Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1536  —  680. mál.

2. umræða.


Frávísunartillaga


í málinu: Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).

Frá Björt Ólafsdóttur, Brynhildi Pétursdóttur, Guðmundi Steingrímssyni, Óttari Proppé, Páli Val Björnssyni og Róberti Marshall.


    Þar sem fram hefur komið að:
     a.      búvörusamningarnir, sem undirritaðir hafa verið með fyrirvara, eru mjög umdeildir bæði innan þings sem utan, sem og þær breytingar á búvörulögum sem lagðar eru til svo unnt sé að uppfylla samningana, verður ekki annað séð en leggja þurfi til umtalsverðar breytingar á frumvarpinu og því séu forsendur samninganna brostnar,
     b.      við gerð búvörusamninga var ekki haft samráð við mikilvæga hagsmunaaðila, svo sem fulltrúa neytenda, launþega, verslunar og þjónustu, atvinnurekenda og ýmissa stofnana ríkisins, svo sem Landgræðslunnar og samkeppnisyfirvalda,
     c.      í umsögnum um frumvarpið kemur fram mikil andstaða við svo mikla langtímaskuldbindingu ríkisins og slík tíu ára skuldbinding verður að byggjast á meiri sátt en ríkir um þá samninga sem fyrir liggja enda um verulega upphæðir að ræða,
     d.      ekki er gert ráð fyrir að undanþága frá samkeppnislögum, sem heimilar mjólkurafurðastöðvum að renna saman án íhlutunar samkeppnisyfirvalda, verði afnumin en slík undanþága vinnur gegn hagsmunum neytenda og þeirra sem vilja hasla sér völl í greininni,
     e.      ekki er gert ráð fyrir að afnema undanþágur frá samkeppnislögum um verðsamráð mjólkurafurðastöðva en samráð af því tagi er alla jafna mjög skaðlegt neytendum og engin rök fyrir því að heimila slíkt,
     f.      í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að afurðastöðvum verði óheimilt að selja öðrum vinnsluaðilum meira en 5% af þeirri mjólk sem þær taka við en með því er vegið að samkeppni á þessum markaði og einokunarstaða núverandi markaðsráðandi aðila styrkt,
     g.      hlutverk og ábyrgð verðlagningarnefndar er ekki nógu skýrt og fyrirkomulagið er ekki til þess fallið að skapa hvata fyrir framleiðendur til að auka samkeppnishæfni og framleiðni og lækka vöruverð til neytenda,
     h.      í frumvarpinu er lögð til mikil hækkun á magntollum á innfluttum ostum og mjólkurdufti en slíkar aðgerðir hækka verð til neytenda, veikja íslenskan iðnað og stuðla að lakara vöruúrvali,
     i.      samspil 11. gr. samkeppnislaga og ákvæða í búvörulögum er á margan hátt óljóst, svo sem hvað varðar skyldur markaðsráðandi fyrirtækis, viðurlög við brotum markaðsráðandi afurðastöðvar, sameiningu afurðastöðva og annað samstarf,
     j.      hvatning til lífrænnar framleiðslu er ekki fullnægjandi með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu,
     k.      ekki er gert ráð fyrir því að ríkisstuðningur geti skerst eða fallið niður við alvarleg brot á lögum um velferð dýra þótt atvinnuveganefnd hafi við síðustu meðferð frumvarps til breytinga á búvörulögum hvatt til þess að skoðað yrði við endurskoðun búvörulaga að fella slíkt úrræði inn í lögin,
     l.      í þeim samningum sem liggja fyrir er ekki tekið fullt tillit til ástands lands og stuðningur er t.d. mikill á svæðum þar sem landgæði geta verið slök, auk þess sem hærra hlutfall styrkja til greinarinnar fer í gegnum gripagreiðslur en sú leið hefur virkað framleiðsluhvetjandi og er ekki til þess fallin að verja viðkvæmt land,
     m.      auka þarf fjölbreytni í íslenskum landbúnaði í stað þess að einblína á sértækar búgreinar eins og gert er í samningnum og stórauka þyrfti áherslu á jarðræktarstuðning,
er lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni verði falið að framlengja gildandi samninga og hefja vinnu við nýja samninga í samvinnu við hagsmunaaðila og stofnanir ríkisins með hagsmuni neytenda, landgæða, lífrænnar framleiðslu og dýraverndar að leiðarljósi.