Ferill 756. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1510  —  756. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um breytta framfærslu námsmanna erlendis.


     1.      Liggur fyrir lögfræðilegt mat á lögmæti þess að breyta framfærslu námsmanna erlendis eins og kynnt hefur verið af Lánasjóði íslenskra námsmanna? Ef svo er, hver er lagalegur rökstuðningur breytingarinnar?
    Við gerð úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2014–2015 kom í ljós skekkja í framfærsluviðmiði námsmanna erlendis. Meginskýringin á þessari skekkju er sú að þegar framfærslukostnaður hérlendis hækkaði í kjölfar efnahagshruns og námslán voru þar af leiðandi hækkuð um 20% þá náði sú hækkun til allra námsmanna, einnig þeirra sem stunduðu nám erlendis. Þetta var gert þrátt fyrir að framfærsluviðmið LÍN væru í mynt viðkomandi lands. Gengisfall krónunnar kom því ekki með sama hætti við námsmenn erlendis og hér á landi. Svo virðist sem engin sérstök gögn hafi legið fyrir um nauðsyn þessarar ráðstöfunar. Ákveðið var að gera sérstaka úttekt á framfærslukostnaði í þeim löndum sem sjóðurinn lánar til. Ráðgjafafyrirtækið Analytica var fengið til að gera úttekt á framfærsluviðmiði sjóðsins erlendis í 20 fjölmennustu löndum meðal umsækjenda. Niðurstöður úttektarinnar lágu fyrir við gerð úthlutunarreglna fyrir skólaárið 2015–2016 og sýndu þær að lán væru að meðaltali um 20% umfram framfærsluþörf. Þetta var þó misjafnt eftir löndum, t.d. voru þau 63,7% umfram þörf í Slóvakíu, 67,9% í Póllandi og 55,7% í Eistlandi en einungis 3,1% í Kaupmannahöfn, 1,1% í Noregi og 2,7% í London. Í a.m.k. sjö löndum voru lánin lægri en framfærsluþörf.
    LÍN er félagslegur jöfnunarsjóður sem á að tryggja jafnrétti til náms. Sjóðnum ber að veita framfærslulán í samræmi við framfærsluþörf en ekki lána langt umfram það, enda myndast þá skekkja og ójafnræði á milli námsmanna eftir því hvar þeir stunda nám. Var ljóst að verulega hafði hallað á námsmenn á Íslandi í lánveitingum sjóðsins. Með hliðsjón af þeim niðurstöðum að námslán víða erlendis væru langt umfram framfærsluþörf var ákveðið að leiðrétta það, en ákveðið var að gera það í áföngum. Var framfærsla lækkuð um allt að 10% í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2015–2016, allt að 20% í úthlutunarreglum ársins 2016–2017 og verður, þar sem þörf er, lækkuð til viðbótar í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2017–2018. Þar sem úttektin sýndi að námslán væru undir framfærsluþörf voru framfærslulán hækkuð í einu lagi í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2015–2016.
    Framfærsluviðmið fyrir námsmenn á Íslandi og erlendis er ákveðið í úthlutunarreglum fyrir hvert skólaár og eru úthlutunarreglurnar staðfestar af ráðherra og hafa því stöðu stjórnvaldsfyrirmæla.
    Framangreind stjórnvaldsfyrirmæli eins og önnur voru metin af lögfræðingum ráðuneytisins í tengslum við staðfestingu þeirra.

     2.      Hver er skilningur ráðherra á 3. mgr. 3. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem segir: „Stjórn sjóðsins setur nánari úthlutunarreglur um útfærslu á lögum þessum, þ.m.t. fjárhæð og úthlutun námslána, sem og ákvæði um kröfur um lágmarksnámsframvindu. Reglurnar skulu lagðar fram til kynningar og staðfestar af ráðherra eigi síðar en 1. apríl ár hvert.“?
    Það er skilningur ráðuneytisins að 3. mgr. 3. gr. laganna feli í sér þá upplýsingaskyldu að viðamiklar breytingar á úthlutunarreglum skulu kynntar með góðum fyrirara, staðfestar af ráðherra og auglýstar formlega eigi síðar en 1. apríl ár hvert.
    Breytingar þær sem hér um ræðir voru boðaðar með góðum fyrirvara, eða strax árið 2014. Var þá boðuð endurskoðun á fjárhæð framfærslulána erlendis og skýrsla Analytica um framfærsluþörf birt á heimasíðu LÍN.
    Á bls. 48 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2015–2016 var sérstaklega vakin athygli á því að lækkunar framfærslu væri að vænta í sumum löndum á næstu árum. Var þar vísað í upplýsingar á heimasíðu LÍN auk þess sem námsmönnum var bent á að hafa samband við sjóðinn.
    Staðfesting ráðherra á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2016–2017 var birt í auglýsingu nr. 270 19. mars 2016.

