Ferill 772. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1517  —  772. mál.
Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um símhleranir hjá alþingismönnum.


     1.      Hversu margir alþingismenn voru á meðal þeirra sem sakadómari samþykkti að sæta skyldu símhlerunum í tengslum við:
                  a.      samþykkt Alþingis á aðild að Atlantshafsbandalaginu, sbr. úrskurð sakadóms 26. mars 1949,
                  b.      heimsókn Dwight Eisenhowers, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins og síðar forseta Bandaríkjanna, sbr. úrskurð sakadóms 17. janúar 1951,
                  c.      komu bandarísks herliðs til Íslands samkvæmt tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, sbr. úrskurði sakadóms 25. apríl og 2. maí 1951,
                  d.      landhelgissamning við Breta, sbr. úrskurð sakadóms 26. febrúar 1961,
                  e.      heimsókn Lyndon B. Johnsons, varaforseta Bandaríkjanna og síðar forseta, sbr. úrskurð sakadóms 12. september 1963,
                  f.      utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins, sbr. úrskurð sakadóms 8. júní 1968?

    Í þessum lið fyrirspurnarinnar er óskað eftir upplýsingum um fjölda alþingismanna sem sakadómari samþykkti að sæta skyldu símhlerunum í tengslum við tilgreinda atburði á tímabilinu1949–1968. 19. maí sl. var send upplýsingabeiðni til Þjóðskjalasafns Íslands og óskað eftir upplýsingum sem fyrirspurnin lýtur að. Í bréfi Þjóðskjalasafns Íslands, dags. 1. júní sl., er tekið fram að sakadómur Reykjavíkur hafi veitt heimild til hlerunar ákveðinna símanúmera. Miðað sé við að símanúmerin hafi verið skráð á starfandi alþingismenn á þeim tíma sem hlerunin átti sér stað. Eftirfarandi upplýsingar koma fram í farmangreindu bréfi Þjóðskjalasafns Íslands varðandi 1. lið fyrirspurnarinnar:
         Samkvæmt úrskurði 26. mars. 1949 samþykkti sakadómur Reykjavíkur símhleranir þriggja alþingismanna.
         Samkvæmt úrskurði 17. janúar 1951 samþykkti sakadómur Reykjavík símhleranir tveggja alþingismanna.
         Samkvæmt úrskurði 25. apríl og 2. maí 1951 samþykkti sakadómur Reykjavíkur símhleranir fimm alþingismanna.
         Samkvæmt úrskurði 26. febrúar 1961 samþykkti sakadómur Reykjavíkur símhleranir tveggja alþingismanna.
         Samkvæmt úrskurði 12. september 1963 samþykkti sakadómur Reykjavíkur símhleranir eins alþingismanns.
         Samkvæmt úrskurði 8. júní 1968 samþykkti sakadómur Reykjavíkur símhleranir tveggja alþingismanna.

     2.      Eru þekkt dæmi um að sakadómari hafi hafnað ósk framkvæmdarvaldsins um heimild til símhlerana þegar alþingismenn áttu í hlut?
    Samkvæmt upplýsingum Þjóðskjalasafns Íslands í fyrrgreindu bréfi eru ekki vísbendingar í þeim gögnum sem skoðuð voru um að hafnað hafi verið beiðni um hlerun á einstökum símanúmerum.

