Ferill 734. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1514  —  734. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um áhrif búvörusamninga 2016.


     1.      Hver er áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna búvörusamninga 2016 á gildistíma samninganna sundurliðaður fyrir hvert ár?
    Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna búvörusamninga nemur samtals 132.257 millj. kr. á næstu tíu árum. Heildarframlög hvers árs fara þó lækkandi og eru í upphafi samningsins 13.776 millj. kr. en á árinu 2026 nema framlög 12.781 millj. kr. Nánari sundurliðun er að finna í meðfylgjandi töflu.

     2.      Hversu hátt hlutfall útgjalda ríkissjóðs vegna búvörusamninga 2016 rennur til hefðbundinna búgreina, þ.e. til framleiðenda mjólkur, nautakjöts og sauðfjárafurða, og hver eru útgjöldin sundurliðuð eftir búgreinum?
    Af heildarútgjöldum búvörusamninga renna um 47% til samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar og 36% renna til samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar á árinu 2017. Þá fara 4% stuðningsins til samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða og um 13% fara til rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins á árinu 2017. Ef miðað er við árið 2016 lækka framlög hlutfallslega til hinna hefðbundnu búgreina, en heildarframlög eru 12.850 millj. kr. og skiptast þannig að 52% útgjalda renna til nautakjöts- og mjólkurframleiðenda og 38% til framleiðenda sauðfjárafurða. Framlög til rammasamnings, eða svokallaðs búnaðarlagasamnings, hækka og fara úr 5% af heildarframlögum á árinu 2016 í 13% á árinu 2017. Þannig dregur með beinum hætti verulega úr því hlutfalli sem fer til hinna hefðbundnu greina með samningunum.

     3.      Hversu hátt hlutfall af útgjöldum ríkisins vegna búvörusamninga 2016 rennur ár hvert á gildistíma samninganna til:
                  a.      lífræns landbúnaðar,
                  b.      milliliða, þ.e. dreifingar- og söluaðila,
                  c.      framleiðslustöðva landbúnaðarins?

    a.     Af heildarútgjöldum búvörusamninga renna 0,25% til lífræns landbúnaðar. Framlög til lífræns landbúnaðar eru 3,5 millj. kr. árið 2016 en verða samkvæmt nýjum búnaðarlagasamningi 35 millj. kr. á árinu 2017.
    b.     Engin framlög verða greidd til dreifingar- og söluaðila.
    c.     Engin framlög verða greidd til framleiðslustöðva (afurðastöðva) landbúnaðarins.

     4.      Hversu hátt hlutfall útgjalda ríkisins vegna búvörusamninga 2016 rennur beint til bænda og hvernig er skipting fjárins eftir búgreinum? Upphæðir og hlutföll óskast sundurliðuð á hvert ár á gildistíma samningsins og skipt niður á fimm tekjuflokka bænda.
    Ekki er ljóst hvað átt er við þegar talað er um skiptingu niður á fimm tekjuflokka bænda. Í meðfylgjandi töflu er að finna sundurliðaðar fjárhæðir eftir einstökum greinum samningsins og þeim viðfangsefnum sem um ræðir ásamt heildarupphæð hvers árs frá árinu 2017 til 2026, en samningarnir eru fjórir. Þá má einnig sjá samanlagða heildarfjárhæð allra samninganna á hverju ári á samningstímanum.

     5.      Hver eru bein áhrif búvörusamninga 2016 á neytendaverð landbúnaðarvara og hvernig er líklegt að verðbreytingar yrðu ef framlög ríkisins til landbúnaðar yrðu afnumin? Dæmi óskast um a.m.k. fimm algengar landbúnaðarvörur.
    Greining á verðbreytingum ef framlög ríkisins til landbúnaðar yrðu afnumin liggja ekki fyrir og ekki heldur hvernig líklegar verðbreytingar yrðu. Útfærsla vegna breytinga sem fyrirhugaðar eru t.d. á verðlagningu mjólkur eru enn á frumstigi og í vinnslu hjá ráðuneytinu svo ekki er unnt að greina nákvæmlega bein áhrif þeirra.

     6.      Er stefna ráðherra að auka, draga úr eða halda útgjöldum ríkisins óbreyttum vegna framleiðslu landbúnaðarafurða til lengri tíma litið?
    Í búvörusamningunum er mælt fyrir um tiltekna lækkun á heildarframlögum til landbúnaðarmála næstu tíu árin sem nema um 0,5% fyrstu fimm árin og 1% síðari fimm árin. Markmið samninganna er einnig að auka verðmætasköpun framleiðenda búvara sem leiði til þess að draga megi úr framlögum til landbúnaðar til lengri tíma.

     7.      Hver var kostnaður ríkissjóða norrænu ríkjanna af búvörusamningum eða hliðstæðum aðgerðum sem hlutfall af ríkisútgjöldum annars vegar og hins vegar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Svar óskast miðað við árið 2015 eða það ár sem síðast er unnt að hafa til samanburðar.
    Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu. Hins vegar er að finna í skýrslu OECD Agricultural Policy Monitoring and Evaluation 2015 yfirlit yfir stuðning einstakra ríkja við landbúnað. Sjá:
     www.oecd.org/tad/agricultural-policies/monitoring-and-evaluation.htm.

