Ferill 673. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1606  —  673. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, með síðari breytingum (stjórnfyrirkomulag, verndaráætlun, leyfisveitingar o.fl.).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Geir Pétursson, Sigríði Svönu Helgadóttur og Björn Helga Barkarson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Gunnar Val Sveinsson og Önnu G. Sverrisdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Sveinbjörn Halldórsson og Skúla Hauk Skúlason frá Samút – Samtökum útivistarfélaga, Björn Ingimarsson frá Fljótsdalshéraði, Evu Björk Harðardóttur frá Skaftárhreppi, Guðmund Inga Guðbrandsson frá Landvernd, Guðrúnu Áslaugu Jónsdóttur, Jóhann Þórhallsson, Björn Inga Jónsson og Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur frá stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og Agnesi Brá Birgisdóttur, Guðmund Ögmundsson, Orra Pál Jóhannsson, Helgu Árnadóttur og Regínu Hreinsdóttur þjóðgarðsverði í Vatnajökulsþjóðgarði. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi, Landvernd, Norðurflugi ehf., Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samút – Samtökum útivistarfélaga, Skaftárhreppi, Snorra Ingimarssyni og Vatnajökulsþjóðgarði.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007. Breytingarnar snúa í fyrsta lagi að því að sett eru ákvæði um framkvæmdastjóra og ábyrgð hans, í öðru lagi er ákvæðum um þjóðgarðsverði breytt svo samræmi sé á milli ábyrgðar þeirra og framkvæmdastjóra, í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á samspili laganna, stjórnunar- og verndaráætlunar og reglugerðar um þjóðgarðinn, í fjórða lagi eru ítarlegri ákvæði um réttaráhrif stjórnunar- og verndaráætlunar og í fimmta lagi eru lögð til ákvæði um atvinnustefnu í þjóðgarðinum og um leyfisveitingar vegna atburða, framkvæmda og starfsemi innan þjóðgarðsins. Breytingarnar byggjast m.a. á skýrslu starfshóps um endurskoðun á stjórnfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs frá ágúst 2013, en skv. 4. tölul. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 60/2007 átti að endurskoða stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs eigi síðar en 1. janúar 2013 í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og meta þá hvernig stjórnfyrirkomulag garðsins hefði gengið.

Stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður með lögum nr. 60/2007 var lagt upp með valddreift stjórnfyrirkomulag með ríkri aðkomu heimamanna á svæðinu. Í II. kafla laga nr. 60/ 2007 er fjallað um stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Í 4. gr. kemur fram að Vatnajökulsþjóðgarður sé ríkisstofnun og að ráðherra fari með yfirstjórn hans. Með stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri fer sérstök stjórn skipuð af ráðherra sem í sitja sjö fulltrúar auk eins áheyrnarfulltrúa útivistarsamtaka. Í 5. gr. laganna er fjallað um ákvarðanatöku í stjórn og daglegan rekstur. Ákvæði stjórnsýslulaga gilda um ákvarðanir stjórnarinnar. Þá kemur fram að stjórn þjóðgarðsins sé heimilt að ráða sér framkvæmdastjóra eða gera samninga við aðra opinbera stofnun eða fyrirtæki um að annast daglegan rekstur og umsýslu stjórnar. Stjórn þjóðgarðsins hefur nýtt þessa heimild og framkvæmdastjóri hefur verið starfandi frá stofnun. Í 6. gr. laganna eru ákvæði um hlutverk stjórnar. Kemur þar m.a. fram að stjórnin hafi umsjón með náttúruvernd og stefnumótun og yfirumsjón með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar og reglugerðar fyrir þjóðgarðinn. Þá gerir stjórnin fjárhagsáætlun um rekstur garðsins, ráðstöfun fjár til rekstrarsvæða og samþykkt rekstraráætlunar. Í 7. gr. laganna kemur fram að þjóðgarðurinn skiptist í fjögur rekstrarsvæði sem rekin eru sem sjálfstæðar einingar og í hverju svæðisráði sitja sex fulltrúar. Í 8. gr. er fjallað um hlutverk svæðisráða og í 9. gr. kemur fram að á hverju rekstrarsvæði skuli starfa þjóðgarðsvörður sem ráðinn sé af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt tillögu viðkomandi svæðisráðs. Í 10. gr. er fjallað um hlutverk þjóðgarðsvarða þar sem fram kemur að þjóðgarðsverðir annist rekstur og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis í umboði stjórnar og beri ábyrgð á fjárreiðum þess og reikningshaldi gagnvart stjórn þjóðgarðsins og þá ræður þjóðgarðsvörður annað starfsfólk þjóðgarðsins.
    Af framangreindu er ljóst að stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs er mjög frábrugðið öðrum opinberum stofnunum. Með stjórn stofnunarinnar og ábyrgð á fjárreiðum fer stjórn sem skipuð er hagsmunaaðilum að mestu leyti. Ábyrgð stjórnarinnar og einstaka stjórnarmanna á fjárreiðum stofnunarinnar er því ekki mjög skýr. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að hagsmunaaðilar teldu allir að hið valddreifða stjórnfyrirkomulag hefði í öllum aðalatriðum reynst mjög vel og vilji stæði til þess að halda því fyrirkomulagi við stjórn þjóðgarðsins áfram. Mikilvægt væri að tryggja aðkomu heimamanna að stjórn þjóðgarðsins enda helstu hagsmunaaðilar. Nefndin áréttar að með frumvarpinu er ekki horfið frá því fyrirkomulagi en hins vegar var það mat starfshópsins og ráðuneytisins að skerpa þyrfti á ábyrgð, valdmörkum og verkaskiptingu einstakra aðila.
    Við meðferð málsins komu fram verulegar athugasemdir frá mikilvægum hagsmunaaðilum sem koma að stjórn þjóðgarðsins, þ.e. frá stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsvörðum og sveitarfélögum á svæðinu, þar sem efni frumvarpsins var skilið þannig að með því væri verið að draga úr valddreifðu stjórnfyrirkomulagi þjóðgarðsins og miðstýring aukin. Við vinnu nefndarinnar var einnig ákveðið að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og eftir kynningu fyrir formanni stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs að leggja til frekari breytingar á II. kafla laganna og draga úr þeim nákvæmu starfslýsingum þjóðgarðsvarða í 10. gr. laganna og falla frá svipuðu ákvæði í 8. gr. c frumvarpsins. Almennt er innra skipulag stofnana ekki skrifað í lagatexta með þessum hætti en eins og áður sagði var sú leið sem farin var með valddreifðu stjórnfyrirkomulagi á sínum tíma nýjung. Rétt þykir nú að draga úr þessum ákvæðum og hafa í þeirra stað skýr ákvæði um ábyrgð og helstu verkefni og síðan er stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs falið að setja framkvæmdastjóra og þjóðgarðsvörðum starfslýsingu.

Staða framkvæmdastjóra.
    Með tillögum frumvarpsins um lögfestingu á ákvæðum um framkvæmdastjóra þjóðgarðsins, um valdsvið hans og ábyrgð, er lagt til að kveðið verði skýrt á um það að framkvæmdastjóri beri ábyrgð líkt og forstöðumenn stofnana. Í 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er kveðið á um lagalega og rekstrarlega ábyrgð forstöðumanna. Í 2. mgr. 38. gr. segir að forstöðumaður beri ábyrgð á því að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Forstöðumaður ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Ef útgjöld stofnunar fara fram úr fjárlagaheimildum eða verkefnum hennar ekki sinnt á forsvaranlegan hátt líkt og forstöðumanni ber að tryggja má veita honum áminningu skv. 21. gr. starfsmannalaga. Forstöðumaður hefur því yfirumsjón með rekstri stofnunar, framkvæmd verkefna hennar og starfsmannamál, sbr. 1.–3. tölul. c-liðar 8. gr. frumvarpsins. Skv. 4. mgr. 27. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, ber forstöðumaður, eða eftir atvikum stjórn, ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að starfsemi skili árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og samþykktar áætlanir. Í 36. gr. laga um opinber fjármála er vísað til 38. gr. starfsmannalaga varðandi ábyrgð forstöðumanna og í 2. mgr. kemur fram að ábyrgðin nái m.a. til þess að rekstur og fjárstýring ríkisaðila sé skilvirk og í samræmi við samþykktar áætlanir. Mikilvægt er að ábyrgð á grundvelli framangreindra ákvæða sé skýr en skort hefur á það með valddreifðu stjórnfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs. Lögfesting ákvæðis um ábyrgð og verksvið framkvæmdastjóra horfir því til aukins skýrleika og markvissari framkvæmdar og ábyrgðar á fjárreiðum þjóðgarðsins.
