Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1597  —  680. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningar).

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    2. minni hluti telur að ef frumvarpið verður að lögum verði ýmsar breytingar á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar. Frumvarpið felur í sér lagabreytingar til að innleiða ákvæði búvörusamninga sem voru undirritaðir í febrúar 2016 og eru samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar, samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða og rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Málinu tengist einnig órjúfanlegum böndum tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur (783. mál). Gerð er grein fyrir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð til þess í sérstöku nefndaráliti þar sem ýmsir mikilvægir þættir eru gagnrýndir en einkum er bent á aðvörun sóttvarnalæknis um að útbreiðsla sýkla og sýklalyfjaónæmra baktería sé meðal helstu heilbrigðisógna samtímans. Slíkir sýkingarvaldar berast m.a. með ferskum matvælum og er talin hætta á að vaxandi innflutningur þeirra hingað til lands leiði til aukinna vandkvæða af því tagi.

Þjóðhagslegt gildi og áhrif búvörusamninga.
    2. minni hluti telur mikilvægt að matvælaframleiðsla til innanlandsneyslu fari fram hér á landi í eins miklum mæli og aðstæður leyfa og að verja megi opinberu fé til að styðja við þetta sjálfbærnimarkmið. Opinber stuðningur við framleiðslu landbúnaðarafurða á sér langa sögu hérlendis og er mikilvægur hluti starfsskilyrða landbúnaðarins. Innlend matvælaframleiðsla snertir hag allra landsmanna og því skiptir miklu að vel takist til við gerð búvörusamninga þannig að víðtækt samkomulag geti náðst um þennan mikilvæga þátt íslensks efnahagslífs.
    Einmitt sökum þess hve áhrif búvörusamninga eru margþætt er gerð þeirra ávallt vandasöm. Búvörusamningar hafa áhrif á byggð og byggðaþróun, atvinnu í dreifbýli og þéttbýli, framboð og verðlag á landbúnaðarafurðum, matvælaöryggi, sjálfbærni samfélagsins og hollustuhætti og lýðheilsu svo nokkuð sé nefnt. Búvörusamningar eru því annað og meira en kjarasamningar milli hins opinbera og bænda, eins og stundum er haldið fram, og má með réttu segja að áhrifa þeirra gæti hvarvetna í samfélaginu.

Tilefni fyrirliggjandi frumvarps.
    Gildandi búvörusamningar renna sitt skeið á enda í lok árs 2016 og 2017. Því voru nýir búvörusamningar og búnaðarlagasamningur milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands undirritaðir í febrúar að undangenginni samningalotu og hlutu samningarnir samþykki bænda nokkru síðar. Þeir voru gerðir með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis sem eitt hefur heimild til að gera slíkar fjárskuldbindingar.

