
5. Höftin veittu mikilvægt skjól, þ.m.t. gagnvart óstöðugleika á alþjóðamörkuðum, til að endurskipuleggja efnahagsreikninga innlendra fjármálafyrirtækja, heimila og lögaðila sem höfðu laskast verulega vegna fjármálakreppunnar, ekki síst sakir gengislækkunarinnar og aukinnar verðbólgu sem af henni leiddi.
6. Stjórnvöld fengu ráðrúm til að ráðast í grundvallarumbætur á efnahagsstefnunni og móta æskilegt fyrirkomulag hagstjórnar eftir losun hafta.
7. Frá því í mars 2012 og þar til nauðasamningar urðu að veruleika komu höftin í veg fyrir að uppgjör búa fallinna viðskiptabanka og sparisjóða stefndi efnahagslegum stöðugleika í hættu.
Fjármagnshöftunum var í upphafi aðeins ætlað að vara í skamman tíma, enda hafa langvarandi höft ýmis neikvæð áhrif auk þess að ganga gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
2.2. Neikvæð áhrif fjármagnshafta.
Fjármagnshöftin fela í sér takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa og hafa þann tilgang að draga úr óæskilegum áhrifum markaðsviðskipta. Til lengdar hafa slíkar takmarkanir neikvæð efnahagsleg áhrif sem rýra hagsæld og lífskjör almennings. Þessi áhrif birtist með ýmsu móti:
1. Höftin eru til þess fallin að draga úr þátttöku erlendra aðila í fjárfestingarverkefnum innan lands.
2. Höftin hamla beinum fjárfestingum innlendra aðila erlendis sem í mörgum tilfellum eru mikilvægur hluti af nýtingu viðskiptatækifæra á erlendum vettvangi og vaxtarþróun innlendra fyrirtækja.
3. Skorður við áhættudreifingu innlendra fjárfesta, þar á meðal lífeyrissjóða, geta haft óæskileg áhrif á verðmyndun á innlendum fjármálamörkuðum með tilheyrandi áhættu fyrir fjármálastöðugleika.
4. Höftin eru til þess fallin að kynda undir óeðlilegum viðskiptaháttum og jafnvel spilla viðskiptasiðferði. Ýmsir aðilar leitast við að sniðganga höftin með þeim afleiðingum að kostnaðurinn lendir á almenningi.
5. Langvarandi höft gætu stefnt mikilvægri þátttöku Íslands í ýmiss konar alþjóðasamvinnu í hættu, einkum aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og þar með innri markaði Evrópu.
Árangursrík losun fjármagnshafta, þar sem tryggt er að efnahagslegum stöðugleika sé ekki stefnt í hættu, er því grunnforsenda fyrir auknum hagvexti, traustari undirstöðum fjármálastöðugleika og aukinni velferð almennings. 5
2.3. Aflandskrónueignir.
Fram til þessa hafa aflandskrónueignir verið skilgreindar sem fjármunir í innlendum gjaldeyri í eigu eða vörslu erlendra fjármálafyrirtækja, sem varðveittar eru hjá innlendum innlánsstofnunum eða verðbréfafyrirtækjum, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta takmörkunum samkvæmt lögum um gjaldeyrismál. Raunverulegir eigendur (e. beneficial owners) aflandskrónueigna eru bæði erlendir og innlendir aðilar. Í frumvarpi þessu eru aflandskrónueignir skilgreindar víðtækar en áður hefur verið gert, en ástæðu þess má rekja til þess að frá setningu fjármagnshafta hefur orðið ljóst að fleiri flokkar krónueigna geta valdið óstöðugleika í gengis- og peningamálum við losun fjármagnshafta. Í frumvarpinu er ekki gerður greinarmunur á formi eigna heldur horft til uppruna þeirra með jafnræðissjónarmið að leiðarljósi.
Uppruni aflandskrónueigna er tvíþættur. Í fyrsta lagi má rekja uppruna aflandskrónueigna skv. a-, c-, d-, f- og g-lið 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins aftur til áranna 2005–2008 þegar umfangsmikil vaxtamunarviðskipti byggðust upp með íslensku krónuna. Munaði þar mest um útgáfu erlendra aðila á skuldabréfum útgefnum í íslenskum krónum, svokölluðum jöklabréfum. Útgefendur jöklabréfa voru fyrst og fremst alþjóðlegar fjármálastofnanir með hátt lánshæfismat. Með notkun útgefenda jöklabréfa á vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningum samhliða útgáfunni var í raun um hagstæða fjármögnun þessara aðila í erlendri mynt að ræða. Endanlegir kaupendur voru alþjóðlegir fjárfestar sem sóttu í skuldabréf útgefin af þekktum aðilum og innan alþjóðlegs lagaramma. Skuldabréfin báru háa vexti í alþjóðlegum samanburði en þeim fylgdi gjaldeyrisáhætta fyrir fjárfesta sem höfðu aðra uppgjörsmynt en íslenska krónu. Í upphafi árs 2008 voru útistandandi jöklabréf að fjárhæð 361 ma.kr. en verðmæti útgefinna markaðsskuldabréfa ríkissjóðs Íslands í íslenskum krónum nam innan við 120 ma.kr. á sama tíma. 6 Eftir gjalddaga jöklabréfanna voru fjármunir sem höfðu verið bundnir í þeim nýttir í fjárfestingar í innlánum innlendra fjármálafyrirtækja eða markaðsskuldabréfum ríkissjóðs Íslands, enda komu fjármagnshöftin í veg fyrir að hægt væri að skipta krónum yfir í erlendan gjaldeyri á innlendum gjaldeyrismarkaði. Í öðru lagi má rekja uppruna aflandskrónueigna skv. b- og e-lið 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins til fjárhagslegrar endurskipulagningar íslenskra félaga eftir innleiðingu fjármagnshafta, en um er að ræða greiðslu á kröfum úr þrotabúum og greiðslu samningskrafna samkvæmt nauðasamningi, sbr. lög nr. 21/1991, þar sem greiðsla fer fram í íslenskum krónum með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Slíkum greiðslum mun, þegar þær verða greiddar til kröfuhafa, að öllum líkindum verða skipt í erlendan gjaldeyri og hann fluttur úr landi með tilheyrandi þrýstingi á gengi.
Eftir innleiðingu fjármagnshafta var það metið svo af Seðlabanka Íslands að aflandskrónueignir væru mögulega kvikar eignir með litla heimaslagsíðu sem leituðu útgöngu en umfang aflandskrónueigna var þá metið 41% af vergri landsframleiðslu (VLF). Um svipað leyti myndaðist aflandskrónumarkaður þar sem hægt var að kaupa íslenskar krónur á töluvert lægra gengi en því gengi sem gilti á innlendum gjaldeyrismarkaði á sama tíma. Þessi munur á gengi krónunnar á aflandsmarkaði annars vegar og innlendum gjaldeyrismarkaði hins vegar skapaði töluverðan hvata til þess að sniðganga fjármagnshöftin, þrátt fyrir bann við fjármagnsviðskiptum á milli innlendra og erlendra aðila. Það hafði þau áhrif að erlendur gjaldeyrir skilaði sér ekki til landsins og gengi krónunnar lækkaði þrátt fyrir að viðskiptajöfnuður væri jákvæður á sama tíma og gróf þannig verulega undan tilgangi og markmiðum fjármagnshaftanna.
Til að stemma stigu við þessum mikla innflutningi aflandskróna, sem var orðin algeng leið til þess að sniðganga höftin á kostnað almennings, voru fjármagnshreyfingar á milli landa með krónur takmarkaðar í lok október 2009. Á þessum tíma skipti þessi takmörkun sköpum við að styrkja stoðir fjármagnshaftanna og má telja líklegt að hún hafi átt nokkurn þátt í því að nær samfelld gengislækkun krónunnar, sem hófst í mars 2009, stöðvaðist.
Þrátt fyrir að almennt bann væri sett við innflutningi á aflandskrónum hefur eigendum þeirra verið heimilt frá setningu fjármagnshaftanna að nýta aflandskrónur til fjárfestinga í ákveðnum tegundum fjármálagerninga, fyrst og fremst í útgáfum ríkissjóðs og sveitarfélaga en einnig í sjóðum sem fjárfesta í slíkum útgáfum. Eftir því sem útgefin og útistandandi jöklabréf féllu á gjalddaga leituðu þær aflandskrónur því í fjárfestingar í þessum fjármálagerningum en samsvarandi bann hefur verið við innflutningi þessara verðbréfa og við innflutningi aflandskróna. Hins vegar hefur eigendum aflandskrónueigna verið heimilt að taka út vaxtagreiðslur af þessum fjárfestingum en frá því að bann við innflutningi á aflandskrónueignum var sett á hefur verið tilkynnt til Seðlabanka Íslands að 84 ma.kr. hafi verið skipt á gjaldeyrismarkaði vegna þessa. Frá mars 2015 hafa fjárfestingarheimildir aflandskrónueigenda verið takmarkaðar meira en áður var.
Aflandskrónueignir eru auðseljanlegar krónueignir og virk viðskipti hafa verið með þennan eignaflokk á aflandsmarkaði á gengi sem er langt undir gengi krónu á innlendum gjaldeyrismarkaði og hefur aflandsgengi verið notað af aflandskrónueigendum þegar verðmæti eignanna er fært yfir í uppgjörsmynt þeirra. Gera má ráð fyrir að það hefði veruleg áhrif á gengisstöðugleika og stöðu gjaldeyrisforða ef fjármagnsflutningar með aflandskrónueignir yrðu gerðir frjálsir. Þessi hætta er til staðar óháð því hvort eignirnar eru í raunverulegri eigu innlendra eða erlendra aðila.
Seðlabanki Íslands í samráði við Fjármálaeftirlitið óskaði eftir upplýsingum og gögnum um samsetningu raunverulegra eigenda aflandskrónueigna. Nánar tiltekið var óskað eftir upplýsingum og gögnum frá erlendum fjármálafyrirtækjum, fyrir milligöngu Fjármálaeftirlitsins, er gæfu upplýsingar um fjölda raunverulegra eigenda, heimilisfesti þeirra og hvort þeir teldust vera lögaðili eða einstaklingur. Gagnaöflunarbeiðnum var beint til opinberra eftirlitsstofnana með fjármálastarfsemi í ellefu löndum innan Evrópu og bárust svör frá fimm stofnunum. Einnig hefur Seðlabankinn sent sérstakar gagnabeiðnir til innlendra fjármálafyrirtækja þar sem óskað var upplýsinga um eignir erlendra aðila í formi innlána og verðbréfa. Samkvæmt þeim upplýsingum sem borist hafa eru raunverulegir eigendur aflandskrónueigna innlendir og erlendir einstaklingar og lögaðilar.
2.4. Aflandskrónueignir og losun fjármagnshafta.
Stjórnvöld kynntu heildstæða áætlun um losun fjármagnshafta í júní 2015 en þar kom fram að annar áfangi áætlunarinnar mundi felast í útboði til að leysa þann vanda sem aflandskrónueignir skapa. Fyrri áfangi áætlunar um losun fjármagnshafta frá 2011 kom að einhverju leyti til móts við vandann með röð gjaldeyrisútboða og tvíhliða viðskiptum Seðlabankans. Hvort tveggja voru ráðstafanir sem ætlað var að lágmarka neikvæð áhrif á gengisstöðugleika á innlendum gjaldeyrismarkaði og gjaldeyrisforða Seðlabankans. Gjaldeyrisútboðin höfðu það að markmiði að koma skammtímakrónueignum aðila sem vildu losa um eignir sínar í hendur þolinmóðra fjárfesta. Með þessu fengu aflandskrónueigendur aðgang að erlendum gjaldeyri sem barst vegna innflæðis sem nýtt var til innlendrar langtímafjárfestingar og ekki hefur staðið öðrum krónueigendum til boða. Það útboðsfyrirkomulag sem verið hefur varðandi kaup Seðlabankans á krónum fyrir gjaldeyri telst ekki fjölgengiskerfi (e. multi-currency practices) samkvæmt skilgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er viðurkennd markaðslausn sem beitt er við losun fjármagnshafta.
