Ferill 748. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1512  —  748. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Björt Ólafsdóttur um nám erlendis.


     1.      Hver er stefna stjórnvalda um menntun Íslendinga erlendis, hvernig var sú stefna mótuð og hvaða rök eru fyrir henni?
    Íslenskir námsmenn hafa löngum farið út fyrir landsteinana til að sækja sér menntun. Hér áður sóttu menn þekkingu til útlanda þar sem sumar námsgreinar voru ekki kenndar við háskóla hér á landi. Í öðrum tilvikum var ekki hægt að ljúka nema hluta af menntun á ákveðnum námsbrautum hér á landi og því nauðsynlegt að fara utan til að ljúka námi, t.d. í verkfræði. Íslenskum háskólum hefur fjölgað og eru þeir nú sjö talsins og samhliða hefur námsframboð íslenskra háskóla aukist umtalsvert sl. tvo áratugi. Námsmenn eiga nú auðveldara með að velja hvort þeir stunda nám hérlendis eða erlendis og þá hvort þeir taki grunnnám sitt hér á landi og meistaranám sitt erlendis eða öfugt. Stefna ráðuneytisins byggir á þeirri sýn að tryggja beri valfrelsi námsmanna til að skipuleggja nám sitt út frá einstaklingsbundnum þörfum og áhuga. Markmið Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur verið að styðja við þá stefnu ríkisins með því að veita námslán fyrir framfærslu og skólagjöldum.

     2.      Hefur ráðherra greint þjóðhagslega hagkvæmni þess að hluti Íslendinga menntar sig erlendis? Hverju er gert ráð fyrir að þeir skili til samfélagsins og hefur verið reiknað út hvað ríkið sparar við að námsmenn erlendis njóta réttinda og þjónustu í viðkomandi landi á meðan dvöl þeirra þar stendur?
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki kannað sérstaklega þjóðhagslega hagkvæmni þess að íslenskir námsmenn fari til náms erlendis en ætla má að þjóðhagslegur ábati af hverri prófgráðu sem aflað er erlendis sé ekki minni en af þeim sem aflað er hérlendis. Algengt er að námsmenn á Norðurlöndum fari í nám til annarra Norðurlandaþjóða líkt og íslenskir nemendur gera. Hlutfallslega fleiri Íslendingar fara til náms annars staðar á Norðurlöndum en koma hingað í nám.
    Norðurlandasamningur um aðgang að æðri menntun hefur verið í gildi frá árinu 1996. Í samningnum felst að Norðurlöndin hafa skuldbundið sig til þess að veita umsækjendum sem búsettir eru í öðru Norðurlandaríki inngöngu í æðri menntastofnanir á vegum opinberra aðila með sömu eða sambærilegum skilyrðum og gilda fyrir umsækjendur frá eigin landi. Rannsóknanám er þó undanþegið. Skv. 7. gr samningsins greiða Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð móttökulandinu fyrir sína námsmenn sem stunda æðra nám annars staðar á Norðurlöndum. Greiðslurnar eru reiknaðar sem viðbót eða frádráttur frá árlegu framlagi ríkjanna til starfs norrænu ráðherranefndarinnar og námu 30.000 dönskum krónum árið 2014. Ákvæðið um gagnkvæmar greiðslur hefur aldrei gilt fyrir Ísland og sjálfsstjórnarsvæðin, þ.e. Ísland greiðir ekki fyrir þá námsmenn sem fara til hinna Norðurlandaþjóðanna til náms og þiggur ekki greiðslur fyrir þá Norðurlandabúa sem hingað koma. Háskólaárið 2012–2013 stunduðu 1.049 íslenskir nemendur háskólanám í öðru Norðurlandaríki, en 106 nemendur frá öðrum Norðurlandaþjóðum sóttu nám sitt hingað. Ef miðað er við upphæð greiðslna á hvern nema fyrir fjárhagsárið 2014 má því áætla að samkvæmt þessum tölum nemi ávinningur íslenska ríkisins af undanþágu greiðsluákvæðisins 28.290.000 dönskum krónum eða rúmlega 500 milljónum íslenskra króna það ár. Ætla má að á samningstímanum hafi ávinningur íslenska ríkisins því verið allnokkur.

