Ferill 786. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1399  —  786. mál.
Texti felldur brott.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (byggðakvóti og framlenging bráðabirgðaákvæða).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur P. Erlingsson, Hinrik Greipsson og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða í lögum um stjórn fiskveiða um aflamark Byggðastofnunar verði lögfest í 10. gr. a, auk þess sem lagt er til að ýmis ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði felld brott, lagfærð eða framlengd.
    Nefndin leggur til nokkrar viðbætur við frumvarpið.
    Í fyrsta lagi er lagt til með nýrri 10. gr. a laganna verði frumvarpið að lögum að langa, keila og gullkarfi bætist við þær tegundir sem falla undir aflamark Byggðastofnunar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lögin. Einnig er lagt til að framangreindar tegundir bætist við upptalningu tegunda skv. 1. og 2. málsl. 8. mgr. 11. gr. laganna um línuívilnun dagróðrabáta. Sömuleiðis leggur nefndin til að ýsa, steinbítur, langa, keila og gullkarfi bætist við upptalningu í 5. málsl. sömu greinar þar sem í gildandi lögum er kveðið á um að línuívilnun í þorski skuli á hverju fiskveiðiári takmarkast við magn í óslægðum botnfiski sem ráðherra ákveður með heimild í 5. mgr. 8. gr. laganna.
    Í öðru lagi er lagt til að við frumvarpið bætist ný grein þess efnis að 4. mgr. 8. gr. laganna falli brott en samkvæmt greininni er handhafa aflahlutdeildar heimilt að endurheimta það aflamagn (5,3%) sem dregið er frá heildarafla í hverri tegund fyrir úthlutun aflamarks, sbr. 3. og 5. mgr. 8. gr. laganna. Hlutdeildarhafi getur látið frá sér þorsk, ýsu, ufsa eða steinbít í skiptum fyrir tiltekið magn annarrar tegundar sem tekin var af aflamarki viðkomandi skips og hlutdeildarhafi vill nýta. Hlutdeildarhafi hefur slíka heimild í upphafi hvers fiskveiðiárs, eða þegar úthlutun á sér stað, í tiltekinn stuttan tíma, en ef heimildin er ekki nýtt fer umrætt magn á tilboðsmarkað Fiskistofu þar sem því er skipt fyrir aðra tegund eftir reglum þar um. Ástæða þess að nefndin leggur til að greinin falli brott er sú að þeir hlutdeildarhafar sem ekki hafa yfir að ráða nægjanlegum aflaheimildum í þorski, ýsu, ufsa og steinbít hafa ekki sömu tækifæri til að endurheimta það aflamagn sem dregið var frá þeirra aflaheimildum og þeir sem eru aflögufærir með aflaheimildir í þessum tegundum. Ákvæðið nýtist einungis hluta hlutdeildarhafa og felur þannig í sér ójafnræði milli hlutdeildarhafa. Að auki felur framkvæmd ákvæðisins í sér að magn tiltekinna tegunda á tilboðsmarkaði Fiskistofu verður minna en ella. Þetta getur þýtt að tegundir sem boðnar eru upp á markaði Fiskistofu verði færri en ef ákvæðisins nyti ekki við. Ákvæðið vinnur þannig gegn fjölbreyttu framboði tegunda á skiptimarkaði Fiskistofu.
    Í þriðja lagi leggur nefndin til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að ráðherra verði heimilt að draga allt að 5,3% frá leyfilegum heildarafla í makríl vegna makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2017 og verður honum því heimilt að ráðstafa því aflamagni til aðgerða sem tilgreindar eru í 5. mgr. 8. gr. laganna.
    Björt Ólafsdóttir og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi tvær nýjar greinar er orðist svo:
                  a.      (1. gr.)
                      4. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.
                  b.      (2. gr.)
                      1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Aflaheimildir samkvæmt þessari grein skulu dregnar frá leyfðum heildarafla þessara tegunda áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeilda.
     2.      Í stað orðanna „þorski, ýsu, steinbít og ufsa“ í 4. efnismálsl. 1. gr. komi: þorski, ýsu, steinbít, ufsa, löngu, keilu og gullkarfa.
     3.      Á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 8. mgr. 11. gr. laganna:
             a.    Í stað orðanna „þorski, ýsu og steinbít“ í 1. og 2. málsl. kemur: þorski, ýsu, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa.
             b.    Í stað orðanna „Línuívilnun í þorski“ í 5. málsl. kemur: Línuívilnun í þorski, ýsu, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa.
     4.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Ráðherra er heimilt að draga allt að 5,3% frá viðmiðun leyfilegs heildarafla í makríl vegna makrílveiða íslenskra skipa árið 2017 og ráðstafa til aðgerða sem tilgreindar eru í 5. mgr. 8. gr. laganna á fiskveiðiárinu 2016/2017. Ráðherra er heimilt að skipta þessu aflamagni makríls í aðrar tegundir til að leitast við að tryggja tegundasamsetningu aflamagns í samræmi við 6. mgr. 8. gr.

Alþingi, 31. maí 2016.

Jón Gunnarsson,
form., frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson.
Þórunn Egilsdóttir.