Alls hélt Seðlabankinn 21 gjaldeyrisútboð yfir ríflega þriggja ára tímabil þar sem eigendur aflandskrónueigna skv. a-, c- og d-lið 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins losuðu um 158 ma.kr. af eignum sínum í skiptum fyrir evrur. Vegið meðalverð í þessum útboðum var 219 krónur fyrir evruna (sjá töflu 1). Eftir innleiðingu fjármagnshafta hefur, í gegnum viðskipti á aflandsmarkaði, átt sér stað nokkur samþjöppun á eignarhaldi aflandskrónueigna. Fram komu vísbendingar í nokkrum útboðum um að eigendur aflandskróna hefðu með sér samráð við tilboðsgerð í útboðunum og líklegt má telja að innflæði gjaldeyris, og þar með stærð útboðanna, hafi orðið minna af þessum sökum þar sem færri krónur fengust fyrir hverja evru.
Útboð nr. | Dags. útboðs | Útboðsgengi | Útboðshluti ma.kr. |
1 | 7.6.2011 | 219 | 13,4 |
2 | 12.7.2011 | 216 | 14,9 |
3 | 28.3.2012 | 235 | 4,9 |
4 | 9.5.2012 | 239 | 9,1 |
5 | 20.6.2012 | 246 | 7,5 |
6 | 29.8.2012 | 236 | 3,8 |
7 | 3.10.2012 | 235 | 4,9 |
8 | 7.11.2012 | 236 | 4,7 |
9 | 18.12.2012 | 233 | 6,8 |
10 | 5.2.2013 | 231 | 5,7 |
11 | 19.3.2013 | 226 | 8,2 |
12 | 30.4.2013 | 210 | 6 |
13 | 11.6.2013 | 221 | 9,9 |
14 | 3.9.2013 | 224 | 4,4 |
15 | 15.10.2013 | 227 | 4,9 |
16 | 3.12.2013 | 216 | 8,7 |
17 | 4.2.2014 | 210 | 9,9 |
18 | 14.5.2014 | 196 | 6,4 |
19 | 24.6.2014 | 186 | 6,7 |
20 | 2.9.2014 | 181 | 5,1 |
21 | 10.2.2015 | 200 | 11,8 |
Vegið meðalverð og heildarmagn | 219 | 158 | |
Tafla 1. Niðurstaða gjaldeyrisútboða Seðlabanka Íslands þar sem aflandskrónur leituðu útgöngu. |
Jafnframt hefur verið losað um aflandskrónueignir í tvíhliða viðskiptum. Þannig gerði Seðlabanki Íslands svokallað Avens-samkomulag fyrir hönd ríkissjóðs á árinu 2010 við LBI hf. og Seðlabanka Evrópu, en LBI hf. var stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands en eignirnar voru veðsettar Seðlabanka Evrópu. Markaðsvirði þeirra krónueigna sem keyptar voru af LBI hf. í skiptum fyrir skuldabréf í evrum nam um 120 ma.kr. á þeim tíma. Meðalgengi þeirra viðskipta var um 288 krónur fyrir evruna. Það sama ár voru gerð tvíhliða viðskipti við aðra eigendur aflandskróna fyrir um 30 ma.kr. og var meðalgengi þeirra viðskipta 275 krónur fyrir evruna.
Auk þessa hefur Seðlabankinn veitt innlendum og erlendum aðilum undanþágur til að flytja aflandskrónueignir til landsins. Við mat á undanþágum sem veittar hafa verið hefur verið horft til þess hvort aflandskrónueignir hafi verið í samfelldu eignarhaldi viðkomandi aðila frá því fyrir 28. nóvember 2008, í þeim skilningi að krónurnar sem um ræðir hafi ekki verið keyptar fyrir erlendan gjaldeyri í tíð hafta, en litið hefur verið fram hjá flutningum milli mismunandi eignaflokka (reiðufjár og fjármálagerninga). Þá hefur verið litið til hagsmuna umsækjanda af því að geta nýtt eignir sem komist hafa í eigu hans fyrir tíð hafta til greiðslu skuldbindinga hér á landi, hvaða markmið liggja að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Samtals nema þessar undanþágur um 24 ma.kr.
Meginhluti aflandskrónueigna í dag er í formi innlána erlendra fjármálafyrirtækja hjá innlendum fjármálafyrirtækjum eða í formi markaðshæfra verðbréfa. Þannig hélt stór hluti af aflandskrónunum verðgildi sínu vegna þeirrar verndar sem neyðarlögin svokölluðu veittu, þ.e. lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þegar innstæður voru fluttar yfir í nýju bankana ásamt innlendu útlánasafni.
Aflandskrónueignir nema nú um 319 ma.kr. sem skiptast þannig að um 177 ma.kr. eru í ríkisskuldabréfum og skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði og um 94 ma.kr. í innlánum, peningamarkaðsinnlánum og geymslugreiðslum. Eignarhald aflandskrónueigna hefur þjappast nokkuð saman eftir innleiðingu fjármagnshafta í gegnum viðskipti á aflandsmarkaði. Um 80% af verðmæti skuldabréfanna eru á gjalddaga á næstu þremur árum og eru aflandskrónueignir í ríkisskuldabréfum því að stærstum hluta í styttri ríkisskuldabréfum. Þessu til viðbótar eiga aðilar aðrar aflandskrónueignir sem ekki eru í eigu eða vörslu erlendra fjármálafyrirtækja eða stofnanafjárfesta, að fjárhæð a.m.k. 48 ma.kr.
Áætlun um losun hafta frá árinu 2011 hefur miðað að því að lækka þá fjárhæð aflandskrónueigna sem kynni að flæða snögglega úr landinu við losun fjármagnshafta. Hefur töluverður árangur náðst í því að draga úr þeim vanda sem aflandskrónueignir geta skapað við losun fjármagnshafta en staða þeirra hefur undanfarin ár lækkað úr 41% af VLF haustið 2008 í 15% af VLF í lok mars 2016.
Þrátt fyrir þessar aðgerðir er ljóst að ef allar eftirstæðar aflandskrónueignir fengju óhindraðan aðgang að innlendum gjaldeyrismarkaði mundi það skapa hættu á mikilli gengislækkun, nema Seðlabankinn seldi erlendan gjaldeyri í stórum stíl úr forða til mótvægis. Gengislækkunin mundi veikja eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja, draga úr veðrými þeirra, minnka eftirspurn og þar með draga úr efnahagsumsvifum sem er til þess fallið að leiða til enn frekari gengis- og eignaverðslækkana. Eigendur aflandskrónueigna yrðu að litlu leyti fyrir þessum neikvæðu áhrifum, sér í lagi þeir sem ekki ættu eignir innan lands eftir að hafa losað stöður sínar í gegnum gjaldeyrismarkaðinn. Þannig hafa þessi viðskipti neikvæð ytri áhrif á aðra aðila sem eiga ekki aðkomu að viðskiptunum. Þessi skaðlegu áhrif koma fram á markaði þar sem mikilvægasta verð íslenska hagkerfisins er ákvarðað, þ.e. gengi krónunnar, og væri því væntanlega um kerfislæg ytri áhrif að ræða.
Þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda til að leysa vandann sem felst í aflandskrónueignunum er ekki hægt að tryggja að hann verði að fullu leystur með þeim valfrjálsu ráðstöfunum sem aflandskrónueigendum hefur staðið og mun standa til boða. Í ljósi framangreinds virðist óhjákvæmilegt að losun hafta án fyrirbyggjandi aðgerða gagnvart aflandskrónuvandanum mundi að öðru óbreyttu leiða til kerfislægra neikvæðra ytri áhrifa sem gætu stefnt efnahagslegum stöðugleika í hættu. Um leið er ljóst að viðvarandi fjármagnshöft eru til þess fallin að beina þjóðarbúskapnum inn á braut lægri hagvaxtar en æskilegt er fyrir tilstilli annars konar neikvæðra áhrifa sem aukast eftir því sem höftum er lengur viðhaldið. Af þessum sökum er brýnt að losa fjármagnshöftin og að það sé gert á skilvirkan hátt og að gripið verði til aðgerða sem tryggi eftir föngum fyrirsjáanleika og efnahagslegan stöðugleika.
Ljóst er að það hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir að skapa þau skilyrði sem eru forsenda þess að hægt sé að afnema höftin án þess að það valdi verulegum óstöðugleika. Með þeim ráðstöfunum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru skapaðar forsendur fyrir losun fjármagnshafta án neikvæðra afleiðinga fyrir stöðugleika í gengis- og peningamálum svo og án þarfa fyrir stóraukið gjaldeyriseftirlit. Jafnframt er skapaður skýr rammi fyrir þá eigendur aflandskrónueigna sem ekki nýta sér útgönguúrræði.
2.5. Breytingar á öðrum lögum.
Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum um gjaldeyrismál. Fyrst og fremst er um að ræða breytingar til samræmis við efni frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að lögfestar verði undanþágur frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál fyrir þær fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti með aflandskrónueignir sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þá eru lagðar til breytingar sem miða að því að takmarka möguleika aðila til að sniðganga fjármagnshöftin sem kynni að grafa undan markmiðum aðgerða stjórnvalda við losun þeirra og veita Seðlabanka Íslands aukin úrræði við eftirlit með framkvæmd laganna. Að lokum eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa sem ætlað er að tryggja að Seðlabanki Íslands hafi einn heimild til milligöngu um eignarskráningu verðbréfa sem teljast til aflandskrónueigna.
3. Meginefni frumvarpsins.
Frumvarpið er liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta og meginefni þess er eftirfarandi:
* Merking hugtaksins aflandskrónueignir er skilgreind og lagt til að þær verði áfram háðar sérstökum takmörkunum og afmarkaðar frekar en nú.
* Aflandskrónueignir í formi innstæðna munu flytjast á innlánsreikninga háða sérstökum takmörkunum hjá innlendum innlánsstofnunum eða Seðlabanka Íslands í tilviki erlendra verðbréfamiðstöðva, óski þær þess. Hið sama á við um greiðslur vegna annarra eigna sem teljast til aflandskrónueigna.
* Þá munu aflandskrónueignir í formi rafrænt skráðra verðbréfa í vörslu innlendra og erlendra fjármálastofnana flytjast á umsýslureikninga hjá Seðlabanka Íslands á nafni viðkomandi vörsluaðila.
* Fjármálafyrirtækjum og verðbréfamiðstöðvum er gert skylt að flytja aflandskrónueignir eigi síðar en 1. september 2016 að viðlögðum dagsektum.
* Sú skylda er lögð á innlánsstofnanir að ráðstafa sömu fjárhæð og nemur heildarinnstæðum á reikningum háðum sérstökum takmörkunum hjá þeim til fjárfestinga í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands (bindiskylda). Innstæðubréf bera 0,5% vexti og skulu þeir endurskoðaðir á 12 mánaða fresti af Seðlabanka Íslands.
* Úttektir af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum eru almennt óheimilar nema í eftirfarandi tilvikum:
* Tímabundnar heimildir til úttektar:
– Vegna gjaldeyrisviðskipta við Seðlabanka Íslands á viðmiðunargengi til 1. nóvember 2016.
– Vegna illseljanlegra aflandskrónueigna, enda hafi eigandi greitt til Seðlabankans þann mun á verðmæti eignarinnar reiknað í evrum sem fólst í viðmiðunargengi annars vegar og hins vegar opinberu miðgengi krónu á móti evru þann 20. maí 2016. Heimildin gildir til 1. nóvember 2016. Ef eigandi nýtir þessa heimild sína verður aflandskrónueign sem lá til grundvallar þeim viðskiptum undanþegin takmörkunum laganna, að fenginni staðfestingu Seðlabankans.
* Ótímabundnar heimildir til úttektar:
– Vegna kaupa á sérstökum innstæðubréfum útgefnum af Seðlabanka Íslands.
– Vegna millifærslna milli reikninga sem eru háðir sérstökum takmörkunum.
