Ferill 810. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1492  —  810. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki (fjárstreymistæki til að draga úr neikvæðum áhrifum fjármagnsinnstreymis).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Guðmund Kára Kárason, Harald Steinþórsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur og Þorvarð Tjörva Ólafsson frá Seðlabanka Íslands.
    Frumvarpið felur í sér tímabundið varúðar- og stuðningsúrræði, svokallað fjárstreymistæki sem dregur úr ábata vaxtamunarviðskipta, og styður innlenda hagstjórn við að hafa tök á vaxandi þenslu og varðveita efnahagslegan stöðugleika. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.
    Frumvarpinu er ætlað að veita Seðlabanka Íslands stjórntæki til að draga úr áhættu tengdri óhóflegu fjármagnsflæði til landsins í tengslum við losun fjármagnshafta. Með því er ætlunin að veita Seðlabanka Íslands nýtt stjórntæki til að tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsflæðis til landsins, svokallað fjárstreymistæki (e. capital flow management measures). Seðlabankanum verði þannig heimilað að setja reglur að fengnu samþykki ráðherra sem kveða á um bindingu reiðufjár vegna nýfjárfestinga, innstæðna og lánveitinga sem gerðar eru fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris. Með slíkum stjórnvaldsfyrirmælum yrði nánar útfærð skylda til að binda reiðufé, sem kann að nema allt að 75% af fjárhæðinni, á reikningi hjá innlánsstofnun hér á landi til allt að fimm ára. Um er að ræða stjórntæki sem er til þess fallið að draga úr ábata vaxtamunarviðskipta, sem einkum fara fram með skammtímafjárfestingum í ríkisskuldabréfum og innlánum. Frumvarpið hefur ekki áhrif á innstreymi gjaldeyris vegna hefðbundinna langtímafjárfestinga og beinna fjárfestinga á Íslandi. Nefndin bendir á að á sama tíma og innlendir hvatar til innstreymis hafa aukist hefur umfang þeirra fjáreigna sem bera sögulega lága vexti erlendis haldið áfram að vaxa. Hvatar til vaxtamunarviðskipta eru því afar sterkir um þessar mundir sem hefur sýnt sig í auknu flæði nýfjárfestinga, einkum í ríkisskuldabréfum, á þessu ári.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki (bankaskatt) í þá veru að bindingarfjárhæð sem komin er til vegna áðurnefndra reglna Seðlabanka Íslands verði frádráttarbær frá skattstofni sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki, enda stjórntækinu ekki ætlað að vera tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð.
    Loks eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Um er að ræða breytingar sem tilkomnar eru vegna upplýsinga frá hagsmunaaðilum eftir lögfestingu laganna. Fyrir nefndinni kom fram að ýmsir aflandskrónueigendur hafa frá gildistöku laga nr. 37/2016 flutt fjármuni á reikninga háðum sérstökum takmörkunum fyrr en áætlað var. Til að gæta að jafnræði aflandskrónueigenda til að ráðstafa eignum sínum er í frumvarpinu lagt til að þeim verði heimilt að taka út fjármuni af reikningum háðum sérstökum takmörkunum til þátttöku í gjaldeyrisútboði Seðlabankans og til að fjárfesta í ákveðnum fjármálagerningum sem Seðlabankinn heimilar sérstaklega. Aðrar breytingar á lögum nr. 37/2016 eru að mestu afleiddar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað „5. mgr.“ tvívegis í 2. efnismgr. 1. gr. komi: 6. mgr.

Alþingi, 2. júní 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Sigríður Á. Andersen.
Birgir Ármannsson. Willum Þór Þórsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Guðmundur Steingrímsson. Valgerður Bjarnadóttir. Katrín Jakobsdóttir.