Skortur á samráði og önnur gagnrýni.
    Ráðherrar ríkisstjórnarinnar önnuðust gerð búvörusamninganna við bændur upp á sitt eindæmi og án þess að leita samstarfs um það verkefni við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Takmarkað ef nokkurt samráð virðist einnig hafa verið við fleiri aðila sem málið varðar og er það gagnrýni vert, sem og að óheppilegt er að gildandi samningar séu því sem næst útrunnir þegar nýir eiga að taka við. Tiltekinn fyrirsjáanleiki um starfsskilyrði er að sjálfsögðu mikilvægur fyrir allar atvinnugreinar en það á alveg sérstaklega við í tilviki búvöruframleiðslunnar sem byggist á langri framleiðslukeðju. Þar sem samráð og samstarf skorti ber ríkisstjórnin alla og óskipta ábyrgð á efni samninganna hvað ríkið varðar og framkvæmd málsins frá upphafi til enda.
    Fjöldi umsagna hefur borist til Alþingis vegna málsins og mikið hefur verið fjallað um samningana á opinberum vettvangi. Eins og vænta mátti um slíkt mál hafa skoðanir verið skiptar en mikið hefur borið á gagnrýni á tímalengd samninganna, sem gerðir voru til tíu ára, og fjárhæðir sem renna eiga til landbúnaðarmála hafa mætt gagnrýni sem og áform um að afleggja framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu. Þá hefur sauðfjársamningurinn mætt umtalsverðri andstöðu, ekki síst á hefðbundnum sauðfjárræktarsvæðum og þar sem sauðfjárrækt er meginatvinnugrein. Margir óttast að framleiðsla geti flust af þeim svæðum til annarra héraða vegna áhrifa samningsins og einnig að hvatar til aukinnar framleiðslu geti skapað offramboð lambakjöts og annarra sauðfjárafurða á markaði. Þá hefur verið lýst áhyggjum af því að hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir og ekki tekið nægilegt tillit til umhverfissjónarmiða, hvorki í íslensku né alþjóðlegu samhengi. Má þar sérstaklega nefna loftslagsáhrif, sjálfbæra landnýtingu og fleira er að þessu lýtur. Ýmis önnur atriði samninganna hafa mætt gagnrýni, svo sem að á það skorti að samkeppnissjónarmiða sé gætt hvað varðar vinnslu mjólkurafurða. Verða ásteytingsefnin ekki öll rakin hér, en áréttað að allnokkuð vantar upp á til þess að búvörusamningarnir þjóni markmiðum um sjálfbæran landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu í þágu samfélagsins þar sem byggt er á sjónarmiðum um umhverfisvernd, dýravelferð og hollustuhætti. Þá ættu samningarnir að kveða skýrar á um upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda, enda mikilvægt að traust ríki á milli framleiðenda og neytenda og skilvirk og trúverðug upplýsingagjöf skiptir miklu í því samhengi.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á sjálfbæra landnýtingu í landbúnaðarstefnu sinni og telur mikilvægt að framlög hins opinbera styðji við slík markmið. Sjálfbærnihugtakið felur m.a. í sér að ekki er gengið svo að endurnýjanlegum auðlindum með nýtingu að þær rýrni eða hverfi. Beitarland telst til endurnýjanlegra auðlinda og því er mikilvægt að stilla beit í það hóf að ekki verði tjón á beitarlandinu þannig að auðlindin sem í því felst fari forgörðum. Ákvæði búvörusamninga um nýtingu og vernd gróðurlendis þyrftu að vera afdráttarlausari og mikilvægt er að áform um landgræðslu og kortlagningu gróðurlendis með tilliti til beitarþols þess nái fram að ganga og verði nýtt við framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Þar sem endranær er nauðsynlegt að gæta þess að nýting náttúruauðlinda fari fram með sjálfbærum hætti, hvort sem afurðirnar fara til neyslu innanlands eða á erlenda markaði.
    Vakin skal athygli á því að með ákvæðum fyrirliggjandi samnings er endanlega horfið frá því markmiði sem búvörusamningarnir frá 1991 festu í sessi og fólst í því að miða skyldi stuðning við landbúnaðarframleiðslu við innanlandsneyslu á landbúnaðarafurðum. Með því að tengja saman framleiðslu og innanlandsneyslu mynduðust bein tengsl milli bænda og innlendra neytenda um sameiginlega hagsmuni þessara hópa af því að halda uppi innlendri framleiðslu á landbúnaðarafurðum sem nú fara forgörðum og með þeim stór hluti forsenda þess búvörusamnings sem lýtur að sauðfjárbúskap.
    Mikilvægt er að mörkuð verði skýr landbúnaðarstefna með tilliti til loftslagsmála og henni framfylgt m.a. með því að skilyrða opinber framlög til landbúnaðar við eftirfylgni við markmið á því sviði. Landbúnaður er mjög mikilvægur í samhengi umhverfis- og loftslagsmála. Greinin hefur veruleg umhverfis- og loftslagsáhrif sem sum hver eru neikvæð en hún býr jafnframt yfir fleiri og áhrifaríkari möguleikum til að hafa jákvæð áhrif á þessu sviði en margar aðrar atvinnugreinar. Framleiðsla á landbúnaðarafurðum í námunda við neytendur dregur úr mengun og öðru umhverfisálagi af völdum flutningastarfsemi og gróðurrækt stuðlar að kolefnisbindingu. Notkun endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkugjafa í landbúnaði er vitaskuld afar mikilvæg og ber að stuðla að henni með öllum ráðum. Tengsl búvörusamninga við framangreind markmið ættu að vera meiri og skýrari en þau eru þótt vissulega hafi nokkuð áunnist í þessum efnum við meðferð málsins í atvinnuveganefnd. 2. minni hluti telur þó ærna ástæðu til að gera betur og leggur til með breytingartillögu að skipaður verði samráðshópur til að meta umhverfisáhrif búvörusamninganna samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana og niðurstöður matsins verði nýttar við endurskoðun samninganna árið 2019.
    2. minni hluti fagnar því að stuðningur við lífræna landbúnaðarframleiðslu aukist og að veittir verði styrkir til aðlögunar að lífrænni framleiðslu. Enda þótt það hafi verið meðal höfuðkosta íslensks landbúnaðar að notkun ýmissa varhugaverðra efna sem gjarnan er beitt í landbúnaði annars staðar hafi verið í lágmarki hér má ætla að þróunin hérlendis verði með áþekkum hætti og víðast á Vesturlöndum þannig að eftirspurn neytenda eftir lífrænum vörum aukist. Það verður því samkeppnisatriði fyrir íslenskan landbúnað að fylgja þessari þróun eftir og mikilvægt af þeim sökum og einnig vegna umhverfis- og hollustusjónarmiða að búa vel að vaxtarsprotum á þessu sviði.

