Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1372 —  667. mál.
Breyttur texti. Fylgiskjal

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (tryggingagjald, samsköttun milli skattþrepa o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt S. Benediktsson, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Hlyn Ingason og Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurjón Högnason frá KPMG ehf., Karl Alvarsson frá Isavia ohf., Þorgerði Þráinsdóttur frá Fríhöfninni ehf., Ívar J. Arndal frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Bjarna Má Gylfason frá Samtökum iðnaðarins, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Björn Brynjúlf Björnsson frá Viðskiptaráði Íslands og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Umsagnir bárust frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Félagi atvinnurekenda, Isavia ohf., KPMG ehf., ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.

Meginefni frumvarpsins.
    Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar er nokkuð mismunandi eftir því hvaða breytingartillögur er um að ræða eins og ítarlega er rakið í athugasemdum með frumvarpinu. M.a. er lagt til að almennt tryggingagjald verði lækkað um 0,5 prósentustig frá 1. júlí 2016. Tekjur ríkissjóðs vegna sex mánaða, þ.e. frá gildistöku 1. júlí til loka árs 2016, lækka um 3 milljarða kr. eða 6 milljarða kr. árlega. Þá er lagt til að fellt verði brott óvirkt ákvæði tekjuskattslaga er kveður á um að sé verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði breytt í hlutafélag skuli það ekki hafa í för með sér skattalegar afleiðingar. Einnig er lagt til að fallið verði frá áformum um að heimila hjónum og sambýlisfólki samsköttun milli tveggja skattþrepa frá 1. janúar 2017. Lagt er til að tekinn verði af allur vafi um skyldu rekstraraðila til þess að leggja fram með skattframtali sínu ársreikning, sem felur í sér rekstrar- og efnahagsreikning ásamt sundurliðunum og skýringum. Lagðar eru til breytingar á virðisaukaskattslögum vegna lagaskila og hugsanlegrar afturvirkni breytingar sem gerð var á undanþágu fólksflutninga frá virðisaukaskatti. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði virðisaukaskattslaga tollskrárnúmerunum 2203.0091–2203.0099, sem ná yfir bjór, til að styrkja og skýra lagagrundvöll. Lagt er til að gjalddagi ógreidds fjársýsluskatts og fjársýsluskatts utan staðgreiðslu verði 1. nóvember ár hvert og eindagi mánuði síðar. Fram kemur að lagt er til að kveðið verði skýrar á um afmörkun og aðgengi að komuverslunum hvað sölu á vörum varðar. Loks er lögð til einföldun á viðmiðum um gjaldfrjálsan innflutning ferðamanna, skipverja og flugverja á áfengi.

Tillögur að breytingum við frumvarpið.
    Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust voru gerðar nokkrar athugasemdir sem nefndin fór yfir á fundum með fulltrúum umsagnaraðila og ráðuneytis. Í ljósi umsagna og vinnu nefndarinnar eru lagðar til nokkrar breytingar á frumvarpinu.

Fækkun skattþrepa í tekjuskatti einstaklinga – tekjuskattur samskattaðs fólks.
    Í 3. og 5. gr. frumvarpsins er lagt til að með brottfalli miðþreps tekjuskatts einstaklinga, 1. janúar 2017, verði fallið frá þeim áformum að heimila samsköttun milli hjóna og sambýlisfólks skv. 67. gr. tekjuskattslaga. Meiri hlutinn vekur athygli á því að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við 2. mál á þingskjali 2, sem afgreitt var fyrr á 145. löggjafarþingi, lagði meiri hluti nefndarinnar til að þessi heimild um samsköttun milli hjóna yrði ekki felld brott og er mat meiri hlutans að ekki hafi komið fram nein ný sjónarmið eða rökstuðningur hvað þetta varðar sem breyti afstöðu meiri hlutans.
    Afstaða meiri hlutans er að mikilvægt sé að þessi heimild haldist inni og telur að þau sjónarmið sem bent hafi verið á vegi ekki eins þungt og þeir hagsmunir einstaklinga sem þarna búa að baki. Nefndin telur rétt að áfram verði heimilt að flytja ófyllt skattþrep þess hjóna sem lægri hefur tekjurnar til þess sem hærri tekjur hefur og leggur því til að 3. gr. og 5. gr. frumvarpsins falli niður.

Sala á áfengi í tollfrjálsum verslunum.
    Því hefur verið haldið fram í almennri umræðu að þar sem kveðið hafi verið á um það skýrum orðum í 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, sbr. 7. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi einkaleyfi til smásölu áfengis þá geti tollfrjálsum verslunum ekki verð heimil slík sala. Fram kemur í minnisblaði, sem nefndinni barst frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og dagsett er 11. maí 2016, greinargóður rökstuðningur fyrir því að slík sala er án vafa heimil samkvæmt núgildandi lögum. Meiri hlutinn telur þó rétt að taka af öll tvímæli þess efnis og leggur til breytingartillögu í þeim tilgangi við 9. gr. frumvarpsins.

