Ferill 660. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1583  —  660. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála (endurupptaka).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu, Grím Sigurðarson frá Lögmannafélagi Íslands og Björn L. Bergsson frá endurupptökunefnd.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar sem eru til komnar vegna niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 628/2015 frá 25. febrúar 2016 um að fyrirmæli 2. málsl. 1. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála séu andstæð stjórnarskrá. Hæstiréttur benti á að endurupptökunefnd væri stjórnsýslunefnd og með 3. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 214. gr. sömu laga, væri nefnd sem heyrði undir framkvæmdarvaldið falið hlutverk sem gæti fellt úr gildi úrlausnir dómstóla. Slík skipan væri andstæð 2. gr. stjórnarskrárinnar og væri lagaákvæðið ekki gild réttarheimild og yrði því ekki beitt. Samsvarandi heimild væri í lögum um meðferð einkamála.
    Nefndin áréttar að frumvarpið felur ekki í sér endurskoðun á fyrirkomulagi við endurupptöku mála en nefndin fékk þær upplýsingar að slík vinna væri þegar hafin í innanríkisráðuneytinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Geir Jón Þórisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. ágúst 2016.

Guðmundur Steingrímsson,
1. varaform.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Haraldur Einarsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Ásta Guðrún Helgadóttir.