Ferill 793. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1531  —  793. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur um rannsókn á aflandsfélögum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur verið stofnað til rannsóknar, af hálfu íslenskra yfirvalda, þ.e. lögreglu eða skattyfirvalda, á uppruna fjár í aflandsfélögum? Ef svo er, hefur verið leitað liðsinnis erlendra eða alþjóðlegra aðila á borð við Europol og Interpol við slíka rannsókn?
     2.      Telur ráðherra ástæðu til að veita viðeigandi yfirvöldum fullnægjandi fjármagn til slíkrar rannsóknar?


    Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir umsögn héraðssaksóknara. Umsögn embættisins barst með bréfi dags. 18. júlí 2016. Í umsögninni segir: ,,Embætti sérstaks saksóknara, skv. lögum nr.135/2008, hóf starfsemi hinn 1. febrúar 2009 en embættið var lagt niður 31. desember 2015, sbr. lög nr. 47/2015. Héraðssaksóknari, sem tók til starfa 1. janúar 2016, sbr. sömu lög, tók við þeim málum og verkefnum sérstaks saksóknara sem ekki var lokið við niðurlagningu embættisins. Héraðssaksóknari hefur ekki hafið almenna rannsókn á uppruna fjár í aflandsfélögum. Í allnokkrum þeirra mála sem kölluð hafa verið hrunmál og voru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara og hann e.a. ákærði í, komu aflandsfélög við sögu, þ.m.t. uppruni fjár í félögum. Við rannsóknir sínar naut sérstakur saksóknari liðsinnis Europol í nokkrum tilfellum en aðstoðar Interpol var ekki beiðst. Varðandi svokölluð Panamaskjöl og umræðu um aflandsfélög tengd gagnaleika frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama, skal áréttað að héraðssaksóknari hefur ekki hafið almenna rannsókn á uppruna fjár í aflandsfélögum.“
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hvort önnur stjórnvöld er starfa utan málefnasviðs innanríkisráðuneytis, þ.m.t. skattyfirvöld, hafa stofnað til rannsóknar á uppruna fjár í aflandsfélögum.
    Ráðherra telur mikilvægt að búa þannig að fjárheimildum þeirra stofnana réttarvörslukerfisins, sem sinna rannsókn og saksókn efnahagsbrota, að þær geti sinnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti ef rökstuddur grunur er til þess að ætla að slík brot hafi verið framin.