Ferill 649. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1561  —  649. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni um aðkomu að samningum við kröfuhafa og meðferð slitabúa föllnu bankanna o.fl.


    Rétt er að taka fram áður en fyrirspurninni verður svarað að undanþágubeiðnir slitabúa föllnu bankanna byggðust á nauðasamningum þeirra við kröfuhafa en ekki samningum við stjórnvöld. Að því sögðu verður fyrirspurninni svarað með því að tilteknir verða aðilar, hópar og nefndir sem hafa komið að samskiptum við kröfuhafa og slitabú föllnu bankanna. Leitað var til forsætisráðuneytisins eftir upplýsingum um þau atriði er varða forsætisráðherra og ráðuneyti hans.

     1.      Hvaða reglur giltu um þá sem komu að samningum við kröfuhafa og meðferð slitabúa föllnu bankanna, greint eftir hópum og nefndum?
    Þeir sem komu að samskiptum við kröfuhafa og slitabú föllnu bankanna eða þáðu upplýsingar um þau voru eftirtaldir og þeir bundnir trúnaði, sbr. eftirfarandi vísanir til lagaákvæða og trúnaðaryfirlýsinga.

a. Starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytis, forsætisráðuneytis og Seðlabanka Íslands.
    Starfsmenn Stjórnarráðsins eru bundnir af 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og skulu gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Samsvarandi ákvæði gilda um starfsmenn Seðlabanka Íslands, sbr. 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.

b. Stýrinefnd um losun fjármagnshafta.
    Í stýrinefnd eiga sæti fjármála- og efnahagsráðherra (formaður), seðlabankastjóri og þrír starfsmenn Stjórnarráðsins. Starfsmenn Stjórnarráðsins og seðlabankastjóri eru bundnir af áðurnefndum ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og laga um Seðlabanka Íslands. Fjármála- og efnahagsráðherra er bundinn af 14. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.

c. Sérfræðingahópar um losun fjármagnshafta og aðrir ráðgjafar.
    Utanaðkomandi ráðgjafar, m.a. þeir sem áttu sæti í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta, undirrituðu sérstakar trúnaðaryfirlýsingar. Form trúnaðaryfirlýsinganna var birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins 11. mars 2015.

d. Samráðsnefnd þingmanna.

    Þingmenn í samráðsnefndinni undirrituðu sérstakt þagnarheit og hétu því að gæta þagmælsku um atriði sem þeir kynnu að fá vitneskju um í starfi þeirra fyrir hópinn og leynt eiga að fara samkvæmt lögum og eðli máls. Form þagnarheitisins var birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins 11. mars 2015.

e. Ráðherranefnd um efnahagsmál.
    Vísað er til framangreinds ákvæðis laga um Stjórnarráð Íslands.

    Innherjareglur laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, gilda um alla þessa aðila. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur útfært reglurnar fyrir starfsmenn þess, þ.m.t. ráðherra, sbr. reglur fjármála- og efnahagsráðuneytis um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga, dags. 16. janúar 2015. Seðlabankinn hefur einnig sett sérstakar reglur fyrir starfsmenn bankans um meðferð innherjaupplýsinga.

     2.      Hvernig var þess gætt að þeir sem komu að málinu af hálfu stjórnvalda væru ekki fjárhagslega tengdir eða hagsmunatengdir kröfuhöfum, bæði sjálfir og í gegnum maka eða venslamenn? Hvernig var háttað meðferð gagna og trúnaðarupplýsinga? Hvert var regluverkið, hver var regluvörður og hvaða hlutverki gegndi hann? Hvert voru fyrirmyndir sóttar að því fyrirkomulagi umgjarðar um trúnað og upplýsingaskyldu um hagsmunatengsl sem valið var? Hverjir veittu ráðgjöf um leiðina, umbúnað og umgjörð?
    Við undirbúning málsins var ekki framkvæmt sérstakt hagsmunamat en á því byggt að þeir sem áttu hlut að máli vikju sæti, teldu þeir sig hafa slík tengsl við kröfuhafa að það hefði áhrif á hæfi þeirra.
    Umgjörð um varðveislu trúnaðarupplýsinga og gagna var samkvæmt hefðbundnu verklagi og í samræmi við þær trúnaðarskyldur sem tíundaðar eru í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Þegar stjórnvöld hafa undir höndum upplýsingar sem varða friðhelgi einkalífs manna eða viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga eða lögaðila ber að varðveita þær með tryggum hætti og gæta þess að þeim sé ekki miðlað til óviðkomandi aðila.
    Eins og að framan er rakið hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið útfært innherjareglur laga um verðbréfaviðskipti í sérstökum reglum sem gilda fyrir ráðuneytið. Þar er mælt fyrir um að regluvörður, sem er starfsmaður á lögfræðisviði ráðuneytisins, hafi umsjón með að reglunum sé framfylgt. Hlutverk regluvarðar lýtur að meðferð innherjaupplýsinga og er skilgreint nánar í 5. gr. reglnanna, en með innherjaupplýsingum er átt við nægilegar tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar, varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru, sbr. 120. gr. laga um verðbréfaviðskipti, sbr. einnig 2. gr. reglugerðar um innherjaupplýsingar og markaðssvik.
    Umgjörð um trúnað byggðist að meginstefnu á fyrirliggjandi löggjöf eins og kom fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Þá voru útbúnar sérstakar trúnaðaryfirlýsingar fyrir þá sem ekki voru bundnir af fyrirliggjandi löggjöf. Ráðuneytið aflaði lögfræðilegrar ráðgjafar vegna samninga við utanaðkomandi sérfræðinga og útfærslu trúnaðaryfirlýsinga sem þeir undirgengust.