Ákvæði skortir um niðurfellingu greiðslna vegna brota gegn ákvæðum laga um velferð dýra.
    Í 34. gr. frumvarps sem varð að lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, var upphaflega lagt til að heimilt yrði að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði til þeirra sem gerðust brotlegir við ákvæði laganna og reglugerða samkvæmt þeim auk ýmissa annarra viðurlaga sem tiltekin voru. Þetta ákvæði féll niður samkvæmt breytingartillögu atvinnuveganefndar, m.a. á þeirri forsendu að þetta þvingunarúrræði ætti sér ekki stoð í gildandi búvöru- og búnaðarlagasamningum og benti nefndin á að rétt væri að kanna „hvort ekki sé rétt að skapa rými til upptöku úrræðisins við síðara tilefni, t.d. við endurskoðun búnaðar- og búvörulaga og endurnýjun samninga á grundvelli þeirra“. Undir þessi orð tekur 2. minni hluti og vísar m.a. til þess að það athæfi sem mundi heimila beitingu slíks þvingunarúrræðis felur í sér illa meðferð á dýrum sem einnig kallast dýraníð. 2. minni hluti er sammála þáverandi atvinnuveganefnd sem taldi úrræðið eðlilegt „og í góðu samhengi við þær kröfur sem telja má eðlilegt að gera til gagnaðila ríkisins að samningum sem fela í sér ráðstöfun opinbers fjár“.
    2. minni hluti bendir á að nú gefst tækifæri til að innleiða þvingunarákvæði í þessa veru og telur einboðið að nota það. Því leggur 2. minni hluti fram breytingartillögu þess efnis.

Lokaorð.
    Ljóst var orðið þegar Alþingi kom saman um miðjan ágúst að ekki væri meiri hluti fyrir samþykkt óbreyttra búvörusamninga og í raun voru þeir starfshættir ríkisstjórnarinnar með ólíkindum að leggja fyrir þingið slíka langtímaskuldbindingu þegar svo skammt var orðið til þingloka. Atvinnuveganefnd var því í örðugri stöðu við upphaf síðsumarþings með svo brýnt og mikilvægt mál í uppnámi og afar skamman tíma til stefnu. 2. minni hluti telur jákvæða viðleitni hafa verið sýnda í starfi nefndarinnar við að lagfæra málið og sníða af því ýmsa vankanta og hefur 2. minni hluti lagt sitt af mörkum í þeirri vinnu. Enn er þó eftir að taka á mörgum mikilvægum þáttum sem snerta efni og framkvæmd samninganna til þess að þeir geti þjónað vel sem tæki til að móta og styðja við haldbæra landbúnaðarstefnu þar sem tekið er tillit til hagsmuna bænda, neytenda og umhverfis og leitað leiða til að samþætta þá til hagsbóta fyrir samfélagið í heild og náttúru landsins. Með hliðsjón af þessu telur 2. minni hluti sér ekki fært að styðja málið og mun sitja hjá við afgreiðslu þess en þó styðja þær breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar sem eru til bóta.

Alþingi, 30. ágúst 2016.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Fylgiskjal.


Landbúnaðarstefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.


    Innlendur landbúnaður er grunnþáttur í því að byggja sjálfbært samfélag á Íslandi, að þjóðin sé sjálfri sér næg um matvæli í eins ríkum mæli og aðstæður hér leyfa sem og að fæðuöryggi sé tryggt. Innlendur landbúnaður snýst því um að auka lífsgæði allra landsmanna og tryggja búsetuskilyrði fyrir samfélagið allt. Landbúnaður er mikilvægur hluti af sögu og menningararfi þjóðarinnar og ber að rækta sem slíkan auk þess sem byggð í strjálbýli er samofin tilvist landbúnaðarins.
    Besta leiðin til að efla byggðahlutverk landbúnaðarins er að styrkja nýsköpun og skapa þannig ný verðmæti og störf með fjölbreyttum hætti um land allt. Landið býr yfir ákveðnum gæðum sem miklu skiptir að nýta með sjálfbærum hætti. Tímabært er að auka hlut innlendrar endurnýjanlegrar orku í landbúnaðarframleiðslu. Kraftmikill landbúnaður er því brýnt samfélags- og umhverfismál.
    Mikilvægt er að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun í búskaparháttum og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi. Allur íslenskur landbúnaður þarf að standast strangar gæðakröfur. Stefna skal að því að uppfylla þarfir og óskir neytenda um lífrænar landbúnaðarafurðir og efla stuðning við þær.

