Ferill 859. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
2. uppprentun.

Þingskjal 1626  —  859. mál.
Viðbót.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum (undirbúningur og framkvæmd kosninga o.fl.).

Frá forsætisnefnd.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Umsókn um kosningarrétt skv. b-lið 2. mgr. 1. gr. skal send Þjóðskrá Íslands á því formi sem stofnunin ákveður. Í henni skulu koma fram upplýsingar um nafn umsækj­anda, kennitölu hans, hvenær hann flutti af landi brott, síðasta lögheimili á landinu og heimilisfang erlendis. Umsókn skal jafnframt bera með sér yfirlýsingu umsækjanda um að hann sé enn íslenskur ríkisborgari.
                  Ekki skal taka til greina umsókn sem berst Þjóðskrá Íslands meira en einu ári áður en réttur skv. a-lið 2. mgr. 1. gr. fellur niður. Ef umsókn er fullnægjandi er umsækjanda tilkynnt það og hann tekinn á kjörskrá. Ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá gildir í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram.
     b.      Í stað orðsins „þessi“ í 2. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.
     c.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Sá sem ekki vill una ákvörðun Þjóðskrár Íslands skv. 2. og 3. mgr. er heimilt að kæra hana innan þriggja vikna frá dagsetningu hennar til úrskurðarnefndar kosningamála, sbr. 117. gr. a.
                  Landskjörstjórn skal auglýsa í október ár hvert frest til umsókna skv. b-lið 2. mgr. 1. gr. Auglýsinguna skal birta í Ríkisútvarpinu, dagblöðum og á vefjum landskjör­stjórnar og Þjóðskrár Íslands.
                  Landskjörstjórn setur nánari reglur um móttöku og meðferð umsókna skv. 1. og 2. mgr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fimm vikum“ í 1. mgr. kemur: 29 dögum.
     b.      Í stað orðanna „fjórum vikum“ í 2. mgr. kemur: 22 dögum.

3. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Hverju kjördæmi skal skipt í kjördeildir og er hvert sveitarfélag utan Reykjavíkur ein kjördeild, sbr. 5.–6. tölul. 1. mgr. 6. gr., nema sveitarstjórn hafi ákveðið að skipta því í fleiri kjördeildir.

4. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Frambjóðandi við kosningar til Alþingis er ekki kjörgengur í kjörstjórn.

5. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Alþingi kýs eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm menn í landskjörstjórn og jafnmarga til vara.
    Landskjörstjórn skal koma saman til fundar eigi síðar en einum mánuði eftir að kosið hefur verið til hennar. Á fyrsta fundi landskjörstjórnar skal hún velja sér formann og að öðru leyti skipta með sér verkum.
    Forseti Alþingis felur starfsmanni skrifstofu Alþingis að gegna störfum framkvæmdastjóra landskjörstjórnar. Hann skal annast daglegan rekstur og aðra umsýslu samkvæmt lögum þessum eftir nánari fyrirmælum landskjörstjórnar.
    Ráðuneytið skal sjá landskjörstjórn fyrir skrifstofuaðstöðu og vera kjörstjórninni til að­stoðar um önnur atriði er lúta að rekstri hennar. Landskjörstjórn er heimilt að ráða til sín starfsfólk og kaupa þjónustu sérfræðinga. Eftir nánara samkomulagi getur ráðuneytið þess í stað séð landskjörstjórn fyrir starfsfólki. Starfsfólk landskjörstjórnar lýtur stjórn hennar.
    Landskjörstjórn skal hafa sér til ráðgjafar við undirbúning og framkvæmd almennra alþingiskosninga fulltrúa sem tilnefndir skulu af hlutaðeigandi ráðuneytum, Sýslumanna­félagi Íslands, Þjóðskrá Íslands og Sambandi íslenska sveitarfélaga. Skulu fulltrúar þessir vera reiðubúnir að koma saman að beiðni landskjörstjórnar og veita henni upplýsingar eftir því sem þörf þykir og kostur er á.
    Landskjörstjórn getur gefið kjörstjórnum almenn fyrirmæli um undirbúning og fram­kvæmd kosninga. Landskjörstjórn getur ákveðið að slík fyrirmæli skuli birt í B-deild Stjórn­artíðinda ef ekki er kveðið á um það í lögum þessum.

6. gr.

    Á eftir 12. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (12. gr. a.)
    Landskjörstjórn er sjálfstæð stjórnsýslustofnun.
    Hlutverk landskjörstjórnar samkvæmt lögum þessum er að:
     a.      ákveða mörk kjördæma í Reykjavík og auglýsa þau, sbr. 7. gr.,
     b.      breyta fjölda kjördæmissæta í kjördæmum og auglýsa þær breytingar, sbr. 9. gr. og 3. og 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar,
     c.      skrá heiti nýrra stjórnmálasamtaka og ákveða listabókstafi, sbr. 33. og 34. gr.,
     d.      reikna út niðurstöður alþingiskosninga og úthluta þingsætum, sbr. 106. gr.,
     e.      gefa út kjörbréf til alþingismanna og varamanna þeirra, sbr. 111. gr.,
     f.      leggja fyrir Alþingi rökstudda umsögn um kærur út af gildi kosninga, kjörgengi þing­manna og kjöri þeirra, sbr. 120. gr.,
     g.      veita Alþingi nauðsynlegar upplýsingar um niðurstöður alþingiskosninga,
     h.      samræma undirbúning og framkvæmd kosninga, t.d. með leiðbeiningum, orðsendingum og fyrirmælum til kjörstjórna og kjörstjóra,
     i.      stunda og stuðla að rannsóknum á kosningalöggjöf,
     j.      birta auglýsingar um undirbúning og framkvæmd alþingiskosninga,
     k.      gera tillögur til ráðherra um útgáfu reglugerða um nánari framkvæmd einstakra ákvæða laga þessara,
     l.      veita frambjóðendum, kjósendum og fjölmiðlum upplýsingar og leiðbeiningar um undir­búning og framkvæmd kosninga.

    b. (12. gr. b.)
    Nú fær framboð sem á fulltrúa á Alþingi ekki kjörinn fulltrúa í landskjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni. Sambandi íslenskra sveitarfélaga er með sama hætti heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í landskjörstjórn.
    Áheyrnarfulltrúi skv. 1. mgr. hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 3. mgr. kemur: landskjörstjórn.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Yfirkjörstjórn ræður starfsfólk sér til aðstoðar við kosningar. Ekki er skylt að auglýsa slík störf.

8. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Nú forfallast landskjörstjórnar- eða yfirkjörstjórnarmaður og varamaður er ekki tiltækur og boðar oddviti viðkomandi kjörstjórnar þá menn í þeirra stað eftir tillögu þeirra samtaka sem kusu þá á Alþingi.

9. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Yfirkjörstjórn sveitarfélags sem kosin er samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna hefur umsjón með framkvæmd alþingiskosninga, hver í sínu sveitarfélagi.
    Í sveitarfélagi, sem skipt er í kjördeildir, skal sveitarstjórn í aðdraganda alþingiskosninga kjósa jafnmargar undirkjörstjórnir og fjöldi kjördeilda er. Þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað skal sveitarstjórn jafnframt kjósa hverfiskjörstjórn til að hafa umsjón með kosningastarfi á kjörstaðnum í umboði yfirkjörstjórnar sveitarfélags.
    Hver undirkjörstjórn og hverfiskjörstjórn skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Kjörstjórnirnar kjósa sér oddvita og skipta að öðru leyti með sér verkum.
    Með samþykki yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæma getur borgarstjórn ákveðið að þær fari með verkefni yfirkjörstjórna Reykjavíkurborgar, hvor í sínu kjördæmi.
    Sveitarstjórn tilnefnir starfsfólk sem er til aðstoðar við framkvæmd kosningar í sveitar­félaginu. Ekki er skylt að auglýsa slík störf.

10. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Kjörstjórnarmaður, sbr. 11. gr., skal víkja sæti ef til úrskurðar er mál sem varðar maka hans, fyrrverandi maka, sambúðarmaka, fyrrverandi sambúðarmaka eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti við ættleiðingu.

11. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Allar kjörstjórnir skulu halda gerðabækur og bóka gerðir sínar.
    Landskjörstjórn bókar ákvarðanir sínar um mörk kjördæma skv. 7. gr., um breytingu á þingmannatölu kjördæma skv. 9. gr., um stjórnmálasamtök og framboð, úrskurði um gildi framboða, um viðtöku kjörgagna, um atkvæðasamtölur stjórnmálasamtaka, um úthlutun þingsæta o.s.frv.
    Yfirkjörstjórnir bóka um viðtöku framboða, afgreiðslu þeirra til landskjörstjórnar og útsendingu og viðtöku kjörseðla og bréfa, hvers konar úrskurði, talningu atkvæða, úrslit kosninga og annað þess háttar.
    Kjörstjórnir sem sveitarstjórn kýs skv. 15. gr., og eftir atvikum umdæmiskjörstjórnir, bóka um allt sem fyrir er mælt í lögum þessum og máli skiptir um kosningarathöfnina.
    Ráðherra staðfestir reglur landskjörstjórnar um form, efni og löggildingu gerðabóka. Í reglunum má ákveða að gerðabækur verði á rafrænu formi eða að notuð verði sérstök eyðublöð í stað þeirra. Þá skal í reglunum getið um varðveislu gerðabóka og skil á þeim til landskjörstjórnar. Reglur landskjörstjórnar skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.
    Landskjörstjórn ákveður gerð og merkingar og notkun embættisinnsigla sem notuð skulu við kosningar og lætur öðrum kjörstjórnum í té. Reglur þessar skulu birtar í B-deild Stjórnar­tíðinda.

12. gr.

    Í stað orðsins „Ráðuneytið“ í 2. mgr. 20. gr. laganna kemur: Landskjörstjórn.

13. gr.

    22. gr. laganna orðast svo:
    Þegar boðað hefur verið til almennra alþingiskosninga skal Þjóðskrá Íslands gera kjörskrár samkvæmt skráningu lögheimilis hvers kjósanda í þjóðskrá, sbr. 23. gr.
    Viðmiðunardagur kjörskrár skal vera 22 dögum fyrir kjördag, kl. 16.
    Kjörskrár skulu annars vegar vera prentaðar en hins vegar rafrænar. Um prentaðar kjör­skrár fer skv. 26. gr., 27. gr. og 4. mgr. 29. gr., ef við á. Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi skulu kjörstjórnir notast við rafræna kjörskrá, sbr. 1. mgr. 29. gr.

14. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Á kjörskrá hvers sveitarfélags, sbr. þó 2. mgr., skal taka:
     a.      Þá sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. og skráðir voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt þjóðskrá á viðmiðunardegi, sbr. 2. mgr. 22. gr.
     b.      Þá sem uppfylla skilyrði 2. mgr. 1. gr., sbr. 2. gr., og síðast áttu skráð lögheimili hér á landi í sveitarfélaginu.
    Þeim sem taka ber á kjörskrá í Reykjavík skv. b-lið 1. mgr. skal skipt á milli suður- og norðurkjördæmis í samræmi við 7. gr. Í suðurkjördæmi komi þeir sem fæddir eru fyrri hluta hvers mánaðar en í norðurkjördæmi þeir sem fæddir eru síðari hluta hvers mánaðar. Lands­kjörstjórn ákveður hvar mörkin skulu vera í mánuði, sbr. 1. mgr. 7. gr. Sama regla skal gilda um þá sem skv. a-lið 1. mgr. eru skráðir með lögheimili hjá utanríkisþjónustunni í Reykjavík eða ótilgreint lögheimili í Reykjavík.

15. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Landskjörstjórn auglýsir í B-deild Stjórnartíðinda, Ríkisútvarpinu og dagblöðum að gerðar hafi verið kjörskrár, sbr. 22. gr., jafnskjótt og Þjóðskrá Íslands hefur lokið gerð þeirra og eigi síðar en 15 dögum fyrir kjördag. Í auglýsingunni skal koma fram að Þjóðskrá Íslands veiti aðgang að upplýsingum úr rafrænni kjörskrá, með innslætti kennitölu, á vefsíðu sinni og kosningavef landskjörstjórnar.
    Ráðuneytið skal í reglugerð, að fengnum tillögum landskjörstjórnar og Þjóðskrár Íslands, kveða nánar á um þær upplýsingar sem birta skal úr kjörskránni á vefsíðunum og hvort birting skuli enn fremur heimil á öðrum vefsíðum en greinir í 1. mgr.

16. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Þegar landskjörstjórn hefur auglýst að gerð kjörskráa sé lokið, sbr. 24. gr., er þeim stjórn­málasamtökum sem bjóða fram lista við alþingiskosningar heimilt að óska eftir rafrænu eintaki kjörskránna hjá Þjóðskrá Íslands. Eintakið skal afhent án endurgjalds, svo og önnur gögn er kunna að verða tilgreind í reglugerð. Þessum stjórnmálasamtökum er heimilt að nýta þetta eintak kjörskránna í þágu starfs samtakanna en óheimilt að birta það eða einhverjar upp­lýsingar úr því opinberlega.
    Ráðuneytið skal í reglugerð kveða nánar á um heimildir stjórnmálasamtaka til nýtingar kjörskrárgagna skv. 1. mgr., svo sem til prentunar límmiða með nöfnum og lögheimilum kjósenda sem Þjóðskrá Íslands annast.

17. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Að lokinni birtingu auglýsingar skv. 24. gr. sendir Þjóðskrá Íslands sveitarstjórnum prentaðar kjörskrár. Kjörskrárnar skulu liggja frammi almenningi til sýnis á skrifstofum sveitarstjórna eða öðrum hentugum stöðum eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag.
    Sveitarstjórnir skulu auglýsa hvar prentaðar kjörskrár liggja frammi á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.

18. gr.

    27. gr. laganna orðast svo:
    Athugasemdum við kjörskrár skal beint til Þjóðskrár Íslands sem tekur þær þegar til meðferðar og gerir viðeigandi leiðréttingar á rafrænni kjörskrá ef við á. Slíkar leiðréttingar má gera fram á kjördag.
    Eftirtaldar leiðréttingar er heimilt að gera á rafrænni kjörskrá:
     a.      ef stofnuninni hefur láðst að skrá lögheimili kjósanda til samræmis við tilkynningu hans um flutning,
     b.      ef stofnuninni berst vitneskja um andlát kjósanda,
     c.      ef stofnuninni berst vitneskja um að erlendur ríkisborgari hafi öðlast íslenskt ríkisfang eða að kjósandi hafi misst íslenskt ríkisfang,
     d.      ef stofnuninni berst vitneskja um að danskur ríkisborgari eigi kosningarrétt hér á landi samkvæmt lögum um réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi, nr. 18/1944, sbr. 1. gr. laga nr. 85/1946, um ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur,
     e.      ef íslenskur ríkisborgar, sem aldrei hefur átt lögheimili hér á landi eða sem misst hefur kosningarrétt skv. b-lið 2. mgr. 1. gr., flyst til landsins og skráir aftur lögheimili sitt hér á landi eftir viðmiðunardag kjörskrár,
     f.      ef stofnuninni verður þess að öðru leyti áskynja að villa hafi verið gerð við skráningu kjósanda við kjörskrárgerðina.
    Þjóðskrá Íslands sendir hlutaðeigandi sveitarstjórnum tilkynningar um leiðréttingar sem hún gerir á rafrænni kjörskrá svo að færa megi þær á prentuð kjörskráreintök sveitarstjórna er mál geta varðað. Enn fremur sendir stofnunin viðkomandi kjósanda tilkynningu um leið­réttinguna, ef við á. Þá sendir stofnunin hlutaðeigandi kjörstjórn og oddvita yfirkjörstjórnar tilkynningar um leiðréttingar á rafrænni kjörskrá svo að færa megi þær á prentuð kjörskrár­eintök kjörstjórna ef ákvæði 4. mgr. 29. gr. eiga við.
    Þjóðskrá Íslands gefur út leiðbeiningar um hvernig leiðréttingar skuli færðar á prentuð kjörskráreintök sveitarstjórna.
    Sveitarstjórnum er óheimilt að færa á prentuð kjörskráreintök aðrar leiðréttingar en þær sem Þjóðskrá Íslands heimilar. Við atkvæðagreiðslu á kjördag gildir einungis rafræn kjörskrá, sbr. 3. mgr. 22. gr., nema heimild hafi verið veitt til notkunar prentaðrar kjörskrár, sbr. 4. mgr. 29. gr.

19. gr.

    28. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að skjóta ákvörðun Þjóðskrár Íslands skv. 27. gr. til úrskurðarnefndar kosn­ingamála, sbr. 117. gr. a, innan sólarhrings frá dagsetningu hennar. Úrskurðarnefndin veitir kæranda hæfilegan frest til að koma að frekari gögnum áður en hún fellir úrskurð í málinu.

20. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi skulu kjörstjórnir notast við rafræna kjörskrá og er kjósendum þá heimilt að greiða atkvæði í hvaða kjördeild sem er innan kjördæmisins, þó ekki í kjördeild sveitarfélags í kjördæminu hafi sveitarstjórn þess fengið heimild til notkunar prentaðrar kjörskrár.
    Í sveitarfélagi þar sem rafræn kjörskrá er notuð skal yfirkjörstjórn kjördæmisins annast þá meðferð utankjörfundaratkvæða sem kjörstjórnum er fyrirskipað að annast skv. XIII. kafla.
    Sveitarstjórn er heimilt að fara þess á leit við landskjörstjórn, eigi síðar en 36 dögum fyrir kjördag, að á kjördag verði notast við prentaða kjörskrá í sveitarfélaginu. Í beiðninni skal sveitarstjórnin að rökstyðja hvers vegna hún telji að ekki skuli notast við rafræna kjörskrá. Landskjörstjórn skal svara sveitarstjórn eigi síðar en 29 dögum fyrir kjördag. Að liðnum fresti til umsóknar er landkjörstjórn þó heimilt að taka til meðferðar beiðni sveitarstjórnar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Í þeim tilvikum skal landskjörstjórn svara erindinu eins fljótt og verða má.
    Heimili landskjörstjórn notkun prentaðrar kjörskrár í sveitarfélagi á kjördag er einungis kjósendum sem þar standa á kjörskrá heimilt að greiða atkvæði í viðeigandi kjördeild nema 80. gr. eigi við.
    Þjóðskrá Íslands ákveður gerð og útlit rafrænnar kjörskrár og leggur sveitarfélögum til hugbúnað til notkunar við atkvæðagreiðsluna á kjördag.
    Ráðuneytið skal í reglugerð, að fengnum tillögum landskjörstjórnar og Þjóðskrár Íslands, kveða m.a. nánar á um gerð og útgáfu rafrænnar kjörskrár, svo og meðferð gagna í skránni og öryggisvottun skrárinnar. Þá skal tilgreint í reglugerðinni hvenær óheimilt verður að nota rafræna kjörskrá ef upp kemur bilun eða truflun í kerfinu í skilningi ákvæðis 85. gr. c. Enn fremur skal tilgreina í reglugerðinni hvaða kröfur skuli gerðar til rafrænnar kjörskrár svo að kjörstjórnir geti á hverjum tíma greint hvort kjósandi hafi greitt atkvæði eða ekki.

21. gr.

    VII. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Stjórnmálasamtök og listabókstafir, orðast svo:

Skráning stjórnmálasamtaka.


    a. (30. gr.)
    Með stjórnmálasamtökum er í lögum þessum átt við samtök sem bjóða eða boðið hafa fram lista við alþingiskosningar.
    Stjórnmálasamtök sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar geta boðið fram lista við næstu alþingiskosningar.
    Önnur stjórnmálasamtök, sem ekki hafa boðið fram lista við almennar alþingiskosningar, geta enn fremur boðið fram lista, enda hafi þau tilkynnt slíkt til landskjörstjórnar og uppfyllt skilyrði um skráningu og listabókstaf, sbr. 31. og 33. gr.

    b. (31. gr.)
    Stjórnmálasamtök sem ekki hafa boðið fram lista áður og hyggjast bjóða fram við al­þingiskosningar, skulu senda landskjörstjórn tilkynningu um þátttöku sína eigi síðar en sjö sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út, sbr. 37. gr. Tilkynningin skal dagsett og undirrituð af a.m.k. 300 kosningarbærum mönnum. Greina skal nafn þeirra, lögheimili og kennitölu.
    Nú óska skráð stjórnmálasamtök, sbr. 36. gr., að breyta heiti sínu eða að þeim verði úthlutað nýr listabókstafur og skulu þau þá tilkynna það landskjörstjórn innan sama frests og greinir í 1. mgr.
    Sá sem hefur undirritað tilkynningu stjórnmálasamtaka skv. 1. mgr. getur fram til þess að samtökin hafa tilkynnt sig til landskjörstjórnar afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína. Eyða skal yfirlýsingu sem hefur verið afturkölluð.
    Stuðningsyfirlýsingu er óheimilt að nota í öðrum tilgangi en greinir í 1. mgr.

    c. (32. gr.)
    Ráðherra setur, að fengnum tillögum landskjörstjórnar, reglugerð um form tilkynninga skv. 1. mgr. 31. gr., söfnun stuðningsyfirlýsinga, meðferð þeirra og eyðingu.
    Ráðherra getur enn fremur, að fengnum tillögum landskjörstjórnar, sett með reglugerð fyrirmæli um að stuðningsyfirlýsingum skuli safnað með rafrænum hætti á eyðublöðum eða viðmóti sem Þjóðskrá Íslands lætur í té. Í slíkri reglugerð skulu sett nánari fyrirmæli um:
     a.      heimild kjósenda til þess að veita meðmæli með öðrum hætti en rafrænum,
     b.      aðgang að upplýsingum hjá Þjóðskrá Íslands til athugunar á því hvort meðmælandi sé kosningarbær,
     c.      meðferð þeirra upplýsinga sem aflað er frá Þjóðskrá Íslands um kosningarrétt þeirra sem undirritað hafa stuðningsyfirlýsingu, sbr. 1. mgr. 31. gr.,
     d.      varðveislu stuðningsyfirlýsinga og eyðingu þeirra.

Heiti stjórnmálasamtaka.


    d. (33. gr.)
    Stjórnmálasamtök sem hyggjast bjóða fram lista við alþingiskosningar skulu skrá heiti sitt hjá landskjörstjórn áður en hún ákveður þeim listabókstaf, sbr. 1. mgr. 34. gr.
    Óheimilt er að skrá heiti stjórnmálasamtaka ef:
     a.      það er notað af stjórnmálasamtökum sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingis­kosningar,
     b.      stjórnmálasamtök hafa boðið fram undir því við síðustu alþingiskosningar eða þær alþingiskosningar sem á undan þeim voru haldnar,
     c.      stjórnmálasamtök hafa fengið það skráð en önnur stjórnmálasamtök óska eftir skráningu sama heitis,
     d.      ætla má að villst verði á heiti stjórnmálasamtaka sem nefnd eru í a–c-lið.
    Ákvæði 2. mgr. taka enn fremur til þess þegar skráð stjórnmálasamtök óska eftir að breyta heiti sínu.
    Enn fremur er óheimilt að skrá heiti stjórnmálasamtaka ef annar er rétthafi heitisins á grundvelli endanlegs dóms eða ef viðurkennt er að rétthafinn eigi einkarétt til heitisins af öðrum ástæðum en greinir í 2. mgr. Rétthafinn getur þó samþykkt að stjórnmálasamtökum sé heimilt að nota heitið við alþingiskosningar.
    Hafi landskjörstjórn skráð heiti stjórnmálasamtaka sem annar reynist vera rétthafi að, vegna niðurstöðu endanlegs dóms, eða sé að öðru leyti ástæða til þess að fallast á að rétt­hafinn eigi einkarétt til notkunar heitisins af öðrum ástæðum en greinir í 2. mgr. er lands­kjörstjórn heimilt að afturkalla skráninguna óski rétthafinn þess.

Ákvörðun listabókstafs.


    e. (34. gr.)
    Landskjörstjórn ákveður stjórnmálasamtökum listabókstaf að lokinni skráningu heitis þeirra. Tilgreina skal bókstafinn á framboðslista samtakanna.
    Stjórnmálasamtök sem boðið hafa fram lista við almennar alþingiskosningar halda bókstaf sínum enda uppfylli þau að öðru leyti skilyrði laganna.