     3.      Hvaða reglur giltu um fjármála- og efnahagsráðherra, trúnaðarskyldu og innherjastöðu hans og upplýsingaskyldu um hagsmuni? Hvaða reglur giltu að þessu leyti um forsætisráðherra og ef þær voru ekki hinar sömu, hvers vegna ekki?

    Vísað er í svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Sömu lagaákvæðin giltu um trúnaðarstöðu og eftir atvikum innherjastöðu ráðherranna.

     4.      Hver var raunveruleg formleg aðkoma forsætisráðherra að þeim samningum sem gerðir voru við kröfuhafa? Hvaða trúnaðarupplýsingar fékk hann frá fjármála- og efnahagsráðherra eða starfsmönnum er störfuðu á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra og með hvaða skilmálum? Að hvaða stjórnsýsluákvörðunum kom hann og á hvaða tíma? Hver var aðkoma beinna undirmanna hans og hvernig voru þeir bundnir trúnaði eða látnir fylgja reglum um innherjaskráningu?
    Eins og áréttað var í inngangi svarsins byggðust undanþágubeiðnir slitabúanna á nauðasamningum þeirra við kröfuhafa en ekki samningum við stjórnvöld, þ.m.t. ríkisstjórnina.
    Þáverandi forsætisráðherra fékk upplýsingar um stöðu mála og valkosti á fundum ráðherranefndar um efnahagsmál og sat kynningarfundi með sérfræðingum úr framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta og fulltrúum í stýrinefnd um losun hafta. Um trúnaðarskyldu er vísað í svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Forsætisráðuneytið kom ekki að stjórnsýsluákvörðunum í tengslum við nauðasamningana. Þær voru teknar af Seðlabanka Íslands og fólust í veitingu undanþága frá fjármagnshöftum.
    Um trúnaðarskyldur og meðferð innherjaupplýsinga starfsmanna forsætisráðuneytisins er vísað í svar við 1. tölul. Lagareglur um innherjaskráningu varða einkum útgefendur fjármálagerninga en innan Stjórnarráðsins er það eingöngu fjármála- og efnahagsráðuneytið sem telst eiginlegur útgefandi slíkra gerninga.

     5.      Hvað gerði ráðherranefnd um efnahagsmál í samningum við kröfuhafa? Hvaða ákvarðanir voru teknar á fundum hennar og hvað af því sem nefndin ræddi varðaði þessi málefni? Eru allar fundargerðir ráðherranefndarinnar aðgengilegar og ef svo er, hvar þá?
    Eins og fyrr er getið byggjast undanþágubeiðnir slitabúanna á nauðasamningum þeirra við kröfuhafa en ekki samningum við ríkisstjórnina. Ráðherranefndir áttu ekki aðkomu að þeim.
    Málefni sem varða losun fjármagnshafta á slitabú föllnu bankanna voru tekin upp með reglubundnum hætti á fundum nefndarinnar og kynnt af fjármála- og efnahagsráðherra ásamt sérfræðingum ráðuneytisins eða framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta eftir atvikum. Valkostir voru ræddir og afstaða tekin til þeirra en ákvarðanir, sér í lagi um lagasetningu, voru teknar í ríkisstjórn.
    Fundargerðir nefndarinnar liggja fyrir í málaskrám forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

     6.      Hvað gerði stýrihópur um afnám hafta, hvaða ákvarðanir voru þar teknar, hvaða samráð fór þar fram og hverjir sátu fundi hans? Sat forsætisráðherra einhverja fundi stýrihópsins og ef svo var ekki, hvaða undirmenn forsætisráðherra?
    Stýrinefnd um losun fjármagnshafta er skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra sem jafnframt er formaður hennar. Nefndin hefur það verkefni að stýra vinnu og tillögugerð um losun fjármagnshafta. Tillögur stýrinefndarinnar eru svo ræddar í ráðherranefnd um efnahagsmál og eftir atvikum samþykktar af ríkisstjórn.
    Þáverandi forsætisráðherra sat ekki fundi stýrinefndar en sat hins vegar kynningarfundi með ráðgjöfum ásamt fulltrúum í stýrinefnd. Í stýrinefndinni sitja ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar.