Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1427  —  407. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um húsnæðisbætur.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Helgu Maríu Pétursdóttur og Lísu Margréti Sigurðardóttur frá velferðarráðuneyti, Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Benedikt Sigurðarson frá Búseta á Norðurlandi hsf., Auðun Frey Ingvarsson frá Félagsbústöðum hf., Guðnýju Hrund Karlsdóttur og Unni Valborgu Hilmarsdóttur frá Húnaþingi vestra, Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur og Gunnhildi Gunnarsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Sædísi M. Jónatansdóttur frá Ísafjarðarbæ, Guðna Geir Einarsson frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Önnu Rós Sigmundsdóttur frá Kennarasambandi Íslands, Tinnu Dögg Guðlaugsdóttur frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Hrannar Má Guðmundsson frá Neytendasamtökunum, Þórð Sveinsson frá Persónuvernd, Einar Bjarka Gunnarsson, Ellý Öldu Þorsteinsdóttur, Guðmund Sigmarsson, Helgu Jónu Benediktsdóttur, Hörð Hilmarsson, Ívar Örn Ívarsson og Jón Viðar Pálmason frá Reykjavíkurborg, Ástríði Þóreyju Jónsdóttur, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Skúla Jónsson frá ríkisskattstjóra, Guðjón Bragason, Gyðu Hjartardóttur og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Lúðvík Elíasson og Sigríði Benediktsdóttur frá Seðlabanka Íslands, Elísabetu Erlendsdóttur frá Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík, Eddu Sigurjónsdóttur og Guðlaugu Jónu Hilmarsdóttur frá Sveitarfélaginu Árborg, Hallveigu Thordarson frá Tryggingastofnun ríkisins, Frosta Ólafsson og Margréti Berg Sverrisdóttur frá Viðskiptaráði Íslands, Indriða B. Ármannsson og Sólveigu J. Guðmundsdóttur frá Þjóðskrá Íslands og Lilju Þorgeirsdóttur, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Sigurjón Unnar Sveinsson frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Brynju – hússjóði Öryrkjabandalagsins, Búseta á Norðurlandi hsf., Félagi um foreldrajafnrétti, Félagsbústöðum hf., fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Hagsmunasamtökum heimilanna, Húnaþingi, Íbúðalánasjóði, Ísafjarðarbæ, Kennarasambandi Íslands, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Neytendasamtökunum, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík, Sveitarfélaginu Árborg, Tryggingastofnun ríkisins, Viðskiptaráði Íslands, Þjóðskrá Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Efni frumvarpsins og samkomulag um stuðning við leigjendur.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný lög um húsnæðisbætur verði sett í stað laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Markmið þess er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda. Grunnfjárhæðir bóta hækka og bótafjárhæðir og frítekjumörk ráðast af fjölda heimilismanna óháð aldri. Gert er ráð fyrir að ríkið annist húsnæðisbætur en sveitarfélög sérstakan húsnæðisstuðning við leigjendur.
    Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa komist að samkomulagi um endurskoðaða verka- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga vegna húsnæðisstuðnings við leigjendur. Þar kemur fram að sveitarfélög skuli veita íbúum sem á þurfa að halda sérstakan húsnæðisstuðning til að lækka greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar. M.a. skulu þau standa undir kostnaði vegna sérstaks húsnæðisstuðnings til foreldra eða forsjáraðila barna yngri en 18 ára sem hafa tímabundið aðsetur á heimavist eða námsgörðum að teknu tilliti til heildaraðstæðna fjölskyldnanna, eftir nánara samkomulagi aðilanna. Ráðherra er falið að gefa út leiðbeinandi reglur um stuðninginn og viðmiðunarfjárhæðir.
    Í stefnumótun í aðdraganda frumvarpsins var lagt til grundvallar að stefnt skyldi að sameiningu vaxtabóta og húsaleigubóta í eitt kerfi húsnæðisbóta. Það er ekki gert að sinni, en reglur um húsnæðisbætur færðar nær því sem gildir um vaxtabætur. Nefndin telur það jákvætt skref og rétt að stefna áfram í þá átt að sameina almennan húsnæðisstuðning í eitt kerfi.