Menntun og rannsóknir.
    Menntun og rannsóknir eru undirstaða framþróunar og nýsköpunar í öllum atvinnuvegum. Er landbúnaður þar ekki undanskilinn. Íslendingar búa vel að því að eiga öfluga háskóla og rannsóknarstofnanir sem hafa sinnt þessu fagsviði og er full ástæða til að styrkja starf þeirra enn frekar.
    Tryggja og efla þarf gott og fjölbreytt framboð á starfsmenntun í búfræði og garðyrkju sem og öfluga háskólamenntun á sviði landbúnaðar. Mikilvægt er að landbúnaðarháskólarnir starfi með öðrum háskólastofnunum að þróun menntunar og rannsókna. Efla þarf fræðslu í leik- og grunnskólum um landbúnað og matvælaframleiðslu sem hluta af sjálfbærnimenntun.
    Tryggja þarf öflugar grunnrannsóknir og þróunarrannsóknir á sviði landbúnaðar, sérstaklega í átt að sjálfbærum og lífrænum landbúnaði og tryggja aðgengi að virkum heilbrigðisrannsóknum, eins og annarra atvinnuvega. Sameina á þá sjóði sem sinnt hafa einstökum atvinnugreinum. Þar með yrðu atvinnuvegarannsóknir allar undir einum hatti, fagleg gæði tryggð og möguleikar auknir á þverfaglegum rannsóknum en landbúnaðarrannsóknir standa nú þegar mjög framarlega í flokki í íslensku fræðasamfélagi. Um leið er mikilvægt að hafa áfram sérstakan styrktarsjóð fyrir smá og hagnýt verkefni á sviði landbúnaðar. Skoða þarf hvort slíkur landbúnaðarsjóður yrði fjármagnaður af tollum eða umhverfisgjöldum á sviði landbúnaðar.

Landnýting og dýravelferð.
    Land og jarðvegur eru auðlindir sem Íslendingar eiga í ríkum mæli með hliðsjón af fólksfjölda. Það er samfélagsleg skylda að landnýting sé með sjálfbærum hætti og tryggja þarf í skipulagi að ræktarland fari ekki undir aðra starfsemi en landbúnaðarframleiðslu. Skipuleg skráning ræktaðs og ræktanlegs lands þarf að fara fram sem liður í aðgerðum til verndar þess. Hefja þarf vinnu við rammaáætlun um landnýtingu, meðal annars með þetta að markmiði, auk þess sem virk beitarstjórnun í öllum landsfjórðungum, sjálfbærni og náttúruvernd verði lykilþættir.
    Koma verður í veg fyrir óeðlilega samþjöppun í landbúnaði, t.d. með því að setja ákveðnar hömlur á eignarhald stórra lögaðila á mörgum jörðum, en um leið varast þá þróun að landinu sé skipt upp í smáskammta í tengslum við frístundabyggð og áhugabúskap. Ríkið hætti við sölu á ríkisjörðum í fullum rekstri en noti þær í staðinn til útleigu fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa við landbúnað.
    Þá skiptir miklu að stuðla að grænum búskaparháttum og dýravelferð og tengja það landbúnaðarstyrkjum. Lög og reglugerðir um dýravelferð og aðbúnað ættu ávallt að byggjast á nýjustu rannsóknum, fylgja siðferðilegum viðmiðum og vera í takt við það sem best gerist erlendis. Þá þurfa að vera skýr ákvæði um hvernig taka skal á brotum á reglum um dýravernd og búfjárhald, ævinlega með velferð dýranna í fyrirrúmi.

Starfsumhverfi og kjör.
    Mikilvægt er að stuðningskerfi landbúnaðarins sé til stöðugrar umræðu og endurskoðunar. Markmið ríkisins með stuðningi sínum er í senn að tryggja neytendum örugg og góð matvæli á hagstæðu verði og að viðhalda byggð um landið allt. Ljóst er að til að tryggja matvæla- og fæðuöryggi þarf hið opinbera að styðja við landbúnað og matvælaframleiðslu. Eðlilegt er að viðhalda framleiðslustyrkjum til að uppfylla neysluþörf á innanlandsmarkaði en breyta þarf hluta þeirra í fjárfestingastyrki þannig að bændur geti byggt upp og þróað framleiðslu sína. Styrkir þurfa að renna til þeirra sem standast gæðakröfur og efla þarf gæðatengingu styrkjakerfisins.
    Tryggja þarf að garðyrkjubændur sem nýta raforku til lýsingar gróðurhúsa fái orkuna á sambærilegu verði og aðrir stórkaupendur. Þeim verði þannig gert kleift að auka markaðshlutdeild sína á innlendum markaði og eftir atvikum flytja út afurðir sínar.
    Setja þarf viðmið um hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða -magni innan hverrar búgreinar sem nýtur ríkisstuðnings. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald. Skoða þarf hvort lækka eigi stuðning áður en þakinu er náð.