Tilkynningar og málskot.


    f. (35. gr.)
    Ákvörðun landskjörstjórnar um skráningu stjórnmálasamtaka og listabókstaf þeirra, sbr. 33. og 34. gr., skal tilkynnt hlutaðeigandi samtökum og öðrum skráðum stjórnmálasamtökum í síðasta lagi tveimur sólarhringum frá lokum frests skv. 1. mgr. 31. gr.
    Ákvörðun landskjörstjórnar skv. 1. mgr. er heimilt að skjóta til úrskurðarnefndar kosn­ingamála, sbr. 117. gr. a, innan sólarhrings frá tilkynningu hennar. Úrskurðarnefnd kosninga­mála sker úr ágreiningi eins fljótt og verða má og eigi síðar en tveimur sólarhringum fyrir birtingu auglýsingar um framboðslista við alþingiskosningar, sbr. 3. mgr. 46. gr.

Auglýsing og skrá yfir heiti og listabókstafi stjórnmálasamtaka.


    g. (36. gr.)
    Landskjörstjórn auglýsir heiti og listabókstaf nýrra stjórnmálasamtaka í B-deild Stjórnar­tíðinda og á vef sínum svo fljótt sem verða má eftir að frestur til þess að bjóða fram við alþingiskosningar er liðinn, sbr. 1. mgr. 31. gr., og eigi síðar en sólarhring fyrir lok fram­boðsfrests, sbr. 37. gr.
    Landskjörstjórn viðheldur jafnóðum skrá um heiti stjórnmálamálasamtaka og listabókstaf þeirra og birtir á vef sínum.

22. gr.

    VIII. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Framboð, orðast svo:

Framboðsfrestur.


    a. (37. gr.)
    Þegar alþingiskosningar eiga að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjör­stjórn þeirri sem í hlut á, og eigi síðar en kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag. Framboð skulu afhent á eyðublaði sem landskjörstjórn hefur staðfest.

Tilkynning framboðs.


    b. (38. gr.)
    Gæta skal þess um öll framboð að tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, lögheimili, kenni­tölu og stöðu eða starfsheiti hans til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri.
    Á framboðslista skulu vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjör­dæminu, hvorki fleiri né færri. Skulu nöfn frambjóðenda rituð á listann að lágmarki með einu eiginnafni og kenninafni eins og þau birtast í þjóðskrá. Óski frambjóðandi eftir annarri ritun nafns á listann er honum það heimilt, enda séu þau nöfn skráð í þjóðskrá. Frambjóðanda er þó heimilt að rita eiginnafn eða eiginnöfn sín á annan veg en skráð er í þjóðskrá ef hann er kunnur af þeirri (eða slíkri) beitingu eiginnafns eða eiginnafna sinna.

    c. (39. gr.)
    Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg:
     a.      staðfesting landskjörstjórnar á að hún hafi skráð heiti og listabókstaf nýrra stjórnmála­samtaka,
     b.      yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann,
     c.      yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi; tilgreina skal nafn meðmælanda, lögheimili hans og kennitölu; fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki,
     d.      yfirlýsing meðmælenda um fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann sé boðinn fram; allir listar sem bornir eru fram fyrir sömu stjórnmálasamtök eiga saman þegar jöfnunarsætum er úthlutað skv. 108. gr.; ef yfirlýsinguna vantar telst listi vera sérstakt framboð,
     e.      tilkynning frá þeim stjórnmálasamtökum sem boðið hafa fram listann um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans er taki við athugasemdum yfirkjörstjórnar um ágalla sem kunna að vera á framboðinu,
     f.      staðfesting á skráningu stjórnmálasamtaka samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá.
    Ef sá sem ákveður framboðslista eða staðfestir hann endanlega, samkvæmt reglum stjórn­málasamtaka, ber fram mótmæli gegn því að listi sé í framboði fyrir þau samtök telst slíkur framboðslisti ekki vera í framboði fyrir þau.
    Við sömu alþingiskosningar má enginn bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum. Þá má sami kjósandi ekki mæla með fleiri en einum lista við sömu alþingiskosningar.

    d. (40. gr.)
    Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs á framboðslista stjórnmála­samtaka fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út.
    Sá sem hefur lýst yfir stuðningi við framboðslista getur ekki afturkallað yfirlýsingu sína eftir að framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn. Meðmæli sem safnað er til stuðnings fram­boði má ekki nota í öðrum tilgangi.
    Eyða skal samþykki eða yfirlýsingu sem hefur verið afturkölluð skv. 1. eða 2. mgr.

    e. (41. gr.)
    Ráðherra setur að fengnum tillögum landskjörstjórnar reglugerð um gerð framboðslista, form þeirra og söfnun upplýsinga um frambjóðendur, meðferð þeirra, eftirlit með þeim og eyðingu.
    Ráðherra setur að fengnum tillögum landskjörstjórnar reglugerð um form meðmæla fyrir framboðslista, söfnun þeirra, meðferð, eftirlit og eyðingu.
    Ráðherra getur enn fremur að fengnum tillögum landskjörstjórnar sett með reglugerð fyrirmæli um að meðmælum skuli safna með rafrænum hætti á eyðublöðum eða viðmóti sem Þjóðskrá Íslands lætur í té. Í slíkri reglugerð skulu sett nánari fyrirmæli um:
     a.      heimild kjósenda til þess að gefa meðmæli með öðrum hætti en rafrænum,
     b.      aðgang að upplýsingum hjá Þjóðskrá Íslands til athugunar á því hvort kjósandi sé kosn­ingarbær, sbr. 1. mgr.,
     c.      meðferð þeirra upplýsinga sem aflað er frá Þjóðskrá Íslands um kosningarrétt með­mælenda með framboðslistum, sbr. c-lið 1. mgr. 39. gr.,
     d.      varðveislu og eyðingu upplýsinga skv. c-lið 1. mgr. 39. gr.

Könnun yfirkjörstjórnar á framboðslistum.


    f. (42. gr.)
    Yfirkjörstjórn rannsakar framlögð gögn og gengur úr skugga um að uppfyllt séu skilyrði framboðs, sbr. 38. og 39. gr.
    Yfirkjörstjórn skal nema burt:
     a.      af framboðslista öftustu nöfn sem eru fram yfir tilskilda tölu,
     b.      nafn af lista yfir meðmælendur ef það stendur þar án skriflegs leyfis meðmælanda eða hann hefur skriflega leyft nafn sitt á fleiri listum en einum.
    Ef rannsókn yfirkjörstjórnar leiðir í ljós að sami maður hefur mælt með fleiri en einu fram­boði verður hann ekki talinn meðmælandi neins þeirra.
    Yfirkjörstjórn færir í gerðabók framkomin mótmæli og niðurstöðu athugana sinna á skil­yrðum framboðs.

    g. (43. gr.)
    Nú deyr frambjóðandi áður en kosning fer fram en eftir að framboðsfrestur er liðinn eða á næstu þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur er liðinn, og mega umboðsmenn listans þá krefjast þess innan sjö daga frá andlátsdegi að settur verði annar maður í stað hins látna á listann, enda sé fullnægt öðrum almennum skilyrðum um framboðið. Skal hlutaðeigandi yfirkjörstjórn tafarlaust tilkynna landskjörstjórn um kröfuna. Samþykki landskjörstjórn breyt­inguna skal hún birta listann þannig breyttan í B-deild Stjórnartíðinda og á vef sínum, sbr. 1. og 3. mgr. 46. gr. Jafnframt skal landskjörstjórn tilkynna ráðuneytinu breytinguna og birta í Ríkisútvarpinu (hljóðvarpi) auglýsingu um breytinguna.

    h. (44. gr.)
    Þegar frestur sá er liðinn sem ákveðinn er um framboð, sbr. 37. gr., heldur yfirkjörstjórn fund þar sem umboðsmönnum framboðslista skal veittur kostur á að vera viðstaddir. Finnist þá gallar á framboðslista skal hlutaðeigandi umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa, að jafnaði sólarhring.
    Gallar sem yfirkjörstjórn hefur bent á en hafa ekki verið leiðréttir innan tilsetts frests koma til ákvörðunar landskjörstjórnar. Athugasemdir yfirkjörstjórnar við einstök framboð skulu tilkynntar umboðsmönnum skriflega.

Könnun landskjörstjórnar á framboðslistum.


    i. (45. gr.)
    Jafnskjótt og yfirkjörstjórn hefur lokið könnun sinni á framboðum stjórnmálasamtaka og eigi síðar en sólarhring frá lokum framboðsfrests, sbr. 37. gr., skal hún senda þá til lands­kjörstjórnar ásamt öllum gögnum sem þeim fylgdu og endurriti úr gerðabók sinni. Lands­kjörstjórn tekur þá þegar til meðferðar og:
     a.      sker úr um hvort stjórnmálasamtök hafi bætt úr göllum á framboðslista, sbr. 44. gr., og um gildi hans að öðru leyti,
     b.      ákveður, ef þörf krefur, hverjum stjórnmálasamtökum skuli telja þá framboðslista sem í kjöri verða við kosningarnar,
     c.      merkir lista stjórnmálasamtaka með hliðsjón af auglýsingu um listabókstafi þeirra, sbr. 34. gr.; hafi stjórnmálasamtök fleiri lista en einn í sama kjördæmi skal merkja þá A, AA …, B, BB … o.s.frv. eftir því sem við á,
     d.      gætir þess að listar sem saman eiga, sbr. d-lið 1. mgr. 39. gr., séu merktir sama bókstaf í öllum kjördæmum,
     e.      kannar hvort yfirkjörstjórnir hafi gætt samræmis um framsetningu og frágang framboðs­lista, þar á meðal um ritun nafna frambjóðenda, sbr. 2. mgr. 38. gr.
    Á fundi sem landskjörstjórn boðar umboðsmenn til, eigi síðar en þremur sólarhringum og fjórum stundum frá lokum framboðsfrests, skal hún greina frá meðferð sinni á einstökum framboðslistum og tilkynna um ákvarðanir sínar, sbr. 1. mgr. Ákvörðunum landskjörstjórnar má umboðsmaður skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála, sbr. 117. gr. a, innan 20 stunda frá því að hún var afhent honum. Úrskurður nefndarinnar skal liggja fyrir innan tveggja sólarhringa frá lokum kærufrests.

Auglýsing landskjörstjórnar.


    j. (46. gr.)
    Þegar landskjörstjórn hafa borist framboðslistar frá yfirkjörstjórnum og þegar úrskurðar­nefnd kosningamála hefur úrskurðað um einstök ágreiningsmál, sbr. 2. mgr. 45. gr., skal landskjörstjórn þegar í stað gera almenningi kunna listana með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda og á vef sínum. Í auglýsingu skal tilgreina:
     a.      bókstaf hvers lista,
     b.      fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram,
     c.      nöfn frambjóðenda á hverjum lista í réttri röð, lögheimili, kennitölu og stöðu þeirra eða starfsheiti.
    Jafnframt skal landskjörstjórn birta í Ríkisútvarpinu (hljóðvarpi og sjónvarpi) auglýsingu um bókstaf hvers lista og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram.
    Auglýsingar skv. 1. og 2. mgr. skal birta eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag. Þær skal enn fremur birta á vef landskjörstjórnar.
    Landskjörstjórn endursendir síðan yfirkjörstjórnum framboðslistana ásamt greinargerð um afgreiðslu sína.

    k. (47. gr.)
    Ekki er nauðsynlegt að kjörgengi frambjóðenda sé sannað fyrir yfirkjörstjórn eða lands­kjörstjórn, en Alþingi úrskurðar um kjörgengi þeirra sem kosnir eru jafnframt því sem það úrskurðar um hvort nýkosnir þingmenn séu að öðru leyti löglega framboðnir og kosnir.

23. gr.

