Ferill 705. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1370  —  705. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um flutning verkefna til sýslumannsembætta.


     1.      Hvernig miðar flutningi verkefna til sýslumannsembætta samkvæmt aðgerðaáætlun um flutning verkefna til embætta sýslumanna sem gerð var samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 50/2014?
    Ráðuneytið leitaði árið 2014 til þeirra stofnana sem undir það heyra og óskaði eftir tillögum um flutning verkefna til embætta sýslumanna. Engar tillögur eða ábendingar komu fram um flutning verkefna á þeim tíma, sem þótti hagkvæmt eða fært að flytja til sýslumannsembætta.

     2.      Telur ráðherra unnt að flytja önnur verkefni er heyra undir hann til sýslumannsembætta en þau sem tiltekin eru í fyrrgreindri aðgerðaáætlun?
    Ráðuneytið og stofnanir þess hafa á undanförnum árum hagrætt verkefnum með tilflutningi og/eða breyttu verklagi, m.a. til sýslumannsembætta. Matvælastofnun gerði árið 2014 samning við sýslumannsembættið á Blönduósi um innheimtu stjórnsýslu- og dagsekta sem stofnunin ákvarðar. Innheimta á öðrum gjöldum stofnunarinnar hafði fram að því verið hjá sýslumanninum á Selfossi.

     3.      Hvaða aðferðum er beitt við ákvörðun um að flytja verkefni til sýslumannsembættis og hvað kemur einkum í veg fyrir flutning?
    Ráðuneytið og stofnanir þess fóru yfir verkefni sem þau sinna til að kanna hvort einhver þeirra féllu vel eða betur að starfsemi sýslumanna en starfsemi ráðuneytisins eða stofnana þess. Ljóst er að kostnaður og skipting fjárveitinga getur haft þýðingu við úrlausn þessara mála. Til skemmri tíma er í mörgum tilvikum kostnaðarminna að nýta eigin starfsmenn til að sinna verkefnum hjá ráðuneyti eða stofnun í stað þess að flytja þau til sýslumanna með fjárveitingu. Þegar um er að ræða ný verkefni hafa þau oft á tíðum í för með sér viðbótarkostnað sem oft er mætt hjá ráðuneyti og stofnun án þess að viðbótarfjárveiting fylgi. Sýslumannsembættin eru eðlilega ekki tilbúin til að taka við slíkum verkefnum frá ráðuneytum nema fjárveiting fylgi með.
    Ráðuneytið og stofnanir þess munu áfram leita leiða til að flytja heppileg verkefni til sýslumannsembætta.