– Vegna úttektar á fjárhæð að hámarki 6.000.000 kr. á almanaksári, sé sýnt fram á að innstæður séu í raunverulegri eigu og samfelldu eignarhaldi einstaklings.
– Vegna áfallinna vaxta, verðbóta vaxta og arðgreiðslna.
* Seðlabankanum er falið eftirlit með framkvæmd laganna, bankanum eru veittar víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar og veitt úrræði í formi dagsekta og stjórnvaldssekta.
* Þá eru lagðar til afleiddar breytingar á lögum um gjaldeyrismál og lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa sem hafa bein tengsl við efni frumvarpsins.
Í kjölfar lögfestingar frumvarpsins mun Seðlabanki Íslands birta upplýsingar um fyrirhugað gjaldeyrisútboð þar sem öllum aflandskrónueigendum verður gefinn kostur á að skipta aflandskrónueignum sínum fyrir evrur og komast þannig hjá þeim takmörkunum sem lagðar eru til í frumvarpinu.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
4.1. Ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.
Tillögur frumvarpsins hafa verið samdar með það að leiðarljósi að efni þess samræmist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, einkum að því er varðar vernd eignarréttar og bann við mismunun. Misbrestur á því kynni einkum að stofna til bótaskyldu á grundvelli 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig vernd eignarréttar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu, eða fela í sér ólögmæta mismunun sem færi í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig bann við mismunun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Ljóst er að raunverulegir eigendur aflandskrónueigna eru innlendir og erlendir aðilar og ráðstöfun aflandskrónueigna hefur verið háð takmörkunum frá því að fjármagnshöft voru innleidd. Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi eru taldar réttlæta flutning aflandskrónueigna í formi rafrænt skráðra verðbréfa á umsýslureikninga hjá Seðlabanka Íslands og flutning aflandskrónueigna í formi innstæðna á reikninga sem verða háðir þeim sérstöku takmörkunum sem frumvarpið kveður á um. Sömu sjónarmið liggja að baki því að greiðslur vegna annarra aflandskrónueigna skuli háðar sambærilegum takmörkunum.
Rétt er að undirstrika að frumvarpið felur ekki í sér yfirfærslu eignarréttar. Enn fremur eru breytingar á vörslu krónueigna ekki til þess fallnar að rýra verðgildi þeirra, með vísan til þess að heimildir til ráðstöfunar verða með óbreyttu sniði eða rýmri. Eigi að síður má segja að með því að kveða á um breytingar á umsýslu eða vörslu séu ráðstöfunarrétti eigenda settar skorður að því er varðar val á umsýsluaðila.
Seðlabankanum er heimilt að innheimta gjald af aflandskrónueignum vegna umsýslu en það skal ekki vera hærra en sem nemur raunkostnaði bankans. Takmarkanir sem í frumvarpinu felast varða því fyrst og fremst ákvörðunarrétt eigenda um hvar eignirnar eru í vörslu.
Þær hömlur sem frumvarpið kveður á um eru liður í því brýna verkefni að draga úr áhættu vegna áðurgreindra aflandskrónueigna. Um þær aðstæður sem eru ríkjandi þegar frumvarp þetta er lagt fram, þ.e. um setningu fjármagnshafta í kjölfar fjármálaáfallsins haustið 2008, skref sem síðan hafa verið stigin og þá skaðsemi sem langvarandi fjármagnshöftum fylgir fyrir efnahag landsins, er ítarlega fjallað í 2. kafla. Jafnframt er vísað til þess sem fram kemur í þeim kafla varðandi nauðsynlegt umfang þeirra ráðstafana sem frumvarpið kveður á um.
Áframhaldandi skorður á ráðstöfunarrétti aflandskrónueigna byggjast á ríkri almenningsþörf. Þær skorður eru nauðsynlegur þáttur í því að losa um þrýsting sem aflandskrónueignir gætu að óbreyttu sett á gengi íslensku krónunnar og um leið liður í því að gefa eigendum eignanna kost á að losa um þær án þess að gengisstöðugleika verði ógnað. Markmið frumvarpsins er að aflétta megi fjármagnshöftum sem fyrir eru á almenning og fyrirtæki í landinu og jafnframt á eigendur aflandskrónueigna.
Andlag þeirrar skerðingar sem frumvarpið kveður á um, þ.e. áframhaldandi takmarkanir í tengslum við tilteknar krónueignir og þar með afmörkun þeirra, byggist á hlutlægum, málefnalegum og almennum grunni. Með þeirri nákvæmu afmörkun aflandskrónueigna sem frumvarpið kveður á um er leitast við að skilgreina vandann, sem ætlunin er að leysa, á almennan, skýran og fyrirsjáanlegan hátt og eingöngu með markmið frumvarpsins að leiðarljósi.
Brýnt er að ráðstafanir samkvæmt frumvarpinu beinist jafnt að öllum þeim aðilum sem eins er ástatt um. Líkt og rakið er í 2. kafla skapa þær tilteknu krónueignir sem um ræðir sértæk vandamál við afléttingu fjármagnshafta umfram aðrar krónueignir. Skorður á eignarréttindum sem tengjast tilteknum eignum (e. control of use), sem gert er ráð fyrir að verði viðhaldið með frumvarpi þessu, byggjast á þeirri forsendu að aðilar í sambærilegri stöðu sæti sambærilegri meðferð.
Ekki síður er mikilvægt að áskilnaði um meðalhóf sé fullnægt. Krónueignir sem ákvæði frumvarpsins taka til sæta nú þegar margvíslegum takmörkunum um meðferð og ráðstöfun. Þau skref til þess að losa um fjármagnshöft sem ætlunin er að verði stigin á næstunni, samfara framlagningu frumvarpsins, eru einkum þau að Seðlabankinn mun greiða fyrir útgöngu aflandskrónueigna með gjaldeyrisútboði. Gert er ráð fyrir að allir aflandskrónueigendur sem það kjósa hafi skýra og raunhæfa valkosti til að losa um krónueignir sínar með því að skipta þeim fyrir erlendan gjaldeyri.
Ekki er talinn vafi á því að skorður þær sem frumvarpið kveður á um falli innan þess svigrúms sem löggjafanum er eftirlátið að því er varðar takmarkanir á meðferð og ráðstöfun eignarréttinda, með tilliti til bæði 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrár. Ráðstafanir frumvarpsins eru samkvæmt framansögðu taldar vera stjórnskipulega gildar og standast skuldbindingar Íslands samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu.
4.2. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.
Þau skref í átt að losun hafta á fjármagnsflutningum sem útfærð eru í frumvarpi þessu, sem einkum felast í flutningi fjármuna á sérstaka reikninga, fela sem slík ekki í sér viðurhlutamiklar takmarkanir á frjálsum fjármagnsflutningum eða öðrum skuldbindingum samkvæmt EES-rétti. Í reynd er með frumvarpinu gert ráð fyrir að mörgu leyti rýmri heimildum til ráðstöfunar aflandskrónueigna en eru þegar til staðar.
Líkt og áður greinir sæta þær eignir sem um ræðir, og eru í raunverulegri eigu bæði innlendra og erlendra aðila, nú þegar takmörkunum að því er varðar fjármagnsflutninga. Samkvæmt núverandi umhverfi eru viðskipti með aflandskrónueignir nánast einungis heimil innbyrðis á milli þessara aðila, til fjárfestinga í ákveðnum tegundum fjármálagerninga eða í viðskiptum við Seðlabanka Íslands í gjaldeyrisútboðum.
Frumvarpinu er ætlað að liðka fyrir frekari losun á takmörkunum á fjármagnsflutningum og flutningur á vörslu og umsýslu eignanna er nauðsynlegur liður í þeirri ráðagerð. Ef þær ráðstafanir sem frumvarpið kveður á um verða ekki að veruleika er hætta á að erfiðara verði að koma í veg fyrir að eigendur aflandskrónueigna sniðgangi takmarkanir á fjármagnsflutningum. Þá munu breytingar sem gert er ráð fyrir á vörslum og umsýslu verða til þess að gera frekari losun fjármagnshafta og eftirlit Seðlabanka Íslands skilvirkara og tryggja betur viðhlítandi yfirsýn.
Eins og staðfest hefur verið af EFTA-dómstólnum í máli nr. E-3/11 (Pálmi Sigmarsson gegn Seðlabanka Íslands) verða reglur sem takmarka frjálsa fjármagnsflutninga að vera til þess fallnar að ná markmiðum sem að er stefnt og mega þær ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Enda þótt hér sé um að ræða ráðstafanir sem eru mun minna íþyngjandi en þær sem á undan hafa gengið við setningu og losun gjaldeyrishafta fela þær að hluta til í sér áframhaldandi takmarkanir á fjármagnsflutningum. Því þurfa þau skilyrði sem kveðið er á um í 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins að vera fyrir hendi líkt og endranær vegna verndarráðstafana á borð við setningu og viðhald fjármagnshafta og ráðstafana sem nauðsynlegar eru í tengslum við losun þeirra. Ísland hefur nokkurt svigrúm til að meta hvort þessi skilyrði eru fyrir hendi og hvaða úrræði séu viðeigandi, þ.e. nauðsynleg og til þess fallin að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með tilliti til þjóðarhagsmuna og efnahagsstefnu ríkisins, án þess að ganga of langt samanborið við aðra kosti sem kunna að standa til boða. Um nauðsyn ráðstafana og þess hvernig meðalhófs hefur verið gætt vísast til umfjöllunar í köflum 2, 4.1 og 6.4.
Haft hefur verið að leiðarljósi við samningu frumvarpsins að efni þess stangist ekki á við EES-samninginn. Þau skref sem stigin eru í átt að losun hafta með frumvarpi þessu fela ekki sem slík í sér takmarkanir á frjálsum fjármagnsflutningum. Þá byggist afmörkun á eignum sem ákvæði frumvarpsins taka til á málefnalegum rökum sem tengjast markmiðum frumvarpsins eingöngu en fela ekki samkvæmt tilgangi eða áhrifum í sér mismunandi meðferð aðila í sambærilegri stöðu eftir búsetu eða þjóðerni, en slíkt væri í andstöðu við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-rétti.
5. Samráð.
Við vinnslu frumvarpsins var haft víðtækt samráð við forsætisráðuneytið og Seðlabanka Íslands. Auk þess voru haldnir fundir með viðskiptabönkunum, Reiknistofu bankanna, Kauphöll Íslands hf. og Nasdaq verðbréfamiðstöð hf. til að fara yfir afmörkuð tæknileg úrlausnarefni. Þá aflaði Seðlabanki Íslands upplýsinga og gagna frá erlendum fjármálafyrirtækjum í nánu samstarfi við Fjármálaeftirlitið eins og fjallað er um í kafla 2.3.
6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á íslenskt efnahagslíf.
Verði frumvarpið að lögum má ætla að áhrifin af því á íslenskt efnahagslíf verði fyrst og fremst af tvennum toga. Í fyrsta lagi er sú meðferð aflandskrónueigna sem kveðið er á um mikilvægur þáttur í áætlun um losun fjármagnshafta og mun þannig stuðla að því að undið sé ofan af þeim neikvæðu áhrifum sem langvarandi fjármagnshöft hafa á hagkerfið. Í öðru lagi kemur afmörkun aflandskrónueigna í veg fyrir sniðgöngumöguleika og að aflandskrónueigendur fái að flytja óhindrað fjármuni úr landi þegar næstu skref við losun fjármagnshafta verða stigin, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins.
Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að losun fjármagnshafta hafi ekki veruleg neikvæð áhrif á gengi krónunnar og stöðu gjaldeyrisforða. Því má vænta þess að áhrifin á verðbólgu verði lítil að öllu öðru óbreyttu og hafi ekki neikvæð áhrif á kaupmátt ráðstöfunartekna og greiðslubyrði íslenskra heimila. Hættan á vítahring lækkandi gengis krónunnar og hækkandi verðlags ætti því að vera lítil, ekki síst í ljósi þeirra ráðstafana sem lagðar eru til með frumvarpinu.
