Ferill 770. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1534  —  770. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um heimilismenn á hjúkrunarheimilum.


     1.      Hversu margir dvelja nú á hjúkrunarheimilum? Óskað er eftir yfirliti yfir hjúkrunarheimili landsins og fjölda einstaklinga á hverju hjúkrunarheimili.
    Á hjúkrunarheimilum eru í sumum tilvikum bæði hjúkrunarrými og dvalarrými. Slík rými eru einnig á sumum heilbrigðisstofnunum. Til að gera grein fyrir heildarfjölda íbúanna er horft bæði til hjúkrunar- og dvalarrýma, hvort sem þau eru á sérstökum hjúkrunarheimilum eða á heilbrigðisstofnunum. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis voru skráðir alls 2.714 einstaklingar til langdvalar á 65 stofnunum með hjúkrunar- og dvalarrými á landinu 1. maí 2016. Af þeim voru 2.407 einstaklingar í hjúkrunarrýmum og 307 í dvalarrýmum en þennan dag var heimilaður rekstur 2.670 hjúkrunarrýma og 347 dvalarrýma á öllu landinu. Ljóst er að munur á skráðum fjölda einstaklinga í rýmum og fjölda rýma er því nokkur. Munurinn felst í því að uppgefnar tölur um fjölda einstaklinga ná einungis til þeirra sem dvelja í rýmunum til langframa. Því eru í þessum tölum ekki þeir sem dvelja í hjúkrunarrýmum til skemmri tíma eins og þegar um hvíldarinnlagnir er að ræða. Eins myndast oft einnar viku bil frá því að hjúkrunarrými losnar þar til nýr einstaklingur kemur þar til dvalar.
    Tafla 1 sýnir fjölda einstaklinga í hjúkrunar- og dvalarrýmum eftir heilbrigðisumdæmum, stofnunum með hjúkrunar- og dvalarrými og tegund rýma.

Tafla 1. Fjöldi einstaklinga í hjúkrunar- og dvalarýmum eftir heilbrigðisumdæmum, stofnunum með hjúkrunar- og dvalarrými og tegund rýma.

Heilbrigðisumdæmi Einstaklingar
í hjúkrunarrými
Einstaklingar
í dvalarrými
Samtals
Vesturland 181 51 232
Barmahlíð, Reykhólum 13 2 15
Brákarhlíð, Borgarnesi 33 17 50
Dvalarheimili aldraðra – Stykkishólmi 13 4 17
Fellaskjól, Grundarfirði 10 2 12
Fellsendi, Dalasýslu 24 24
Heilbrigðisstofnun Vesturlands – Hólmavík 5 5
Heilbrigðisstofnun Vesturlands – Hvammstanga 9 9
Heilbrigðisstofnun Vesturlands – Stykkishólmi
Höfði, Akranesi 54 19 73
Jaðar, Ólafsvík 11 5 16
Silfurtún, Búðardal 9 2 11
Vestfirðir 49 49
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða – Patreksfirði 9 9
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða – Bolungarvík 10 10
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða – Þingeyri, Tjörn 4 4
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða – Ísafirði, Eyri 26 26
Norðurland 325 74 399
Dalbær, Dalvík 26 11 37
Grenilundur, Grenivík 5 3 8
Hornbrekka, Ólafsfirði 13 10 23
Heilbrigðisstofnun Norðurlands – Blönduósi 17 9 26
Heilbrigðisstofnun Norðurlands – Fjallabyggð 15 15
Heilbrigðisstofnun Norðurlands – Húsavík 16 16
Heilbrigðisstofnun Norðurlands – Sauðárkróki 42 9 51
Hvammur, Húsavík 25 17 42
Naust, Þórshöfn 11 3 14
Sjúkrahúsið á Akureyri
Sæborg, Skagaströnd 7 7
Öldrunarheimili Akureyrar 148 12 160
Austurland 90 9 99
Heilbrigðisstofnun Austurlands – Egilsstöðum, Dyngja 29 29
Heilbrigðisstofnun Austurlands – Neskaupstað 9 9
Heilbrigðisstofnun Austurlands – Seyðisfirði 13 13
Hulduhlíð – hjúkrunarheimili Eskifirði 20 20
Sundabúð – hjúkrunarheimili Vopnafirði 10 10
Uppsalir – hjúkrunarheimili Fáskrúðfirði 9 9 18
Suðurland 284 89 373
Ás, Hveragerði 75 44 119
Blesastaðir, Skeiðum 5 4 9
Heilbrigðisstofnun Suðurlands – Höfn í Hornafirði 23 6 29
Heilbrigðisstofnun Suðurlands – Selfossi 36 36
Heilbrigðisstofnun Suðurlands – Vestmannaeyjum 7 7
Hjallatún, Vík 9 5 14
Hraunbúðir, Vestmannaeyjum 27 8 35
Kirkjuhvoll, Hvolsvelli 24 4 28
Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri 16 2 18
Kumbaravogur, Stokkseyri 30 1 31
Lundur, Hellu 27 2 29
Sólvellir, Eyrarbakka 5 13 18
Suðurnes 106 106
Hrafnista Hlévangi, Reykjanesbæ 29 29
Hrafnista Nesvöllum, Reykjanesbæ 60 60
Víðihlíð, Grindavík 17 17
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Höfuðborgarsvæðið 1.372 84 1.456
Droplaugarstaðir, Reykjavík 81 81
Eir, Reykjavík 157 157
Fell, Reykjavík 14 14
Grund, Reykjavík 152 2 154
Hamrar, Mosfellsbæ 30 30
Hrafnista, Hafnarfirði 150 54 204
Hrafnista, Kópavogi – Boðaþingi 41 2 43
Hrafnista, Reykjavík 175 12 187
Ísafold, Garðabæ 60 60
Mörkin hjúkrunarheimili 103 103
Roðasalir, Kópavogi 10 10
Seljahlíð, Reykjavík 20 20
Skjól, Reykjavík 105 105
Skógarbær, Reykjavík 75 75
Sóltún, Reykjavík 91 91
Sólvangur, Hafnarfirði 56 56
Sunnuhlíð – Vigdísarholt 66 66
Samtals fjöldi einstaklinga 2.407 307 2.714
– táknar að engar upplýsingar liggja fyrir um fjölda einstaklinga á stofnuninni.


     2.      Hver er aldursdreifing og kyn heimilismanna á hjúkrunarheimilum? Óskað er upplýsinga um þróunina undanfarin 20 ár.
    Í þessu svari er einungis horft til hjúkrunarrýma þar sem dvöl í þeim takmarkast ekki við 67 ára aldur eins og í dvalarrými þar sem kveðið er á um að einstaklingar þurfi að vera 67 ára eða eldri til að eiga kost á dvöl þar. Tafla 2 sýnir aldursdreifingu íbúa í hjúkrunarrýmum eftir kyni á árunum 1996–2016. Miðað er við stöðuna eins og hún var 1. janúar hvert ár.

Tafla 2. Fjöldi íbúa í hjúkrunarrýmum eftir aldri og kyni á árunum 1996–2016 miðað við 1. janúar hvert ár.


Ár
Karlar Konur Karlar
og konur samtals
66 ára og yngri 67–69
ára
70–79 ára 80 ára og eldri Samtals 66 ára og yngri 67–69
ára
70–79
ára
80 ára
og eldri
Samtals
1996 21 7 92 206 326 22 6 160 533 721 1.047
1997 22 8 100 238 368 20 9 174 572 775 1.143
1998 28 10 101 263 402 29 16 189 622 856 1.258
1999 30 15 105 279 429 30 20 189 692 931 1.360
2000 27 23 105 285 440 24 23 200 713 960 1.400
2001 30 20 118 326 494 27 27 200 783 1.037 1.531
2002 34 18 131 346 529 24 27 195 861 1.107 1.636
2003 31 24 159 396 610 31 21 223 971 1.246 1.856
2004 27 22 192 464 705 29 30 247 1.022 1.328 2.033
2005 19 23 191 503 736 21 28 252 1.152 1.453 2.189
2006 3 12 193 492 700 2 28 283 1.144 1.457 2.157
2007 16 190 508 714 1 20 264 1.199 1.484 2.198
2008 10 180 517 707 3 12 234 1.240 1.489 2.196
2009 11 10 176 513 710 16 9 241 1.173 1.439 2.149
2010 36 17 163 538 754 34 19 225 1.183 1.461 2.215
2011 42 25 156 512 735 34 25 214 1.223 1.496 2.231
2012 47 25 140 524 736 38 25 211 1.191 1.465 2.201
2013 53 25 151 527 756 34 26 235 1.178 1.473 2.229
2014 63 16 143 583 805 31 24 221 1.199 1.475 2.280
2015 64 21 148 577 810 39 24 224 1.259 1.546 2.356
2016 78 27 168 584 857 45 19 232 1.221 1.517 2.374

    Í töflu 2 sést að flestir sem dvelja í hjúkrunarrýmum eru 80 ára eða eldri en hlutfall íbúa á því aldursbili hefur hækkað á undanförnum 20 árum úr rúmlega 70% í rúmlega 75%. Hlutfall íbúa sem eru yngri er 67 ára hefur einnig aukist á þessum 20 árum og var um 5% í ársbyrjun 2016. Konur eru tveir þriðju hlutar íbúa í hjúkrunarrýmum en karlar einn þriðji hluti. Sú hlutfallsskipting hefur verið nokkuð áþekk þessi 20 ár.

