Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1423  —  456. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum (einföldun og innleiðing ársreikningatilskipunar 2013/34/ESB).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


     1.      Við 2. gr.
                  a.      Orðið „fjárfestingarfélaga“ í 5. tölul. falli brott.
                  b.      Í stað orðanna „niðurstöðutölu efnahagsreiknings“ í 1. tölul. a–d-liðar 10. tölul. komi: heildareignir.
                  c.      Í stað orðsins „og“ í 11. tölul. komi: eða.
                  d.      Í stað orðanna „Fjáreignir tilgreindar á gangvirði í rekstrarreikningi“ í 13. tölul. komi: Fjáreignir tilgreindar á gangvirði gegnum rekstur við upphaflega skráningu.
                  e.      Orðið „einungis“ í a-lið og orðin „með fyrirvara um h-lið 1. mgr. 22. gr. í tilskipun 2012/30/ESB“ í b-lið 15. tölul. falli brott.
                  f.      Í stað orðanna „Félag sem annað félag á hlutdeild í“ í 1. málsl. 21. tölul. komi: Félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag á hlutdeild í.
                  g.      Á eftir orðinu „Langtímakröfur“ tvívegis í 24. tölul. komi: og áhættufjármunir.
                  h.      1. mgr. 28. tölul. orðast svo: Móðurfélag: Félag sem hefur yfirráð í öðru félagi.
                  i.      2. mgr. 32. tölul. orðist svo:
                      Flokkun samstæðu skal ekki breytast nema samstæða annaðhvort fari yfir eða hætti að fara yfir viðmiðunarmörk viðkomandi og síðastliðins reikningsárs.
                  j.      Á eftir orðunum „Breytingar á verðgildi einstakra eigna“ í 43. tölul. komi: eða skuldbindinga.
                  k.      Við bætist fjórir nýir stafliðir í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
                      1.      Eign: Fjármunur sem félag hefur yfirráð yfir á grundvelli viðskipta eða í tengslum við atburði sem hafa átt sér stað og sem talið er að félagið muni hafa fjárhagslegan ávinning af í framtíðinni.
                      2.      Skuld: Núverandi skuldbinding félags sem hefur orðið til vegna viðskipta eða atburða sem hafa átt sér stað og gert er ráð fyrir að uppgjör skuldarinnar muni hafa í för með sér útstreymi verðmæta sem fela í sér fjárhagslegan ávinning.
                      3.      Tekjur: Aukning eigna eða lækkun skulda á yfirstandandi reikningstímabili vegna afhendingar á vörum eða þjónustu eða vegna annarra starfsemi félags, annarra en þeirra sem stafa af framlögum eigenda félagsins í hlutverki þeirra sem eigendur félagsins.
                      4.      Útgjöld: Lækkun eigna eða hækkun skulda á yfirstandandi reikningstímabili vegna móttöku á vörum eða þjónustu eða vegna annarrar starfsemi eða atburða í rekstri félags, annarra en þeirra sem stafa af úttektum eigenda í hlutverki þeirra sem eigendur félagsins.
     2.      Við 3. gr.
                  a.      Efnismálsgreinar d-liðar orðist svo:
                      Í stað ársreiknings skv. 1. mgr. er örfélögum heimilt að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit, byggð á skattframtali félagsins. Teljast slík rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit gefa glögga mynd af afkomu og efnahag félagsins í skilningi 19. tölul. 2. gr. Ársreikningaskrá skal gera örfélögum kleift, við rafræn skil til skrárinnar, að nota innsendar upplýsingar til ríkisskattstjóra til að semja rekstraryfirlitið og efnahagsyfirlitið. Ekki er skylt að skoðunarmaður yfirfari slík reikningsyfirlit. Ráðherra setur reglugerð um framsetningu rekstraryfirlits og efnahagsyfirlits og önnur atriði skv. 1. málsl. við beitingu 3. málsl.
                      Undanþáguheimild skv. 7. mgr. gildir ekki fyrir:
                      a.      félög sem falla undir skilgreiningu laga þessara á einingum tengdum almannahagsmunum,
                      b.      önnur félög en fram koma í a-lið og falla undir ákvæði 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
                      c.      félög sem falla undir skilgreiningu laga þessara á fjárfestingarfélögum,
                      d.      félög sem falla undir skilgreiningu laga þessara á eignarhaldsfélögum,
                      e.      félög sem nýta sér undanþáguheimildir IV. kafla frá beitingu kostnaðarverðsreikningsskila.
