Ferill 746. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1529  —  746. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Einarssyni um leigufélög með fasteignir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver eru tíu stærstu leigufélögin með íbúðarhúsnæði til útleigu? Hvað er hvert félag með margar íbúðir til útleigu, hver er heildarfermetrafjöldi íbúða hvers félags og hvert er samanlagt markaðsvirði allra íbúða hvers félags?
     2.      Hvert er hlutfall leigufélaga af markaði með íbúðarhúsnæði?
     3.      Hver eru tíu stærstu leigufélögin með atvinnuhúsnæði til útleigu? Hvað er hvert félag með margar fasteignir til útleigu, hver er heildarfermetrafjöldi atvinnuhúsnæðis hvers félags og hvert er samanlagt markaðsvirði alls atvinnuhúsnæðis hvers félags?
     4.      Hvert er hlutfall leigufélaga af markaði með atvinnuhúsnæði?
     5.      Hvernig hefur fjöldi leigufélaga með fasteignir til útleigu þróast síðustu 10 ár?
     6.      Telur ráðherra ástæðu til að hafa áhyggjur af hlutdeild leigufélaga á markaði með íbúðarhúsnæði?


    Í því skyni að svara fyrirspurninni leitaði ráðuneytið til Þjóðskrár Íslands sem fer með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2011, og rekstur gagna- og upplýsingakerfis fasteignaskrár. Fasteignaskrá heldur upplýsingar um fasteignir og fær upplýsingar um eigendur í gegnum þinglýsingakerfi sýslumannsembættanna. Grunnupplýsingar um fasteign eru heiti fasteignar, auðkenni, flokkun og hnitsett afmörkun auk nákvæmra upplýsinga um mannvirkið, svo sem stærð, notkun og byggingarár. Þá er að finna upplýsingar um gæði og ástand eignarinnar ásamt fjárhæðum fasteignamats og brunabótamats.
    Fyrirspurnin lýtur fyrst og fremst að því hver séu tíu stærstu leigufélögin með íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði til útleigu. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands er ekki hægt að afla svara við því úr fasteignaskrá nema að fá uppgefnar kennitölur þessara félaga, enda eru þar einungis upplýsingar um hvaða fasteignir tilheyri hverri kennitölu. Þá bendir Þjóðskrá á að innan eins leigufélags séu oftast nær nokkur félög, hvert með sína kennitölu og því verði jafnframt að liggja fyrir upplýsingar um hvaða kennitölur myndi eitt leigufélag, en Þjóðskrá Íslands býr ekki yfir upplýsingum um eignarhald á þessum félögum. Með vísan til þessara upplýsinga telur ráðuneytið sér ekki fært að svara fyrirspurninni með fullnægjandi hætti.