Ferill 763. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1387  —  763. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

Frá fjárlaganefnd.


    Frumvarpið gekk til fjárlaganefndar 18. maí sl. Starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins kynnti frumvarpið, aðdraganda þess og svaraði spurningum nefndarmanna á fundi 20. maí.
    Áður en frumvarpið var lagt fram á Alþingi hafði nefndin fjallað ítarlega um úrbætur á samgöngum til Vestmannaeyja. Á fund nefndarinnar komu gestir frá innanríkisráðuneyti, smíðanefnd nýs Herjólfs, Vestmannaeyjabæ, Ríkiskaupum og Eimskip hf. Nefndin hélt einnig sérstaka fundi um Landeyjahöfn og tengsl hafnarinnar við smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju.
    Tilgangur frumvarpsins er að bæta samgöngur milli lands og eyja en allt frá byggingu Landeyjahafnar árið 2008 var gert ráð fyrir að nýja ferju þyrfti til þess að höfnin nýttist sem best. Smíði slíkrar ferju var boðin út árið 2008 en vegna erfiðrar stöðu ríkisfjármála í kjölfar hruns bankakerfisins var ákveðið að hafna öllum tilboðum og nota Herjólf áfram. Þrátt fyrir þá niðurstöðu hafa samgönguyfirvöld unnið áfram að málinu. Markmið frumvarpsins er að ný ferja bæti verulega þjónustu við Vestmannaeyjar með tíðari siglingum milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Öruggari og tíðari siglingar hafa mikla þýðingu fyrir íbúa í Vestmannaeyjum og atvinnulíf, ekki síst ferðaþjónustu. Eftir að siglingar hófust til Landeyjahafnar hefur farþegafjöldi aukist úr um 130 þúsund farþegum á ári í um 300 þúsund farþega sl. ár. Þessi aukning hefur orðið þrátt fyrir að siglingar í Landeyjahöfn hafi legið niðri í marga mánuði yfir vetrartímann.
    Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og þar er gert ráð fyrir fjármögnun ferjunnar og miðað við undirritun samnings um smíði ferjunnar og greiðslur í byrjun næsta árs. Ekki er því þörf á sérstökum heimildum vegna yfirstandandi árs. Ef frumvarpið verður samþykkt má gera ráð fyrir að útboð verði auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu í sumar, opnað fyrir tilboð í haust og fyrri hluti næsta vetrar verði nýttur til þess að velja á milli skipasmíðastöðva og ganga til samninga. Smíðin sjálf er talin taka um 18 mánuði.
    Leiga hefur verið könnuð á notuðu skipi í stað Herjólfs en ekkert skip sem hentar til siglinga í Landeyjahöfn hefur fundist á viðunandi verði. Í útboðinu verður heimilt að velja milli þeirra kosta að gera þjónustusamning um smíði og rekstur skips til allt að 12 ára eða semja um smíði skips fyrir allt að 4,8 milljarða kr. miðað við verðlag í árslok 2015. Vegagerðinni verður heimilt að ganga fyrir hönd ríkissjóðs að hagkvæmasta tilboðinu, enda liggi fyrir fullnægjandi fjárheimildir til verksins eða tryggt að samningur sé með fyrirvara þar um. Gert er ráð fyrir að við lok 12 ára samningstíma eignist ríkissjóður skipið á hrakvirði sem nemi um 36% af væntu kaupvirði. Herjólfur er eign ríkisins en Eimskip hf. hefur séð um reksturinn sl. ár. Þegar ný ferja verður tekin í notkun mun söluandvirði Herjólfs renna í ríkissjóð.
    Vinna nefndarinnar hefur beinst að því annars vegar að kanna hvort fullnægjandi undirbúningur liggi fyrir og hins vegar að skilgreina ávinning af framkvæmdinni. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