Orðskýringar.
    Í 2. tölul. 3. gr. frumvarpsins er skilgreining á búsetu. Nefndin leggur til að orðið „sannanlega“ falli brott úr skilgreiningunni. Að mati nefndarinnar er nægjanlega gert ráð fyrir því í IV. kafla frumvarpsins að umsækjandi sýni fram á að hann uppfylli skilyrði bótaréttar, þar á meðal um búsetu.
    Í 5. tölul. 3. gr. er húsnæðiskostnaður skilgreindur. Nefndin leggur til að töluliðurinn falli brott því að ítarlegri skilgreining á húsnæðiskostnaði er í 2. mgr. 19. gr.
    Í 7. og 8. tölul. 3. gr. eru skilgreiningar á tímabundnu aðsetri og umsóknarmánuði. Nefndin leggur til að þær falli brott. Af öðrum breytingartillögum leiðir að skilgreiningarnar verða óþarfar.
    Í 9. tölul. 3. gr. er umsækjandi skilgreindur sem sá heimilismaður sem aðili er að leigusamningi um viðkomandi íbúðarhúsnæði, sækir um og fær greiddar húsnæðisbætur. Nefndin leggur til að fram komi í d-lið 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins að umsækjandi skuli vera aðili að leigusamningi um húsnæðið og telur ónákvæmt að segja að umsækjandi fái greiddar húsnæðisbætur, enda unnt að synja umsækjanda um bætur auk þess sem heimilt er að greiða öðrum en umsækjanda bæturnar skv. 4. mgr. 21. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur því til að skilgreiningin í 3. gr. falli brott.

Stjórnsýsla.
    Til stendur að fela Vinnumálastofnun framkvæmd laganna, m.a. vegna reynslu stofnunarinnar af mánaðarlegum greiðslum á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, auk þess sem stofnunin hafi aðgang að samtímaupplýsingum hjá ríkisskattstjóra. Nefndin leggur til að stofnunin verði tilgreind í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr.
    Í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. segir að gæta skuli samræmis við ákvörðunartöku í sambærilegum málum. Þótt ákvæðinu sé aðeins ætlað að árétta jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar er orðalag þess annað en 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem nefndin telur óheppilegt. Nefndin leggur því til að málsliðurinn falli brott.
    Í síðari málslið 2. mgr. sömu greinar segir að framkvæmdaraðili skuli ár hvert haga áætlanagerð sinni varðandi útgjöld til húsnæðisbóta fyrir næsta almanaksár í samræmi við reglur fjárlagagerðar og senda ráðherra til frekari meðferðar. Nefndin telur heppilegra að eftirláta lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, þetta efni og leggur því til að málsliðurinn falli brott.

Skilyrði húsnæðisbóta.
    Í a-lið 2. mgr. 9. gr. segir að það sé skilyrði réttar til húsnæðisbóta að heimilismenn séu búsettir í hinu leigða íbúðarhúsnæði. Heimilismenn eru búsettir þar samkvæmt skilgreiningu, sbr. 3. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur til að ákvæðið vísi fremur til þeirra sem umsækjandi tilgreinir sem heimilismenn í umsókn. Því má synja umsókn tilgreini umsækjandi aðra ranglega sem heimilismenn. Nefndin leggur einnig til samsvarandi breytingu á a-lið 3. mgr. 9. gr.
    Skilyrði c-liðar 2. mgr. og c-liðar 3. mgr. 9. gr., um fullnægjandi heimilisaðstöðu og um að ekki mætti vera um leigu á hluta húsnæðis að ræða, sættu gagnrýni. Skilyrðunum er ætlað að stuðla að því að leigjendur búi við fullnægjandi heimilisaðstöðu, m.a. með tilliti til hollustuhátta og öryggis, svo sem brunavarna. Að mati nefndarinnar er ekki rétt að stjórnvöld ýti undir leigu á ófullnægjandi íbúðarhúsnæði með húsnæðisbótum. Nefndin telur eðlilegra að brugðist verði við húsnæðisvanda einstaklinga sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að afla sér fullnægjandi íbúðarhúsnæðis á grundvelli XII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem fjallar um skyldur sveitarfélaga í húsnæðismálum. Nefndin bendir á að með frumvarpi til laga um almennar íbúðir (435. mál) er stefnt að auknu framboði á leiguhúsnæði, þar á meðal félagslegu leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga.
    Skv. e-lið 2. mgr. 9. gr. er það skilyrði bótaréttar að fyrir liggi samþykki umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, til upplýsingaöflunar. Skv. 7. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, verður yfirlýsing að hafa verið veitt af fúsum og frjálsum vilja til að teljast samþykki í skilningi þeirra laga. Persónuvernd benti á að ekki væri heppilegt að ræða um samþykki fyrir upplýsingaöflun í lögum um húsnæðisbætur því að upplýsingaöflunin væri skilyrði bótaréttar og því vart valkvæð. Til samræmis við tillögu Persónuverndar leggur nefndin til að vísað verði til „umboðs“ fremur en „samþykkis“ í e-lið 2. mgr. 9. gr., 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 15. gr., 22. gr. og 28. gr.
    Nefndin leggur til að orðin „á grundvelli samþykktrar umsóknar um húsnæðisbætur“ í f- lið 3. mgr. 9. gr. falli brott þar eð húsnæðisbætur verða ekki veittar nema á grundvelli samþykktrar umsóknar um húsnæðisbætur.