     3.      Hver er þróun biðlista eftir rými á hjúkrunarheimili? Hversu lengi bíður fólk að meðaltali eftir rými og hver er staða biðlista eftir landshlutum?
    Þegar fjallað er um biðlista ber að hafa í huga að sami einstaklingur getur komið fram í fjölda á biðlista á fleiri árum en einu. Töflur 3, 4 og 5 draga fram svör við þessari spurningu. Tafla 3 sýnir fjölda einstaklinga á biðlista eftir hjúkrunarrými eftir heilbrigðisumdæmi, þ.e. heilbrigðisumdæmi þeirrar stofnunar sem einstaklingur óskar eftir að búa á, og kyni á árunum 2006–2016. Þar sést að fólki fækkaði á biðlistanum fyrstu árin eftir 2006 og þá sérstaklega milli áranna 2008 og 2009. Með tilkomu færni- og heilsumatsnefnda (áður vistunarmatsnefnda) árið 2008 var komið á fót formlegu mati sem gerir strangari kröfur en áður þannig að einungis þeir sem ekki geta dvalið á eigin heimili með öllum þeim stuðningi sem unnt er að veita fara á biðlista. Eftir að þetta formlega mat var tekið upp fækkaði fólki á biðlistum. Hugsanlega hafa einhverjir sem voru á biðlistanum árið 2009 verið komnir á biðlista fyrir tilkomu nefndanna. Frá árinu 2011 hefur fólki fjölgað aftur á biðlistum en hefur þó engan veginn náð þeim fjölda sem var áður en nefndirnar komu til.

Tafla 3. Fjöldi einstaklinga á biðlista eftir hjúkrunarrými eftir heilbrigðisumdæmi og kyni 1. janúar hvers árs 2006–2016.

2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Vesturland 10 11 21 14 13 11 10 6 19 11 13
Karlar 7 3 7 6 9 6 4 3 9 5 6
Konur 3 8 14 8 4 5 6 3 10 6 7
Vestfirðir 3 1 5 4 1 2 11 6 5 6 6
Karlar 1 4 3 1 3 5 1 3
Konur 2 1 1 1 1 1 8 1 5 5 3
Norðurland 26 33 27 31 15 22 25 29 36 37 56
Karlar 8 13 9 15 7 11 7 9 13 15 23
Konur 18 20 18 16 8 11 18 20 23 22 33
Austurland 15 17 14 13 9 8 17 13 12 30 20
Karlar 4 5 5 3 3 5 8 4 3 7 6
Konur 11 12 9 10 6 3 9 9 9 23 14
Suðurland 45 31 38 24 22 28 21 21 23 13 46
Karlar 23 14 21 10 9 15 11 11 11 8 31
Konur 22 17 17 14 13 13 10 10 12 5 15
Suðurnes 15 27 38 42 27 27 20 14 26 48 35
Karlar 8 11 17 14 10 10 3 4 4 20 13
Konur 7 16 21 28 17 17 17 10 22 28 22
Höfuðborgarsvæðið 399 375 385 162 68 71 76 111 107 136 151
Karlar 149 146 136 56 27 39 33 52 42 51 65
Konur 250 229 249 106 41 32 43 59 65 85 86
Óskráð* 10 14 20 24 24 19 14 22 22 20 30
Karlar 3 3 10 7 11 4 3 13 10 8 13
Konur 7 11 10 17 13 15 11 9 12 12 17
Samtals 523 509 548 314 179 188 194 222 250 301 357
* Eiga eftir að velja hjúkrunarheimili.

    Þess ber að geta að þessar tölur eru punktstöður þann 1. janúar ár hvert en með punktstöðu er átt við hver staðan hafi verið einn tiltekinn dag.
    Tafla 4 sýnir punktstöðu biðlistans 1. maí 2016 eftir heilbrigðisumdæmum. Alls eru 327 á biðlista á landinu þann dag sem eru ívið færri en voru á biðlistanum 1. janúar það ár (sjá töflu 3).

Tafla 4. Fjöldi einstaklinga á biðlista eftir hjúkrunarrými eftir heilbrigðisumdæmi og kyni 1. maí 2016.

