Ferill 781. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1527  —  781. mál.
Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Ragnheiði Ríkharðsdóttur um sjálfsforræði félagsþjónustu sveitarfélaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur félagsþjónusta sveitarfélaga sjálfsforræði við úrlausn mála er varða börn og unglinga sem eiga í vanda?

    Við eftirgrennslan ráðuneytisins hefur komið í ljós að með fyrirspurninni er átt við vistun barna utan heimilis á vegum barnaverndar og sjálfsforræði sveitarfélaga varðandi val á slíkum úrræðum og mun svarið því taka mið af því.
    Stuðningsúrræði barnaverndar eru fjölbreytt og miða að því að veita markvissan stuðning í samræmi við þarfir hverju sinni. Skv. 12. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er það m.a. hlutverk barnaverndarnefnda að kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum. Þá er það jafnframt hlutverk barnaverndarnefnda að beita þeim úrræðum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hags­muni og velferð barna. Þá er barnaverndarnefndum jafnframt skylt að aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum sínum og grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt ákvæðum barna­verndarlaga ef nauðsyn ber til.
    Sveitarfélögin bjóða upp á ýmis úrræði sem taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Meðal úrræða barnaverndar má nefna tilsjónarmann, stuðningsfjölskyldu, persónulega ráðgjafa, viðtöl hjá sérfræðingum, fundi með fagaðilum sem hafa aðkomu að máli barns, greiningu á stöðu barns, vistun á vistheimili sveitarfélaga fyrir börn og fósturráðstafanir. Val úrræða fer ávallt fram í samráði við foreldra eða forsjáraðila og viðkomandi barn.
    Meðferðarkerfi barnaverndar byggist í undirstöðuatriðum á því að börnum og ungmennum verði ekki ráðstafað í meðferð á stofnunum fyrr en fullreynt hefur verið að úrræði utan stofnana dugi ekki til að leysa úr vanda barns. Frá árinu 2015 hefur svokölluð MST-fjölkerfa­meðferð verið í boði um allt land, í samræmi við stefnu ráðuneytisins um meðferð utan stofn­ana og í nærumhverfi barna og að fjölskyldur njóti jafnræðis og hafi jafnan aðgang að þjón­ustu, óháð búsetu. Fyrir þann hóp ungmenna sem sýnt hefur verið fram á að þurfi á vistun á meðferðarheimili að halda eru tiltæk sérhæfð meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu. Tilkoma MST-þjónustu í barnavernd hefur einnig styrkt meðferðarstarf á meðferðarheimilum og nýtist jafnframt í framhaldi af dvöl á meðferðarheimili til þess að viðhalda meðferðar­árangri.
    Samkvæmt ákvæðum 7. gr. barnaverndarlaga skal Barnaverndarstofa vinna að samhæf­ingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og hlutast til um að fram fari þróunar- og rann­sóknastarf á sviði barnaverndar. Þá hefur stofan með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga, veitir barnaverndarnefndum fræðslu og ráðgjöf og hefur jafnframt eftirlit með störfum þeirra.
    Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum kemur fram að nefndin sem samdi frumvarpið hafi á fundum sínum fjallað um framkomna gagnrýni á að Barnaverndarstofa veiti barnaverndarnefndum leiðbeiningar, fræðslu og ráðgjöf og hafi jafn­framt eftirlit með störfum þeirra. Nefndin taldi það tæplega samrýmast góðum stjórnsýslu­háttum að hafa þetta tvíþætta hlutverk á einni og sömu hendi en taldi þó ekki ástæðu til að leggja til breytingar á því fyrirkomulagi þrátt fyrir þessa ágalla. Nefndin byggði mat sitt á því að leiðbeiningar stofunnar til barnaverndarnefnda væru almenns eðlis en fælu ekki í sér að stofan tæki beinan þátt í vinnslu einstakra mála auk þess sem einstökum ákvörðunum eða úrskurðum barnaverndarnefnda yrði ekki skotið til stofunnar. Alþingi tók hins vegar ekki afstöðu til þessa álitaefnis við meðferð málsins.
    Skv. 5. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga fer Barnaverndarstofa með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Þá skal stofan hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót og hefur jafnframt yfir­umsjón með vistun barna þar. Starfsfólk barnaverndarnefnda sendir umsóknir um vistun á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu til stofunnar að fengnu samþykki forsjáraðila og barns sem náð hefur 15 ára aldri, en vistun án slíks samþykkis kemur þó til álita hafi barnaverndar­nefnd og/eða dómstólar úrskurðað þar að lútandi. Barnaverndarstofa leggur síðan mat á umsóknir og tekur ákvörðun um afgreiðslu þeirra út frá bestu hagsmunum viðkomandi barns. Við afgreiðslu slíkra umsókna lítur Barnaverndarstofa m.a. til vanda barns, þeirra úrræða sem þegar hefur verið beitt, fjölskylduaðstæðna og félagslegrar stöðu viðkomandi barns.