Útreikningur húsnæðisbóta.
    Grunnfjárhæðir 16. gr. og tekjuskerðingarhlutfall og frítekjumörk í 17. gr. sættu þeirri gagnrýni að of lítill hluti stuðningsins færi til þeirra tekjulægstu. Nefndin leggur til að stuðlarnir í 1. mgr. 16. gr. og grunnfjárhæðirnar hækki sem og frítekjumörkin. Á móti leggur nefndin til að grunnfjárhæðirnar og frítekjumörkin nái hámarki við fjóra heimilismenn fremur en fimm og að tekjuskerðingarhlutfallið hækki úr 8,04% í 9%. Breytingarnar leiða til þess að stuðningurinn rennur í ríkari mæli til tekjulægri leigjenda, án þess þó að fórnað sé því markmiði frumvarpsins að ná til breiðari tekjuhóps en gildandi húsaleigubótakerfi gerir. Með breytingunum er einnig komið til móts við einstæða foreldra og fólk sem býr eitt og hefur aðeins framfærslu af lífeyri almannatrygginga.

Dæmi um fjárhæðir húsaleigubóta, húsnæðisbóta og vaxtabóta.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í 3. málsl. 4. mgr. 17. gr. segir að ráðherra geti breytt skerðingarhlutfalli skv. 1. mgr. greinarinnar með reglugerð. Hækkun á hlutfallinu mundi skerða bætur til þeirra sem hefðu tekjur yfir frítekjumörkum. Nefndin telur óæskilegt að veita ráðherra slíka heimild án nánari afmörkunar og leggur því til að málsliðurinn falli brott.
    Í 1. mgr. 18. gr. segir að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta lækki sem nemur hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fara umfram 6.500.000 kr. uns þær falla alveg niður við 60% hærri fjárhæð. Bent var á að ekki væri ljóst af ákvæðinu hvert skerðingarhlutfallið væri. Ákvæðið felur í sér að fjárhæðirnar lækki um hlutfall sem nemi 1/3.900.000 af samanlögðum eignum umfram 6.500.000 kr. Væru samanlagðar eignir 8.450.000 kr. væri skerðingin því t.d. 50% og væru samanlagðar eignir 10.400.000 kr. væri skerðingin 100%.
    Í 2. mgr. 18. gr. segir að miða skuli við eignir á sama tímabili innan hvers almanaksárs og greiðslur húsnæðisbóta standa yfir, sbr. þó 3. mgr. 20. gr. Skuldir og eignir eru taldar fram miðað við stöðu í árslok, sbr. fyrri málslið 78. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Því gæti reynst erfitt að staðreyna eignir á tilteknu tímabili innan árs. Nefndin leggur því til að miðað skuli við eignir í árslok. Nefndin leggur þó til undantekningu sem miðar að því að auðvelda leigjendum að kaupa íbúðarhúsnæði eða búseturétt. Af svipuðum ástæðum leggur nefndin til að vísanir til eigna innan árs í 1. og 3. mgr. 20. gr. falli brott.