                      Félag sem nýtir sér heimild skv. 7. mgr. til að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit byggð á skattframtali félagsins skal, ef við á, upplýsa um eftirfarandi:
                      a.      skuldbindingar, ábyrgðir og ábyrgðarskuldbindingar sem ekki koma fram í efnahagsreikningi,
                      b.      fyrirframgreiðslur og lánveitingar til stjórnenda og eigenda félagsins, þ.m.t. upplýsingar um vaxtakjör, skilmála, endurgreiðslur stjórnenda og eigenda og niðurfellingar á skuldum stjórnenda og eigenda í heild eða hluta og
                      c.      nafnverð hluta sem félag á í sjálfu sér og hlutfall þeirra af heildarhlutafé; hafi félag eignast hlut í sjálfu sér á árinu skal það upplýsa um ástæður kaupanna, heildarfjölda keyptra hluta á árinu, hlutfall þeirra af heildarhlutafé, nafnverð hlutanna og kaupverð þeirra og hafi félag selt hlut í sjálfu sér á árinu skal það upplýsa um heildarfjölda seldra hluta og söluverð þeirra.
     3.      Í stað orðanna „vera á íslensku eða ensku“ í 6. gr. komi: ávallt vera á íslensku en að auki á ensku ef þörf krefur.
     4.      7. tölul. 8. gr. orðist svo: Óheimilt er að jafna út eignir á móti skuldum eða tekjur á móti gjöldum nema slíkt sé sérstaklega heimilað í öðrum greinum laga þessara eða slík jöfnun sé í samræmi við settar reikningsskilareglur.
     5.      Lokamálsliður a-liðar 17. gr. orðist svo: Ávallt skal afskrifa viðskiptavild á 10 árum og einnig skal afskrifa þróunarkostnað á 10 árum ef ekki er hægt að skilgreina nýtingartíma hans.
     6.      B-liður 23. gr. falli brott.
     7.      Í stað orðanna „fjáreign á gangvirði í rekstrarreikningi“ í a-lið 24. gr. komi: fjáreign á gangvirði í gegnum rekstrarreikning.
     8.      Síðari málsliður a-liðar 25. gr. orðist svo: Færa skal sömu fjárhæð vegna matsbreytingar á fjáreignum tilgreindum á gangvirði við upphaflega skráningu af óráðstöfuðu eigin fé á gangvirðisreikning á meðal eigin fjár sem óheimilt er að úthluta arði af að teknu tilliti til skattáhrifa eftir því sem við á.
     9.      Við 30. gr.
                  a.      Í stað orðanna „eða óefnislegar eignir eru endurmetnar“ í 1. málsl. komi: eru endurmetnir.
                  b.      Í stað orðsins „fastafjármuna“ í 1. og 2. tölul. komi: varanlegra rekstrarfjármuna.
     10.      Við 33. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við 56. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Félög skv. 8. tölul. og c- og d-lið 10. tölul. 2. gr. skulu upplýsa um heildarfjárhæð þóknana til hvers endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis vegna endurskoðunar á ársreikningi og samstæðureikningi. Félög skv. 1. málsl. skulu einnig upplýsa um heildarfjárhæðir þóknana til hvers endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis vegna annarrar vinnu, þ.m.t. vinnu við aðstoð vegna skattskila fyrirtækisins og rekstrarráðgjafar.
     11.      48. gr. orðist svo:
                 3. mgr. 74. gr. laganna orðast svo:
                 Hlutdeild minni hluta í eigin fé dótturfélaga skal færð sem sérstakur liður á meðal eigin fjár. Í rekstrarreikningi skal sýna skiptingu á hagnaði milli eigenda móðurfélags annars vegar og minnihlutaeigenda í dótturfélögum hins vegar.
     12.      Á eftir 56. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Í stað orðanna „sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr.“ í 1. mgr. 95. gr. laganna komi: sbr. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr.
     13.      69. gr. orðist svo:
                 118. gr. laganna orðist svo:
                 Ráðherra skal skipa fimm sérfróða menn til fjögurra ára í senn í nefnd sem nefnist reikningsskilaráð. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda, annar af samstarfsnefnd háskólastigsins, þriðji af Viðskiptaráði Íslands, fjórði af ársreikningaskrá en einn nefndarmaður skal skipaður án tilnefningar. Ráðherra skipar formann reikningsskilaráðs úr hópi nefndarmanna.
     14.      Við 70. gr.
                  a.      Fyrirsögn a-liðar (120. gr.) orðist svo: Stjórnvaldssektir vegna skila á ársreikningi.
                  b.      Lokamálsliður 5. mgr. a-liðar (120. gr.) orðist svo: Ákvörðun ársreikningaskrár um álagningu sektar skv. 3. mgr. er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.
                  c.      Á eftir fyrri málslið 1. mgr. b-liðar (121. gr.) komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ef ákvörðun ársreikningaskrár, um að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi hafi ekki verið fullnægjandi, er kærð til yfirskattanefndar skal miða upphaf frestsins við það tímamark þegar niðurstaða yfirskattanefndar liggur fyrir.
                  d.      Í stað orðanna „sektum eða fangelsi allt að sex árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum“ í 1. málsl. c-liðar (122. gr.) komi: viðurlögum skv. 124. gr.
                  e.      Á eftir 3. tölul. c-liðar (122. gr.) komi 12 nýir töluliðir, svohljóðandi:
                      4.      11. gr. um grunnforsendur ársreiknings.