    Á eftir X. kafla laganna kemur nýr kafli, IX. kafli, Umboðsmenn stjórnmálasamtaka, með sjö nýjum greinum, 47. gr. a – 47. gr. g, ásamt millifyrirsögnum, og jafnframt falla kaflafyrirsagnir og kaflanúmer á undan 39. og 41. gr. laganna brott; hinar nýju greinar og fyrirsagnir eru svohljóðandi:

Við framlagningu lista hjá yfirkjörstjórn.


    a. (47. gr. a.)
    Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg tilkynning allra frambjóðenda listans til yfir­kjörstjórnar um það hverjir tveir séu umboðsmenn listans, ásamt skriflegu samþykki þeirra. Ef umboðsmenn listans eru ekki tilgreindir eða umboðsmenn forfallast eru frambjóðendur í aðalsætum hver um sig réttir umboðsmenn listans.
    Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir fundi yfirkjörstjórnar um framboðslista eftir að framboðsfresti lýkur, sbr. 44. gr. Umboðsmenn gefa yfirkjörstjórn upplýsingar um listana sé þess óskað og þeir gæta réttar listans við skoðun yfirkjörstjórnar. Finnist gallar á framboðslista skal umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá áður en þeir koma til úrskurðar landskjörstjórnar skv. 45. gr.
    Yfirkjörstjórn útbýr sérstök skilríki fyrir umboðsmenn samkvæmt nánari fyrirmælum landskjörstjórnar. Skilríki þessi skulu umboðsmenn bera við athafnir sínar samkvæmt lögum þessum.
    Umboðsmönnum er skylt að hlíta þeim fundarreglum sem kjörstjórn, yfirkjörstjórn og landskjörstjórn setja, þ.m.t. á kjörfundi og við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Um réttindi og skyldur umboðsmanna fer að öðru leyti eftir nánari ákvæðum þessa kafla.
    Umboðsmenn lista eiga rétt á að tilnefna aðstoðarmenn sem koma fram fyrir hönd þeirra við framkvæmd kosninga. Tilnefningar skulu berast yfirkjörstjórn tímanlega fyrir kjördag og skal yfirkjörstjórn útbúa sérstök skilríki fyrir aðstoðarmenn sem þeir skulu bera við athafnir sínar. Réttindi og skyldur aðstoðarmanna gagnvart kjörstjórnum eru hinar sömu og umboðs­manna.

Við yfirferð framboðslista hjá landskjörstjórn.


    b. (47. gr. b.)
    Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir fundi landskjörstjórnar vegna framboðs­lista, sbr. 45. gr.
    Úrskurði landskjörstjórn framboðslista ógildan skal umboðsmönnum lista, eins fljótt og verða má, afhent afrit úrskurðarins, ásamt afriti listans og vottorði um afhendingartíma.
    Auk umboðsmanna lista eiga stjórnmálasamtök sem bjóða fram lista rétt á að hafa tvo umboðsmenn viðstadda fundi landskjörstjórnar sem haldnir eru skv. 45. gr.
    Umboðsmenn lista og umboðsmenn stjórnmálasamtaka mega skjóta úrskurðum landskjör­stjórnar til úrskurðarnefndar kosningamála innan 20 stunda frá uppkvaðningu, sbr. 2. mgr. 45. gr.

Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi og utan kjörfundar.


    c. (47. gr. c.)
    Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu á kjörfundi. Þeir eiga rétt á að sitja við borð í kjörfundarstofunni og fá afhent eintak af sérstakri útgáfu kosningalag­anna ásamt stjórnarskránni. Umboðsmenn lista eiga enn fremur rétt á að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar þótt ekki fari atkvæðagreiðsla fram í heimahúsi. Umboðs­menn skulu hafa aðgang að kjörskrám í kjörfundarstofu og að skrám kjörstjóra sem þeir halda vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfunda, sbr. 4. mgr. 67. gr. Umboðsmönnum er óheimilt að bera í kjörfundarstofu eða hafa á brott með sér gögn er varða kosninguna og óheimilt er að taka upp eða mynda það sem fram fer í kjörfundarstofu. Sama gildir um kosningarathöfn utan kjörfundar.

    d. (47. gr. d.)
    Umboðsmenn lista eiga rétt á að vera viðstaddir þegar kjörstjórn gætir lagafyrirmæla við meðhöndlun atkvæðakassa og annarra kjörgagna áður en atkvæðagreiðsla hefst og þegar henni er slitið. Umboðsmönnum er heimilt að undirrita með kjörstjórn það sem hún ritar í kjörbókina vegna þessara starfa og setja innsigli sín á þá atkvæðakassa og kjörgögn sem kjörstjórn innsiglar samkvæmt lögum. Sama gildir um rétt umboðsmanna lista hvað varðar störf kjörstjóra.

    e. (47. gr. e.)
    Telji umboðsmenn lista að kjörstjórn, kjörstjóri eða kjósendur hegði sér ekki samkvæmt lögum við kosningarathöfnina mega þeir finna að því við kjörstjórnina eða kjörstjórann. Telji þeir eitthvað ólöglegt við kosningarathöfnina og fá það ekki leiðrétt hjá kjörstjórn eða kjör­stjóra eiga umboðsmenn rétt á að fá ágreiningsefnið bókað þegar í stað í kjörbók kjörstjórnar eða skrá kjörstjóra. Neiti kjörstjórn eða kjörstjóri að bóka eitthvað vegna kosningarathafn­arinnar á umboðsmaður rétt á að bóka það sjálfur og undirrita.

Við talningu atkvæða.


    f. (47. gr. f.)
    Eftir að kosningu lýkur eiga umboðsmenn lista rétt á að vera viðstaddir móttöku yfir­kjörstjórnar á atkvæðakössum og öðrum kjörgögnum áður en talning eða flokkun atkvæða fer fram og til loka talningar.
    Séu umboðsmenn lista ekki viðstaddir talningu skal yfirkjörstjórn kveðja til valinkunna kjósendur úr sömu stjórnmálasamtökum, ef unnt er, til að gæta réttar listans.

Við úthlutun þingsæta.


    g. (47. gr. g.)
    Sérhver stjórnmálasamtök, sem boðið hafa fram, eiga rétt á að hafa tvo umboðsmenn viðstadda við öll störf landskjörstjórnar við úthlutun þingsæta skv. XV. kafla.

24. gr.

    1. mgr. 46. gr. laganna sem verður 48. gr. þeirra orðast svo:
    Landskjörstjórn lætur í té kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Hún lætur einnig í té leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslunnar. Kjörgögn þessi skulu jafnan vera fyrir hendi hjá þeim er annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Sýslumenn annast afgreiðslu kjör­gagna til kjörstjóra eða annarra trúnaðarmanna innan lands, sbr. 59. gr.

25. gr.

    47. gr. laganna verður 49. gr. þeirra og jafnframt fellur 48. gr. laganna brott.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 49. gr. laganna sem verður 50. gr. þeirra:
     a.      Í stað orðsins „Skipstjóri“ kemur: Kjörstjóri eða annar trúnaðarmaður innan lands, sbr. 59. gr.
     b.      Orðin „í skipi hans“. falla brott.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna sem verður 51. gr. þeirra:
     a.      Í stað orðsins „Ráðuneytið“ í 1. mgr. kemur: Landskjörstjórn.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Kjörseðlar skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum samkvæmt nánari reglum sem ráðuneytið setur að fengnum tillögum landskjörstjórnar.

28. gr.

    51.–71. gr. laganna verða 52.–72. gr. þeirra og jafnframt fellur 72. gr. laganna brott.

29. gr.

    53. gr. laganna (sem verður 54. gr. þeirra) orðast svo:
    Kjörseðlar skulu að jafnaði fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag og skal lands­kjörstjórn þegar senda þá yfirkjörstjórn.
    Kjörseðlana skal brjóta saman þannig að óprentaða hliðin snúi út. Á óprentuðu hliðinni er þó heimilt að hafa ferning fyrir stimpil kjörstjórnar, sbr. 85. gr. a. Að öðru leyti ákveður landskjörstjórn útlit kjörseðla

30. gr.

    54. gr. laganna (sem verður 55. gr. þeirra) orðast svo:
    Landskjörstjórn lætur gera stimpla sem notaðir skulu við atkvæðagreiðslu á kjörfundi og utan kjörfundar.
    Yfirkjörstjórnir og kjörstjórar skulu varðveita stimpla á öruggum stað. Glatist stimpill eða eyðileggst skal tilkynna það landskjörstjórn.

31. gr.

    XI. kafli laganna verður X. kafli þeirra og breytist númeraröð annarra kafla laganna samkvæmt því.

32. gr.

    57. gr. laganna (sem verður 58. gr. þeirra) orðast svo:
    Kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að framboðslistar hafa verið auglýstir, sbr. 46. gr., þó eigi síðar en 29 dögum fyrir kjördag.
    Kosning utan kjörfundar skal standa fram til kl. 17 á kjördag en erlendis skal þó ljúka kosningunni daginn fyrir kjördag.
    Atkvæðið telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 58. gr. laganna (sem verður 59. gr. þeirra):
     a.      Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Sýslumenn eru kjörstjórar, hver í sínu umdæmi, og ákveða jafnframt hverjir starfs­menn þeirra og aðrir trúnaðarmenn gegna störfum kjörstjóra í þeirra umboði. Sýslumenn skulu tilkynna landskjörstjórn hverju sinni hverjir eru kjörstjórar í þeirra umboði.
                  Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal fara fram í aðalskrifstofu sýslumanns eða útibúi. Sýslumaður getur ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum í umdæmi hans. Sýslumaður getur að ósk sveitarstjórnar skipað kjörstjóra, sem getur verið starfsmaður sveitarfélags, til þess að annast atkvæðagreiðslu.
     b.      Í stað orðsins „stofnuninni“1. málsl. 2. mgr., sem verður 3. mgr., kemur: heimilinu eða stofnuninni.
     c.      Í stað orðanna „skv. 2. mgr.“ í 3. og 4. mgr. kemur: skv. 3. mgr.
     d.      Lokamálsliður 3. mgr. fellur brott.
     e.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Ráðuneytið setur, að fengnum tillögum landskjörstjórnar, nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu skv. 3. og 4. mgr. og tilkynnir það jafnframt landskjörstjórn.
     f.      Í stað orðanna „skv. 2. mgr.“ í lokamálslið 5. mgr. kemur: skv. 3. mgr.

34. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna (sem verður 60. gr. þeirra):
     a.      Orðin: „eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Orðin: „og fastanefnda“ í 2. mgr. falla brott.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hlutaðeigandi ráðuneyti skal tilkynna landskjörstjórn hverju sinni hverjir eru kjörstjórar erlendis.
     d.      Við 3. mgr. bætist: og tilkynnir það jafnframt landskjörstjórn.

35. gr.

    60. gr. laganna (sem verður 61. gr. þeirra) orðast svo:
    Kjósandi, sem hvorki mun eiga þess kost að greiða atkvæði utan kjörfundar eftir tímamark skv. 1. mgr. 58. gr. né á kjörfundi, má kjósa hjá sýslumanni, sbr. 2. mgr. 59. gr., frá og með þeim degi þegar 57 dagar eru til kjördags þar til atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst skv. 1. mgr. 58. gr.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna (sem verður 64. gr. þeirra):
     a.      1. og 2. mgr. orðast svo:
                  Kjósandi sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar skal gera kjörstjóra grein fyrir sér með því að framvísa persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, svo sem vega­bréfi, ökuskírteini, nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kjör­stjóri skal halda sérstaka skrá yfir þá sem greiða atkvæði hjá honum, sbr. 1. mgr. 67. gr.
                  Að lokinni skráningu fær kjósandi afhent kjörgögn. Skal hann síðan aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn á þann hátt er segir í 2. mgr. 63. gr. Kjörstjóri skal síðan stimpla bakhlið kjörseðilsins án þess að hann verði þess var hvernig kjósandi hyggst greiða atkvæði. Því næst skal kjósandi setja atkvæðið í kjör­seðilsumslagið og líma það vandlega aftur. Skal kjósandi síðan árita og undirrita fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna með undirritun sinni á fylgi­bréfið og embættisstimpli, ef við á.
     b.      6. mgr. orðast svo:
                  Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því sveitarfélagi eða kjördæmi þar sem kjósandinn telur sig vera á kjörskrá. Aftan á sendi­umslagið skal rita kennitölu kjósandans. Í stað kennitölu má setja sérstakt merki sem geymir kennitölu kjósandans. Landskjörstjórn setur nánari reglur um útlit og notkun slíks merkis.

37. gr.

    Við 64. gr. laganna (sem verður 65. gr. þeirra) bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kjör­stjóri skal farga ónýta kjörseðlinum í viðurvist kjósanda.

38. gr.

    2. mgr. 65. gr. laganna (sem verður 66. gr. þeirra) orðast svo:
    Aðrir kjósendur skulu sjálfir annast sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst og greiða almennt póstburðargjald undir sendinguna. Kjósandi ber að öðru leyti sjálfur kostnað af sendingu atkvæðisbréfsins.

39. gr.

    4. mgr. 66. gr. laganna (sem verður 67. gr. þeirra) orðast svo:
    Umboðsmönnum lista er heimilt að kynna sér skrár þær sem um getur í 1. og 2. mgr. hjá kjörstjóra.

40. gr.

