Ferill 852. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1619  —  852. mál.
Millivísun.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Flm.: Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Við 14. tölul. 1. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig er átt við félög sem hafa eða hafa haft leyfi til reksturs fjármálafyrirtækis en tekin hafa verið til slitameðferðar og félög sem fara með eignir sem eru eða voru í eigu slíkra félaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Fyrir liggur að eignarhaldsfélög gömlu bankanna ætla að greiða háa bónusa til starfs­manna og stjórnenda. Slíkir bónusar eru að mati flutningsmanna frumvarpsins tímaskekkja sem mikilvægt er að brugðist verði við. Í lögum um fjármálafyrirtæki hafa nú þegar verið settar stífar reglur um kaupaukakerfi. Ástæður þess má m.a. rekja til neikvæðra áhrifa og reynslu bæði hérlendis og erlendis í kjölfar bankahrunsins um launa- og hvatakerfi fjármála­fyrirtækja enda leiddu ofurbónusar til mikils tjóns fyrir almenning. Það eru því ríkir almanna­hagsmunir að takmarka slíka bónusa, einnig í ljósi þess að þeir munu ógna stöðugleika og friði á vinnumarkaði. Fyrir liggur að eignarhaldsfélög gömlu bankanna heyra ekki undir ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem takmarka fjárhæðir bónusgreiðslna við 25% af árs­launum starfsmanna. Ákvæði laganna um kaupauka gilda þó einnig um svokölluð eignar­haldsfélög á fjármálasviði, en það hugtak er skilgreint í 14. tölul., áður 18. tölul., 1. gr. a laganna eins og þeim var breytt með lögum sem samþykkt voru 1. september 2016.
    Í ljósi sögunnar, eðlis og uppruna þeirra eigna sem umrædd félög höndla með er hér lagt til að skilgreining laga um fjármálafyrirtæki á eignarhaldsfélagi á fjármálasviði verði rýmkuð þannig að félög sem hafa eða hafa haft leyfi til reksturs fjármálafyrirtækis en tekin hafa verið til slitameðferðar og félög sem fara með eignir sem eru eða voru í eigu slíkra félaga falli þar undir. Engin rök standa til þess að undanskilja umrædd félög þeim reglum sem gilda um banka og eigendur þeirra.