     3.      Hvaða áhrif hafði álit umboðsmanns Alþingis nr. 6109/2010 á ákvörðunina en þar er að finna mjög skýr tilmæli til mennta- og menningarmálaráðherra og Lánasjóðs íslenskra námsmanna um að tryggja námsmönnum fullnægjandi ráðrúm til þess að bregðast við breytingum á úthlutunarreglum?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. hér að framan ber LÍN að veita framfærslulán í samræmi við metna framfærsluþörf en ekki umfram hana. Veiting framfærslulána umfram framfærsluþörf í sumum löndum leiðir til ójafnræðis á milli námsmanna.
    Niðurstaða umboðsmanns Alþingis í tilvitnuðu áliti var sú að LÍN hefði ekki gefið námsmönnum fullnægjandi ráðrúm til þess að bregðast við breytingu á framkvæmd útreiknings á hámarki skólagjaldalána. Breytingin var ekki birt fyrr en 29. júní 2010 vegna skólaársins 2010–2011. Viðbrögð stjórnvalda við niðurstöðu tilvitnaðs álits voru meðal annars þau að lögfestur var tímafrestur fyrir stjórn sjóðsins og ráðherra um að úthlutunarreglur skyldu lagðar fram til kynningar og staðfestar af ráðherra eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Þá eru þau sjónarmið sem komu fram í niðurstöðu umboðsmanns höfð að leiðarljósi þegar gerðar eru breytingar á reglum sjóðsins.
    Þær breytingar sem eru gerðar á framfærslulánum nú eru annars eðlis en þær sem tilvitnað álit umboðsmanns snerust um. Með breytingunni sem nú er framkvæmd eru framfærslulán LÍN færð til jafns við framfærsluþörf námsmanna í því landi sem nám er stundað. Þar með ætti ekki að vera ómögulegt að stunda nám með þeim framfærslulánum sem nú bjóðast þar sem þau eru í fullu samræmi við framfærsluþörf í hverju landi fyrir sig.
    Breytingin á framfærslugrunni LÍN erlendis er gerð í þremur þrepum. Ef um hækkun er að ræða þá var hún gerð í einu skrefi með úthlutunarreglum skólaársins 2015–2016. Leiðrétting til lækkunar er gerð í áföngum á þremur árum frá 2015/2016–2017/2018, sem þýðir að enn þá er sums staðar lánað umfram framfærsluþörf. Eins og að framan greinir voru breytingarnar boðaðar með góðum fyrirvara, eða strax árið 2014. Var þá boðuð endurskoðun á fjárhæð framfærslulána erlendis og skýrsla Analytica um framfærsluþörf birt á heimasíðu LÍN.
    Á bls. 48 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2015–2016 var sérstaklega vakin athygli á því að lækkunar framfærslu í sumum löndum væri að vænta á næstu árum. Var þar vísað í upplýsingar á heimasíðu LÍN auk þess sem námsmönnum var bent á að hafa samband við sjóðinn.
    Að öllu framansögðu er það mat ráðuneytisins að við framkvæmd breytingar á framfærslugrunni erlendis hafi að öllu leyti verið að því gætt að námsmenn fengju fullnægjandi ráðrúm til að bregðast við breytingunni. Þau sjónarmið sem fram komu í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í tilvitnuðu máli voru höfð til hliðsjónar við framkvæmd leiðréttingarinnar og var framkvæmdin í fullu samræmi við niðurstöðu álitsins.

     4.      Hafði ráðuneytið dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli námsmannahreyfinganna gegn LÍN og mennta- og menningarmálaráðherra frá sumrinu 2013 til hliðsjónar við ákvörðun um breytingu á framfærslu námsmanna erlendis?
    Ekki er um sambærileg mál að ræða. Í því máli sem þingmaður vísar í var um að ræða hækkun á námsframvindukröfum til samræmis við þær námsframvindukröfur sem gerðar eru annars staðar á Norðurlöndum. Úthlutunarreglur skólaársins 2013–2014 með umræddu ákvæði voru birtar í lok júlí 2013 eftir að opnað hafði verið fyrir skráningu í skóla vegna skólaársins. Það þótti of seint fram komið. Eðli og tímasetningar sem um ræddi í þessu dómsmáli eru því allt aðrar en eðlileg leiðrétting á framfærsluviðmiði erlendis miðað við raunverulega framfærsluþörf sem var ákveðin fyrir meira en tveimur árum, sbr. það sem einnig kemur fram í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.