    1. og 2. mgr. 69. gr. laganna (sem verður 70. gr. þeirra) orðast svo:
    Í hverri kjördeild skal vera hæfilegur fjöldi kjörklefa sem skulu þannig búnir að þar megi greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi greiðir atkvæði.
    Í kjörfundarstofu skal vera atkvæðakassi. Hann skal þannig búinn að ekki sé unnt að ná kjörseðli úr honum án þess að opna hann. Atkvæðakassar skulu annaðhvort vera læstir eða innsiglaðir þannig að þess sjáist merki séu þeir opnaðir. Í upphafi kjörfundar skal kjörstjórn ganga úr skugga um að atkvæðakassar séu tómir og læsa þeim síðan eða innsigla með innsigli sem landskjörstjórn lætur í té. Landskjörstjórn setur nánari reglur um tilhögun í kjörfundar­stofu, stærð og gerð atkvæðakassa, innsigli, lása og vörslu lykla.

41. gr.

    75. gr. laganna fellur brott.

42. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 1. og 2. mgr. í 77. gr. laganna kemur: landskjörstjórn.

43. gr.

    79. gr. laganna fellur brott.

44. gr.

    85. gr. laganna orðast svo:
    Þegar kjósandi hefur gengið frá kjörseðlinum samkvæmt framansögðu brýtur hann kjör­seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum og gengur út úr klefanum og gerir kjörstjórn grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, svo sem vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini, eða á annan full­nægjandi hátt að mati kjörstjórnar.

45. gr.

    Á eftir 85. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 85. gr. a – 85. gr. c, svohljóðandi:

    a. (85. gr. a.)
    Eigi kjósandi rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni skal kjörstjórn eða fulltrúi hennar stimpla bakhlið kjörseðilsins án þess að vart verði við hvernig kjósandi hyggst greiða atkvæði. Kjósandi skal síðan leggja seðilinn í atkvæðakassann í viðurvist fulltrúa kjör­stjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.

    b. (85. gr. b.)
    Kjörstjórn skal merkja við nafn kjósanda í kjörskrá um leið og hann hefur neytt kosningar­réttar síns. Samtímis og merkt er við nafn kjósanda í kjörskrá skal annar kjörstjórnarmaður gæta að því að merking sé rétt.
    Nú er kjörskrá prentuð og skulu þá oddviti kjörstjórnar og annar meðkjörstjóranna hafa fyrir sér hvor sitt eintak kjörskrárinnar. Skulu þeir báðir gera merki við nafn hvers kjósanda um leið og hann hefur neytt kosningarréttar síns.

    c. (85. gr. c.)
    Valdi bilun eða truflun því að ekki er unnt að nota rafræna kjörskrá skal kjósandi fá af­hentan kjörseðil og sérstakt kjörseðilsumslag. Því næst skal hann rita atkvæði sitt aðstoðar­laust á kjörseðilinn í kjörklefa án þess að nokkur annar sjái. Kjörstjórn skal síðan stimpla bakhlið kjörseðilsins. Því næst setur kjósandinn kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið. Áritar og undirritar kjósandi síðan sérstakt ytra umslag í viðurvist kjörstjórnar sem vottar atkvæða­greiðsluna. Á ytra umslagi skal koma fram að atkvæðið hafi verið greitt án aðgangs kjör­stjórnar að rafrænni kjörskrá auk tímasetningar atkvæðagreiðslu og nafns og kennitölu kjós­anda. Kjörseðilsumslag skal látið inn í ytra umslag sem kjósandi setur svo í atkvæðakassa.
    Landskjörstjórn skal sjá til þess að á hverjum kjörstað séu nauðsynleg kjörgögn til að unnt sé að efna til atkvæðagreiðslu samkvæmt þessari grein.

46. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytið“ í f-lið 1. mgr. 91. gr. laganna kemur: landskjörstjórn.

47. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 95. gr. laganna:
     a.      1. mgr. 95. gr. orðast svo:
                  Þá er atkvæðagreiðslu er slitið og kjörseðilsumslög þau er gild hafa verið tekin hafa verið látin í atkvæðakassann skal oddviti jafnskjótt ganga frá í sérstöku umslagi þeim utankjörfundaratkvæðum sem ágreiningur er um, sbr. 92. gr., ásamt lyklinum að atkvæðakassanum í aðalumslaginu og loka því.
     b.      Í stað orðsins „aðalumslagi“ í 2. mgr. kemur: umslagi.

48. gr.


    Á eftir 1. mgr. 98. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Yfirkjörstjórn getur, meðan á kjörfundi stendur, ákveðið að hefja fyrir luktum dyrum flokkun og talningu atkvæða eftir framboðslistum. Flokkun og talning skal fara fram í sama rými og yfirkjörstjórn telur atkvæði. Skal rýmið lokað og vaktað af hálfu yfirkjörstjórnar þar til kjörfundi er lokið.

49. gr.

    3. mgr. 99. gr. laganna fellur brott.

50. gr.

    Á eftir 99. gr. kemur ný grein, 99. gr. a, svohljóðandi:
    Við opnun atkvæðakassa að kjörfundi loknum skal yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn safna saman ytri umslögum skv. 85. gr. c og kanna hvort kjósendur þeirra séu á rafrænni kjörskrá og merkja við nöfn þeirra þar. Hafi kjósandi ekki verið á kjörskrá í kjördæmi þar sem hann kaus telst atkvæði hans ógilt. Hafi kjósandi hvorutveggja greitt atkvæði á grundvelli rafrænnar kjörskrár og skv. 85. gr. a telst síðarnefnda atkvæðið ógilt. Hið sama á við um síðari atkvæði sem kjósandi kann að hafa greitt skv. 85. gr. a umfram hið fyrsta. Kjörseðilsumslögum atkvæða sem ekki eru ógilt af þessum sökum skal safnað saman og þeim hellt óopnuðum í ílát skv. 1. mgr. 99. gr. Skulu umslögin síðan opnuð og atkvæðaseðlar meðhöndlaðir skv. 2. mgr. 99. gr. Atkvæði sem ógildast samkvæmt þessu ákvæði skal yfir­kjörstjórn geyma undir innsigli þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna. Að því búnu skal eyða atkvæðunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.

51. gr.

         Eftirfarandi breytingar verða á 100. gr. laganna:
     a.      F-liður orðast svo: ef kjörseðill er ekki sá sem landskjörstjórn hefur látið gera skv. 51. gr.
     b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef kjörseðill hefur ekki verið stimplaður af kjör­stjórn eða kjörstjóra.

52 gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ráðuneytið“ og „ráðuneytinu“ í 3. mgr. kemur: landskjörstjórn.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þegar yfirkjörstjórn hefur lokið störfum við talningu atkvæða og gefið Hagstofu Íslands þær upplýsingar sem stofnunin þarfnast við hagskýrslugerð, sbr. 116. gr., skal kjörstjórnin tilkynna það Þjóðskrá Íslands svo að stofnunin geti lokað fyrir aðgang allra að hinni rafrænu kjörskrá. Þjóðskrá Íslands varðveitir kjörskrána þannig læsta í eitt ár en eyðir að þeim tíma loknum öllum gögnum úr skránni og tilkynnir það landskjörstjórn.

53. gr.

    Í stað orðanna „er ráðuneytið segir fyrir um“ í 1. mgr. 111. gr. laganna kemur: sem lands­kjörstjórn ákveður.

54. gr.

    112. gr. laganna orðast svo:
    Nú er ágreiningur milli umboðsmanna stjórnmálasamtaka, sem þátt hafa tekið í alþingis­kosningum, og landskjörstjórnar um úthlutun þingsæta og útgáfu kjörbréfa og eiga þá um­boðsmenn rétt á að fá bókaðan ágreining sinn í gerðabók landskjörstjórnar. Landskjörstjórn leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun eftirrit af gerðabók sinni um úthlutun þingsæta, svo og skýrslur þær og skilríki frá yfirkjörstjórnum sem ágreiningur kann að vera um.

55. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 1. mgr. 115. gr. laganna kemur: landskjörstjórn.

56. gr.

    Við 116. gr. bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Yfirkjörstjórnir skulu vinna sérstaklega þær upplýsingar sem Hagstofa Íslands þarfnast úr rafrænni kjörskrá við hagskýrslugerð sína.
    Við vinnslu upplýsinga úr rafrænni kjörskrá skulu yfirkjörstjórnir og Hagstofan gæta ákvæða laga um persónuvernd.

57. gr.

    Fyrirsögn XIX. kafla laganna (sem verður XVIII. kafli þeirra) verður: Skýrslur og upp­lýsingar til hagskýrslugerðar Hagstofu Íslands.

58. gr.

    Á undan 118. gr. laganna kemur ný grein, 117. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra skipar þrjá menn í úrskurðarnefnd kosningamála til fimm ára í senn. Hæstiréttur Íslands tilnefnir formann nefndarinnar og skal hann uppfylla starfsgengisskilyrði héraðs­dómara. Alþingi kýs einn nefndarmann og skal hann hafa lokið embættisprófi eða meistara­prófi í lögfræði og hafa reynslu af framkvæmd kosninga. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn nefndarmann og skal hann hafa reynslu af framkvæmd kosninga.
    Til nefndarinnar má skjóta eftirtöldum ákvörðunum:
     1.      Synjun Þjóðskrár Íslands um að taka kjósanda á kjörskrá, sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. og um leiðréttingar á kjörskrá skv. 27. gr., sbr. 28. gr.
     2.      Ákvörðun landskjörstjórnar um skráningu stjórnmálasamtaka og úthlutun listabókstafa, sbr. 35. gr.
     3.      Ákvörðun landskjörstjórnar um gildi framboðslista og önnur atriði er þau varða, sbr. 45. gr.
    Um fresti til þess að kæra einstakar ákvarðanir fer samkvæmt nánari fyrirmælum sem tilgreind eru hverju sinni í einstökum ákvæðum laga þessara.
    Kæra til úrskurðarnefndar kosningamála frestar ekki réttaráhrifum ákvarðana stjórnvalda.
    Ákvörðun málsaðila um að bera ákvarðanir stjórnvalda skv. 2. mgr. undir dómstóla frestar ekki réttaráhrifum þeirra.
    Úrskurðum úrskurðarnefndar kosningamála verður ekki skotið til annars stjórnvalds.

59. gr.

    Í stað orðanna „ráðuneytinu“ og „Ráðuneytið“ í 118. gr. laganna kemur: landskjörstjórn.

60. gr.

    Við 120. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Landskjörstjórn skal leggja fyrir Alþingi rökstudda umsögn um kærur út af gildi kosninga og mat á kjörgengi nýkosinna þingmanna. Landskjörstjórn lætur Alþingi enn fremur í té öll þau gögn og upplýsingar sem það hefur þörf fyrir við umfjöllun sína um gildi kosninga.

61. gr.

    Orðin „ráðuneytið eða“ í a-lið 123. gr. laganna falla brott.

62. gr.

    Á eftir 128. gr. laganna kemur nýr kafli. XXV. kafli, Ýmis ákvæði, með þremur nýjum greinum, 128. gr. a – 128. gr. c, og millifyrirsögnum, svohljóðandi:

Eftirlit með framkvæmd kosninga.


    a. (128. gr. a.)
    Innlendir og erlendir kosningaeftirlitsmenn frá stofnunum eða samtökum geta fengið heimild landskjörstjórnar til þess að fylgjast með framkvæmd kosninga samkvæmt lögum þessum.
    Hafi kosningaeftirlitsmenn heimild landskjörstjórnar er sveitarstjórnum, kjörstjórnum sveitarfélaga, kjörstjórum og yfirkjörstjórnum skylt að taka á móti þeim og auðvelda þeim allt eftirlitsstarf. Sama gildir um landskjörstjórn.
    Landskjörstjórn lætur útbúa sérstök skilríki fyrir kosningaeftirlitsmenn sem þeir skulu bera við athafnir sínar og sýna sé þess krafist.

Gildissvið gagnvart öðrum réttarreglum.


    b. (128. gr. b.)
    Stjórnsýslulög og almennar óskráðar reglur stjórnsýsluréttar gilda þegar úrskurðarnefnd kosningamála, landskjörstjórn, yfirkjörstjórnir kjördæma, yfirkjörstjórnir sveitarfélaga og kjörstjórar taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.
    Upplýsingalög taka til starfsemi úrskurðarnefndar kosningamála, landskjörstjórnar, yfir­kjörstjórna kjördæma, yfirkjörstjórna sveitarfélaga og kjörstjóra samkvæmt lögum þessum. Umboðsmaður Alþingis hefur eftirlit með stjórnsýslu þeirra á þann hátt sem nánar greinir í lögum um umboðsmann Alþingis.

