Ferill 842. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1578  —  842. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna (undanþága frá tímafresti).

Flm.: Páll Valur Björnsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall.


1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Víkja má frá ákvæðum 1. mgr. um þriggja mánaða lágmarksfrest ef mögulegt er að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða almennum kosningum innan þess tíma.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp sama efnis var flutt á 139., 140. og 141. löggjafarþingi.
    Í 1. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, er kveðið á um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli í fyrsta lagi fara fram að liðnum þremur mánuðum frá samþykkt þingsályktunartillögu um að atkvæðagreiðslan skuli fara fram. Að baki reglunni standa m.a. þau rök að þannig gefist nægur tími til að kynna almenningi efni þjóðaratkvæðagreiðslunnar og þau sjónarmið sem máli skipta og að almenningur hafi rúm til að gera upp hug sinn. Þótt þessi rök séu góð og gild telja flutningsmenn þessa frumvarps ekki tilefni til að regla þessi sé ófrávíkjanleg. Þvert á móti sé mikilvægt að unnt sé að víkja frá reglunni um lágmarksfrest þegar aðstæður réttlæti það.
    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að víkja megi frá framangreindri reglu þegar unnt er að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram samhliða almennum kosningum. Fyrir þessu fyrirkomulagi eru augljós þjóðhagsleg rök, enda hleypur kostnaður samfélagsins af sjálfstæðri þjóðaratkvæðagreiðslu á hundruðum milljóna króna sem með þessum hætti mætti spara. Jafnframt liggja lýðræðisleg rök að baki fyrirkomulaginu þar sem líkurnar á góðri kjörsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu aukast fari hún fram samhliða almennum kosningum. Flutningsmenn þessa frumvarps telja að þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi megi treysta fyrir því að undanþágan sem frumvarpið kveður á um verði aðeins notuð þegar aðstæður réttlæti það en til dæmis ekki ef um er að ræða þjóðaratkvæðagreiðslur um viðamikil og flókin mál sem krefjast þess lágmarksfrests sem núgildandi lög mæla fyrir um.