    Samkvæmt frumvarpinu mun framkvæmdastjóri ráða aðra starfsmenn þjóðgarðsins, m.a. þjóðgarðsverði að fengnum tillögum viðkomandi svæðisráðs. Skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 70/1996 ræður forstöðumaður í störf hjá stofnun og er ákvæði frumvarpsins að þessu leyti í samræmi við þau lög. Breytingar frumvarpsins varðandi stöðu framkvæmdastjóra miðast því aðeins að því að lagaleg ábyrgð á rekstri stofnunarinnar verði borin af forstöðumanni líkt og gert er ráð fyrir í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Almennt eykur frumvarpið við valdheimildir þjóðgarðsvarða, t.d. varðandi leyfisveitingar vegna starfsemi í þjóðgarðinum líkt og fjallað er um hér fyrir neðan, en dregið er úr aðkomu þeirra að rekstri þjóðgarðsins og það hlutverk fært til framkvæmdastjóra. Hlutverk stjórnarinnar sem æðsta valds í málefnum þjóðgarðsins er styrkt með breytingartillögum nefndarinnar um að stjórnin skuli setja framkvæmdastjóra og þjóðgarðsvörðum starfslýsingu. Stjórnin mun því eftir sem áður taka allar stefnumarkandi ákvarðanir í málefnum þjóðgarðsins og valddreifðu stjórnfyrirkomulagi þjóðgarðsins því haldið við en ábyrgð á daglegum rekstri hans verður skýrari.

II. kafli laganna um stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Líkt og vikið hefur verið að leggur nefndin til breytingar á II. kafla laganna um stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til að mæta athugasemdum hagsmunaaðila sem bárust nefndinni. Þannig leggur nefndin til að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skuli setja sér starfsreglur þar sem kveðið verði nánar á um framkvæmd starfa stjórnarinnar, að stjórnin setji framkvæmdastjóra og þjóðgarðsvörðum starfslýsingar, að dregið verði úr nákvæmri starfslýsingu framkvæmdastjóra sem lögð er til með 8. gr. c frumvarpsins og að þess í stað verði kveðið með einföldum og skýrum hætti á um að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur þjóðgarðsins í umboði stjórnar og samkvæmt starfslýsingu, að hann annist fjárreiður og reikningsskil og beri ábyrgð á að þjóðgarðurinn starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að hann fari með yfirstjórn starfsmannamála. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar hér að framan um stöðu framkvæmdastjóra. Þá er lagt til að dregið verði úr nákvæmri starfslýsingu þjóðgarðsvarða í 10. gr. laganna til samræmis. Markmið breytinganna er að færa lögin meira til samræmis við önnur almenn lög um rekstur stofnana ríkisins þar sem ekki er kveðið með jafnítarlegum hætti á um hlutverk tiltekinna starfsmanna. Með því verða breytingar auðveldari í framkvæmd reynist þörf á þeim og vald stjórnar á innra skipulagi þjóðgarðsins þannig aukið í samræmi við hugmyndafræðina um valddreifða stjórnun þjóðgarðsins.
    Nefndin ræddi nokkuð stöðu áheyrnarfulltrúa í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs en skv. 4. gr. laganna á einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum áheyrnaraðild að fundum stjórnar. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefur þetta fyrirkomulag gengið vel frá stofnun þjóðgarðsins þar til nýlega að uppi voru mismunandi sjónarmið um réttindi áheyrnarfulltrúa og þá hafa útivistarsamtök óskað eftir því að fá fulla aðild að stjórninni. Nefndin telur ekki rétt að leggja til breytingar á skipan stjórnarinnar enda mundi það riðla valdahlutföllum sem ákveðin voru þegar þjóðgarðurinn var stofnaður í fullri sátt sveitarfélaga á svæðinu. Nefndin telur hins vegar rétt að taka fram þá túlkun sína á 4. gr. laganna að í áheyrnaraðild að fundum stjórnar felist málfrelsi og tillöguréttur en ekki atkvæðisréttur. Í breytingum frumvarpsins og þeim breytingum sem nefndin leggur til á II. kafla laganna felst m.a. að ferðamálasamtök skulu sameiginlega tilnefna einn fulltrúa sem áheyrnarfulltrúa í stjórn þjóðgarðsins auk fulltrúa útivistarsamtaka og samkvæmt tillögum að breytingum á 5. gr. skal stjórn þjóðgarðsins setja sér starfsreglur þar sem framangreindur skilningur á stöðu áheyrnarfulltrúa kemur fram með skýrum hætti.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að í lögunum ætti að kveða á um að aðalskrifstofa þjóðgarðsins skyldi vera staðsett á starfssvæði þjóðgarðsins. Byggist þessi tillaga á því sjónarmiði að eðlilegt sé að starfsemi þjóðgarðsins sé að sem mestu leyti á starfssvæði hans. Nefndin lýsir skilningi á því sjónarmiði en tekur ekki undir þá tillögu og bendir á að stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins byggist á valddreifðu fyrirkomulagi en ekki miðstýrðu. Skrifstofa þjóðgarðsins hefur verið staðsett í Reykjavík frá árinu 2007 en það er alfarið ákvörðun stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs hvar hún skuli staðsett og er það í samræmi við hugmyndafræðina um valddreifða stjórnun þjóðgarðsins. Nefndin telur rétt að halda því þannig að stjórnin taki ákvörðun um staðsetninguna frekar en að hún sé ákveðin með lögum eða samkvæmt ákvörðun ráðherra. Með því er mikilvægu valdi um starfsemi skrifstofu þjóðgarðsins haldið hjá stjórninni og þar með hjá hagsmunaaðilum sem koma að stjórn þjóðgarðsins.

Starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar sem snúa að stjórnunar- og verndaráætlun, umgengni og starfsemi í þjóðgarðinum og valdheimildum þjóðgarðsvarða. Þannig eru lagðar til breytingar á 12. gr. laganna sem eru til einföldunar og aukins skýrleika. Nefndin bendir m.a. á að í nýrri 3. mgr. 12. gr. mun koma fram að í stjórnunar- og verndaráætlun, sem er meginstjórntæki þjóðgarðsins, verði heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum, vatnafari, landslagi eða menningarminjum í þjóðgarðinum. Á grundvelli ákvæðisins verður m.a. hægt að setja skilyrði sem talin verða heppileg á hverjum stað svo framkvæmdir falli vel að náttúru og landslagi.
    Um réttaráhrif stjórnunar- og verndaráætlunar er fjallað í 13. gr. og í frumvarpinu er m.a. lagt til að í 3. mgr. 13. gr. komi fram að þjóðgarðsvörður hafi eftirlit með því að framkvæmdir í þjóðgarðinum séu í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun og að á öllum þeim sem fara um garðinn hvíli skylda til að fara að áætluninni sem og að ganga vel um náttúru garðsins, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Að því leyti sem ekki er mælt fyrir um sérstakar hátternisreglur innan garðsins í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra, svo sem stjórnunar- og verndaráætlun, gilda ákvæði náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, um för manna um þjóðgarðinn, þar sem lög um Vatnajökulsþjóðgarð eru sérlög gagnvart náttúruverndarlögum. Að mati nefndarinnar er ekki óeðlilegt að í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð séu sérstök ákvæði um umgengni, för og háttsemi manna í þjóðgarðinum. Þjóðgarðurinn er langstærsta friðlýsta svæði landsins og þar er mikil starfsemi sem eykst ár frá ári. Þannig telur nefndin ekki ástæðu til að leggja til breytingar á ákvæðum laganna sem snúa að utanvegaakstri eða leyfi þjóðgarðsvarða til lendingar loftfara innan þjóðgarðsins að svo stöddu. Seinna atriðið er nýmæli í frumvarpinu, en um leyfi þjóðgarðsvarða til lendingar loftfara í garðinum verður mælt nánar fyrir um í reglugerð og eðlilegt að við leyfisveitingar verði litið m.a. til reynslu manna af starfsemi í þjóðgarðinum. Nefndin bendir þó á að á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er nú í gangi vinna í samræmi við ákvæði til bráðabirgða 7 í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, sbr. lög nr. 109/2015, en þar kemur fram að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli, í samráði við hlutaðeigandi ráðherra, láta vinna frumvarp um ný ákvæði er taki til stýringar á ferðaþjónustu með hliðsjón af reglum um almannarétt á grundvelli náttúruverndar og nauðsynlegrar auðlindastýringar sem nýting ferðaþjónustunnar á náttúrunni hefur óhjákvæmilega í för með sér. Stefnt skuli að því að frumvarp þess efnis verði lagt fram á haustþingi 2017 hið síðasta. Við það tækifæri telur nefndin rétt að skoðað verði hvort bæta þurfi samræmi milli ákvæða náttúruverndarlaga og laga um stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs um utanvegaakstur. Á fundi nefndarinnar voru m.a. viðruð sjónarmið um að ákvæði náttúruverndarlaga um að leggja megi bílbreidd frá vegi væru óheppileg í þessu samhengi. Það að mismunandi reglur gildi innan og utan þjóðgarðsins eykur þörf og mikilvægi þess að aðilar í ferðaþjónustu sem og stjórnsýsla þjóðgarðsins vinni að því að koma réttum upplýsingum á framfæri við ferðamenn, erlenda sem innlenda, sem vilja heimsækja þjóðgarðinn og njóta náttúru hans.
    Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að nýr kafli bætist við lögin þar sem kveðið verði á um samninga vegna atvinnutengdrar starfsemi í þjóðgarðinum og leyfisveitingar vegna skipulagðra viðburða og verkefna. Þessum breytingum tengdum er 8. tölul. 5. gr. frumvarpsins þar sem bætt er við því nýja verkefni stjórnar að hafa yfirumsjón með gerð atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn. Nefndin telur ný ákvæði um samninga vegna atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum vera mjög til bóta og til þess fallin að vinna að verndarmarkmiðum laganna. Ásókn í þjóðgarðinn eykst stöðugt og sú aukna ásókn kallar á umsvifameiri atvinnustarfsemi. Mikilvægt er að þjóðgarðurinn hafi nauðsynleg tæki til að stýra ágangi á náttúru þjóðgarðsins á sjálfbæran hátt.
    Í frumvarpinu er lagt til að í nýrri 15. gr. b verði kveðið á um leyfisveitingar vegna skipulagðra viðburða sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja í þjóðgarðinum. Er í dæmaskyni vísað m.a. til kvikmyndagerðar en gerst hefur að hluta þjóðgarðsins hefur verið lokað fyrir umferð vegna vinnu við gerð kvikmynda. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um heimild þjóðgarðsvarðar til að loka tímabundið hlutum garðsins vegna viðburðanna. Nefndin ræddi ákvæðið nokkuð en fram komu sjónarmið um að með ákvæðinu væri þjóðgarðsvörðum veitt of víðtæk völd til lokunar á hlutum garðsins án samráðs við viðkomandi svæðisráð. Nefndin telur ekki ástæðu til að leggja til breytingar á ákvæðinu og telur þjóðgarðsverði vera vel til þess fallna að meta hvort aðstæður séu þannig að rétt sé að heimila tímabundnar lokanir svæða enda annast þeir daglegan rekstur og stjórn viðkomandi rekstrarsvæðis. Aðrar heimildir þjóðgarðsvarða til lokunar á hlutum garðsins eru vegna aðsteðjandi náttúruvár eða ef landsvæði eða lífríki liggja undir skemmdum þannig að talið sé nauðsynlegt að grípa til tafarlausra aðgerða.

Fjárframlög til þjóðgarðsins.
    Nefndin ræddi það nokkuð að ljóst er að auka þarf fjármagn til rekstrar þjóðgarðsins. Með auknum fjölda gesta eykst þörf fyrir innviðauppbyggingu til verndar náttúru þjóðgarðsins og til að búa starfsemi innan þjóðgarðsins viðunandi skilyrði. Fjölga þarf starfsmönnum þjóðgarðsins sem vinna á starfssvæði hans en einnig þarf að fjölga á skrifstofu þjóðgarðsins með auknum umsvifum. Með fleiri starfsmönnum skapast tækifæri til að styrkja rekstrareiningar þjóðgarðsins og færa fleiri þætti starfseminnar nær þjóðgarðinum sjálfum. Skv. 21. gr. laganna er heimilt að innheimta gestagjöld innan þjóðgarðsins sem ætlað er að mæta kostnaði við þjónustu og eftirlit með dvalargestum. Með breyttri 21. gr. laganna verður þjóðgarðinum heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna leyfisveitinga og samninga sem skulu standa undir kostnaði við veitingu leyfa, umsjón og eftirlit með leyfisskyldri starfsemi. Gæta þarf að því að þjóðgarðurinn fái nægjanlegt fé af fjárlögum svo mögulegt verði að ráðast í mikilvæga innviðauppbyggingu svo þjóðgarðurinn megi vaxa og dafna landsmönnum öllum til hagsbóta.
    Að mati nefndarinnar er mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga enda til mikilla bóta fyrir starfsemi þjóðgarðsins. Með því verður kveðið skýrt á um ábyrgð á fjárreiðum í samræmi við lög og önnur ákvæði laganna skýrð í ljósi reynslu síðustu ára og brugðist er við ábendingum sem nefndinni bárust í fullu samráði hlutaðeigandi hagsmunaaðila. Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Róbert Marshall, Vilhjálmur Árnason og Ásta Guðrún Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 29. ágúst 2016.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Haraldur Einarsson.
Ásta Guðrún Helgadóttir. Birgir Ármannsson. Elín Hirst.
Róbert Marshall. Svandís Svavarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.