Þagnarskylda.


    c. (128. gr. c.)
    Þeim sem sjá um framkvæmd kosninga er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og leynt skulu fara samkvæmt lögum þessum.
    Kjörstjórnarmaður, utankjörfundarstjóri eða fulltrúi kjósanda sem aðstoð veitir skal ekki segja frá því hvernig kjósandi sem hann hefur aðstoðað hefur greitt atkvæði.

63. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á kjörskrá hvers sveitarfélags skal skv. 23. gr. taka þá sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga um réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi nr. 18/1944, sbr. 1. gr. laga nr. 85/1946.

64. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2017.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er flutt af forsætisnefnd, en í henni eiga sæti Einar K. Guðfinnsson, Kristján L. Möller, Þórunn Egilsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Sæmundsson og Björt Ólafsdóttir. Jafnframt sat Helgi Hrafn Gunnarsson fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.
    Frumvarpið er samið af vinnuhópi sem forseti Alþingis skipaði í júní 2014 til þess að endurskoða kosningalög. Í vinnuhópnum sátu Þórir Haraldsson, lögfræðingur og varafor­maður landskjörstjórnar, sem jafnframt var formaður hópsins, Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, Magnús Karel Hannesson, sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneyti. Með vinnuhópnum störfuðu einnig starfsmenn innanríkisráðuneytis, Þjóðskrár Íslands og Al­þingis. Jafnhliða skipun vinnuhópsins tilnefndu fulltrúar þingflokka á Alþingi fulltrúa sem vinnuhópurinn skyldi hafa samráð við um endurskoðunina. Í skýrslu vinnuhópsins frá 10. ágúst 2016, sem birt hefur verið á vef Alþingis, er nánar lýst störfum hans, tilefni endurskoð­unarinnar og tillögum.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Um er að ræða þann hluta kosningalaganna sem lýtur að undirbúningi og fram­kvæmd kosninga, svo sem stjórnsýslu þeirra, kjörskrárgerð, tímafrestum, atkvæðagreiðslu á kjörfundi og utan kjörfundar, málsmeðferð og meðferð ágreiningsmála. Með frumvarpinu er stefnt að því að framkvæmd kosninga verði samræmdari og skilvirkari, skýrt verði hlut­verk þeirra stofnana sem hana annast og dregið úr réttaróvissu. Með frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á atriðum sem bundin eru í stjórnarskrá eða öðrum atriðum sem ætla má að séu vandmeðfarin í stjórnmálalegu tilliti.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Um tilefni frumvarpsins má vísa til fjölda ábendinga og athugasemda sem komið hafa fram hjá opinberum aðilum sem koma að framkvæmd kosninga og eftirlitsaðilum. Í skýrslu vinnuhópsins, bls. 41–49, er tilefni endurskoðunarinnar nánar rakið. Má þar einkum vísa til ábendinga landskjörstjórnar til forsætisnefndar og formanna þingflokka í framhaldi af alþingiskosningunum 2009 og 2013 um þörf á almennri endurskoðun laga um kosningar til Alþingis, enn fremur athugasemda og ábendinga ÖSE/ODIHR 2009 og 2013. Þá er í áliti kjörbréfanefndar 2013 vikið að þörf á almennri endurskoðun laga um kosningar til Alþingis. Auk þessa má vísa til einstakra mála sem komið hafa til umfjöllunar Hæstaréttar, umboðs­manns Alþingis, Persónuverndar og úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Loks má vísa til möguleika til þess að nýta rafræna tækni við framkvæmd kosninga, minni kosningaþátttöku og þarfar á samræmingu löggjafar.
    Að meginstefnu hafa framkomnar athugasemdir og ábendingar lotið að atriðum sem varða samræmingu við undirbúning og framkvæmd kosninga. Er þá einkum vísað til samræmis í framkvæmd kjörstjórna, stjórnsýslu kosninga, réttaröryggis og möguleika til þessa að nýta nýja tækni, til að mynda við kjörskrárgerð og undirbúning framboða.
    Ljóst er samkvæmt framansögðu að ríkt tilefni er til þess að huga að endurskoðun laga um kosningar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:

3.1. Stjórnsýsla og framkvæmd kosninga.
    Með frumvarpinu er lagt til að innanríkisráðuneyti fari, líkt og nú, með yfirstjórn kosn­ingamála. Landskjörstjórn verði sjálfstæð stjórnsýslustofnun kosin af Alþingi er taki að meginstefnu við þeim verkefnum sem ráðuneytið hefur sinnt í aðdraganda kosninga. Hlutverk landskjörstjórnar verður þannig aukið. Hún fái yfirstjórnar- og samræmingarhlutverk gagn­vart yfirkjörstjórnum og öðrum aðilum sem koma að framkvæmd kosninga (alþingiskosninga, þjóðaratkvæðagreiðslna og kjörs forseta Íslands). Verkefni landskjörstjórnar felist m.a. í því að semja leiðbeiningar og verklýsingar fyrir yfirkjörstjórnir og kjörstjórnir sveitarfélaga, skrá heiti stjórnmálasamtaka, ákveða þeim listabókstaf og halda opinbera skrá um skráð stjórn­málasamtök, enn fremur að sinna rannsóknum og fræðslu, gefa út leiðbeiningar og fylgjast með störfum yfirkjörstjórna og framkvæmd kosninga. Loks er gert ráð fyrir því að landskjör­stjórn veiti Alþingi umsögn um kærur út af gildi kosninga og upplýsingar um úrslit þeirra.
    Lagt er til að yfirkjörstjórnir verði kosnar með sama hætti og nú. Þær verði sjálfstæðar í störfum sínum og hafi að meginstefnu sömu verkefni og þær hafa í dag. Verkefni yfir­kjörstjórna felist m.a. í að taka við framboðslistum skráðra stjórnmálasamtaka og koma þeim til landskjörstjórnar, taka á móti kjörgögnum og koma þeim til sveitarfélaga og fylgjast með undirbúningi og framkvæmd kjörstjórna sveitarfélaga, svo og annast talningu og uppgjör atkvæðagreiðslunnar í kjördæminu. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir að yfirkjörstjórnir úrskurði um gildi framboðs, sbr. 3.5 hér á eftir.
    Ekki eru lagðar til breytingar á verkefnum sveitarfélaga og kjörstjórna á vegum þeirra.
    Í frumvarpinu er lagt til að Þjóðskrá Íslands taki við því hlutverki sveitarstjórna að semja kjörskrár og gera leiðréttingar á þeim, enn fremur að útvega rafrænar lausnir, svo sem við söfnun undirskrifta meðmælenda með framboðum og það sem lýtur að rafrænni kjörskrá.
    Loks er lagt til að komið verði á fót úrskurðarnefnd kosningamála. Unnt verði að skjóta til nefndarinnar ákvörðunum landskjörstjórnar, yfirkjörstjórna og Þjóðskrár Íslands um undirbúning og framkvæmd kosninga. Gert er ráð fyrir að nefndinni verði einnig falið að úrskurða um tilgreind ágreiningsatriði við undirbúning og framkvæmd laga um kosningar til sveitarstjórna, framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og framkvæmd laga um framboð og kjör forseta Íslands. Er þá við það miðað að nauðsynlegar breytingar verði jafnframt gerðar á lög­gjöf um þessar kosningar

3.2. Tímafrestir.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tímafrestir séu almennt reiknaðir í sólarhringum. Með því er leitast við að hafa samræmi í tilgreiningu þeirra. Frestir, sem gefnir eru upp í fjölda vikna frá kjördegi, renna strangt til tekið út á laugardögum í þeim tilvikum þegar kosið er á laugardögum, svo sem hefð er fyrir á Íslandi. Á hinn bóginn er það harla óvenjulegt í opinberri stjórnsýslu að frestir renni út á þeim vikudegi, enda stjórnvöld þá yfirleitt ekki að störfum. Í frumvarpinu er þannig leitast við að afmarka fresti þannig að þeir renni út á öðrum vikudögum.
    Lagt er til að við upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar liggi fyrir hvaða listar verði í framboði. Er þá tekið mið af ábendingum ÖSE/ODIHR 2009 og 2013, um jafnræði stjórn­málasamtaka, við framkvæmd alþingiskosninganna og athugasemda sem fram hafa komið m.a. hjá framkvæmdaraðilum og kjósendum um að ekki liggi fyrir við upphaf atkvæða­greiðslunnar hvaða listar séu í framboði. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að framboðsfrestur verði til kl. 12 á hádegi 36 dögum fyrir kjördag (fimm vikur og einn dagur) í stað kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir kjördag (tvær vikur og einn dagur) og að landskjörstjórn auglýsi framboð 30 dögum fyrir kjördag. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefjist 29 dögum fyrir kjördag (fjórar vikur og einn dagur) og að henni ljúki kl. 17 á kjördag. Atkvæðagreiðslu utan kjörfundar erlendis ljúki daginn fyrir kjördag. Með þessu gefst landskjörstjórn og yfirkjör­stjórnum enn fremur rýmri tími til þess að fara yfir framboðslista og auglýsa þá.
    Þá er lagt til að viðmiðunardagur kjörskrár verði 22 dögum fyrir kjördag, sem er föstu­dagur, miðað við að kosningar fari fram á laugardegi. Viðmiðunardagur verður þá nær því sem er í öðrum kosningum, sem er 21 dagur.

3.3. Kjörskrárgerð.
    Hvað viðkemur kjörskrárgerðinni er eftirfarandi lagt til:
     a.      Miðlæg vinnsla kjörskrár verði hjá Þjóðskrá Íslands. Kjörskrárstofninn miðast við íbúaskrá þjóðskrár 22 dögum fyrir kjördag og að gera má leiðréttingar á kjörskránni fram á kjördag. Slíkar leiðréttingar eru takmarkaðar við sannanleg mistök sem gerð hafa verið við skráningu á lögheimili manns, að maður hafi öðlast eða misst íslenskt ríkisfang eða við andlát manns. Sveitarstjórnir taki við tilkynningum frá Þjóðskrá Íslands um leið­réttingar og færi þær inn á kjörskrána fram á kjördag.
     b.      Auglýsing kjörskrár og aðgangur að kjörskrá. Landskjörstjórn auglýsi að gerð hafi verið kjörskrá og tilkynni að veittur hafi verið aðgangur á vefsíðu Þjóðskrár Íslands og kosn­ingavef ráðuneytisins til þess að fletta upp skráningu kjósenda á kjörskrá með innslætti kennitölu.
     c.      Aðgangur stjórnmálasamtaka að kjörskrárstofnum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að fest verði í lög sú framkvæmd að stjórnmálasamtök sem bjóða fram við kosningar eigi rétt á að fá afhenta kjörskrár (kjörskrárstofna). Jafnframt verði þeim óheimilt að birta kjör­skrána eða miðla opinberlega upplýsingum úr henni, þ.m.t. um merkingar sem gerðar eru í kjörskrá á kjörfundi.
     d.      Rafræn kjörskrá. Lagt er til að tekin verði upp rafræn kjörskrá sem verði meginreglan við kosningar.
     e.      Meðferð ágreiningsmála. Lagt er til að unnt verði að skjóta ákvörðunum Þjóðskrár Íslands um kjörskrárgerðina til úrskurðarnefndar kosningamála. Málsmeðferð er almennt einföld þar sem niðurstaðan ræðst af tilgreindum gögnum, til að mynda um lögheimilis­skráningu, ríkisborgararétt og dánarvottorð.

3.4. Skráning stjórnmálasamtaka og listabókstafir.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stjórnmálasamtök tilkynni þátttöku sína í kosningum til landskjörstjórnar sem ákveður þeim listabókstaf og heldur skrá yfir stjórnmálasamtök. Í stað þess að auglýsa hvaða stjórnmálasamtök buðu fram við síðustu alþingiskosningar heldur landskjörstjórn skrá sem birt er opinberlega og er aðgengileg almenningi. Þá verði fram­setningu gildandi laga breytt þannig að fjallað verði um gerð skrár um stjórnmálasamtök og listabókstafi þeirra á undan ákvæðum laganna um framboðslista og framlagningu þeirra.
    Meðal nýmæla er að heimilt verði að safna undirskriftum meðmælenda með framboðs­listum, rafrænt og að Þjóðskrá Íslands hafi forgöngu um að útvega slíkar lausnir.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórnmálasamtök haldi listabókstafi sínum á meðan þau bjóða fram til kosninga. Bjóði samtök ekki fram við tvennar kosningar gerir frumvarpið ráð fyrir að þau missi rétt sinn til listabókstafs og þurfi að sækja á ný um skráningu vilji þau bjóða fram aftur.
    Þá er áréttuð sú regla, sem fram kemur í lögskýringargögnum með lögum um kosningar til sveitarstjórna, að stjórnmálasamtök sem bjóða fram á landsvísu í alþingiskosningum skuli halda listabókstafi sínum við kosningar til sveitarstjórna. Verði skrá landskjörstjórnar þar lögð til grundvallar.
    Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ákvörðunum landskjörstjórnar um heiti nýrra stjórnmálasamtaka, listabókstaf þeirra og um gildi framboðslista verði unnt að skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála, sbr. 3.8 hér á eftir.