Heilbrigðisumdæmi Karlar Konur Samtals einstaklingar
Vesturland 8 5 13
Vestfirðir 1 2 3
Norðurland 26 32 58
Austurland 8 9 17
Suðurland 5 7 12
Suðurnes 18 18 36
Höfuðborgarsvæðið 69 86 155
Óskráð 11 22 33
Samtals einstaklingar 146 181 327

    Tafla 5 sýnir hversu lengi (í dögum) einstaklingar sem fóru í hjúkrunarrými biðu að meðaltali. Tölurnar eru flokkaðar eftir heilbrigðisumdæmum á árunum 2006–2015. Þar sést að meðalbiðtíminn eftir hjúkrunarrýmum styttist jafnt og þétt á þessu árabili, sérstaklega milli áranna 2008 og 2009. Frá árinu 2012 hefur meðalbiðtíminn hins vegar lengst aðeins aftur.

Tafla 5. Meðalbiðtími (í dögum) einstaklinga sem fóru í hjúkrunarrými eftir heilbrigðisumdæmi árin 2009–2015.

2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015
Vesturland 53 226 193 123 87 89 92 105 96 82
Vestfirðir 27 30 185 68 58 52 127 158 99 71
Norðurland 90 108 88 65 58 67 49 60 87 135
Austurland 155 387 237 147 87 58 156 80 85 195
Höfuðborgarsvæðið 307 287 255 128 68 47 59 75 74 90
Suðurland 227 166 260 144 73 131 106 80 89 74
Suðurnes 139 281 247 198 119 138 137 92 135 244
Allt landið 256 253 227 124 72 65 72 77 82 104

    Nokkur munur getur verið á biðtíma eftir hjúkrunarrýmum eftir heilbrigðisumdæmum. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingar bíða mislengi eftir hjúkrunarrými, svo sem óskir einstaklinga á biðlistanum um dvöl á tilteknu hjúkrunarheimili.

     4.      Hver hefur þróunin verið undanfarin tíu ár á fjölda fólks sem er á biðlista eftir hjúkrunarrými en andast áður en það fær kost á vist?
    Í töflu 6 má sjá fjölda einstaklinga sem voru á biðlista eftir hjúkrunarrými árin 2006–2015 en létust áður en þeir fengu dvöl á því hjúkrunarheimili sem þeir óskuðu eftir. Fjöldi þeirra sem lést meðan á biðinni eftir hjúkrunarheimili stóð hefur verið breytilegur milli ára. Á þessu tíu ára tímabili létust flestir árið 2007 meðan á biðinni stóð, en það ár voru hins vegar yfir 500 manns á biðlista samanborið við um 350 manns árið 2016 og biðtíminn árið 2007 var um 250 dagar en árið 2015 um 100 dagar.

Tafla 6. Fjöldi einstaklinga sem létust meðan þeir voru á biðlista árin 2006–2015 eftir heilbrigðisumdæmi og kyni.

2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015
Vesturland 5 5 5 9 3 1 7 10 5 8
Karlar 2 2 4 4 3 4 6 2 4
Konur 3 3 1 5 1 3 4 3 4
Vestfirðir 1 1 1 1 2 5 3 2
Karlar 1 1 1 1 2 2 2
Konur 1 1 3 1
Norðurland 16 9 6 10 9 11 8 13 11 13
Karlar 7 4 4 5 7 4 9 5 7
Konur 9 5 6 6 4 4 4 4 6 6
Austurland 3 3 4 3 1 1 2 3 7 7
Karlar 3 1 2 1 1 1 3 4 4
Konur 2 2 3 1 3 3
Suðurland 9 19 3 8 4 10 7 11 4 8
Karlar 5 13 4 2 7 4 6 3 7
Konur 4 6 3 4 2 3 3 5 1 1
Suðurnes 6 7 8 6 7 7 9 7 10 8
Karlar 3 3 3 4 2 5 4 2 6 6
Konur 3 4 5 2 5 2 5 5 4 2
Höfuðborgarsvæðið 97 104 39 55 45 40 59 65 57 71
Karlar 47 42 22 28 28 21 25 34 27 30
Konur 50 62 17 27 17 19 34 31 30 41
Óskráð 2 5 9 9 13 13 13 15 20 27
Karlar 1 2 3 3 8 6 7 9 9 12
Konur 1 3 6 6 5 7 6 6 11 15
Samtals 139 153 75 101 82 83 107 129 117 144
* Áttu eftir að velja hjúkrunarheimili.