Erlendis er litið á fjármagnshöftin neikvæðum augum þrátt fyrir að setning þeirra hafi verið nauðsynleg vegna fjármálakreppunnar. Ef vel tekst til við losun hafta má gera ráð fyrir að lánshæfismat ríkissjóðs batni enn frekar þar sem höftin eru talin hafa neikvæð áhrif á hagkerfið. Með bættu lánshæfismati mun aðgangur að lánsfjármörkuðum opnast frekar og fjármagnskostnaður lækka. Það mun að öðru óbreyttu fjölga arðbærum fjárfestingartækifærum fyrir innlenda og erlenda aðila.
Í tæp átta ár hafa fjármagnshöftin takmarkað áhættudreifingu í eignasöfnum innlendra aðila. Er það mikilvæg ástæða þess að losa þarf um fjármagnshöftin. Lífeyrissjóðir, séreignarsjóðir og almennir fjárfestar hafa ekki fengið sérstakar undanþágur samkvæmt lögum um gjaldeyrismál eða reglum settum á grundvelli þeirra ef frá er talin undanþága lífeyrissjóðanna til erlendra fjárfestinga síðustu sex mánuði að fjárhæð 30 ma.kr. Þessir aðilar hafa því lítið getað fjárfest í erlendum eignum nema með endurfjárfestingu erlendra eigna sem þeir áttu við setningu fjármagnshafta og á grundvelli samninga um fjárfestingu sem gerðir voru áður en fjármagnshöft voru innleidd. Þar sem takmarkanirnar hafa varað í langan tíma hafa sjóðirnir ekki getað valið hagkvæmustu samsetningu væntrar ávöxtunar og áhættu. Það eykur tapsáhættu sjóðanna til lengdar og gæti því skert framtíðartekjur sjóðfélaga, um leið og uppsöfnuð fjárfestingarþörf skapar áhættu við losun fjármagnshafta. Lífeyrissjóðakerfið er, sem hlutfall af VLF, með þeim stærstu í heimi. Áhættudreifing í svo stóru eignasafni er þjóðhagslega mjög mikilvæg og dregur úr bjögun eignaverðs innan lands.
Nái frumvarpið fram að ganga er stigið mikilvægt skref í átt að losun fjármagnshafta. Með því aukast verulega líkur á að hægt verði að losa fjármagnshöft að fullu af fyrirtækjum og heimilum í landinu sem gætu þá á ný notið þess ábata sem getur fylgt frjálsum fjármagnsflutningum.
6.2. Áhrif á Seðlabankann og gjaldeyrisforða.
Áætlun um losun fjármagnshafta hefur það að grundvallarmarkmiði að tryggja að gjaldeyrisforði sé nægur og hætta á verulegu útflæði gjaldeyris verði lágmörkuð. Frumvarpið er liður í því að koma í veg fyrir óæskileg neikvæð áhrif á gengi og gjaldeyrisforða vegna aflandskrónueigna. Seðlabankinn mun meta svigrúm sitt til að ráðstafa hluta af gjaldeyrisforða til að losa út aflandskrónueignir í gegnum gjaldeyrisútboð áður en kemur að afmörkun aflandskrónueigna hjá vörsluaðilum. Það mat tekur m.a. mið af þörf bankans fyrir gjaldeyrisforða þegar kemur að losun hafta á fyrirtæki og heimili í landinu. Á meðan losun hafta gengur yfir mun stærð gjaldeyrisforða mótast af varfærinni nálgun í samræmi við útgefnar leiðbeiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Seðlabanki Íslands fer með framkvæmd fjármagnshafta og annast eftirlit með þeim. Með frumvarpinu er skapaður grundvöllur fyrir næstu skref í losun fjármagnshafta og áhætta af sniðgöngu lágmörkuð samfara losunarskrefum, sem að öðrum kosti kallaði á umsvifamikið eftirlit. Seðlabankinn ætti því ekki að hafa aukinn eftirlitskostnað af lögfestingu þessa frumvarps og til lengri tíma ætti kostnaður við eftirlit að dragast saman eftir því sem losun fjármagnshafta vindur fram.
Seðlabankinn greiðir vexti af þeim innstæðubréfum sem gefin verða sérstaklega út í tengslum við frumvarpið. Þar sem innlánsstofnunum sem varðveita aflandskrónueignir í formi innstæðna verður gert, með sérstakri bindiskyldu, að kaupa þessi innstæðubréf mun staða á reikningum innlánsstofnana hjá Seðlabankanum að öðru óbreyttu dragast saman. Vextir á sjö daga bundnum innlánum og viðskiptareikningum lánastofnana og ríkissjóðs í Seðlabankanum eru hins vegar hærri en fyrirhugaðir vextir innstæðubréfanna enda ráðast vextir á bundnum innlánum af peningastefnu á hverjum tíma og miða að því að hafa áhrif á ákvarðanir um útgjöld og sparnað innlendra aðila. Seðlabankinn mun því ekki bera aukinn vaxtakostnað af útgáfu innstæðubréfanna. Vextir innstæðubréfa eru ákveðnir árlega af Seðlabanka Íslands með hliðsjón af lögbundnum markmiðum bankans og ávöxtun eigna hans. Vaxtastigið tekur einnig mið af áhrifum vaxtagreiðslna af innstæðubréfum á greiðslujöfnuð en vextir af eignum erlendra aðila eru skiptanlegir í erlendan gjaldeyri á innlendum gjaldeyrismarkaði. Þá er horft til þess að vaxtastig á innstæðubréfum hvetji ekki til vaxtamunaviðskipta.
6.3. Áhrif á ríkissjóð.
Með losun fjármagnshaftanna verður stórum óvissuþætti eytt varðandi lánamöguleika og greiðslubyrði ríkissjóðs til framtíðar. Í því sambandi er rétt að árétta að alþjóðleg lánshæfismatsfyrirtæki hafa ítrekað bent á fjármagnshöftin sem einn helsta dragbít á lánshæfi og þar með vaxtakjör hins opinbera á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Hugsanlega getur vaxtaálag og vaxtakostnaður ríkissjóðs því lækkað umtalsvert, enda njóta aðrar Evrópuþjóðir með sambærilega stöðu og umgjörð efnahagsmála og áþekka skuldastöðu hins opinbera mun hagstæðari kjara á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum en íslenska ríkið.
Að öðru leyti eru þær ráðstafanir sem lagðar eru til í frumvarpinu ekki líklegar til þess að hafa teljandi áhrif á gjöld ríkissjóðs og ekki er gert ráð fyrir að efni frumvarpsins hafi bein áhrif á tekjur ríkissjóðs.
6.4. Áhrif á aflandskrónueigendur.
Undir gildissvið frumvarpsins falla aflandskrónueignir að fjárhæð um 319 ma.kr. Í töflu 2 er að finna skiptingu aflandskrónueigna skv. a–g-lið 1. tölul. 2. gr. þessa frumvarps:
Liður | Skilgreining í frumvarpinu | Ma.kr. |
1.a | Innstæður eftirtalinna aðila í íslenskum krónum hjá innlánsstofnunum hér á landi, hvort sem þær eru raunveruleg eign viðkomandi eða hann fer með vörslur fyrir hönd annars: 1. Erlendra lögaðila sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, útibúa þeirra og dótturfélaga í þeirra eigu. 2. Annarra erlendra stofnanafjárfesta sem fjárfesta í fjármálagerningum, þ.m.t. aðila sem fást við verðbréfun eða önnur fjármögnunarviðskipti. |
74 ,3 |
1.b | Fjármunir á fjárvörsluinnlánsreikningi á nafni greiðanda, á geymslureikningi hjá innlánsstofnun á nafni eiganda eða umboðsmanns hans eða í formi sérgreindrar eignar kröfuhafa í vörslu greiðanda, enda hafi þeir verið greiddir í þágu erlends aðila sem á eða hefur átt kröfu á hendur lögaðila sem sætt hefur slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð eða sem gengið hefur í gegnum endurskipulagningu með nauðasamningi. | 19,5 |
1.c | Skuldabréf og víxlar, útgefnir af ríkissjóði Íslands eða með ábyrgð íslenska ríkisins, í íslenskum krónum, í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið. | 176,5 |
1.d | Hlutdeildarskírteini sem eru í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið og útgefin í íslenskum krónum, í verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóðum þar sem fjárfest er, beint eða óbeint, í fjármálagerningum, útgefnum af ríkissjóði Íslands eða með ábyrgð íslenska ríkisins. | 0,9 |
1.e | Hlutafé, skuldabréf og hvers kyns skuldagerningar, útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðilum sem hafa farið í gegnum endurskipulagningu á grundvelli nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., eftir 28. nóvember 2008, í eigu erlendra lögaðila vegna umbreytingar krafna sem þeir fjárfestu í eftir 28. nóvember 2008. Sama gildir um endurfjárfestingu vegna andvirðis slíkra eigna sem seldar hafa verið, hvort sem er að hluta eða öllu leyti. | 19,7 |
1.f | Hlutafé, skuldabréf og hvers kyns skuldagerningar, sem voru útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðilum, enda hafi fjárfestingin átt sér stað eftir 28. nóvember 2008 og greiðsla fór fram, beint eða óbeint, með úttekt af reikningi í íslenskum krónum hjá erlendu fjármálafyrirtæki. | 28,0 |
1.g | Hlutdeildarskírteini sem eru í eigu eða vörslu aðila sem falla undir a-lið og útgefin eru í íslenskum krónum, í verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóðum þar sem m.a. er fjárfest, beint eða óbeint, í fjármálagerningum, útgefnum í íslenskum krónum af öðrum innlendum aðilum en íslenska ríkinu eða aðilum með ríkisábyrgð, innlánum, reiðufé og afleiðum. | 0,3 |
Samtals | 319,1 |
Frumvarpið felur ekki í sér kröfur um að aflandskrónueigendur selji eignir sínar og mun viðskiptasamband þeirra við innlend fjármálafyrirtæki og erlendar verðbréfamiðstöðvar haldast óbreytt. Eigendur aflandskrónueigna á reikningum háðum sérstökum takmörkunum og umsýslureikningum hjá Seðlabanka Íslands munu eftir sem áður hafa umráða- og ráðstöfunarrétt yfir eign sinni, geta tekið út og skipt á gjaldeyrismarkaði vaxta- og arðgreiðslum og stundað viðskipti með aflandskrónueignir. Samkvæmt frumvarpinu er verðbréfamiðstöð, að beiðni Seðlabanka Íslands, skylt að láta getið um takmarkanir á rafrænt skráðum aflandskrónueignum með því að úthluta þeim alþjóðlegu bráðabirgða ISIN-auðkenni verðbréfs, sem mun gera aflandskrónueigendum auðveldara um vik að halda á blönduðu safni verðbréfa, þ.e. með eða án kvaða. Heimildir aflandskrónueigenda til úttektar af reikningum eru rýmkaðar og þeim heimilað að fjárfesta í sérstökum innstæðubréfum útgefnum af Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins og ber ríkissjóður ábyrgð á öllum skuldbindingum hans. Af þessu leiðir að mótaðilaáhætta innlánseigenda hjá Seðlabankanum er á ríkissjóð Íslands. Skorður eru á því í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, hvaða aðilum stendur til boða að stofna til innlánsviðskipta við bankann.
Með frumvarpi þessu er verið að tryggja aflandskrónueigendum áhættuminnsta fjárfestingarkost sem í boði er á Íslandi og að óbreyttu stæði þeim ekki til boða. Heimild til kaupa á innstæðubréfum er því í þeim skilningi ívilnandi fyrir aflandskrónueigendur, sérstaklega þá sem ekki taka þátt í valfrjálsum útgöngumöguleikum sem í boði verða og kjósa að eiga áfram íslenskar krónur til lengri tíma. Þá verða úttektarheimildir einstaklinga rýmkaðar og þeim heimilt að taka að hámarki út 6.000.000 kr. á hverju almanaksári, sé sýnt fram á raunverulegt og samfellt eignarhald þeirra frá 28. nóvember 2008.
Seðlabanki Íslands mun standa fyrir gjaldeyrisútboði þar sem öllum aflandskrónueigendum sem það kjósa verður boðin útganga. Þátttaka í gjaldeyrisútboði er valfrjáls og aflandskrónueigendum stendur jafnframt útganga til boða í tiltekinn tíma eftir að gjaldeyrisútboð hefur farið fram.
