Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1611  —  180. mál.




Skýrsla



velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.


    Nefndin hefur fjallað um málið og ákveðið að afgreiða það með skýrslu með vísan til 31. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Við meðferð málsins fékk nefndin á sinn fund Hermann Sæmundsson og Þorstein Gunnarsson frá innanríkisráðuneytinu, Hrannar Jónsson og Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur frá Geðhjálp, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Árna Múla Jónasson og Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Tryggva Þórhalls son frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu og Ágústu Guðnýjardóttur, Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, Freyju Haraldsdóttur, Salome Mist Kristjánsdóttur og Sigríði Jónsdóttur frá Tabú. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Einhverfu samtökunum, Geðhjálp, Heyrnarhjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Tabú, umboðsmanni barna, Umhyggju, félagi langveikra barna, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur 13. desember 2006 með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 61/611. Hann var lagður fram til undirritunar 30. mars 2007 og undirritaður fyrir Íslands hönd sama dag. Samningurinn tók svo gildi 3. maí 2008 þegar 20 ríki höfðu fullgilt hann. 11. júní 2012 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 43/140, um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Samkvæmt lið F.1 í III. kafla ályktunarinnar átti að leggja fram frumvarp til fullgildingar samningsins eigi síðar en á vorþingi 2013.
    Nú er langt liðið á árið 2016 og enn hefur samningurinn ekki verið fullgiltur. Nefndin telur óforsvaranlegt að svo langt hafi liðið frá samþykkt framangreindrar þingsályktunar án full gildingar og lítur svo á að stjórnvöld hafi ekki staðið sig sem skyldi í þessum mikilvæga málaflokki. Í ljósi þess að Alþingi hefur nú þegar samþykkt að fullgilda beri samninginn telur nefndin ekki þörf á að samþykkja þingsályktunartillögu þessa en beinir því til stjórnvalda að fullgilda samninginn án tafar og fylgja fullgildingunni eftir með lögfestingu hans, líkt og gert hefur verið með mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins með lögum, sbr. lög nr. 19/2013.
    Ásmundur Friðriksson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Páll Valur Björnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir skýrslu þessa samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 31. ágúst 2016.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Páll Valur Björnsson. Elsa Lára Arnardóttir.
Geir Jón Þórisson. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steingrímur J. Sigfússon.