     5.      Hver eru áform ráðherra um að fullnægja þörf fyrir hjúkrunarrými á Íslandi?
    Markmið heilbrigðisráðherra er að mæta þörfum fólks fyrir þjónustu á því þjónustustigi sem hentar best þörfum þess. Áhersla er lögð á að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili með stuðningi og þeirri heilbrigðisþjónustu sem einstaklingurinn þarf á að halda. Til að halda heilsu sem lengst og geta lifað sjálfstæðu lífi skiptir miklu að hvetja fólk til ábyrgðar og hollra lífshátta svo að fyrirbyggja megi og seinka sjúkdómum og færnitapi ef þess er nokkur kostur. Til að lágmarka þörf fyrir dvöl í hjúkrunarrými er öflug stuðningsþjónusta mikilvæg. Heimahjúkrun er einn liður í slíkri þjónustu. Heilbrigðisráðherra hefur lagt ríka áherslu á að efla þá þjónustu sem veitt er fólki sem býr heima. Viðbótarfjármagn hefur verið veitt til heimahjúkrunar, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu, og dagdvalarrýmum, sem er mikilvægt stuðningsúrræði við þá sem búa heima, hefur verið fjölgað töluvert. Fjölbreytt heimaþjónusta á vegum sveitarfélaga er mikilvægur þáttur í að mæta mismunandi þörfum fólks og styðja það til búsetu heima sem lengst. Því leggur heilbrigðisráðherra mikla áherslu á samvinnu og samþættingu þeirrar þjónustu sem veitt er af ríki annars vegar og sveitarfélögum hins vegar.
    Dvalartími íbúa hjúkrunarrýma hefur áhrif á umsetningu hvers hjúkrunarrýmis og þar með þann heildarfjölda rýma sem þörf er fyrir. Langur dvalartími eins íbúa hefur bein áhrif á biðtíma annars og þar með lengd biðlista.
    Ef miðað er við að meðaldvalartími íbúa á hjúkrunarheimilum sé þrjú ár og meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými 90 dagar má gera ráð fyrir að óbreyttu að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum um rúmlega 500 fram til ársins 2020. Mest er þörfin á höfuðborgarsvæðinu. Áætlun um byggingu nýrra hjúkrunarrýma nær bæði til þess að fjölga hjúkrunarrýmum til að mæta þörf fólks fyrir dvöl þar og að bæta aðbúnað á þeim heimilum sem þegar eru starfandi. Samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem nú liggur fyrir verða byggð fimm ný hjúkrunarheimili á allra næstu árum þar sem þörf fyrir slíka uppbyggingu er brýnust. Bæði er um að ræða heimili á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þess er vænst að öll þessi hjúkrunarrými verði tilbúin um áramótin 2018/2019. Heimilin sem ákveðið hefur verið að byggja á þessu tímabili eru:
     1.      Reykjavík: Þar er ráðgert að reisa 100 rýma hjúkrunarheimili. Öll rýmin verða ný viðbótarrými.
     2.      Kópavogur: Þar er ráðgert að byggja 64 hjúkrunarrými. Öll rýmin verða ný viðbótarrými.
     3.      Seltjarnarnes: Þar verða byggð 40 hjúkrunarrými. Öll rýmin eru ný viðbótarrými.
     4.      Hafnarfjörður: Þar er ráðgert að byggja 60 hjúkrunarrými. Þau rými munu leysa af hólmi hjúkrunarrýmin á Sólvangi og bæta þannig aðbúnað íbúa þar.
     5.      Árborg: Þar er ráðgert að byggja 50 hjúkrunarrými. Af þessum rýmum eru 15 ný viðbótarrými en 35 rými leysa eldri rými af hólmi og bæta þannig aðbúnað íbúa í eldri hjúkrunarrýmum.
    Til viðbótar er einnig verið að byggja við hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli (12 rými) og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu (8 rými). Þær nýframkvæmdir munu bæta mjög aðbúnað þeirra sem þar búa. Nýlega voru tekin í notkun ný hjúkrunarheimili á Egilsstöðum (30 rými), Ísafirði (30 rými) og í Bolungarvík (10 rými), en með þessum 70 nýju rýmum voru 52 rými til að bæta aðbúnað íbúa og 18 ný viðbótarrými.
    Með byggingu þessara fyrrgreindu hjúkrunarheimila og þeim 70 rýmum sem nýlega hafa verið tekin í notkun mun hjúkrunarrýmum fjölga um 237 og aðbúnaður íbúa í 167 öðrum hjúkrunarrýmum batna mjög. Hér er því um að ræða nýbyggingar samanlagt ríflega 400 hjúkrunarrýma.