          Nú þegar liggur fyrir hönnun ferju sem miðast við aðstæður í Landeyjahöfn, m.a. því að nýtt skip risti grynnra en Herjólfur. Ferjan mun rista um 2,8 metra í stað 4,3 metra. Það er lykilatriði til þess að draga úr frátöfum og fjölga ferðum til Landeyjahafnar í stað Þorlákshafnar. Engu að síður mun sigling til Þorlákshafnar taka nánast jafnlangan tíma og með Herjólfi nú.
          Nýtt skip verður mun hagkvæmara í rekstri. Olíukostnaður lækkar vegna hagkvæmari vélabúnaðar og búist er við hlutfallslega fleiri ferðum til Landeyjahafnar, sem taka rúmlega tveimur klukkustundum styttri tíma en til Þorlákshafnar. Í heild gæti rekstrarkostnaður lækkað um 200 millj. kr. á ári.
          Rekstrarkostnaður Landeyjahafnar lækkar einnig en meiri óvissa er um hve mikið það verður. Ljóst er þó að dýpkunarkostnaður ætti að lækka um a.m.k. 50 millj. kr. á ári.
          Öryggi eykst til muna því að ný ferja verður umhverfisvæn tvinnferja með rafmagnsmótorum sem ganga fyrir ljósavélum. Einnig verða rafhlöður en þær hafa að vísu takmarkaða hleðslu. Rafvélar svara stjórntækjum hraðar og bæta stjórnhæfni ferjunnar sem eykur sérstaklega öryggi innsiglingarinnar í Landeyjahöfn. Auk þess verða uppfylltar öryggisreglur sem kveða á um að farþegarými sé ekki fyrir neðan bíladekk eins og nú er.
          Þjónusta við Vestmannaeyjar batnar. Miðað er við að ferðum fjölgi um tvær á viku yfir sumartímann auk þess sem gert er ráð fyrir að sumartímabilið verði lengt um einn mánuð. Útboðsgögnin miða við 69 metra langa ferju sem getur flutt 540 farþega. Ferjan verður álíka stór og Herjólfur en getur tekið allt að 20 fleiri bíla í hverri ferð.
          Að áliti nefndarinnar hefur undirbúningur verið vandaður og viðunandi. Óháðir erlendir aðilar í Hollandi og Þýskalandi hafa yfirfarið athugasemdir Vegagerðarinnar sem snúa að mestu leyti um hvernig nýju ferjunni gangi að sigla inn í Landeyjahöfn miðað til tiltekna dýpkun hafnarinnar sökum sandburðar. Hermilíkön hafa verið notuð bæði hérlendis og erlendis til þess að hanna ferjuna sem best fyrir Landeyjahöfn. Þá hefur ráðgjafarfyrirtæki fjallað um valkosti við fjármögnun og rekstur nýrrar ferju. Sérstök smíðanefnd á vegum innanríkisráðuneytis hefur haldið utan um verkþætti undirbúningsvinnunnar og leitaði hún til margra sérfræðinga og hafði samráð við aðila sem koma að málinu, svo sem fulltrúa Vestmannaeyjabæjar og Eimskips hf.
    Nefndin bendir á að margvísleg óvissa er samt sem áður bundin nokkrum atriðum sem hér hafa verið reifuð. Sérstaklega er erfitt að spá fyrir um hve mikið þarf að dýpka í Landeyjahöfn. Nú þarf að vera 7 metra dýpi fyrir Herjólf en 5 metrar eru áætlaðir fyrir nýja ferju. Önnur atriði sem nefndin yfirfór snúa að höfninni, svo sem möguleikum á landföstum dýpkunarbúnaði frekar en hönnun ferjunnar og tengjast því ekki frumvarpinu beint. Þar sem svo margir óvissuþættir tengjast siglingu nýrrar ferju til Landeyjahafnar telur nefndin að ekki eigi að selja Herjólf fyrr en reynsla verði komin á nýja ferju.
    Einnig kom fram að margar skipasmíðastöðvar eru verkefnalitlar þessi missirin þar sem dregið hefur úr smíði fyrir olíuiðnaðinn. Því ættu að vera ágætir möguleikar á hagstæðum samningum um nýsmíði ferju.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Einar Daðason og Oddný G. Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. maí 2016.

Vigdís Hauksdóttir,
form.
Guðlaugur Þór Þórðarson,
frsm.
Ásmundur Einar Daðason.
Haraldur Benediktsson. Oddný G. Harðardóttir. Páll Jóhann Pálsson.
Unnur Brá Konráðsdóttir.