Um skilgreiningu á öli, síderum og gosblöndum.
    Í umsögn kom fram að ákveðið ósamræmi væri á milli skilgreininga á öli í 3. tölul. d-liðar 10. gr. frumvarpsins að teknu tilliti til sérstakra skýringa við frumvarpsgreinina í athugasemdakafla frumvarpsins. Að mati meiri hlutans er athugasemdin rétt og er lögð til breyting á töluliðnum.
    Þá var vakin athygli nefndarinnar á því að rétt væri að gera breytingu á d-lið 10. gr. frumvarpsins á þann veg að þar yrði svokölluðum síderum og gosblöndum bætt við skilgreiningu á einingu áfengis sem ferðamönnum, skipverjum og flugverjum verður heimilað að hafa meðferðis til landsins án þess að skylda til greiðslu áfengisgjalds yrði virk. Er tillagan rökstudd með þeim hætti að mikil eftirspurn sé eftir slíkri vöru í fríhöfninni og mismunandi sé hvar slíkar blöndur eru flokkaðar í dag. Telur meiri hlutinn rétt að bregðast við þessum sjónarmiðum og gerir breytingartillögu þess efnis.

Skattskyldusvið ferðaþjónustuaðila.
    Með lögum nr. 124/2014 var starfsemi ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga gerð skattskyld frá og með 1. janúar 2016. Með lögunum var ákvæði 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, er laut að undanþágu ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda frá virðisaukaskatti vegna ,,milligöngu“ um ferðaþjónustu, fellt brott. Jafnframt var lagt til að kveðið yrði á um í 11. gr. laga um virðisaukaskatt að ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og ferðafélög, jafnt innlend sem erlend, væru skattskyld hér á landi vegna kaupa ferðamanns á vörum og þjónustu á Íslandi. Í ljós hefur komið að ekki er einhugur um túlkun á gildissviði ákvæðisins. Ástæðan er fyrst og fremst sú að orðalag ákvæðisins, og þá sérstaklega lokamálsliður þess ,,að því leyti sem hún varðar sölu á vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir á Íslandi“, hefur verið túlkað á þann hátt að öllum erlendum ferðaþjónustuaðilum, sem ekki eru með skattalega heimilisfesti hér á landi og selja t.d. svokallaða ,,ferðapakka“, sem innihalda undirliggjandi þjónustuþætti, til ferðamanns sem nýtir þjónustuna endanlega hér á landi, beri að skrá sig á grunnskrá virðisaukaskatts og skila virðisaukaskatti af sölunni í ríkissjóð. Ljóst er að í framkvæmd er slík skýring á ákvæðinu ótæk út frá möguleikum íslenskra skattyfirvalda til eftirlits sem og þeim kvöðum um skráningar- og skattskyldu sem hvíla þá á erlendum ferðaþjónustuaðilum með heimilisfesti erlendis. Vegna þessara sjónarmiða, sem ítarlega eru rakin í minnisblaði sem nefndinni barst frá fjármála- og efnahagsráðuneyti 14. apríl 2016, leggur nefndin til að ákvæði 4. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verði fellt brott og að skattskyldusvið ferðaþjónustuaðila jafnt innlendra og erlendra með skattaleg heimilisfesti hér á landi verði afmarkað út frá gildissviði meginreglu 1. gr. laga um virðisaukaskatt.
    Í tengslum við tillögu um breytingu á lögum um tryggingagjald sbr. 1. gr. frumvarpsins telur meiri hlutinn mikilvægt að árétta að lækkun tryggingagjalds hafi ekki áhrif á fjárframlög til fæðingarorlofssjóðs eða boðuð áform um breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins til hagsbóta fyrir bótaþega.
    Loks eru lagðar til tvær breytingar á gildistökuákvæði. Felld er brott 4. mgr. um gildistöku 3. og 5. gr. og lagt er til að 1. gr. um lækkun tryggingagjalds öðlist gildi og komi til framkvæmda 1. júlí 2016.
    Vilhjálmur Bjarnason og Sigríður Á. Andersen rita undir álit þetta samkvæmt heimild 4. mgr. 18. gr. um starfsreglur fastanefnda Alþingis.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 27. maí 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Willum Þór Þórsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Guðmundur Steingrímsson. Vilhjálmur Bjarnason.
Sigríður Á. Andersen.


Fylgiskjal.


Minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
(14. apríl 2016.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.