     3.      Liggur fyrir hve margir Íslendingar stunda sértækt nám erlendis sem ekki er í boði hérlendis og hvað það sparar ríkisjóði að nám af þeim toga er ekki í boði hér?
    Ekki hefur verið gerð sérstök könnun á því hversu margir Íslendingar eru í sértæku námi erlendis, sem ekki er í boði hér á landi. Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar til náms erlendis uppfylli það almenn skilyrði um lánshæfi og er sú fyrirgreiðsla óháð því hvort unnt sé að stunda sama eða sambærilegt nám hér á landi. Um 4.000 Íslendingar stunda nám erlendis og þar af er helmingur á námslánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, annað eins, eða um 2.000 nemendur, fá námsaðstoð annars staðar á Norðurlöndunum, flestir í Danmörku. Þá hefur það aukist að námsmenn fari í skiptinám þar sem þeir taka hluta af náminu erlendis. Skólaárið 2014–2015 voru um 520 nemendur í ýmiss konar skiptinámi, þar af voru 340 nemendur á vegum evrópsku Erasmus-áætlunarinnar og 180 nemendur á vegum norrænu Nordplus-áætlunarinnar. Á sama tíma tóku rúmlega 1.000 nemendur með erlent ríkisfang hluta af námi sínu hér á landi. Skráðir nemendur til prófgráðu í háskóla hér á landi með erlent ríkisfang og fast aðsetur hér á landi voru 993 skólaárið 2013–2014 (OECD, Education at a Glance 2015).

     4.      Hvernig eru framfærsluviðmið fyrir námsdvöl erlendis fundin út, hvaða gagnagrunnur er notaður í þeim útreikningum, hvaða opinberu framfærsluviðmið í viðkomandi löndum eru höfð til hliðsjónar og hvaða alþjóðlegu og samræmdu viðmið?
    Lánasjóður íslenskra námsmanna fékk ráðgjafafyrirtækið Analytica til að finna út framfærsluviðmið í þeim löndum sem sjóðurinn lánar til og er niðurstöður úttektarinnar að finna á heimasíðu LÍN og hafa verið þar í rúmt ár. Leitað var eftir upplýsingum frá einstaka skólum um áætlaða framfærslu, sundurliðaða eftir húsnæðiskostnaði, matarútgjöldum og persónulegum útgjöldum, bókum og fötum.
    Hér er um mikla framför að ræða frá því að framfærslugrunnur erlendis var ákveðinn án könnunar á þörf. Slík ákvörðun frá árinu 2009, um flata hækkun námslána erlendis um 20%, leiddi til um 500 milljóna króna árlegrar lánveitingar umfram framfærsluþörf og af því mun um helmingur ekki endurgreiðast. Með þeirri ákvörðun varð til verulegt misræmi á milli námsmanna á Íslandi og erlendis, en dæmi var um það erlendis að lánað væri 68% umfram framfærsluþörf.

     5.      Hvernig eru framfærsluviðmið námsmanna innan lands fundin út, hvaða gagnagrunnur er notaður í þeim útreikningum og hvaða opinberu framfærsluviðmið eru höfð til hliðsjónar?
    Við útreikning framfærslugrunns námsmanna á Íslandi er byggt á grunnviðmiði neysluviðmiða velferðarráðuneytisins og hann uppreiknaður miðað við hækkun vísitölu neysluverðs á næstliðnu ári. Húsnæðiskostnaður tekur hins vegar mið af leigu á stúdentagörðum háskólanna fyrir einstakling, par og fjölskylduhúsnæði. Framfærsluviðmið LÍN vegna húsnæðis er hærra en þetta viðmið og að teknu tilliti til húsaleigubóta er húsnæðisþáttur LÍN töluvert yfir meðalhúsnæðisverði á markaði.