     8.      Hversu hátt hlutfall af heildarveltu landbúnaðarins voru greiðslur ríkissjóðs vegna búvörusamninga árið 2015?
    Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands er áætlað að heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins fyrir árið 2015 sé 67,7 milljarðar kr. á grunnverði, þ.e. að meðtöldum vörustyrkjum en að frátöldum vörusköttum, og hafi aukist um 2,2% á árinu. Virði afurða búfjárræktar er talið vera 43,3 milljarðar kr. og þar af vörutengdir styrkir og skattar um 10,4 milljarðar kr. og því hlutfall styrkja 24%. Virði afurða nytjaplönturæktar eru tæpir 20,8 milljarðar kr. og þar af vörutengdir styrkir og skattar 290 millj. kr., eða 1,4%.

     9.      Hvaða áhrif hafa ákvæði 13. gr. samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem varða breytingu á tollalögum, á verðlag til neytenda og hvaða neytendavörur snerta ákvæðin?
    Hækkun á magntollum hefur engin bein áhrif á verð til neytenda nema ef um er að ræða innflutning umfram tollkvóta. Breyting á magntollum nær til eftirfarandi vara:
     *      0402.1010 – Mjólk og rjómi, kjarnað án viðbætts sykurs eða annars sætuefnis í formi dufts, korns eða í öðru föstu formi, með fituinnihaldi sem er ekki meira en 1,5% miðað við þyngd.
     *      0402.1090 – Önnur mjólk og rjómi, kjarnað eða með viðbættum sykri eða öðru sætuefni í formi dufts, korns eða í öðru föstu formi, með fituinnihaldi sem er ekki meira en 1,5% miðað við þyngd.
     *      0402.2100 – Mjólk og rjómi, kjarnað án viðbætts sykurs eða annars sætuefnis í formi dufts, korns eða í öðru föstu formi, með fituinnihaldi sem er ekki meira en 1,5% miðað við þyngd.
     *      0402.2900 – Önnur mjólk og rjómi, kjarnað eða með viðbættum sykri eða öðru sætuefni í formi dufts, korns eða í öðru föstu formi, með fituinnihaldi sem er ekki meira en 1,5% miðað við þyngd.
     *      0402.9100 – Önnur mjólk og rjómi, kjarnað án viðbætts sykurs eða annars sætuefnis í formi dufts, korns eða í öðru föstu formi, með fituinnihaldi sem er ekki meira en 1,5% miðað við þyngd.
     *      0402.9900 – Önnur mjólk og rjómi, kjarnað án viðbætts sykurs eða annars sætuefnis í formi dufts, korns eða í öðru föstu formi, með fituinnihaldi sem er ekki meira en 1,5% miðað við þyngd.
     *      0406.2000 – Hvers konar rifinn eða mulinn ostur.
     *      0406.3000 – Fullunnin ostur, órifinn eða ómulinn.
     *      0406.4000 – Gráðostur og annar yrjóttur ostur framleiddur með Penicillium roqueforti.
     *      0406.9000 – Annar ostur.

     10.      Hvers vegna voru framleiðendur svína- og kjúklingakjöts settir hjá við gerð búvörusamninga og hvernig telur ráðherra að best sé að haga málum, þar á meðal tollamálum, þannig að þessar búgreinar eigi framtíð fyrir sér?
    Samkvæmt núgildandi ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, er aðeins gert ráð fyrir að samið sé um stuðning við framleiðendur mjólkur, sauðfjárafurða og garðyrkjuafurða. Þar af leiðandi voru ekki gerðir sérsamningar við framleiðendur svína- og alifuglakjöts. Í rammasamningi sem gerður er á grundvelli búnaðarlaga, nr. 70/1998, eru þó framlög sem framleiðendur svína- og alifuglakjöts geta sótt í, m.a. leiðbeiningarþjónusta, jarðræktar- og landgreiðslur og stuðningur við lífræna framleiðslu. Þá er í samningnum kveðið á um sérstaka fjárfestingarstyrki í svínarækt, m.a. til að mæta auknum kröfum í reglugerð um velferð svína, en þær breytingar sem nauðsynlegt er að svínabændur ráðist í eru kostnaðarsamari en gengur og gerist í öðrum búgreinum og því er fjármunum þessum ætlað að styðja við þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera.

