Ferill 777. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1318  —  777. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Föstudaginn 20. maí lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum eða svokallaðar aflandskrónueignir. Frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta og var það fyrst kynnt daginn áður fyrir svokallaðri samráðsnefnd um losun hafta þar sem allir stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa, eða fimmtudaginn 19. maí, þannig að ekki er hægt að segja að nefndin hafi verið höfð með í ráðum um gerð þess.
    Það einkennir því þessa aðgerð, eins og aðrar aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í haftalosunarmálum, að samráð hefur verið lítið sem ekkert og stjórnarandstöðunni hefur verið stillt upp frammi fyrir orðnum hlut þegar kemur að því að taka afstöðu í stórum og mikilvægum málum á borð við þetta frumvarp sem snýst um meðferð svokallaðra aflandskrónueigna sem nema um 319 milljörðum kr., eða 15% af vergri landsframleiðslu. Hér ber þó að taka fram að þessi vandi var mun meiri strax eftir hrun og við innleiðingu fjármagnshafta var umfang aflandskrónueigna metið 41% af vergri landsframleiðslu. Umfang vandans hefur því minnkað mikið sem gerir eftirleikinn auðveldari því vissulega eru gild rök fyrir því að ekki sé unnt að lyfta höftum af almenningi og fyrirtækjum nema þessi vandi sé tekinn út fyrir sviga og sértækum aðgerðum beitt til að leysa hann líkt og unnið hefur verið að samkvæmt áætlun um afnám gjaldeyrishafta frá árinu 2011.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjármálastöðugleiki 2016-1, bls. 16. Útgefandi: Seðlabanki Íslands.

    Skortur á samráði í þessum málum allt þetta kjörtímabil er óviðunandi enda mikilvægt að góð pólitísk samstaða sé um svo stór og mikilvæg mál og niðurstaðan sé í þágu samfélagsins alls. Þó að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi lofað öllu fögru um störf samráðsnefndar um afnám hafta allt þetta kjörtímabil hefur það ekki verið efnt sem ber að harma. Þannig er erfitt fyrir fulltrúa stjórnarandstöðunnar að leggja mat á aðra möguleika í stöðunni á þeim skamma tíma sem gefinn er, t.d. skattlagningu á aflandskrónueignir eða aðrar mögulegar leiðir.
    Þá voru hinir sömu forsvarsmenn stóryrtir í byrjun kjörtímabils um að losun hafta mundi taka skamma stund og sögðu að ef menn horfðu á hlutina sömu augum tæki þetta ferli jafnvel ekki nema sex mánuði. Þá var því haldið fram að ekki þýddi að byggja á afnámsáætlun fyrri ríkisstjórnar því að hún hefði verið byggð á alröngum forsendum. Ekkert af þessu hefur reynst rétt. Enn eru fjármagnshöft á Íslandi og í þeirri vinnu sem unnin hefur verið hefur verið byggt á þeirri áætlun sem var birt árið 2011 allt þar til ný áætlun var birt árið 2015.
    Þá er ýmislegt í lokalausn málsins með öðrum hætti nú en áætlað var, t.d. hvað varðar tímaröð aðgerða, en upphaflega var gert ráð fyrir útboði á aflandskrónum á haustmánuðum 2015. Þrotabúin hafa því í raun sloppið úr höftum áður en til útboða kemur á aflandskrónueignum sem hugsanlega getur dregið úr þrýstingi á eigendur aflandskrónueigna.
    Staðreyndin er sú að frumvarpið mun ekki aflétta höftum af íslenskum almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum og enn liggur ekki fyrir hvenær það verður gert. Hér er hins vegar boðuð sérstök aðgerð sem mun geta þjónað þeim tilgangi að auðvelda losun hafta í framtíðinni. Tekið er undir þau sjónarmið sem birtast í nefndaráliti meiri hlutans að eðlilegt sé að beita ákveðnum takmörkunum á réttindum í þágu almannahagsmuna enda standist slíkar takmarkanir stjórnarskrá. Að afloknu boðuðu útboði á aflandskrónum verður staðan eigi að síður sú að einu aðilarnir sem losnað hafa úr höftum verða kröfuhafar föllnu bankanna og þeir eigendur aflandskrónanna sem munu nýta sér útboðið.
    Ein aðalástæða ríkisstjórnarinnar fyrir því að hafna kröfu um kosningar nú í vor var sú að aflétta þyrfti fjármagnshöftum á Íslandi og því þyrfti að ljúka fyrir kosningar. Hins vegar bendir ekkert til að því verði lokið fyrir kosningar í haust enda liggur ekki fyrir tímasett áætlun um losun hafta á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði og ljóst er að fleira þarf til svo það geti gengið eftir. Þar ber ekki síst að nefna aðgerðir gegn vaxtamunarviðskiptum þar sem í raun er að hlaðast upp nýr vandi sem nú er nærri hundrað milljörðum og getur haft veruleg áhrif á stöðugleikann. Til þess að taka á honum þarf aðgerðir, hugsanlega í formi bindiskyldu eða skattlagningar, en ljóst má vera að til þess þarf að breyta lögum og ekki verður hægt að aflétta höftum fyrr en tekið hefur verið á þessum vanda. Betur hefði farið á því að slíkar aðgerðir væru til umræðu samhliða þessu frumvarpi. Eins og staðan bíður það væntanlega nýs meiri hluta á Alþingi að ljúka afléttingu hafta.
    Þá er það stórt umhugsunarefni að ekkert er vitað um raunverulega eigendur aflandskrónueigna. Upplýst var á fundum nefndarinnar að gert yrði ráð fyrir heimildum fyrir Seðlabankann í útboðsskilmálum næsta gjaldeyrisútboðs til að afla slíkra upplýsinga með það að markmiði að geta veitt skattyfirvöldum og öðrum aðilum þær upplýsingar án þess að það hafi áhrif á útboðið sjálft. Þó að markmið stjórnvalda sé fyrst og fremst að tryggja stöðugleika og greiðslujöfnuð, þá er það umhugsunarefni að verið sé að hleypa eigendum þessara aflandseigna úr landi án þess að nokkuð sé vitað um raunverulegt eignarhald þeirra.
    Minni hlutinn tekur, eins og áður segir, undir ýmis sjónarmið í nefndaráliti meiri hlutans en telur þau rök sem hér hafa verið færð fram sýna að þessi aðgerð verður fyrst og fremst að vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Í raun eru það vonbrigði hve hægt hefur miðað í að ná aðalmarkmiðinu sem er losun hafta á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði á Íslandi sem nú hafa verið undir höftum í á áttunda ár – og munu þurfa að bíða enn.
    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi, er sammála nefndaráliti þessu.

Alþingi, 22. maí 2016.

Katrín Jakobsdóttir.