Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1344  —  397. mál.
Fyrirsögn.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum (lýðheilsusjóður).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur og Margréti Björnsdóttur frá velferðarráðuneyti, Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur og Rafn Jónsson frá embætti landlæknis, Guðrúnu Höllu Jónsdóttur frá fagráði landlæknis um áfengis- og vímuvarnir, Gyðu Haraldsdóttur frá fagráði landlæknis um geðrækt, Héðin Jónsson frá fagráði landlæknis um lifnaðarhætti, Guðlaugu Birnu Guðmundsdóttur frá fagráði landlæknis um tóbaksvarnir, Sigríði Kristínu Hrafnkelsdóttur frá Félagi lýðheilsufræðinga og Dögg Pálsdóttur og Þorbjörn Jónsson frá Læknafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá fagráði landlæknis um áfengis- og vímuvarnir, fagráði landlæknis um lifnaðarhætti, fagráði landlæknis um geðrækt, Félagi lýðheilsufræðinga, heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, Kvenfélagasambandi Íslands, embætti landlæknis, Læknafélagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að gagnsæi við ráðstöfun opinbers fjár við úthlutun styrkja til lýðheilsu- og forvarnamála. Með frumvarpinu er lagt til að í stað stjórnar lýðheilsusjóðs sé það á forræði heilbrigðisráðherra að ákveða um úthlutun styrkja úr sjóðnum að fengnum tillögum fagráða og stjórnar lýðheilsusjóðs. Þá eru lagðar til breytingar á skipan stjórnar lýðheilsusjóðs þannig að stjórnarmönnum er fækkað úr sjö í þrjá. Gagnrýni í umsögnum beinist að þeim fyrirætlunum í frumvarpinu að fækka stjórnarmönnum úr sjö í þrjá og vilja flestir umsagnaraðilar halda í óbreytt ástand. Þá kom fram það sjónarmið að draga muni úr þeirri fjölbreyttu og þverfaglegu tengingu við sjóðinn sem er í núverandi fyrirkomulagi. Einnig kom fram gagnrýni á að frumvarpið gerði ráð fyrir að ráðherra hefði forræði yfir úthlutun styrkja úr sjóðnum í stað stjórnar lýðheilsusjóðs. Nefndin ræddi þetta nokkuð en meiri hlutinn leggur ekki til breytingar á frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur þó fram að hann telur mikilvægt að stjórn lýðheilsusjóðs hafi samráð við fagráð landlæknis áður en hún leggur fram tillögu um styrkveitingu til ráðherra. Leggur meiri hluti nefndarinnar til að í reglugerð ráðherra, sem mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins, verði kveðið á um framangreint samráð stjórnarinnar við fagráðin.
    Líkt og fram hefur komið er markmið frumvarpsins að stuðla að gagnsæi við ráðstöfun opinbers fjár við úthlutun styrkja til lýðheilsu- og forvarnamála. Fram til ársins 2011 úthlutaði fjárlaganefnd Alþingis styrkjum til félaga, samtaka og einstaklinga af safnliðum fjárlaga. Þessu fyrirkomulagi var breytt við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2012 til að tryggja gagnsæja meðferð umsókna um styrki úr ríkissjóði og síðan þá hefur velferðarráðherra, nú heilbrigðisráðherra, úthlutað styrkjum, m.a. til lýðheilsu- og forvarnaverkefna. Ljóst er að þar er oft um að ræða sömu eða svipuð verkefni og lýðheilsusjóður fjallar um og er það mat meiri hluta nefndarinnar að nokkuð skorti á að það gagnsæi sem stefnt var að með breytingunum árið 2012 hafi náðst. Frumvarpi þessu er því ætlað að koma í veg fyrir að umsækjendur sömu verkefna fái bæði úthlutað styrkjum af safnliðum fjárlaga og úr lýðheilsusjóði og þar með auka gagnsæi úthlutana. Þá er leitast við að einfalda og auka skilvirkni í meðferð og afgreiðslu umsókna með því að fækka stjórnarmönnum lýðheilsusjóðs úr sjö í þrjá.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 25. maí 2016.

Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Sigríður Á. Andersen.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Unnur Brá Konráðsdóttir.