     11.      Hvaða rök liggja að baki áformum um að hverfa frá framleiðslustýringu, hvernig verður brugðist við offramleiðslu á búvörum sem af því getur stafað og verða gerðar einhverjar ráðstafanir gegn því að fjármunum sem renna til íslenskra bænda samkvæmt búvörusamningum verði varið til að niðurgreiða neysluvörur fyrir erlenda neytendur?
    Í samningunum er gert ráð fyrir veigamiklum breytingum sem ekki er að fullu fyrirséð hvernig muni hafa áhrif á þróun framleiðslu, en markmið samninganna er að eyða m.a. hvötum sem leiða til offramleiðslu og afmarka tæki til að bregðast við offramleiðslu. Í núgildandi kerfi er til staðar offramleiðsla t.d. í mjólk og hefur eldri samningur ekki upp á að bjóða nema að takmörkuðu leyti tæki til að taka á þeim vanda sem við það getur skapast. Í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar er til að dreifa svokölluðu framleiðslujafnvægi en það er hugsað til að geta brugðist við þegar ákveðnar forsendur breytast á samningstímanum. Þá er einnig unnt að bregðast við slíkum breytingum á framleiðslu við endurskoðun samninganna.

Tafla um kostnað ríkissjóðs vegna búvörusamninga 2016.

Fjárhæðir – Sauðfé 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023 2024 2025 2026
Beingreiðslur – greiðslumark – 3. gr. 2.506 2.267 2.205 1.944 1.635 1.319 1.046 777 422
Gæðastýring – álagsgreiðslur – 4. gr. 1.714 1.679 1.674 1.652 1.816 1.970 2.120 2.268 2.504 2.482
Gripagreiðslur – 5. gr. 95 225 355 445 534 621 1.033
Eftirstöðvar eldri samnings – 16. gr. 20
Býlisstuðningur – 6. gr. 194 242 239 238 235 233 231 229 227
Ullarnýting – 7. gr. 446 437 436 430 428 424 420 417 413 409
Fjárfestingastuðningur – 9. gr. 48 48 95 95 94 93 93 92 91
Svæðisbundinn stuðningur – 8. gr. 99 145 145 143 143 141 140 139 138 136
Aukið virði afurða – 10. gr. 148 145 145 95 95 94 93 93 92 91
Samtals sauðfjársamningur 4.932 4.916 4.896 4.694 4.675 4.633 4.591 4.550 4.510 4.470
Fjárhæðir – Garðyrkja 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023 2024 2025 2026
Beingreiðslur – 4. gr. 274 273 272 268 267 265 263 260 258 256
Niðurgreiðslur á raforku – 5. gr. 278 278 278 278 278 278 278 278 278 278
Samtals garðyrkjusamningur 551 550 549 546 545 543 540 538 535 533
Fjárhæðir – Nautgripir 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023 2024 2025 2026
Greiðslur út á greiðslumark – 3. gr. 1.942 1.934 1.927 1.633 1.355 1.074 798 527 260 0
Greiðslur út á innvegna mjólk – 4. gr. 2.629 2.619 2.609 2.688 2.949 3.193 3.431 3.665 3.894 4.117
Gripagreiðslur – mjólkurkýr – 5. gr. 1.175 1.171 1.166 1.298 1.293 1.282 1.271 1.259 1.248 1.237
Gripagreiðslur – holdakýr – 5. gr. 141 140 140 156 155 154 152 151 150 148
Framleiðslujafnvægi – 6. gr. 99 98 98 97 97 96 95 94 93 92
Kynbótastarf – 7. gr. 197 196 196 193 193 191 189 188 186 184
Fjárfestingastuðningur – 8. gr. 193 192 191 189 188 187 185 183 182 180
Nautakjötsframleiðsla – 9. gr. 173 98 121 143 166 186 184 182 181 179
Samtals nautgripasamningur 6.550 6.449 6.448 6.398 6.396 6.363 6.305 6.249 6.193 6.138
Fjárhæðir – Rammi 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023 2024 2025 2026
Leiðbeiningarþjónusta – 3. gr. 519 503 486 467 450 432 414 396 378 359
Kynbótaverkefni – 4. gr. 60 59 59 58 58 58 57 57 56 56
Jarðræktarstyrkir – 5. gr. 369 366 365 361 359 356 353 350 347 344
Framleiðnisj. landbúnaðarins – 13. gr. 128 128 128 128 128 128 128 128 128 128
Þróunarfjármunir búgreina – 11. gr. 92 91 91 90 90 89 88 87 86 86
Lífræn framleiðsla – 7. gr. 35 34 34 34 34 33 33 33 33 32
Skógarafurðir – 12. gr. 15 15 15 15 14 14 14 14 14 14
Fjárfestingastyrkir í svínarækt – 10. gr. 99 98 98 97 48 0 0 0 0 0
Landgreiðslur – 5. gr. 247 246 245 342 341 339 337 335 333 331
Mat á gróðurauðlindum – 8. gr. 30 30 29 29 29 29 28 28 28 28
Nýliðun – 6. gr. 128 127 126 125 124 123 122 121 120 119
Geitfjárrækt – 9. gr. 15 15 15 15 14 14 14 14 14 14
Erfðanefnd landbúnaðarins – 14. gr. 7 7 7 7 7 7 7 7 7 6
Samtals rammasamningur 1.743 1.719 1.699 1.766 1.697 1.622 1.595 1.569 1.542 1.516
Allir samningar 13.776 13.634 13.592 13.405 13.314 13.160 13.032 12.906 12.781 12.656