                      5.      14. gr. um efnahagsreikning.
                      6.      16. gr. um eignfærslu þróunarkostnaðar og óefnislegra réttinda.
                      7.      17. gr. um færslu kostnaðar við stofnun félags eða hækkun hlutafjár.
                      8.      18. gr. um afföll og lántökukostnað af seldum eða keyptum verðbréfum.
                      9.      20. gr. um tekjur og gjöld reikningsárs.
                      10.      22. gr. um tekjur og gjöld sem tengjast ekki reglulegri starfsemi.
                      11.      23. gr. um varanlega rekstrarfjármuni sem nýtast takmarkaðan tíma.
                      12.      26. gr. um gjöld sem stofnað er til á reikningsárinu en varða síðari reikningsár.
                      13.      28. gr. um sjóðstreymi.
                      14.      29.–42. gr. um matsreglur.
                      15.      43. gr. um skýringar í ársreikningi.
                  f.      Á eftir 8. tölul. c-liðar (122. gr.) komi nýr töluliður, svohljóðandi:
                      21.      67. gr. um skyldu til að semja samstæðureiknings.
                  g.      Á eftir 9. tölul. c-liðar (122. gr.) komi fimm nýir töluliðir, svohljóðandi:
                      23.      74. gr. um eignarhluti í dótturfélögum.
                      24.      75. gr. um aðferðir við mat á eignum og skuldum samstæðu.
                      25.      77. gr. um samstæðureikning.
                      26.      79. gr. um kaupaðferð við stofnun samstæðu.
                      27.      82.–84. gr. um skýringar með samstæðureikningi.
                  h.      Á eftir 10. tölul. c-liðar (122. gr.) komi nýr töluliður, svohljóðandi:
                      29.      86. gr. um reikningsskil við samruna og skiptingu.
                  i.      Á eftir 22. tölul. c-liðar (122. gr.) komi nýr töluliður, svohljóðandi: 105. gr. um ábendingar og athugasemdir endurskoðanda eða skoðunarmanns.
                  j.      Á eftir c-lið (122. gr.) komi nýr stafliður, svohljóðandi: (123. gr.)
                      Endurskoðendur eða skoðunarmenn gerast sekir um refsiverð brot gegn lögum þessum með athöfnum eða athafnaleysi því sem hér greinir:
                      1.      Ef þeir taka að sér að framkvæma endurskoðun eða yfirferð ársreiknings án þess að uppfylla hæfisskilyrði laganna.
                      2.      Ef þeir haga störfum sínum andstætt ákvæðum laga þessara eða í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju.
                      3.      Ef þeir með áritun eða undirritun sinni gefa rangar eða villandi upplýsingar eða láta hjá líða að geta um mikilsverð atriði er snerta rekstrarafkomu eða efnahag félagsins.
                  k.      1. mgr. d-liðar (123. gr., verður 124. gr.) orðist svo:
                      Hver sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara á þann hátt sem lýst er í 122. og 123. gr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum, enda liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Alvarleg brot gegn 122. og 123. gr. varða refsingu skv. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eða fésektum ef málsbætur eru miklar.
                  l.      Við d-lið (123. gr.) bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Gera má lögaðila fésekt fyrir brot gegn lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk þeirrar refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.
                  m.      Í stað 1. mgr. e-liðar (124. gr.) komi tvær málsgreinar, svohljóðandi:
                      Héraðssaksóknari fer með rannsókn alvarlegra brota á lögum þessum. Teljist brot ekki svo alvarleg að varði við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga fer skattrannsóknarstjóri ríkisins með rannsóknir vegna brota á lögunum. Skattrannsóknarstjóri getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli til rannsóknar lögreglu af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunautar ef hann vill ekki hlíta því að málið verði fengið yfirskattanefnd til úrlausnar.
                      Yfirskattanefnd úrskurðar sektir vegna brota á lögum þessum, annarra en brota gegn 120. gr., nema brot sæti rannsókn og dómsmeðferð héraðssaksóknara skv. 1. mgr. Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli til héraðssaksóknara af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunautar ef hann vill ekki hlíta því að málið verði fengið yfirskattanefnd til úrlausnar.
                  n.      Á eftir orðunum „á vegum héraðssaksóknara“ í 2. mgr. e-liðar (124. gr.) komi: eða skattrannsóknarstjóra ríkisins.
     15.      73. gr orðist svo:
                 Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2016 eða síðar nema ákvæði 55. gr og d-liðar 64. gr. sem koma þegar til framkvæmda.