Ferill 753. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1476  —  753. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um læsisátak.

     1.      Hver er áætlaður heildarkostnaður við læsisátak ráðuneytisins og hvað er áætlað að það nái yfir langt tímabil?
    Þjóðarsáttmáli um læsi var undirritaður haustið 2015 og gert er ráð fyrir að læsisverkefnið standi yfir í fimm ár frá þeim tíma. Áætlaður heildarkostnaður á árinu 2016 vegna verkefna Menntamálastofnunar er 132,3 millj. kr. og áætlanir gera ráð fyrir svipuðu umfangi út tímabilið. Auk þess er gert ráð fyrir að ýmis önnur verkefni njóti fjárhagslegs stuðnings beint frá ráðuneytinu á þessu tímabili vegna læsisátaksins.

     2.      Hvernig skiptist kostnaður árlega milli verkefna, launa og annars kostnaðar?
    Kostnaður við læsisverkefni Menntamálastofnunar skiptist eins og hér segir: Árlegur launakostnaður er áætlaður 97,8 millj. kr. eða sem nemur 74% af heildarkostnaði. Ráðgjöf og fræðsla er áætluð 21,7 millj. kr., skimunarpróf 5,0 millj. kr., upplýsingamiðlar 5,2 millj. kr. og annar kostnaður 2,5 millj. kr.

     3.      Var gerð framkvæmda- og og fjárhagsáætlun áður en læsisátakið hófst?
    Gróf verkefnaáætlun vegna verkefna Menntamálastofnunar var gerð í upphafi í samvinnu við ráðgjafa og fjárhagsáætlun byggð á þeirri vinnu sem var upphaflega 150 millj. kr. árlega. Endanleg niðurstaða varð 132,3 millj. kr. árlega.