6.5. Áhrif á fjármálafyrirtæki og verðbréfamiðstöðvar.
Viðskiptasamband innlendra fjármálafyrirtækja við aflandskrónueigendur og erlendar verðbréfamiðstöðvar helst verði frumvarpið að lögum. Það á bæði við um vörslu og umsýslu verðbréfa og innlána. Breytingar verða á viðskiptasambandi innlendra fjármálafyrirtækja og innlendrar verðbréfamiðstöðvar hvað varðar vörslu verðbréfa sem falla undir gildissvið frumvarpsins þar sem Seðlabankinn verður umsýsluaðili verðbréfanna gagnvart vörsluaðila þeirra, þ.e. fjármálafyrirtækjunum, og hefur milligöngu um eignarskráningu gagnvart innlendum verðbréfamiðstöðvum. Viðskipti innlendra innlánsstofnana við Seðlabankann hvað varðar aflandskrónur breytist verði frumvarp þetta að lögum.
Aflandskrónueignir á reikningum innlánsstofnana háðum sérstökum takmörkunum verða samkvæmt frumvarpinu háðar sérstakri bindiskyldu sem innlendar innlánsstofnanir uppfylla með fjárfestingu í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands. Með þessu fyrirkomulagi er verið að gera eftirlit Seðlabanka Íslands með framfylgd laga þessara skilvirkara án verulega aukins eftirlitskostnaðar og tryggja betur yfirsýn með aflandskrónueignum. Jafnframt er með bindiskyldunni komið til móts við hættu á sniðgöngu, með tilheyrandi kostnaði fyrir almenning, en sú hætta eykst til muna þegar frelsi í fjármagnsflutningum er aukið frekar. Innstæðubréf bera 0,5% vexti við útgáfu sem endurskoðaðir eru af Seðlabanka Íslands á 12 mánaða fresti með hliðsjón af lögbundnum markmiðum bankans og ávöxtun eigna hans. Vaxtastigið tekur einnig mið af áhrifum vaxtagreiðslna af innstæðubréfum á greiðslujöfnuð en vextir af eignum erlendra aðila eru skiptanlegir í erlendan gjaldeyri á innlendum gjaldeyrismarkaði. Þá er horft til þess að vaxtastig á innstæðubréfum hvetji ekki til vaxtamunarviðskipta.
Áhrif á lausafjárstöðu innlánsstofnana af þessari breytingu eiga ekki að vera mikil því að þeim hefur fram til þessa verið gert að halda lausum eignum á móti meiri hluta innlána erlendra aðila samkvæmt lausafjárreglum sem Seðlabankinn setur. Þó má búast við að breytingin muni hafa neikvæð áhrif á vaxtamun innlendra innlánsstofnana sem eru vörsluaðili aflandskróna á innstæðureikningum en hversu mikil áhrifin verða veltur á þeim innlánskjörum sem innlánsstofnanir munu bjóða á reikningum háðum sérstökum takmörkunum.
Loks má nefna að innstæður á uppgjörsreikningum erlendra fjármálafyrirtækja hjá innlendum fjármálafyrirtækjum flokkast sem aflandskrónueignir og ráðstöfun þeirra er því háð sérstökum takmörkunum. Slíkir reikningar gegna lykilhlutverki í frjálsum milliríkjaviðskiptum með krónur og innstæður á þeim geta ekki, af sniðgönguástæðum, blandast við aflandskrónur þegar næstu skref til losunar fjármagnshafta eru tekin. Flutningur aflandskróna af þessum reikningum inn á reikninga háða sérstökum takmörkunum gerir uppgjörsreikninga erlendu fjármálafyrirtækjanna tiltæka á ný til frjálsra milliríkjaviðskipta með krónur. Erlendar verðbréfamiðstöðvar sem starfa hér á landi og eiga reikninga hjá Seðlabanka Íslands geta sótt um að aflandskrónueignir þeirra verði fluttar yfir á nýja reikninga hjá Seðlabankanum sem sæta sömu takmörkunum og reikningar háðir sérstökum takmörkunum og verður þá uppgjörsreikningur þeirra hjá bankanum gjaldgengur til frjálsra milliríkjaviðskipta með krónur þegar grundvöllur til slíkra viðskipta skapast.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Um 2. gr.
Skilgreining á hugtakinu aflandskrónueignir er sett fram í átta stafliðum, a–h-lið, í 1. tölul. greinarinnar, þar sem þær eru afmarkaðar bæði út frá tegund eignar og skráðum eiganda eða vörsluaðila hennar. Þær eignir sem falla undir skilgreiningu á aflandskrónueignum hafa allar sætt sérstökum takmörkunum að því er varðar fjármagnsflutninga eða gjaldeyrisviðskipti frá innleiðingu fjármagnshafta á árinu 2008.
Með aflandskrónueignum er í fyrsta lagi, sbr. a-lið 1. tölul., átt við innstæður í íslenskum krónum á innlánsreikningum hér á landi sem eru í eigu eða vörslu aðila sem taldir eru upp í 1. og 2. tölul. stafliðarins. Skilgreining á eiganda aflandskrónueignar í 1. tölul. stafliðarins tekur m.a. mið af skilgreiningu a-liðar 9. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, á fagfjárfesti, en sérstaklega er áréttað að afmörkunin nær einnig til dótturfélaga þeirra og útibúa, hvort sem er hér á landi eða erlendis. Undir skilgreininguna falla m.a. fjármálafyrirtæki og fyrirtæki tengd fjármálasviði, vátryggingafélög, rafeyrisfyrirtæki, greiðslustofnanir, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóðir og rekstrarfélög þeirra eftir því sem við á, seljendur hrávöru og hrávöruafleiðna og aðrir stofnanafjárfestar. Undir 2. tölul. stafliðarins falla aðrir erlendir stofnanafjárfestar sem fjárfesta í fjármálagerningum. Með erlendum stofnanafjárfestum í skilningi ákvæðisins er átt við lögaðila, t.d. lífeyris- og fagfjárfestasjóði.
Af skilgreiningunni leiðir að til þess að um aflandskrónueignir sé að ræða í skilningi a- liðar þarf skráður eigandi eða vörsluaðili innstæðu að vera erlendur lögaðili sem hefur starfsleyfi eða sinnir lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum eða telst til stofnanafjárfestis sem fjárfestir í fjármálagerningum. Ástæða þess að skilgreining aflandskrónueignar kveður á um að skráður eigandi eða vörsluaðili þurfi að vera fyrrnefndir erlendir lögaðilar er sú að aflandskrónueignir í formi innstæðna í íslenskum krónum eru vistaðar á reikningum í eigu erlendra lögaðila hjá innlánsstofnunum hér á landi, en þessir reikningar eru að jafnaði kallaðir Vostro-reikningar. Í langflestum tilvikum eru hinir erlendu lögaðilar þó ekki raunverulegir eigendur (e. beneficial owner) fjármunanna, heldur eru það viðskiptavinir þeirra, sem geta bæði verið innlendir og erlendir aðilar. Til frekari skýringar skal þess getið að Vostro-reikningar eru reikningar í íslenskum krónum þar sem hinir erlendu lögaðilar varsla innstæður viðskiptavina sinna, þ.e. hinna raunverulegu eigenda. Raunverulegir eigendur geta þannig rakið innstæðu sína í íslenskum krónum hjá erlendri fjármálastofnun til innstæðu á Vostro-reikningi hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Í lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er raunverulegur eigandi skilgreindur sem einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir þeim viðskiptamanni, einstaklingi eða lögaðila sem skráður er fyrir eða framkvæmir viðskiptin. Raunverulegt eignarhald aflandskrónueigna samkvæmt þessum staflið er því í reynd alltaf í höndum einstaklinga, sem í þessu tilviki eru bæði innlendir og erlendir aðilar. Þær takmarkanir sem kveðið er á um í frumvarpinu gera þannig ekki upp á milli aðila eftir þjóðerni eða búsetu.
Í öðru lagi, sbr. b-lið 1. tölul., teljast til aflandskrónueigna fjármunir sem hafa verið greiddir erlendum kröfuhöfum inn á fjárvörsluinnlánsreikning á nafni greiðanda, á geymslureikning hjá innlánsstofnun á nafni eiganda eða eru í formi aðgreindrar eignar kröfuhafa í vörslu greiðanda. Um er að ræða geymslugreiddar greiðslur til forgangskröfuhafa og almennra kröfuhafa frá innlendum aðilum sem sætt hafa slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð eða sem gengið hafa í gegnum endurskipulagningu með nauðasamningi samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum eða lögum um fjármálafyrirtæki og nær ákvæðið til allra erlendra kröfuhafa, þ.m.t. erlendra lögaðila, erlendra einstaklinga og erlendra opinberra aðila. Með erlendum kröfuhöfum er átt við kröfuhafa sem teljast erlendir aðilar í skilningi laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Ákvæðinu er ætlað að ná til fjármuna sem hafa verið geymslugreiddir, og þar með ekki fengist greiddir beint til þessara erlendu kröfuhafa vegna takmarkana á fjármagnshreyfingum á milli landa samkvæmt lögum um gjaldeyrismál. Hér er því m.a. um að ræða eignir erlendra kröfuhafa sem sætt hafa takmörkunum við útgreiðslu umfram eignir innlendra kröfuhafa þar sem þær eru kvikari sökum skorts á heimaslagsíðu og líklegri til að leita útgöngu ef þær komast í hendur kröfuhafa.
Í þriðja lagi, sbr. c-lið 1. tölul., teljast til aflandskrónueigna skuldabréf og víxlar, útgefnir í íslenskum krónum af íslenska ríkinu eða aðilum með ríkisábyrgð, svo sem Íbúðalánasjóði, sem eru í eigu eða vörslu aðila sem taldir eru upp í a-lið. Hér er um að ræða skuldabréf og víxla sem hefur verið fjárfest fyrir með úttektum af Vostro-reikningum og komi til uppgjörs og annarra efnda eru slíkir fjármunir jafnframt lagðir inn á sömu reikninga. Líkt og á við um a-lið eru raunverulegir eigendur slíkra fjármuna bæði innlendir og erlendir aðilar.
Í fjórða lagi, sbr. d-lið 1. tölul., teljast til aflandskrónueigna hlutdeildarskírteini, útgefin í íslenskum krónum, í verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóðum sem fjárfesta beint eða óbeint í fjármálagerningum, útgefnum af íslenska ríkinu eða aðilum með ríkisábyrgð, svo sem Íbúðalánasjóði, og í eigu eða vörslu aðila sem taldir eru upp í a-lið. Með óbeinni fjárfestingu er m.a. átt við sjóð sem fjárfestir í öðrum sjóði sem fjárfestir í umræddum fjármálagerningum.
Íslenskum sjóðum hafa verið veittar sérstakar undanþágur af Seðlabanka Íslands til móttöku aflandskrónueigna af Vostro-reikningum gegn útgáfu hlutdeildarskírteina og hafa sjóðirnir séð um að fjárfesta í samræmi við þær fjárfestingarheimildir sem Seðlabankinn veitir á hverjum tíma. Uppgjör og efndir vegna slíkra hlutdeildarskírteina eru lagðar aftur inn á Vostro-reikning. Líkt og á við um a- og b-lið eru raunverulegir eigendur slíkra fjármuna bæði innlendir og erlendir aðilar.
Í fimmta lagi, sbr. e-lið 1. tölul., teljast til aflandskrónueigna eignarhlutir í einkahlutafélögum, hlutabréf, skuldabréf og hvers kyns skuldagerningar sem eru í eigu erlendra lögaðila og útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðila vegna endurskipulagningar hans á grundvelli nauðasamnings samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., eftir 28. nóvember 2008. Einnig falla hér undir endurfjárfestingar vegna andvirðis slíkra eigna sem seldar hafa verið, hvort sem er að hluta eða öllu leyti. Ákvæðið tekur til eigna erlendra aðila sem áttu kröfur á innlenda aðila sem hafa farið í gegnum endurskipulagningu með nauðasamningi og hafa umbreytt þeim í hlutafé og/eða tekið við skuldabréfum og/eða öðrum skuldagerningum sem hinn innlendi aðili hefur gefið út í tengslum við nauðasamninginn.
