Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1432  —  623. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um fjármagnsflutninga og skattgreiðslur álfyrirtækja.



     1.      Hve mikið fé hafa álfyrirtækin sem starfrækt eru á Íslandi flutt úr landi eftir að gjaldeyrishöft voru sett, sundurliðað eftir árum og fyrirtækjum?
     2.      Hve stórum hluta af heildarútflæði gjaldeyris nam hluti álfyrirtækjanna hvert ár 2009– 2015?
     3.      Hve mikið fé greiddi á sama tíma hvert og eitt álfyrirtækjanna árlega í vexti til erlendra lánveitenda annars vegar og hins vegar í afborgarnir af lánum erlendra lánveitenda?
     4.      Hverjar voru arðgreiðslur álfyrirtækjanna á árunum 2009–2015?
    Leitað var eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands til að svara 1.–4. tölul. fyrirspurnarinnar. Í svörum Seðlabankans kemur fram að bankinn safni umbeðnum gögnum á grundvelli hagskýrslugerðar, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, og gögnin séu því háð þagnarskyldu, sbr. lög nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Þá kom fram í svari bankans að sundurliðun upplýsinga með þeim hætti sem óskað er eftir í fyrirspurninni sé ekki möguleg án þess að greina megi einstaka aðila. Með vísan til þessara sjónarmiða hafnaði bankinn beiðni ráðuneytisins um upplýsingarnar.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að þær upplýsingar sem um er spurt liggi fyrir opinberlega. Þá býr ráðuneytið hvorki yfir þessum upplýsingum né hefur aðgang að þeim umfram aðra. Með hliðsjón af framansögðu er ráðherra ekki mögulegt að veita svör við umbeðnum liðum í fyrirspurninni.

     5.      Hve mikil opinber gjöld greiddu álfyrirtækin hérlendis sömu ár? Óskað er eftir sundurliðun fyrir hvert og eitt fyrirtæki og að fjárhæðirnar séu bæði tilgreindar á verðlagi hvers árs og uppreiknaðar miðað við vísitölu í mars 2016.
    Ekki er hægt að birta sundurliðun á greiðslum opinberra gjalda fyrir hvert fyrirtæki líkt og óskað er eftir í fyrirspurninni vegna trúnaðar um innihald skattframtala. Af þeim ástæðum verða tölurnar samandregnar fyrir álfyrirtækin í heild.
    Hugtakið opinber gjöld í þessu svari innifelur tekjuskatt, fjármagnstekjuskatt, búnaðargjald, iðnaðarmálagjald, jöfnunargjald alþjónustu, útvarpsgjald og tryggingagjald. Álagning opinberra gjalda á lögaðila er lögð fram í lok október hvers árs og er vegna rekstrar fyrra árs.
    Þau álfyrirtæki sem greiddu opinber gjöld á tímabilinu 2009–2015 eru eftirfarandi: Alcoa á Íslandi ehf., Alcoa Fjarðaál sf., Becromal Iceland ehf., Norðurál ehf., Norðurál Grundartangi ehf., Norðurál Helguvík ehf., Norðurál Helguvík sf. og Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. Um er að ræða fyrirtæki sem eru í álframleiðslu og aflþynnuframleiðslu og eignarhaldsfélög þeirra. Fyrirtækin greiddu opinber gjöld allt tímabilið að frátöldu Norðurál Helguvík sf. sem var afskráð í upphafi tímabilsins og greiddi því aðeins gjöld árið 2009.


Opinber gjöld álfyrirtækja á Íslandi á föstu verðlagi í millj. kr.

    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Ríkisskattstjóri.

    Opinber gjöld greidd af álfyrirtækjum breyttust töluvert milli ára líkt og myndin hér að framan gefur til kynna. Lægst námu greiðslur opinberra gjalda alls 1.250 millj. kr. árið 2010 og hæst 4.854 millj. kr. árið 2011. Þessar miklu breytingar milli ára má að mestu leyti rekja til tekjuskatts sem var sveiflukenndur á tímabilinu á meðan tryggingagjaldið, næststærsti liðurinn, var nokkuð stöðugt. Í eftirfarandi töflu má sjá upplýsingarnar á bæði breytilegu og föstu verðlagi. 1

Opinber gjöld álfyrirtækja á Íslandi í millj. kr.

Breytilegt verðlag      Fast verðlag
Ár* Tekjuskattur Tryggingagjald Útvarpsgjald Iðnaðarmálagjald Tekjuskattur Tryggingagjald Útvarpsgjald Iðnaðarmálagjald
2015 1.799 1.122 0,1 0 1.848 1.154 0,1 0
2014 684 1.118 0,1 0 718 1.172 0,1 0
2013 1.207 1.138 0,1 0 1.315 1.239 0,1 0
2012 2.649 1.205 0,1 0 3.036 1.381 0,1 0
2011 3.019 1.054 0,1 0 3.598 1.256 0,1 0
2010 297 662 0,1 36 373 832 0,2 45
2009 1.322 566 0,1 36 1.859 796 0,2 51
* Miðað við álagningarár.
Heimild: Ríkisskattstjóri.

    Á tímabilinu voru nokkrar lagabreytingar gerðar á þeim sköttum sem falla undir hugtakið opinber gjöld. Tekjuskattur lögaðila var hækkaður í tveimur þrepum úr 15% í 18% álagningarárið 2011 og síðan í 20% álagningarárið 2012. Einhver þessara fyrirtækja búa hinsvegar við ívilnanir í tekjuskatti. Tryggingagjaldið var einnig hækkað í tveimur þrepum úr 5,34% álagningarárið 2009 í 7% álagningarárið 2010 og síðan í 8,65% álagningarárið 2011. Frá því 2011 hefur gjaldið hinsvegar verið lækkað í nokkrum þrepum. 2 Að lokum ber að nefna iðnaðarmálagjaldið sem var afnumið þann 1. janúar 2011. Sökum þessara lagabreytinga er samanburður á milli ára að einhverju leyti bjagaður.
Neðanmálsgrein: 1
1     Á föstu verðlagi miðað við neysluverðsvísitölu í mars 2016.
Neðanmálsgrein: 2
2     Skatthlutfall tryggingagjalds var sem hér segir (miðað við álagningarár eins og taflan sýnir): 5,34% árið 2009, 5,34% á fyrri hluta árs og 7% á seinni hluta árs 2010, 8,65% árið 2011, 8,65% árið 2012, 7,79% árið 2013, 7,69% árið 2014 og 7,59% árið 2015.