3.5. Framboð.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að yfirkjörstjórn taki við framboðslistum, fari yfir þá og kanni hvort þeir séu í réttu formi og hvort uppfyllt séu önnur skilyrði, til að mynda um ritun nafns og meðmælendur. Ekki er gert ráð fyrir að yfirkjörstjórnir kveði upp úrskurð um gildi fram­boðslista líkt og nú er. Athugasemdir og ábendingar yfirkjörstjórnar, sem stjórnmálasamtök hafa ekki orðið við, koma til ákvörðunar landskjörstjórnar.
    Meðal nýmæla eru enn fremur skýrari ákvæði um ritun nafna frambjóðenda og önnur atriði sem lúta að auðkenningu þeirra og að unnt verði að skjóta ákvörðunum landskjör­stjórnar um framboð til sérstakrar úrskurðarnefndar kosningamála.
    Eins og áður greinir gerir frumvarpið ráð fyrir að ljóst sé við upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar hvaða listar verða í framboði við alþingiskosningar, jafnframt að yfirkjörstjórnir hafi hæfilegan tíma til þess að yfirfara framboð og að landskjörstjórn hafi tök á að tryggja samræmi og birta auglýsingu um framboðslista innan hæfilegs tíma.
    Lagt er til að landskjörstjórn birti á vef sínum auglýsingu um þá lista sem verða í framboði við alþingiskosningar í B-deild Stjórnartíðinda. Ekki verði lengur birtar auglýsingar í dag­blöðum. Þá er lagt til að auglýsingar landskjörstjórnar verði birtar 30 dögum fyrir kjördag eða sama dag og atkvæðagreiðsla utan kjörfundar má hefjast.

3.6. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.
    Eins og áður segir er lagt til að upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar færist nær kjör­degi, úr 56 dögum eða átta vikum í 29 daga eða fjórar vikur, enda sýnir reynslan að megin­þungi atkvæðagreiðslunnar er 2–3 vikum fyrir kjördag. Er í frumvarpinu lagt til að við upphaf atkvæðagreiðslunnar eða 30 dögum fyrir kjördag skuli liggja fyrir hvað listar verði í framboði samkvæmt auglýsingu landskjörstjórnar. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp þröng undantekningarheimild til að kjósa utan kjörfundar fyrir það tímamark. Enn fremur er lagt til að kosning utan kjörfundar standi fram til kl. 17 á kjördag en erlendis ljúki henni daginn fyrir kjördag.
    Með frumvarpinu er leitast við að gera ákvæði gildandi laga um framkvæmd atkvæða­greiðslu utan kjörfundar skýrari og formfastari, til að mynda um það hvenær atkvæðagreiðsl­unni skuli lokið og að sýslumenn og hlutaðeigandi ráðuneyti (utanríkisráðuneyti) skuli til­kynna landskjörstjórn hverjir séu formlega skipaðir kjörstjórar.
    Með frumvarpinu eru felld úr gildi ákvæði um að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram hjá hreppstjórum og skipstjórum. Á hinn bóginn er lagt til að sýslumaður ákveði hverjir starfsmanna hans og aðrir trúnaðarmenn gegni störfum kjörstjóra. Þá er það nýmæli að sýslu­maður geti að ósk sveitarstjórnar skipað kjörstjóra, sem getur verið starfsmaður sveitarfélags, til þess að annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
    Loks eru ákvæði um að sýslumenn hafi eftirlit með samningu kjörskráa felld brott þar sem kjörskrárgerðin verður hjá Þjóðskrá Íslands.

3.7. Atkvæðagreiðsla á kjörfundi (kosningaathöfnin) og framkvæmd talningar.
    Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á ákvæðum kosningalaga um upphaf og slit kjörfundar. Að mati vinnuhópsins, sem vann að endurskoðun kosningalaga, var ekki talin brýn þörf á að breyta ákvæðum um slit kjörfundar.
    Nýmæli er að yfirkjörstjórn geti meðan á kjörfundi stendur ákveðið að hefja, fyrir luktum dyrum, flokkun og talningu atkvæða eftir framboðslistum. Er þar komið til móts við ábend­ingar, m.a. frá ÖSE/ODIHR, um skýra lagaheimild í þessum efnum.
    Þá eru í frumvarpinu nýmæli er lúta að meðhöndlun kjörseðla, frá prentun þeirra og þar til kjósandi hefur lagt kjörseðilinn í atkvæðakassann. Er lagt til að dreifing og afhending kjör­seðla til yfirkjörstjórna og undirkjörstjórna verði einfölduð. Ekki verði haldið sérstakt bók­hald eða uppgjör um fjölda notaðra og ónotaðra kjörseðla. Kosningarathöfnin verði með þeim hætti að kjósandi fái kjörseðil afhentan þegar hann kemur inn í kjörfundarstofuna. Að því búnu fer hann með seðilinn í kjörklefann og kýs í einrúmi. Að því loknu geri kjósandinn grein fyrir sér hjá kjörstjórn eða fulltrúa hennar. Eigi kjósandi rétt á að greiða atkvæði sam­kvæmt kjörskránni stimplar kjörstjórn á bakhlið kjörseðilsins og kjósandinn leggur kjörseðil­inn í atkvæðakassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Samhliða þessu er lagt til að sú breyt­ing verði gerð á 100. gr. að meta skuli atkvæði ógilt ef kjörseðill er ekki sá sem landskjör­stjórn hefur látið gera og ef kjörseðill hefur ekki verið stimplaður af kjörstjórn eða kjörstjóra.

3.8. Málsmeðferð og meðferð ágreiningsmála.
    Í frumvarpinu er lagt til að framkvæmd helstu stofnana, sem fara með framkvæmd kosn­inga, falli undir stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og upplýsingalög, nr. 140/2012, auk þess sem umboðsmaður Alþingis fari með eftirlit með stjórnsýslu þeirra. Er í frumvarpinu við það miðað að stjórnsýsla þessara stofnana falli undir lögin án tillits til þess hvort hún teljist til stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga samkvæmt umræddum lögum og jafnframt óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Engu síður verður að gera ráð fyrir að önnur skilyrði kosninga­laganna gildi sem kunna að takmarka gildissvið þeirra eða réttindi borgaranna.
    Þá er það nýmæli að komið verði á fót sjálfstæðri úrskurðarnefnd kosningamála sem fari með nánar skilgreint úrskurðarvald, til að mynda verið unnt að skjóta ágreiningi til nefndar­innar um atriði sem upp koma á fyrri stigum við undirbúning kosninga, t.d. um synjun á að taka kjósanda á kjörskrá, um heiti stjórnmálasamtaka og þegar landskjörstjórn hefur úrskurð­að framboð ógild.
    Úrskurðarnefndinni verði jafnframt falin úrlausn skilgreindra mála samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna (komi í stað úrskurðarnefndar sem sýslumaður skipar og úrskurða ráðuneytis), lögum um framboð og kjör forseta Íslands (komi í stað Hæstaréttar Íslands) og lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna (komi í stað landskjörstjórnar). Slíkt er háð því að jafnframt verði gerðar breytingar á löggjöf um þessar kosningar. Að óbreyttri stjórnar­skrá er það hins vegar Alþingi sem á síðasta orðið um gildi kosninga og um kjörgengi þing­manna.
    Þá er lagt er til að hlutverk landskjörstjórnar gagnvart kjörbréfanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, verði gert skýrara. Þannig verði landskjörstjórn falið að leggja fram rökstudda umsögn um kærur út af gildi kosninga og mati á kjörgengi kjörinna fulltrúa. Jafnframt því að veita Alþingi nauðsynlegar upplýsingar um niðurstöður alþingis­kosninga.

3.9. Kosningaeftirlit.
    Í frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp í kosningalög sérstök heimild fyrir innlenda og erlenda kosningaeftirlitsmenn til þess að fylgjast með framkvæmd kosninga að norskri fyrirmynd. Þá verði landskjörstjórn falið að útbúa sérstök skilríki fyrir kosningaeftirlitsmenn sem þeir skulu bera við athafnir sínar og sýna sé þess krafist.

3.10. Öryggismál.
    Í þeim breytingum sem lagðar eru til á frumvarpinu felst að landskjörstjórn fær aukið hlutverk með því að gefa út leiðbeiningar um framkvæmd og verklag. Þannig er gert ráð fyrir því að landskjörstjórn samræmi gerð atkvæðakassa með tilliti til þess að lokun þeirra verður með viðurkenndum innsiglum.
    Þá leiðir það af því nýmæli, sbr. 3.7 hér að frama, að kjörseðlar skuli stimplaðir í lok kosningarathafnar sem auðveldi mjög framkvæmd og auki um leið öryggi og hagkvæmni.

3.11. Umboðsmenn stjórnmálasamtaka.
    Í frumvarpinu er farin sú leið að gera ákvæði um umboðsmenn stjórnmálasamtaka skýrari þannig að auðvelda megi yfirsýn yfir störf þeirra. Eru ákvæðin um umboðsmenn tekin saman í einn kafla kosningalaganna um umboðsmenn stjórnmálasamtaka og um hlutverk þeirra.

4. Samráð.
    Í 3. kafla skýrslu vinnuhópsins um endurskoðun kosningalaga er gerð grein fyrir störfum vinnuhópsins og tilgreindir þeir aðilar sem hópurinn leitaði til við undirbúning tillagna sinna. Ljóst er að leitað hefur verið upplýsinga og haft samráð við þá aðila sem koma að undir­búningi og framkvæmd kosninga, auk þess sem leitað hefur verið viðhorfa almennings til endurskoðunarinnar og tillagna vinnuhópsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. gildandi laga er fjallað um kosningarrétt og kjörgengi vegna alþingiskosninga. Samkvæmt lögunum eiga íslenskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi kosningarrétt í átta ár frá því að þeir flytja lögheimili af landinu. Að þeim tíma liðnum getur íslenskur ríkisborgari, sbr. b-lið 2. mgr. 1. gr. laganna, sótt um að halda kosningarrétti sínum.     Í 1. mgr. 2. gr. laganna er fjallað um form þessara umsókna.
    Ákvæði a-liðar 1. gr. frumvarpsins er að mestu samhljóða 1. mgr. 2. gr. gildandi laga. Með breytingunni er felldur úr gildi áskilnaður um að umsókn sé á eyðublaði sem Þjóðskrá Íslands lætur í té vegna umsóknar um kosningarrétt skv. b-lið 2. mgr. 1. gr. og að slík eyðublöð skuli liggja frammi í skrifstofum sendiráða og fastanefnda, í sendiræðisskrifstofum og í skrif­stofum kjörræðismanna. Ekki er talið rétt að einskorða umsóknina við það að hún sé á eyðu­blaði sem Þjóðskrá Íslands lætur í té, en mikilvægt er að stofnunin geti unnið með umsóknir þegar nauðsynlegar upplýsingar koma fram. Þess í stað er gert ráð fyrir að Þjóðskrá Íslands útbúi eyðublöð fyrir slíkar umsóknir. Þannig verður Þjóðskrá Íslands jafnframt heimilt að láta viðeigandi aðilum eyðublaðið í té rafrænt og þar að auki sjá til þess að almenningur hafi aðgang að eyðublaðinu á því formi. Þá er lagt til að efni 1. mgr. verði skipt upp í tvær máls­greinar. Sem fyrr skal ekki taka til greina umsókn sem berst meira en einu ári áður en réttur skv. a-lið 2. mgr. 1. gr. fellur niður. Í slíkum tilvikum skal Þjóðskrá Íslands leiðbeina kjós­anda um það hvenær tímabært sé að sækja um að nýju.
    Samkvæmt c-lið 1. gr. frumvarpsins bætast síðan þrjár málsgreinar við 2. gr. laganna, sem verða þá 3.–5. mgr. lagagreinarinnar. Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til þess að skjóta synj­un Þjóðskrár Íslands um staðfestingu kosningarréttarins og endurnýjun hans til úrskurðar­nefndar um kosningamál og með 4. og 5. mgr. verður landskjörstjórn annars vegar falið að auglýsa árlega frest til móttöku slíkra umsókna en hins vegar til að setja reglur um móttöku og meðferð þeirra, þó ekki um form umsókna sem Þjóðskrá Íslands mun ákveða, sbr. 1. mgr.