     3.      Telur innanríkisráðherra að svör við fyrrgreindum spurningum gefi tilefni til að bætt verði við þau stjórnarfrumvörp sem nú liggja fyrir Alþingi (658. og 659. mál) ákvæðum um þinglegt eftirlit til að torvelda að slíkum heimildum verði misbeitt gagnvart stjórnmálamönnum?
    Fyrirspurnin lýtur að því hvort gera skuli breytingar á þeim stjórnarfrumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi (658. mál um eftirlit með störfum lögreglu og 659. mál um skilyrði fyrir beitingu úrræða skv. XI. kafla) með því að leggja til að þinglegt eftirlit verði haft með beitingu lögreglu á heimildum til símahlustunar til þess að torvelda misbeitingu slíkra aðgerða gagnvart stjórnmálamönnum. Eftirlitið mundi því einskorðast við stjórnmálamenn.     Í þessu samhengi verður að hafa í huga að ávallt er mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að tryggja allsherjarreglu og halda uppi lögum og reglu séu í fullri sátt við þær grundvallarreglur sem stjórnarskráin kveður á um. Það er skoðun ráðherra að ávallt þurfi að standa vörð um gagnsæi, ábyrgð og lýðræðislegt eftirlit á öllum sviðum. Í því felst m.a. að löggjafarvaldið sé upplýst reglulega um framgang mála.
    Með hliðsjón af greinargerð með fyrirspurninni má draga þá ályktun að tilefni fyrirspurnarinnar sé það mikilvæga úrlausnarefni hvort og þá með hvaða hætti lýðræðislegu/þinglegu eftirliti verði fyrirkomið við beitingu rannsóknarheimilda, svo sem símahlustunum, eins og tíðkast í mörgum löndum Vestur-Evrópu í þeim tilgangi að torvelda að slíkum heimildum verði misbeitt gagnvart stjórnmálamönnum. Það skal tekið fram að enda þótt alþingismenn njóti friðhelgi skv. 49. gr. stjórnarskrárinnar njóta stjórnmálamenn engrar sérstöðu að öðru leyti. Það eru allir jafnir fyrir lögunum.
    Fyrirspurn þingmannsins vísar til réttarframkvæmdar sem kemur fram í framangreindum úrskurðum sakadóms á tímabilinu 1949–1968 sem allir varða tiltekna heimild til beitingar tiltekinna rannsóknarúrræða vegna rannsókna í tengslum við tiltekna og umdeilda atburði hérlendis sem tengjast þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði varnar- og utanríkismála.
    Það er hins vegar rétt að halda því til haga að í mörgu tilliti hafa orðið miklar umbætur í málum er varða réttaröryggi og mannréttindi á undanförnum áratugum hvað varðar beitingu rannsóknarheimilda og eftirlit með þeim.
    Dómsmálaskipan hér á landi er til dæmis gjörbreytt frá því sem var fram til ársins 1992 er umbylting á réttarfari átti sér stað, m.a. með aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdarvalds. Fram til þess tíma höfðu sýslumenn og bæjarfógetar farið með dómsvald auk þess sem þeir sáu um löggæslu. Svo er ekki í dag. Búið er að aðskilja ákæruvald og dómsvald og hefur sakadómari ekki lengur með höndum rannsókn og uppkvaðningu úrskurða vegna rannsóknar sem hann sjálfur annast. Þannig er dómsmálaskipan með allt öðrum hætti nú en á því tímabili sem fyrirspurnin lýtur að og að öllu leyti ósambærileg. Sú skipan sem við búum við í dag er mun betur til þess fallin að tryggja réttaröryggi og vernd grundvallarréttinda. Nú er dómsúrskurður sjálfstæðs dómstóls ætíð skilyrði heimilda lögreglu til símahlustana.
    Ríkissaksóknari hefur á undanförnum árum lagt áherslu á kerfisbundið eftirlit embættisins með framkvæmd símahlustunar og gefið út fyrirmæli til lögreglustjóra um framkvæmd símahlustana hjá lögreglu. Í frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð sakamála sem nú er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd eru lagðar til breytingar bæði á skilyrðum fyrir því að dómsúrskurður fáist til beitingar símahlustana og skyldra aðgerða og eftirliti með þessum aðgerðum. Skilyrðin eru þrengd og gerð skýrari. Eftirlit ríkissaksóknara með því hvernig farið er með þessar heimildir er aukið og þeim sem aðgerð beinist gegn er skipaður lögmaður sem gæta á hagsmuna viðkomandi við meðferð á beiðni um aðgerð fyrir dómstólum. Þannig verður ekki séð að þau dæmi sem vísað er til í fyrirspurninni og áttu sér stað í gjörólíku réttarfarsumhverfi en er í dag kalli sérstaklega á eftirlit þingsins með því hvernig umræddum aðgerðum er beitt.
    Þá voru gerðar mikilvægar breytingar á lögum um þingsköp Alþingis á árinu 2011 sem miðuðu að því að efla eftirlitshlutverk Alþingis og styrkja stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Yrði Alþingi þannig gert betur kleift að annast þau verkefni sem því eru falin samkvæmt stjórnarskrá við að veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með starfsháttum framkvæmdarvaldsins. Settar voru skýrar reglur um rétt Alþingis, einkum þingnefnda, til upplýsinga og gagna frá stjórnsýslunni og um meðferð trúnaðarupplýsinga í nefndum.
    Alþingi hefur því mun betri forsendur en áður til þess að sinna þinglegu eftirliti með stjórnsýsluframkvæmd, einnig á sviði löggæslu. Í því ljósi gæti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd haft mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að huga að lýðræðislegu eftirliti með tiltekinni starfsemi þó að slíkt eftirlit kæmi ekki í stað eftirlits dómstóla og ríkissaksóknara með framkvæmd símahlustana. Þá yrði að haga slíku þinglegu eftirlit með þeim hætti að ekki verði gengið á réttarvernd þess sem í hlut á samkvæmt almennum lögum.
    Stjórnvöld, bæði löggjafar- og framkvæmdarvald, verða með opnum huga að leitast við að tryggja stofnunum, sem falið er það vandasama hlutverk að halda uppi lögum og reglu og gæta öryggis, fullnægjandi heimildir og starfsgrundvöll til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin um leið og grundvallarréttindi eru virt. Í þeim efnum eigum við einnig að vera opin fyrir því að stíga stærra skref og koma á öflugra eftirliti með störfum lögreglunnar en kveðið er á um í því frumvarpi sem er til umfjöllunar á Alþingi um eftirlit með störfum lögreglunnar.
    Ef vel er á spilum haldið er þinglegt eftirlit á hvaða sviði sem er vel til þess fallið að draga úr tortryggni, skapa sátt og auka skilning á viðkvæmum og krefjandi viðfangsefnum sem stjórnvöld takast á við. Þá telur ráðherra að lokum mikilvægt að það eftirlit, ef því yrði komið á fót, væri í þágu samfélagsins í heild og að allir borgarar nytu þeirrar auknu réttarverndar sem í því fælist en ekki einungis stjórnmálamenn.