Í sjötta lagi, sbr. f-lið 1. tölul., teljast til aflandskrónueigna eignarhlutir í einkahlutafélögum, hlutabréf, skuldabréf og hvers kyns skuldagerningar, útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðilum, þar sem fjárfesting hefur verið gerð eftir 28. nóvember 2008 með greiðslu, beint eða óbeint, af reikningi í íslenskum krónum hjá erlendu fjármálafyrirtæki. Hér er um að ræða fjárfestingar sem gerðar voru fyrir aflandskrónur þar sem fjárfestir hefur notið mismunar á aflands- og álandsgengi. Með hliðsjón af þeim vænta hagnaði sem fjárfestir þessara eigna gæti losað um við afléttingu fjármagnshafta á innlenda markaðinn er ljóst að slíkar eignir munu strax leita út. Sérstaklega er áréttað að greiðsla hafi farið fram með beinum eða óbeinum hætti af reikningi í íslenskum krónum hjá erlendu fjármálafyrirtæki. Með óbeinum hætti er til dæmis átt við tilvik þar sem aflandskrónur hafa verið nýttar til fjárfestinga hér á landi, svo sem í skuldabréfum, og andvirði þeirra hefur verið ráðstafað til fjárfestinga í eignarhlutum í félögum, skuldabréfum og eftir atvikum öðrum skuldagerningum, útgefnum í íslenskum krónum af innlendum aðilum. Meðal þess sem liðurinn tekur til eru einnig fjárfestingar í félagi sem fjárfestir í slíkum eignum.
Í sjöunda lagi, sbr. g-lið 1. tölul., teljast til aflandskrónueigna hlutdeildarskírteini, útgefin í íslenskum krónum, í verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóðum sem fjárfesta beint eða óbeint í fjármálagerningum, útgefnum í íslenskum krónum af öðrum innlendum aðilum en íslenska ríkinu eða aðilum með ríkisábyrgð, svo sem Íbúðalánasjóði, og/eða innlánum, reiðufé og afleiðum, og eru í eigu aðila sem falla undir a-lið 1. tölul. Ekki er um tæmandi talningu að ræða á þeim eignum sem þessir sjóðir kunna að fjárfesta í. Með óbeinni fjárfestingu er m.a. átt við sjóð sem fjárfestir í hlutum í öðrum sjóði sem fjárfestir í framangreindum fjármálagerningum. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða hlutdeildarskírteini í sjóðum sem fjárfesta í blönduðu safni verðbréfa, svo sem bæði ríkisbréfum og skuldabréfum útgefnum af fyrirtækjum og fjármálastofnunum, falla hlutdeildarskírteinin undir þennan staflið.
Í áttunda lagi, sbr. h-lið 1. tölul., telst til aflandskrónueigna söluandvirði eða aðrar greiðslur vegna eigna sem falla undir c–g-lið og falla til á tímabilinu frá gildistöku laga þessara til 1. september 2016. Hér er um ræða eignir sem hvati kann að vera til að ráðstafa í þeim tilgangi að komast hjá flutningi á reikninga háða sérstökum takmörkunum.
Í 2. tölul. er hugtakið erlendur lögaðili skilgreint neikvætt, þ.e. sem þeir aðilar sem ekki teljast innlendir aðilar samkvæmt skilgreiningu laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Þannig er átt við lögaðila sem ekki er skráður til heimilis hér á landi, telur ekki heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða hefur ekki raunverulega framkvæmdastjórn hér á landi.
Í 3. tölul. er hugtakið gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands skilgreint. Um er að ræða útboð sem er framkvæmt á grundvelli 18. gr., sbr. ákvæði til bráðabirgða III, laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.
Í 4. tölul. eru innlánsstofnanir skilgreindar sem viðskiptabankar, sparisjóðir og innlánsdeildir kaupfélaga. Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt á grundvelli starfsleyfis samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, að taka á móti innlánum. Innlánsdeildum kaupfélaga er það einnig heimilt á grundvelli laga nr. 22/1991, um samvinnufélög. Í 5. tölul. er að finna skilgreiningu á hugtakinu innlendur aðili og er vísað til skilgreiningar í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
Í 6. tölul. er innstæðubréf Seðlabanka Íslands skilgreint í meginatriðum sem skuldabréf sem Seðlabanki Íslands gefur út til skráðra eigenda eða innlánsstofnana sem varðveita aflandskrónueignir á reikningum háðum sérstökum takmörkunum.
Í 7. tölul. er rafrænt skráð verðbréf skilgreint sem verðbréf sem hefur fengið rafræna skráningu í samræmi við ákvæði laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
Í 8. tölul. er reikningur háður sérstökum takmörkunum skilgreindur sem reikningur á nafni eiganda eða vörsluaðila aflandskrónueigna skv. a- og b-lið 1. tölul. í íslenskum krónum hjá innlánsstofnun hér á landi sem auðkenndur skal með höfuðbók 21 í kerfi Reiknistofu bankanna hf. og er háður takmörkunum laga þessara.
Í 9. tölul. er að finna skilgreiningu á umsýslureikningi sem er eigin reikningur Seðlabanka Íslands þar sem fjármálagerningar eru skráðir á nafni vörsluaðila aflandskrónueigna í formi rafrænt skráðra verðbréfa. Umsýslureikningar eru vörslureikningar verðbréfa sem stofnaðir verða hjá Seðlabanka Íslands í samræmi við 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins.
Í 10. tölul. er að finna skilgreiningu á viðmiðunargengi, en það er gengi krónu gagnvart evru þar sem miðað er við 220 krónur á móti einni evru. Þetta er sama gengi og vegið meðalverð í þeim 20 gjaldeyrisútboðum sem Seðlabanki Íslands hefur haldið frá árinu 2012 fyrir aflandskrónueigendur.
Í 11. tölul. er að finna skilgreiningu á viðskiptavini, sem telst vera sá aðili sem veitir vörsluaðila heimild til að koma fram í sínu nafni og vera skráður fyrir fjármálagerningum eða fjármunum. Með viðskiptavini er því átt við skráða eigendur eða vörsluaðila rafrænt skráðra aflandskrónueigna í formi verðbréfa sem varðveita verðbréf sín hjá fjármálafyrirtækjum.
Í 12. tölul. er vörsluaðili skilgreindur sem fjármálafyrirtæki sem er heimilt að varðveita fjármálagerninga í eigu viðskiptavina sinna. Skilgreiningin er samhljóða skilgreiningu vörsluaðila í reglugerð nr. 706/2008, um safnskráningu og varðveislu fjármálagerninga á safnreikningi.
Í 13. tölul. er að finna skilgreiningu á vörslureikningi, en vörslureikningur er reikningur þar sem aflandskrónueignir í formi rafrænt skráðra verðbréfa eru varðveittar. Vörslureikningar geta verið hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og verðbréfafyrirtækjum.
Um 3. gr.
Um 1. tölul. Lagt er til að eignir í eigu ríkisstjórna, seðlabanka og alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að falli utan gildissviðs laganna. Sem dæmi um alþjóðastofnanir sem sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum má nefna Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Norræna fjárfestingarbankinn og Fjárfestingarbanka Evrópu.
Um 2. tölul. Lagt er til að eignir sem eru tilkomnar vegna iðgjalda sem greidd eru samkvæmt samningum í innlendum gjaldeyri um viðbótartryggingavernd til öflunar lífeyrissparnaðar í séreign við erlenda vörsluaðila lífeyrisréttinda, sem heimilt er að stunda starfsemi hér á landi skv. II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og samkvæmt samningum um til að mynda söfnunartryggingar, eingreiðslulíftryggingar og reglubundinn sparnað við erlend vátryggingafélög, á grundvelli undanþágu frá takmörkunum 3. mgr. 13. gr. b laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, falli utan gildissviðs laganna. Um er að ræða iðgjöld sem greidd eru í íslenskum krónum vegna samninga sem innlendir einstaklingar hafa gert við erlend vátryggingafélög og erlenda vörsluaðila lífeyrisréttinda. Ákvæðið er sett til samræmis við undanþágur þessara aðila skv. 4. og 5. gr. reglna nr. 565/2014, um gjaldeyrismál, fyrir fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum gjaldeyri. Þessar eignir kunna bæði að vera í formi innstæðna og fjármálagerninga, en með framangreindum ákvæðum reglna nr. 565/2014, voru erlendum vátryggingafélögum og erlendum vörsluaðilum lífeyrisréttinda veittar fjárfestingarheimildir til samræmis við innlenda aðila fyrir þann innlenda gjaldeyri sem þeir móttaka vegna greiðslu iðgjalda.
Um 3. tölul. Lagt er til að fjármunir í eigu erlendra rafeyrisfyrirtækja, sem nýttir eru samkvæmt undanþágu þeirra frá takmörkunum 1. og 2. mgr. 13. gr. b og 1. og 3. mgr. 13. gr. c laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, í þeim tilgangi að sinna greiðslumiðlun hér á landi, falli utan gildissviðs laganna.
Um 4. tölul. Lagt er til að fjármunir, sem eru til komnir vegna fjárfestinga sem gerðar hafa verið eftir 28. nóvember 2008 fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í skilningi 13. gr. m laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, falli utan gildissviðs laganna. Í ákvæðinu er kveðið á um að innlend nýfjárfesting fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris skuli vera ótakmörkuð. Í nýfjárfestingu felst að fjárfestar, bæði innlendir og erlendir, geta komið til landsins með erlendan gjaldeyri og fjárfest hér á landi án þess að festast með fjármuni sem hafa losnað við sölu á fjárfestingunni vegna takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum á milli landa. Skilyrði nýfjárfestingar er að hún sé fjárfesting sem gerð er hérlendis eftir 31. október 2009 fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris sem skipt er í innlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Þannig taka fjárfestar stöðu með íslensku krónunni í þann tíma sem þeir ætla sér að fjárfesta hérlendis. Innstæður á gjaldeyrisreikningum í innlendum fjármálafyrirtækjum, sem urðu til fyrir 31. október 2009, og tekjur af útflutningsviðskiptum og öðrum skilaskyldum erlendum gjaldeyri teljast ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris, og er því ekki hægt að nýta heimild til nýfjárfestinga með slíkum fjármunum. Þá eru takmarkanir á því í hverju er fjárfest, en beinar og óbeinar fjárfestingar í afleiðusamningum og kröfum á hendur aðilum sem sæta slita- eða gjaldþrotaskiptameðferð með nauðasamningi sem felur í sér úthlutun eigna til kröfuhafa teljast ekki til nýfjárfestingar. Á grundvelli framangreindra sjónarmiða, þ.e. að verið sé að ýta undir erlenda fjárfestingu í íslensku hagkerfi, þykir rétt að undanskilja þær fjárfestingar gildissviði laganna sem uppfylla skilyrði um nýtt innstreymi erlends gjaldeyris, enda þótt önnur skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt.
Um 5. tölul. Lagt er til að fjármunir sem eru til komnir vegna þátttöku í útboðum Seðlabanka Íslands falli utan gildissviðs laganna. Á tímabilinu 28. júní 2011 til 10. febrúar 2015 hefur Seðlabanki Íslands boðist til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum. Jafnframt hefur Seðlabanki Íslands óskað eftir tilboðum frá aðilum sem vilja selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri. Slík útboð, eða svonefndar fjárfestingar- og ríkisbréfaleiðir, hafa verið liður í áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011.
Um 6. tölul. Lagt er til að eignir þeirra aðila sem féllu undir gildissvið laga nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, við gildistöku þeirra falli utan gildissviðs laganna. Um er að ræða efndir nauðasamnings sem staðfestur hefur verið af héraðsdómi að undangengnu samþykki Seðlabanka Íslands. Í ljósi þeirra aðgerða sem gripið var til með lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, og undanþága sem veittar voru skattskyldum aðilum samkvæmt þeim lögum á grundvelli stöðugleikaskilyrða stjórnvalda þykir ekki tilefni til þess að eignir skv. 6. tölul. séu hluti af afmörkun aflandskrónueigna enda hefur þegar verið dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem þessar eignir hefðu getað haft á stöðugleika í gengis- og peningamálum.
