Ferill 808. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1587  —  808. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Óttari Proppé um Drekasvæðið.


     1.      Hefur íslenska ríkið á einhvern hátt skuldbundið sig til að framlengja sérleyfi sem gefin hafa verið út til rannsókna og borunar tilraunaborholu á Drekasvæðinu og veitt þar með leyfi fyrir því að olíuvinnsla hefjist í tilraunaborholunni finnist kolvetni þar? Hvað gerist ef leyfin verða ekki endurnýjuð?
    Í samræmi við 7. gr. laga nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, hér eftir kolvetnislög, hefur Orkustofnun veitt þrjú sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæði, þar af hefur einu leyfi hefur verið skilað inn.
    Gildistími leyfanna er annars vegar til ársins 2023 og hins vegar til 2026. Innan þess tíma eru skilgreind þrjú tímabil þar sem leyfishafi skuldbindur sig til ákveðinna rannsókna. Yfirstandandi er fyrsta tímabil leyfanna sem lýkur í janúar 2017 annars vegar og í janúar 2018 hins vegar. Á þeim tímapunkti hafa viðkomandi leyfishafar rétt til að skila inn leyfinu eða að öðrum kosti að skuldbinda sig til rannsókna sem skilgreindar eru í öðrum áfanga rannsóknaáætlana leyfanna.
    Leiði rannsóknir samkvæmt leyfi til uppgötvunar á kolvetnislind og komi fram tillaga að afmörkun á einum eða fleiri kolvetnisauðlindum sem leyfishafi hyggst nýta ásamt því að önnur skilyrði leyfisins og önnur ákvæði laga séu uppfyllt hefur leyfishafi forgangsrétt skv. 6. kafla leyfanna til að framlengja leyfið frá rannsóknartímabili til vinnslu kolvetnis í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. kolvetnislaga.
    Í kolvetnislögum, rannsóknar- og nýtingarleyfum útgefnum af Orkustofnun og öðrum lögum sem um málið fjalla eru tilgreindar ýmsar kröfur sem leyfishafa ber að uppfylla og ákvæði um stjórnsýslulega meðferð og önnur leyfi sem leyfishafa ber að afla sér áður en til vinnslu kemur.
    Út frá þeim rétti sem leyfin veita hafa leyfishafar lagt í margvíslegar kostnaðarsamar úttektir og rannsóknir. Sömuleiðis hafa leyfishafar greitt til ríkissjóðs árlega upphæð sem leigu fyrir leyfissvæði, greitt framlag til Kolvetnisrannsóknarsjóðs og til Orkustofnunar leyfisgjöld, kostnað við eftirlit og árlegt gjald fyrir umsýslu. Samantekt á þessum greiðslum er í meðfylgjandi töflu.
    Það liggur fyrir að viðkomandi fyrirtæki hafa lagt í þessar kostnaðarsömu undirbúningsrannsóknir og innt af hendi greiðslur til íslenskra stjórnvalda í trausti þess að fá tekjur af kolvetnisvinnslu ef niðurstöður rannsókna verða jákvæðar. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um viðbrögð leyfishafa ef leyfi verða ekki framlengd í samræmi við ákvæði kolvetnislaga en telja verður verulegar líkur á því að slíkt hefði í för með sér skaðabótaskyldu á hendur íslenska ríkinu sem útgefanda leyfanna.

Greidd gjöld leyfishafa vegna sérleyfa á Drekasvæðinu.

Leyfishafi Gjöld til OS (millj. kr.) Gjöld vegna kolvetnisrannsóknasjóðs (millj. kr.) Svæðisgjöld til ríkissjóðs (millj. kr.)
Faroe Petroleum o.fl. [fallið úr gildi] 3 11 54,08
Ithaca Petroleum [áður Valiant Petroleum] o.fl 5 21 44,76
CNOOC International o.fl. 4 16 186,81
Samtals 12 48 285,65

     2.      Hefur Orkustofnun reiknað út mögulegan kostnað við skaða sem hlotist getur af lekaslysi við olíuleit og borun tilraunaborholu? Hvaða tryggingar hafa leyfishafar keypt?
    Í skýrslu iðnaðarráðuneytisins um umhverfismat áætlana Olíuleit á Drekasvæði, frá 2007, er fjallað um þennan þátt en þess má þó geta að nokkur þróun hefur orðið í viðbúnaði og skipulagi mála frá því að sú skýrsla var gerð. Ekki er ástæða til að gera sérstaklega ráð fyrir umfangsmiklu mengunaróhappi við undirbúningsrannsóknir, svo sem vegna hljóðendurvarpsmælinga eða grunnra borhola. Áður en farið verður í rannsóknarboranir verður að gera ráð fyrir margvíslegri gagnaöflun t.d. vegna mats á umhverfisáhrifum og útgáfu starfsleyfis. Í því ferli má gera ráð fyrir því að betri upplýsingar liggi fyrir um þennan þátt, svo sem varðandi lífríki, strauma, hitafar í sjó og reklíkön, til að leggja mat á umfang hugsanlegs skaða sem yrði af mengunaróhappi við borun holu.
    Við mat Orkustofnunar á umsóknum um rannsóknar- og vinnsluleyfi var m.a. lagt mat á fjárhagslegt bolmagn umsækjenda til að uppfylla skyldur sínar, þ.m.t. varðandi greiðslu bóta vegna tjóns sem kynni að stafa af starfsemi þeirra, þar á meðal umhverfisspjöllum. Leyfishafar í sameiningu, sem og hver í sínu lagi, bera ábyrgð á tjóni eða greiðslu skaðabóta, sbr. 28. gr. kolvetnislaga og 18. og 19. kafla sérleyfa og í vissum tilvikum hefur að auki verið farið fram á móðurfélagstryggingu.
    Í 20. kafla leyfanna er kveðið á um skyldu leyfishafa til að kaupa ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, bankatryggingu eða aðra tryggingu sem Orkustofnun metur jafngilda til að bæta tjón sem leyfishafi kann að valda með störfum sínum. Meðal þess sem tryggingin skal ná til er tjón vegna mengunar og skaðabóta til þriðja aðila. Í ljósi takmarkaðrar áhættu á fyrstu stigum undirbúningsrannsókna hefur ekki verið farið fram á ítarlegri tryggingar en framar greinir en gert er ráð fyrir því að svo verði gert komi til rannsóknarborana.

     3.      Hefur ríkið fjárhagslegt bolmagn til að leggja út fyrir aðgerðum ef stór leki eða annars konar umhverfisslys verður við leit og borun tilraunaborholu? Hefur ríkið tryggt að það geti sótt þann kostnað sem af skaðanum kann að hljótast til leyfishafa?
    Samkvæmt kolvetnislögum og rannsóknar- og vinnsluleyfum er leyfishafi skaðabótaskyldur fyrir hvers konar tjóni sem stafar af kolvetnisstarfsemi, þar á meðal umhverfisspjöllum, án tillits til þess hvort tjónið verður rakið til sakar og skal Orkustofnun og íslenska ríkið vera skaðlaust af öllum bótaskyldum.
    Verði af borun rannsóknarholu er gert ráð fyrir því að í leyfum verði kveðið á um skyldur leyfishafa til að hafa til reiðu viðeigandi búnað og áætlanir til að bregðast við leka eða annars konar umhverfisóhöppum. Ekki er því gert ráð fyrir að umtalsverður kostnaður lendi á íslenska ríkinu verði óhapp en komi slíkt til verður slíkur kostnaður endurheimtur af leyfishöfum og/eða tryggingarfélögum í samræmi við framanritað.