Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1426  —  425. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um tölvutækt snið þingmála.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sævar Guðmundsson og Einar Björgvin Sigurbergsson frá Fons Juris ehf., Hrafn Sveinbjarnarson frá Héraðsskjalasafni Kópavogs og Jón Vilberg Guðjónsson og Elísabetu Pétursdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Fons Juris ehf., Héraðsskjalasafni Kópavogs og IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi.
    Markmið tillögunnar er að stuðla að því að þingskjöl verði tæknilega þannig úr garði gerð að unnt verði að hanna tölvuforrit sem geti aðgreint og skilið tilvísanir til einstakra lagagreina, málsgreina, málsliða o.fl. þess háttar, svo og tilvísanir til reglugerða og lagabálka, dóma, opinberra úrskurða o.s.frv. Með tillögunni er lagt til að forseti Alþingis skipi vinnuhóp sem móti tillögur að innleiðingu og nánari útfærslu þessara breytinga.
    Í greinargerð tillögunnar kemur fram að með þessari breytingu á framsetningu þingskjala verði stigið mikilvægt framfaraskref samfara sífelldri og örri tækniþróun í þá átt að fullnýta þá möguleika sem þróunin býður upp á. Þar eru jafnframt nefnd dæmi um þá möguleika sem skapast mundu við þessa breytingu sem geta m.a. auðveldað almenningi og hagsmunaaðilum á tilteknum sviðum að fylgjast með lagabreytingum á afmörkuðum þáttum gildandi réttar og stuðlað að auknu réttaröryggi.
    Umsagnir sem bárust um málið eru almennt mjög jákvæðar og enginn umsagnaraðili lýsir andstöðu við framgang tillögunnar. Gagnrýni á tillöguna beinist helst að því að breytingarnar sem hún felur í sér kunni að leiða til þess að Alþingi stigi of langt inn á svið úrvinnslu gagna og þar af leiðandi inn á svið sem eigi frekar heima hjá einkaaðilum. Á móti var bent á að skýrleiki í birtingu laga sé almenningi mikilvægur og að Alþingi og aðrar opinberar stofnanir geti ekki látið hjá líða að haga útgáfu- og upplýsingamálum eins og best verði á kosið og í takt við tækniframfarir. Nefndin ræddi þessi sjónarmið og tekur undir hin síðarnefndu. Telur nefndin að með því að auðvelda almenningi að leita sér upplýsinga í lagasafninu og fylgjast með breytingum á lögum sé stuðlað að auknu gagnsæi í lagasetningu sem sé lykilþáttur í lýðræðislegu samfélagi.
    Í umsögn héraðsskjalasafns Kópavogs er bent á að hverfulleiki rafrænna gagna geti bitnað á sönnunargildi þeirra, en án þess sönnunargildis sé tilgangslaust að vinna með þau. Til að gæta nauðsynlegrar varúðar verði að líta á rafrænt form sem viðbót við þau form sem áður séu fyrir hendi, en það leysi þau ekki af hólmi. Af þessu tilefni tekur nefndin fram að þingsályktunartillöguna beri ekki að túlka svo að ætlunin sé að láta rafræn gögn leysa prentuð gögn af hólmi, heldur varði tillagan breytingu á framsetningu gagna sem nú þegar eru rafræn.
    Nefndin leggur til nauðsynlegar breytingar á þeim dagsetningum sem koma fram í tillögugreininni og auk þess að vinnuhópnum sem lagt er til að verði skipaður verði veittur rýmri frestur til að móta tillögur sínar.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. mgr. tillögugreinarinnar:
     a.      Í stað orðanna „1. maí 2016“ komi: 1. september 2016.
     b.      Í stað orðanna „árslok 2016“ komi: 1. september 2017.

         Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júní 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Haraldur Einarsson. Jóhanna María Sigmundsdóttir. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Svandís Svavarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.