Greiðsla húsnæðisbóta.
    Í 2. mgr. 21. gr. er vísað til „umsóknarmánaðar“ sem er skilgreindur í 8. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Nefndin telur aðgengilegra að efnisatriði skilgreiningarinnar komi fram í 21. gr. og leggur til breytingu þess efnis.
    Í 3. málsl. 3. mgr. 21. gr. segir að lágmarksfjárhæð húsnæðisbóta komi til endurskoðunar ár hvert og sé ráðherra heimilt að hækka hana með reglugerð. Nefndin leggur til að fram komi að endurskoðunin skuli taka mið af verðlagsbreytingum. Aðeins er þó um heimild að ræða og eðli málsins slíkt að ekki þarf að uppfæra fjárhæðina á hverju ári vegna minni háttar verðlagsbreytinga.

Eftirlit og endurreikningur húsnæðisbóta.
    Í 2. mgr. 23. gr. segir að leiki rökstuddur grunur á að húsnæðisbætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá umsækjanda sé heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila sem ætla má að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að endurmeta rétt til húsnæðisbóta. Í athugasemdum við ákvæðið segir að það geti t.d. átt við um leikskóla, leigusala, stjórnir húsfélaga og vinnuveitendur. Að mati nefndarinnar er æskilegra að tilgreina hvaðan framkvæmdaraðili megi afla upplýsinga, líkt og gert er í 1. mgr. 15. gr. þar sem tilgreind er heimild til að afla upplýsinga frá skattyfirvöldum, Þjóðskrá Íslands, Lánasjóði íslenskra námsmanna, sveitarfélögum, sýslumönnum, leigusölum og viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis, auk þess sem nefndin telur að hafi framkvæmdaraðili rökstuddan grun um lögbrot umsækjanda sé eðlilegt að hann kæri það til lögreglu fremur en að rannsaka það sjálfur. Nefndin leggur því til að 2. mgr. 23. gr. falli brott.
    Í 1. málsl. 3. mgr. 26. gr. segir að hafi umsækjandi fengið lægri húsnæðisbætur en honum bar skuli greiða honum fjárhæðina með vöxtum. Í 3. málsl. sömu málsgreinar er fjallað um rétt umsækjanda til greiðslu komist úrskurðarnefnd velferðarmála að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki fengið bætur sem hann átti rétt á. Nefndin leggur til að 3. málsl. falli brott en þess í stað verði skýrt að 1. málsl. eigi við hafi umsækjandi ekki fengið húsnæðisbætur sem honum bar.

Ýmis ákvæði.
    Nefndin leggur til breytingar á prósentutölum í 1. tölul. 32. gr. til að taka mið af breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, samkvæmt III. kafla laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, nr. 125/2015.
    Í 2. tölul. 32. gr. segir að sveitarfélögum sé heimilt að veita stuðning vegna húsnæðiskostnaðar. Nefndin leggur til að fremur segi þar að þau skuli veita sérstakan húsnæðisstuðning, þar á meðal vegna 15–17 ára barna á heimavist eða námsgörðum, og að ráðherra gefi út leiðbeinandi reglur um stuðninginn, til samræmis við fyrrgreint samkomulag ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Húsaleigubætur eru nú undanþegnar tekjuskatti skv. 9. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt. Nefndin telur æskilegt að húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga verði einnig undanþeginn tekjuskatti og leggur til breytingu þess efnis á lögum um tekjuskatt.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Nefndin telur brýnt að húsnæðisstuðningur við búseturéttarhafa verði tekinn til sérstakrar skoðunar og metið hvort um hann skuli fara að hluta eða öllu leyti samkvæmt lögum um húsnæðisbætur í stað B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, m.a. í ljósi nýlegra breytinga á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með lögum nr. 29/2016. Nefndin leggur því til ákvæði til bráðabirgða þess efnis.
    Aðrar breytingartillögur skýra sig sjálfar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Steingrímur J. Sigfússon ritar undir álit þetta með fyrirvara. Ásmundur Friðriksson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 1. júní 2016.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Elsa Lára Arnardóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Páll Valur Björnsson. Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon,
með fyrirvara.
Unnur Brá Konráðsdóttir.Fylgiskjal.


Samkomulag ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga um endurskoðaða verka- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga vegna breytinga á fyrirkomulagi húsnæðisstuðnings við leigjendur og leiðbeinandi reglur velferðarráðuneytisins um sérstakan húsnæðisstuðning og úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis sveitarfélaga.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.