Ferill 755. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1455  —  755. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Egilsdóttur um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands við meðferð hjá kírópraktorum.


     1.      Því greiða Sjúkratryggingar Íslands ekki hluta af kostnaði við meðferð hjá kírópraktorum sem hafa viðurkennt starfsleyfi frá landlækni?
    Sjúkratryggingar taka til heilbrigðisþjónustu og annarrar aðstoðar sem ákveðið hefur verið með lögum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins, sbr. 9. gr. laga um sjúkratryggingar. Ástæða þess að Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki hluta af kostnaði við meðferð hjá kírópraktorum er sú að ekki er kveðið á um greiðsluþátttöku ríkisins í lögum eða reglugerð og ekki er í gildi samningur um veitingu slíkrar þjónustu.

     2.      Stendur til að breyta núverandi fyrirkomulagi? Ef ekki, hvað stendur í vegi fyrir því?
    Nei, ekki stendur til að breyta núverandi fyrirkomulagi að sinni. Ekki er gert ráð fyrir greiðsluþátttöku ríkisins við meðferð hjá kírópraktorum í fjárlögum og því stendur ekki til að breyta núverandi fyrirkomulagi að svo stöddu.