Fæðu- og matvælaöryggi.
    Kortleggja þarf skipulega hvernig Ísland getur reitt sig á innlenda matvælaframleiðslu með umfangsmeiri hætti en nú er. Skal stefna að því að innlend landbúnaðarframleiðsla anni innlendri eftirspurn eftir landbúnaðarafurðum til að tryggja fæðuöryggi (að þjóðin sé sjálfri sér næg um matvæli) og matvælaöryggi (að innlend matvæli séu örugg til neyslu). Sérstaklega þarf að líta til kornræktar auk búfjárræktar og garðyrkju.
    Endurskoða þarf reglur um slátrun og flutning á sláturfé þar sem viðhafa þarf sjónarmið um dýravelferð og umhverfiskostnað. Tryggja þarf að bændur geti sótt í sláturhús innan tiltekinna fjarlægðarmarka, hugsanlega með því að koma á laggirnar færanlegu sláturhúsi. Hafa þarf reglur um fullvinnslu afurða þannig úr garði gerðar að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir.
    Þegar kemur að því grundvallarverkefni að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika hefur landbúnaðurinn lykilhlutverki að gegna. Standa þarf vörð um íslenska búfjárstofna og íslenska flóru enda mikilvægur þáttur í líffræðilegri fjölbreytni heimsins. Íslensk fána og flóra njóti alltaf vafans þegar taka á afstöðu til innflutnings. Takmarka þarf notkun eiturefna í landbúnaði eins og kostur er.
    Móta þarf framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði þar sem tryggðir verða aðlögunarstyrkir til lífrænna ræktenda. Stefna skal að því að framboð á lífrænt ræktuðum landbúnaðarvörum sé í takt við eftirspurnina. Ryðja þarf hömlum úr vegi sem koma í veg fyrir að bændur geti tekið upp lífrænan landbúnað, m.a. með því að tryggja slátrun með lífræna vottun í öllum landshlutum.
    Viðhafa þarf skýra varúðarreglu ef erfðabreytt útiræktun verður gerð heimil í ljósi þess að þekking og reynsla er enn mjög takmörkuð. Setja þarf skýrt verklag um hvernig fara eigi með umsóknir þar að lútandi þannig að óháðir aðilar meti umsóknir og veiti ekki leyfi nema hafið sé yfir allan vafa að útiræktun geti ekki stefnt annarri ræktun eða náttúrulegu gróðurfari í voða. Varast þarf að leggja út á braut einkaleyfa og markaðsvæðingar þegar svo ríkir almannahagsmunir eru í húfi. Tryggja þarf framboð á kjarnfóðri sem er með vottun um að það innihaldi ekki afurðir af erfðabreyttum plöntum vera óerfðabreytt.
    Skoða þarf kosti og galla þess að leggja umhverfisgjöld á innfluttar landbúnaðarafurðir. Þar með myndu neytendur átta sig á vistspori ólíkra afurða og greiða verð sem passar við það. Slík álagning myndi í senn efla umhverfisvitund neytenda og styrkja stöðu innlendra landbúnaðarafurða.

Markaðssetning og neytendavernd.
    Upprunamerking er mikilvæg í markaðssetningu íslenskra landbúnaðarafurða innanlands og erlendis en líka liður í öflugri neytendavernd. Því er mikilvægt að setja lög um upprunamerkingu landbúnaðarvara þar sem innihald er nákvæmlega tilgreint eftir uppruna til að koma í veg fyrir misnotkun slíkra merkinga. Regluverkið þarf að eiga bæði við framleiðendur, vinnslustöðvar og smásölu þannig að keðjan sé órofin. Tryggja þarf fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum, innlendum jafnt sem innfluttum, m.t.t. notkunar erfðabreyttra lífvera við framleiðsluna.
    Markaðssetning á Íslandi þarf að hluta til að tengjast innlendum matvælum og sérstaklega svæðisbundnum matvælum. Hluti af ferðamálastefnu Íslendinga á að byggja á staðbundinni ferðaþjónustu og efla þarf upplýsingamiðlun um hana.