Um 7. tölul. Lagt er til að tilteknar aflandskrónueignir falli utan gildissviðs laganna sem að öðrum kosti mundu falla undir e-lið 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins, þ.e. hlutafé, skuldabréf og aðrir skuldagerningar, útgefnir í íslenskum krónum af innlendum aðila sem farið hefur í gegnum endurskipulagningu á grundvelli nauðasamnings samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., eftir 28. nóvember 2008, sem eru í eigu erlendra lögaðila ef fjárfestingin hefur átt sér stað eftir 28. nóvember 2008. Nánar tiltekið á ákvæðið við um þær aflandskrónueignir sem eru til komnar vegna framangreinds ef Seðlabankinn hefur veitt undanþágu frá takmörkunum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, fyrir úthlutun frá innlenda aðilanum í erlendum gjaldeyri. Fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri eru takmarkaðar skv. 13. gr. b laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og er Seðlabankanum veitt heimild til að veita undanþágur frá þeim takmörkunum í 7. gr. sömu laga. Eðlilegt þykir að veita Seðlabankanum svigrúm við mat á því hvaða aðilum er veitt undanþága til úthlutunar í erlendri mynt, en skv. 2. mgr. 7. gr. laganna skal Seðlabankinn horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum.
Um 8. og 9. tölul. Lagt er til að aflandskrónueignir sem voru grundvöllur gjaldeyrisviðskipta við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 9. gr. verði undanþegnar takmörkunum laganna. Í ljósi þeirra viðskipta sem aflandskrónueigendur eiga við Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 9. gr., þykir ekki tilefni til þess að þær eignir sem eru grundvöllur viðskiptanna verði háðar takmörkunum laga þessara þar sem dregið hefur verið úr þeim neikvæðu áhrifum sem þessar eignir hafa á stöðugleika í gengis- og peningamálum til jafns við aðrar aflandskrónueignir. Sömu sjónarmið eiga við um aflandskrónueignir sem eru grundvöllur gjaldeyrisviðskipta í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands á árinu 2016 á útboðsgengi. Í slíkum viðskiptum er gert ráð fyrir því að eigandi aflandskrónueignar afhendi Seðlabankanum fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar, með þeim hætti að uppgjör viðskiptanna fer fram með afhendingu fjárhæðar sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar að frádregnu margfeldi markaðsvirðis aflandskrónueignar og hlutfalls opinbers miðgengis Seðlabanka Íslands 20. maí 2016 og útboðsgengis. Þannig er eiganda aflandskrónueignar mögulegt að losa aflandskrónueign sína undan takmörkunum án þess að komi til sölu eignarinnar.
Um 4. gr.
Í 2. mgr. er lagt til að erlendar verðbréfamiðstöðvar sem starfa hér á landi, og varðveita aflandskrónueignir skv. 1. mgr. á innstæðureikningum hjá Seðlabanka Íslands, geti fram til 1. ágúst 2016 sótt um til Seðlabankans að aflandskrónueignir þeirra verði fluttar yfir á nýja reikninga hjá Seðlabanka Íslands sem sæta sömu takmörkunum og reikningar háðir sérstökum takmörkunum.
Í 3. mgr. kemur fram sú meginregla að úttektir af reikningum háðum sérstökum takmörkunum eru óheimilar. Þá er að finna undantekningar frá hinu almenna banni á úttektum af reikningum háðum sérstökum takmörkunum í IV. kafla frumvarpsins.
Um 5. gr.
Þá er í 2. mgr. mælt fyrir um að heimilt sé að flytja aflandskrónueignir skv. 1. mgr. á milli umsýslureikninga vörsluaðila hjá Seðlabanka Íslands að því gefnu að slíkur flutningur hafi ekki í för með sér breytingu á eignarskráningu í verðbréfamiðstöð. Með þessu er átt við að eigendur geta flutt vörslu aflandskrónueigna sinna skv. 1. mgr. frá einum vörsluaðila til annars án þess að slíkur vörsluflutningur sé takmarkaður samkvæmt ákvæðum laganna, svo lengi sem slíkt leiðir ekki af sér breytingu á eignarhaldi aflandskrónueignarinnar.
Með umsýslureikningi hjá Seðlabanka Íslands er átt við eigin reikning Seðlabankans þar sem fjármálagerningar eru skráðir á nafn vörsluaðila. Flutningur rafrænt skráðra aflandskrónueigna á umsýslureikninga hefur ekki í för með sér neinar breytingar á skyldum núverandi vörsluaðila gagnvart viðskiptavinum sínum, að öðru leyti en því að Seðlabankinn hefur eftirleiðis milligöngu um eignarskráningu á þeim verðbréfum í verðbréfamiðstöð. Þetta þýðir að vörsluaðili tryggir áfram að upplýsingagjöf til eftirlitsaðila sé fullnægt samkvæmt lögum og reglum á fjármálamarkaði, m.a. Fjármálaeftirlitsins. Seðlabankinn mun stofna umsýslureikning fyrir hvern mótaðila innan Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. og verðbréfakerfis Seðlabankans, en mótaðilar Seðlabankans í þessu tilviki eru vörsluaðilar verðbréfanna á flutningsdegi.
Í ákvæðinu er kveðið á um að Seðlabankinn yfirtaki réttindi og skyldur, sem reikningsstofnun fer með samkvæmt lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, vegna þessara aflandskrónueigna. Með reikningsstofnun er átt við félag eða stofnun sem hefur milligöngu um eignarskráningu á rafbréfum í verðbréfamiðstöð og eru þeir aðilar sem geta tekið að sér eignarskráningu í miðstöðinni taldir upp í 10. gr. sömu laga, þar á meðal Seðlabanki Íslands. Reikningsstofnanir tilkynna verðbréfamiðstöð um kaup og sölu rafbréfa í eignarskrá og verður því sú heimild hvað varðar þessar tilteknu aflandskrónueignir einungis á hendi Seðlabanka Íslands. Verðbréfamiðstöð mun skrá Seðlabanka Íslands í kerfi sínu sem reikningsstofnun, sbr. 24. gr. laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Þá getur eigandi rafbréfs ekki óskað eftir því að aflandskrónueign hans hjá verðbréfamiðstöð verði færð af umsýslureikningi hjá Seðlabanka Íslands og á reikning hans í umsjón annarrar reikningsstofnunar, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglna nr. 397/2000, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
Í 3. mgr. er kveðið á um að uppgjör og efndir vegna aflandskrónueigna í formi verðbréfa skuli fara fram í íslenskum krónum sem leggja skal inn á reikninga sem eru háðir sérstökum takmörkunum, en um innstæður á slíkum reikningum gilda takmarkanir 4. gr. frumvarpsins. Þannig skulu m.a. allar afborganir höfuðstóls, vextir og aðrar greiðslur leggjast inn á reikninga háða sérstökum takmörkunum. Með þessu er tryggt að aðilar geti ekki losað aflandskrónueignir sínar undan takmörkunum laganna með framsali. Þá er lagt til að hafi erlend verðbréfamiðstöð sett fram beiðni um að aflandskrónueignir í formi innstæðna verði fluttar á reikninga hjá Seðlabanka Íslands, sem sæta sömu takmörkunum og reikningar háðir sérstökum takmörkunum, sbr. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins, skuli uppgjör og efndir aflandskrónueigna skv. 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins fara fram með greiðslu á slíka reikninga hjá Seðlabanka Íslands. Þar sem erlendar verðbréfamiðstöðvar geta óskað eftir því að aflandskrónueignir þeirra í formi innstæðna séu vistaðar á slíkum reikningum hjá Seðlabankanum þykir eðlilegt að uppgjör og efndir skv. 3. mgr. 5. gr. af aflandskrónueignum þeirra í formi rafrænt skráðra verðbréfa berist inn á sömu reikninga hjá Seðlabankanum.
Þá er það áréttað skv. 4. mgr. að ef aflandskrónueignir skv. 1. mgr. eru varðveittar á safnreikningi fjármálafyrirtækja skv. 12. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, er gert ráð fyrir að varðveisla þeirra verði flutt af safnreikningi hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki og á umsýslureikning hjá Seðlabankanum á nafni fjármálafyrirtækis. Með safnreikningi er átt við safnreikninga í skilningi 12. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og reglugerðar nr. 706/2008 um safnskráningu og varðveislu fjármálagerninga á safnreikningi.
Þá er lagt til í 5. mgr. að við flutning skv. 1. mgr. skuli verðbréfamiðstöð, að beiðni Seðlabanka Íslands, upplýsa um kvöð um takmarkanir skv. 3. mgr. ákvæðisins með því að úthluta hinni rafrænu útgáfu aflandskrónueignarinnar alþjóðlegu bráðabirgða ISIN-auðkenni verðbréfs. Með ISIN er átt við International Securities Identification Number sem jafnan er kallað ISIN-númer útgáfu verðbréfa. Úthlutun bráðabirgða ISIN-auðkennis skal eiga sér stað eins fljótt og unnt er, en í síðasta lagi innan þriggja virkra daga frá því að beiðni Seðlabanka Íslands hefur borist verðbréfamiðstöð.
Í 6. mgr. kemur fram að við uppgjör vegna verðbréfa skv. 3. mgr. þar sem greiðsla fer fram með íslenskum krónum sem eru ekki háðar takmörkunum laganna skuli verðbréfamiðstöð aflétta kvöð skv. 5. mgr., að undangenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn mun því þurfa að staðfesta að skilyrði til afléttingar kvaðar samkvæmt ákvæðinu séu uppfyllt, og í kjölfarið mun verðbréfamiðstöð afmá bráðabirgða ISIN- auðkenni, sem úthlutað var skv. 5. mgr., úr hinni rafrænu útgáfu aflandskrónueignar.
Um 6. gr.
Í 2. mgr. er lagt til að eigendur aflandskrónueigna tryggi áritun kvaðar þannig að eignin beri með sér sérstaka viðurkenningu á tilvist hennar. Sem dæmi má nefna að áritun skal koma fram á hlutabréfi, hlutaskírteini eða hlutaskrá eftir atvikum, eða í tilviki lánasamnings með tilkynningu til lántaka um breytt greiðslufyrirmæli þar sem vísað er til reikninga sem eru háðir sérstökum takmörkunum. Komi þannig til framsals á slíkri aflandskrónueign, án þess að uppgjör fari fram, skal kvöð skv. 2. mgr. hvíla áfram á kaupanda. Þá er mælt svo fyrir að eigandi slíkrar aflandskrónueignar skuli tilkynna Seðlabankanum innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna um eign sína og á hvern hátt skilyrði um áritun kvaðar á aflandskrónueign hefur verið fullnægt. Með þessu er lögð skylda á eigendur aflandskrónueigna sem falla undir 1. mgr. að tilkynna Seðlabankanum að eigin frumkvæði um eignina í þeim tilgangi að mögulegt sé að hafa eftirlit með þeim og að ákvæði þessu um flutning uppgjörs og greiðsluflæðis af þeim á reikninga háða sérstökum takmörkunum verði framfylgt.
Í 3. mgr. greinarinnar er lagt til að innlánsstofnanir skuli tilkynna Seðlabanka Íslands samdægurs um allar greiðslur sem berast á reikninga háða sérstökum takmörkunum skv. 1. mgr.
Um 7. gr.
Um 8. gr.
Í 5. mgr. er lagt til að óheimilt verði að veðsetja hvers kyns aflandskrónueignir og innstæðubréf Seðlabanka Íslands. Um er að ræða takmörkun sem talin er nauðsynleg vegna sniðgönguhættu sem kann að skapast við frekari losun fjármagnshafta.
Um 9. gr.
Í 2. mgr. greinarinnar er eigendum aflandskrónueigna sem falla undir e–g-lið 1. tölul. 2. gr. veitt sérstök heimild til gjaldeyrisviðskipta við Seðlabanka Íslands á viðmiðunargengi án undangenginnar sölu aflandskrónueignar. Er eigendum þessara aflandskrónueigna þannig veitt tækifæri til að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum á markaðsvirði aflandskrónueignarinnar, en ljóst er að meiri hluti aflandskrónueigna skv. e–g-lið 1. tölul. 2. gr. er ekki eins auðseljanlegur og þær eignir sem falla undir c- og d-lið sama töluliðar. Gert er ráð fyrir að uppgjör viðskiptanna fari fram með því að eigandi aflandskrónueigna afhendi Seðlabankanum fjárhæð sem nemur markaðsvirði aflandskrónueignar að frádregnu margfeldi markaðsvirðis aflandskrónueignar og hlutfalls opinbers miðgengis Seðlabanka Íslands fyrir evru hinn 20. maí 2016 og viðmiðunargengis, sem setja má fram með eftirfarandi hætti:
(1 – (Opinbert miðgengi Seðlabanka Íslands (EUR) / Viðmiðunargengi)) * Markaðsvirði aflandskrónueignar
Í 3. mgr. er fjallað um hvernig markaðsvirði aflandskrónueignar í skilningi 2. mgr. skuli ákvarðað.
Í 4. mgr. er áréttað að sú aflandskrónueign sem lá til grundvallar viðskiptum samkvæmt ákvæðinu skuli undanþegin takmörkunum frumvarpsins, að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
Um 10. gr.
Um 11. gr.
Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að aðilum verði heimilt að taka út af reikningunum áfallna vexti, verðbætur vaxta og arðgreiðslur að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands. Fjármagnshreyfingar vegna greiðslu vaxta, verðbóta og arðgreiðslna flokkast undir viðskiptajöfnuð og lúta því svipuðum lögmálum og vöru- og þjónustuviðskipti samkvæmt lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Því er talið réttast að aðilum verði heimilt að taka fjármuni sem falla til vegna slíkra greiðslna út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum. Þetta fyrirkomulag á sér fyrirmynd í 1. mgr. 13. gr. j laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, en þar eru fjármagnshreyfingar á milli landa og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra, vegna m.a. greiðslu á vöxtum, verðbótum og arði, undanþegnar takmörkunum samkvæmt lögunum. Lagt er til að úttekt vaxta verði bundin við vaxtagreiðslur af reikningum háðum sérstökum takmörkunum, skuldabréfum og víxlum skv. c-, e- og f-lið 1. tölul. 2. gr. og innstæðubréfum Seðlabanka Íslands. Með verðbótum í skilningi ákvæðisins er aðeins átt við verðbætur á vöxtum en ekki verðbætur á höfuðstól. Þá er lagt til að úttekt arðs verði bundin við arðgreiðslur á grundvelli hagnaðar sem er til kominn vegna reglubundinnar starfsemi félags. Fjármagnshöft sem innleidd voru hinn 28. nóvember 2008 taka mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland er aðili að og grundvallast á skiptingu greiðslujafnaðar í viðskiptajöfnuð og fjármagnsjöfnuð. Greiðslur sem teljast til fjármagnsjafnaðar eru almennt takmarkaðar í lögum um gjaldeyrismál en aftur á móti eru greiðslur sem teljast til viðskiptajafnaðar almennt heimilar nema þær séu sérstaklega takmarkaðar. Arðsúthlutanir, m.a. í skilningi laga nr. 2/1995, um hlutafélög, geta falið í sér færslur sem falla undir fjármagnsjöfnuð og því er ekki sjálfgefið að arðsúthlutanir séu ótakmarkaðar. Sem dæmi þá felur endurfjárfesting hagnaðar félaga í sér færslu sem flokkast undir fjármagnsjöfnuð. Komi til arðgreiðslu sem grundvölluð er á söluandvirði þeirrar fjárfestingar félli slík arðgreiðsla undir fjármagnsjöfnuð. Með hagnaði af reglubundinni starfsemi félaga er því aðeins átt við hagnað af rekstri félags en ekki tekjur af sölu eigna umfram söluhagnað, hagnað vegna afskrifta skulda, virðismatshækkana eigna, lækkunar hlutafjár eða vegna sambærilegra þátta. Arðsúthlutun sem ekki er háð takmörkunum laga um gjaldeyrismál er aftur á móti grundvölluð á hagnaði af reglubundinni starfsemi og yfirfærslu hagnaðar af reglubundinni starfsemi fyrri ára, að því gefnu að hagnaði hafi ekki verið ráðstafað til endurfjárfestingar, svo sem í innviðum félagsins. Þá er lagt til að Seðlabankanum verði heimilt að synja um staðfestingu ef tilgangur ráðstöfunar sem liggur að baki arðgreiðslu virðist vera sá að sniðganga takmarkanir laganna. Í þessu felst að Seðlabankanum er heimilt að meta hvort greiðsla sé til komin vegna rekstrarhagnaðar félags hverju sinni með hliðsjón af reglubundinni starfsemi þess.
Um 12. gr.
Í 2. mgr. er lagt til að einstaklingi sem er eigandi aflandskrónueigna skv. b-lið 1. tölul. 2. gr. við gildistöku laganna skuli heimilt að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum að fenginni staðfestingu Seðlabanka Íslands.
Í 3. mgr. er gert ráð fyrir 6.000.000 kr. hámarksúttekt á almanaksári fyrir hvern einstakling, en það er í samræmi við framfærsluheimild erlendra einstaklinga skv. 2. mgr. 13. gr. b og 3. mgr. 13. gr. c laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Þó er ekki gert ráð fyrir að aðilar þurfi að sýna fram á að fjármunirnir verði notaðir til framfærslu erlendis.
Um 13. gr.
Um 14. gr.
Um 15. gr.
Um 16. gr.
Við eftirlit með lögum um gjaldeyrismál kann Seðlabankinn að þurfa að leita upplýsinga erlendis til þess að geta sinnt hlutverki sínu. Þykir því rétt að árétta í 2. mgr. að Seðlabankinn geti notið aðstoðar Fjármálaeftirlitsins við slíka gagnaöflun í þeim tilvikum þegar heimildir Seðlabanka Íslands til gagnaöflunar skortir, og heimildir Fjármálaeftirlitsins leyfa. Af sömu ástæðu þykir rétt að árétta heimild til að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis eins og kveðið er á um í lögum um Seðlabanka Íslands.
Um 17. gr.
Um 18. gr.
Um 19. gr.
Þá eru brot gegn 4.–6. gr. frumvarpsins, sem fjalla um flutning aflandskrónueigna og heimildir til úttektar, talin sérstaklega alvarleg og viðurlög við slíkum brotum geta varðað allt að fimmfaldri fjárhæð þeirrar úttektar sem framkvæmd var með óheimilum hætti. Er slíkt talið nauðsynlegt til að gæta tilhlýðilegra varnaðaráhrifa í því skyni að þeim hagsmunum sem frumvarpinu er ætlað að vernda sé ekki stefnt í hættu.
Um 20. gr.
Um 21. gr.
Um 22. gr.
Um 23. gr.
Um 24. gr.
Um 25. gr.
Um 26. gr.
Um 27. gr.
Í 1. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 13. gr. e laganna. Er lagt til að nýr málsliður bætist við 2. mgr. ákvæðisins. Í 2. mgr. 13. gr. e er mælt fyrir um að söluandvirði vegna viðskipta með fjármálagerning skv. 1. mgr. greinarinnar, sem útgefinn er í innlendum gjaldeyri, milli innlendra og erlendra aðila, sem gerð eru upp hérlendis skuli leggja inn á reikning viðkomandi seljanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um að söluandvirði fjármálagerninga sem falla undir skilgreiningu á aflandskrónueign samkvæmt lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum skuli lagt inn á reikning háðan sérstökum takmörkunum eða reikning hjá Seðlabankanum sem sætir sömu takmörkunum samkvæmt sömu lögum.
Í öðru lagi er lögð til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. g laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, sem kveður á um að lántökur og lánveitingar milli innlendra og erlendra aðila, í öðrum tilvikum en vegna viðskipta milli landa með vöru og þjónustu, séu óheimilar, nema þegar slík lánaviðskipti eru milli félaga innan sömu samstæðu. Lagt er til að undanþágan verði takmörkuð við lánveitingar og lántökur milli félaga innan sömu samstæðu í erlendum gjaldeyri. Þannig verði samstæðulán í innlendum gjaldeyri ekki heimil nema þau uppfylli almenn skilyrði 13. gr. g laganna fyrir lánveitingum og lántökum á milli landa.
Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á 6. mgr. 13. gr. j laganna þannig að skýrt komi fram hvað telst til arðgreiðslna í skilningi ákvæðisins með þeim hætti að arður eigi aðeins við arðgreiðslu á grundvelli hagnaðar sem er til kominn vegna reglubundinnar starfsemi félags. Þá er það skýrt að með hagnaði af reglubundinni starfsemi félags er átt við hagnað af rekstri félags en ekki vegna tekna af sölu eigna umfram söluhagnað, hagnað vegna afskrifta skulda, hagnað vegna virðismatshækkana eigna, eða sambærilegra þátta, t.d. lækkunar hlutafjár o.s.frv. Þá er lagt til að Seðlabankanum verði heimilt að synja um staðfestingu ef tilgangur ráðstöfunar sem liggur að baki arðgreiðslu virðist vera sá að sniðganga takmarkanir á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Í þessu felst að Seðlabankanum er heimilt að meta hvort greiðsla sé tilkomin vegna rekstrarhagnaðar félags hverju sinni með hliðsjón af reglubundinni starfsemi þess.
Í fjórða lagi er lagt til að fimm nýjar málsgreinar komi á eftir 9. mgr. 13. gr. n og verði þá 10.–14. mgr. ákvæðisins, sem kveði á um undanþágur frá takmörkunum laga um gjaldeyrismál fyrir þær fjármagnshreyfingar og eftir atvikum þau gjaldeyrisviðskipti með aflandskrónueignir sem lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum gera ráð fyrir.
Í fimmta lagi er lagt til að tveir nýir málsliðir komi á eftir 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. p laganna þar sem fram komi að í tengslum við eftirlit sitt samkvæmt lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, geti Seðlabankinn gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt svo oft sem hann telji þörf á. Þá er kveðið á um það að ákvörðun um vettvangskönnun megi fullnægja með aðfarargerð.
Í 2. tölul. er lögð til breyting á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, með síðari breytingum. Lagt er til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem mælir svo fyrir að Seðlabanki Íslands hafi einn heimild til milligöngu um eignarskráningu verðbréfa skv. c–g-lið 1. tölul. 2. gr. laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum sem flutt eru í vörslur bankans. Með þessum hætti er tryggt að varsla bréfanna verði ekki færð til annarrar reikningsstofnunar, líkt og lögin gera annars ráð fyrir að sé heimilt.
- Neðanmálsgrein: 1
- 1 Hugtakið var m.a. skýrt í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta frá 25. mars 2011.
- Neðanmálsgrein: 2
- 2 Hugtak sem vísar til tilhneigingar aðila til að fjárfesta á heimamarkaði frekar en á erlendum mörkuðum. Þessi slagsíða getur haft sterk áhrif á fjárfestingarákvarðanir jafnvel þó að aukin alþjóðleg eignadreifing feli jafnan í sér meiri áhættudreifingu.
- Neðanmálsgrein: 3
- 3 Sjá International Monetary Fund, Liberalizing Capital Flows and Managing Outflows: IMF Policy Paper, 13. mars 2012, bls. 16 og 19.
- Neðanmálsgrein: 4
- 4 Nánari umfjöllun um forsögu fjármagnshafta er að finna í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt (786. mál á 144. löggjafarþingi).
- Neðanmálsgrein: 5
- 5 Nánari umfjöllun um neikvæð áhrif fjármagnshafta er að finna í almennum athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt (786. mál á 144. löggjafarþingi).
- Neðanmálsgrein: 6
- 6 Sjá markaðsupplýsingar Lánamála ríkisins, 1. tbl. 9. árg. janúar 2008.