Um 2. gr.


    Í 7. gr. gildandi laga er fjallað um ákvörðun landskjörstjórnar á mörkum Reykjavíkur­kjördæmanna tveggja. Þar eru kjörstjórninni settir frestir til þess annars vegar að taka ákvörð­unina og hins vegar að auglýsa hana. Sú breyting sem lögð er til í 2. gr. frumvarpsins er í samræmi við þá almennu stefnu frumvarpsins að tilgreina fresti í dögum en ekki vikum.
    Við setningu gildandi kosningalaga var ákveðið að miða skyldi við lögheimili samkvæmt íbúaskrá fimm vikum fyrir kjördag. Skipti þar máli að sömu upplýsingar skyldu liggja til grundvallar kjörskrárgerð og afmörkun kjördæmanna í Reykjavík og að nauðsynlegt væri að auka svigrúm til að undirbúa kjörskrár og leggja þær fram. Jafnframt var gert ráð fyrir að síðar mætti stytta þetta svigrúm þegar reynsla væri „… fengin af hinu nýja kerfi í fram­kvæmd“. Í ljósi reynslunnar af framkvæmd gildandi laga er lagt til að miða skuli skiptingu kjördæmanna við íbúaskrá þjóðskrár 29 dögum fyrir kjördag og að landskjörstjórn auglýsi mörk kjördæmanna viku síðar. Þá felst enn fremur í þessu að upphafstími frests er frá og með föstudegi í þeim tilvikum þegar kjördagur er á laugardegi eins og verið hefur, sbr. 20. gr. laganna.
    Til hliðsjónar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að framboðsfrestur, sbr. nýja 37. gr., og frestur sveitarfélaga til að sækja um undanþágu frá rafrænni kjörskrá, sbr. nýja 29. gr. verði 36 dögum fyrir kjördag. Viðmiðunardagur kjörskrár verði á hinn bóginn 22 dagar fyrir kjördag., sbr. nýja 22. gr. laganna.

Um 3. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna skal hverju kjördæmi skipt í kjördeildir og skal hvert sveitarfélag vera ein kjördeild nema sveitarstjórn hafi ákveðið að skipta því í fleiri kjör­deildir. Með 3. gr. frumvarpsins er áréttað að Reykjavík getur að lágmarki skipst í tvær kjör­deildir þar sem sveitarfélagið skiptist í tvö kjördæmi.

Um 4. gr.


    Í 11. gr. gildandi laga er fjallað um mismunandi gerðir kjörstjórna. Við 11. gr. laganna bætist ákvæði þess efnis að sá megi ekki sitja í kjörstjórn sem jafnframt sé í kjöri til Alþingis. Umrædd regla kemur í raun fram í 1. mgr. 16. gr. gildandi laga um hæfi kjörstjórnarmanna. Þar sem um er að ræða almennt neikvætt hæfisskilyrði þykir rétt að reglan komi framar fram í kaflanum og sé orðuð afdráttarlausar. Í reglunni felst hvorutveggja að ekki skal kjósa einstakling í kjörstjórn sem þegar hefur lýst yfir framboði til Alþingis og að kjörstjórnar­maður skuli víkja sæti bjóði hann sig fram eftir að hann er kjörinn í kjörstjórn. Eðlilega skiptir ekki máli þótt einstaklingur sem er í framboði í öðrum kosningum sitji í kjörstjórn vegna alþingiskosninga eða sé tengdur stjórnmálasamtökum sem bjóða fram, að öðru leyti en mælt er fyrir um í 16. gr., sbr. 10. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Í 12. gr. gildandi laga er fjallað um kosningu til landskjörstjórnar og verkaskiptingu innan hennar. Með frumvarpinu eru landskjörstjórn falin aukin verkefni og ábyrgð vegna fram­kvæmdar kosningar. Þykir því ástæða til að nánar sé mælt fyrir um skipulag kjörstjórnar­innar.
    Sem fyrr verður landskjörstjórn skipuð fimm mönnum og kosið til hennar eftir hverjar alþingiskosningar. Um kosninguna fer samkvæmt lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sbr. gildandi 82. gr. þeirra laga. Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði skýrlega á um að landskjörstjórn skuli koma saman eigi síðar en einum mánuði eftir að kosið hefur verið til hennar og að á fyrsta fundi hennar skuli hún velja sér formann og skipti með sér verkum. Skal því vera tryggt að landskjörstjórn hafi sem fyrst tekið til starfa. Er þetta mikilvægt samhliða því að kjörstjórninni eru falin frekari verkefni svo sem felst í frumvarpinu.
    Forseti Alþingis skal fela starfsmanni skrifstofu Alþingis að gegna störfum ritara lands­kjörstjórnar. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum en það er í samræmi við framkvæmd laganna til þessa. Skal ritari annast daglegan rekstur og aðra umsýslu samkvæmt lögunum eftir nánari fyrirmælum landskjörstjórnar. Í daglegum rekstri landskjörstjórnar felst m.a. að hafa umsjón með starfsemi landskjörstjórnar sem mælt er fyrir um í lögunum. Jafn­framt felst í því að skrifstofa Alþingis mun varðveita skjalasafn landskjörstjórnar eins og hún hefur gert hingað til.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um aðstöðu landskjörstjórnar og starfsfólk hennar. Með auknum verkefnum landskjörstjórnar er við því að búast að hún þurfi á aukinni aðstöðu og starfsfólki að halda. Gert er ráð fyrir að kostnaður af framkvæmd kosninga muni sem fyrr falla á tiltekið ráðuneyti á fjárlögum. Því er mælt fyrir um að viðkomandi ráðuneyti skuli útvega landskjör­stjórn skrifstofuaðstöðu og vera kjörstjórninni til aðstoðar um önnur atriði er lúta að rekstri hennar. Þá er mælt fyrir um að landskjörstjórn geti sjálf ráðið sér starfsfólk og keypt þjónustu sérfræðinga. Mundi slíkt þá vera gert í umboði ráðuneytisins. Oft kann hins vegar að vera nærtækara að landskjörstjórn og ráðuneytið komi sér saman um að starfsfólk ráðuneytisins gegni tímabundið störfum fyrir landskjörstjórn og er því mælt fyrir um slíkt fyrirkomulag. Af orðalagi ákvæðisins leiðir að það er landskjörstjórnar að meta hvað telst heppilegast í þessu samhengi. Þá er ljóst að njóti landskjörstjórn tímabundið starfskrafa starfsmanna ráðu­neytisins eða annarra ríkisstofnana munu viðkomandi falla undir stjórn landskjörstjórnar í þeim störfum.
    Þá getur landskjörstjórn óskað eftir því að ráðuneytið, utanríkisráðuneyti, Sýslumanna­félag Íslands, Þjóðskrá Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni fulltrúa sem geti verið landskjörstjórn til ráðgjafar við undirbúning og framkvæmd kosninga. Með ákvæðinu er kveðið á um möguleika landskjörstjórnar til að eiga samstarf við þessa aðila um fram­kvæmdina.
    Loks er í niðurlagi greinarinnar tekið af skarið um það að landskjörstjórn geti, í samræmi við breytt og aukið hlutverk sitt, sbr. 6. gr. frumvarpsins, gefið kjörstjórnum almenn fyrir­mæli um undirbúning og framkvæmd kosninga. Er slíkt í samræmi við meginmarkmið frum­varpsins um að tryggja samræmi í störfum yfirkjörstjórna.

Um 6. gr.


    Í greininni er lagt til að tvær nýjar lagagreinar komi á eftir 12. gr. laganna, þ.e. 12. gr. a og 12. gr. b, en í þeim verði fjallað um hlutverk landskjörstjórnar.
     Um a-lið (12. gr. a).
    Í fyrrnefnda ákvæðinu er tekið fram að landskjörstjórn sé sjálfstæð stjórnsýslustofnun. Í því felst að kjörstjórnin er stjórnvald sem starfar sjálfstætt og án þess að ráðherra fari með hefðbundnar yfirstjórnunarheimildir gagnvart henni nema þess sé sérstaklega getið í lögum.
    Í ákvæðinu eru talin upp verkefni landskjörstjórnar í a–l-lið. Er bæði um að ræða verkefni sem fram koma annars staðar í lögunum en einnig önnur verkefni. Í a-lið er vísað til þess verkefnis landskjörstjórnar að ákveða mörk kjördæma í Reykjavík og auglýsa þau, sbr. 7. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Í b-lið er vísað til 9. gr. laganna, sbr. 3. mgr. 31. gr. stjórn­arskrárinnar en samkvæmt nefndum ákvæðum skal landskjörstjórn endurskoða fjölda kjör­dæmissæta í kjördæmum og auglýsa breytingar á þeim. Í c-lið er vísað til verkefna landskjör­stjórnar samkvæmt nýjum 33.–34. gr. laganna, sbr. 21. gr. frumvarpsins sem varða heiti nýrra stjórnmálasamtaka og úthlutun listabókstafa. Í d- og e-lið er vísað til verkefna landskjör­stjórna við úthlutun þingsæta, sbr. XVI. kafla laganna. Í f- og g-lið er vísað til hlutverks kjör­stjórnarinnar við meðferð Alþingis á kosningakærum, sbr. XII. kafla laganna. Í framkvæmd hefur landskjörstjórn veitt kjörbréfanefnd upplýsingar, umsagnir og aðra aðstoð við meðferð ágreiningsmála út af gildi kosninga, en Alþingi sker úr um gildi þeirra og um kjörgengi þingmanns. Í h- og i-lið er á hinn bóginn að finna sjálfstæðar efnisreglur um almennt um­sjónarhlutverk landskjörstjórnar sem þó á sér nokkra stoð í öðrum ákvæðum laganna, sbr. nýja 6. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Þá vísar i-liður til fjölmargra ákvæða þar sem landskjörstjórn er falið að auglýsa ýmsar ákvarðanir eða birta upplýsingar svo sem dregið er saman í X. kafla laganna. Í k-lið er vísað til ákvæða laganna þar sem landskjörstjórn er falið að gera tillögur til ráðherra um útgáfu reglugerða, sbr. til að mynda nýrrar 2. mgr. 24. gr., nýrrar 6. mgr. 29. gr., nýrrar 32. gr. og nýrra 41. gr. Þá er í l-lið vísað til þess almenna hlutverks að veita kjósendum, fjölmiðlum og framboðsaðilum upplýsingar og leiðbeiningar um undirbúning kosninga, framkvæmd þeirra og niðurstöðu.
     Um b-lið (12. gr. b).
    Í gildandi 12. gr. er fjallað um heimild framboða sem eiga fulltrúa á Alþingi og fá ekki kjörinn fulltrúa í landskjörstjórn til að tilnefna áheyrnarfulltrúa. Samkvæmt frumvarpinu verður sömu reglu að finna í 1. mgr. 12. gr. b. Reglan er óbreytt og hefur slíkur fulltrúi því sömu réttindi og skyldur og samkvæmt gildandi lögum. Mælt er fyrir um það nýmæli að Samband íslenskra sveitarfélaga verði einnig heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í lands­kjörstjórn. Þykir við hæfi að sambandið fái slíkan fulltrúa vegna stórs hlutverks sveitarfélaga við framkvæmd kosninga og aukins hlutverks landskjörstjórnar við framkvæmd kosninga.

Um 7. gr.


    Í 13. gr. gildandi laga er fjallað um yfirkjörstjórnir kjördæma. Þar er í 3. mgr. heimild yfirkjörstjórnar til að ákveða að í kjördæmi sé umdæmiskjörstjórn en samþykki ráðherra þarf samkvæmt lögunum til að yfirkjörstjórn skipi tvær slíkar umdæmiskjörstjórnir. Lagt er til að landskjörstjórn verði falið þetta hlutverk ráðherra. Þá er lagt til að yfirkjörstjórn verði veitt formleg heimild til að ráða starfsfólk sér til aðstoðar við framkvæmd kosninga án auglýs­ingar. Í framkvæmd hefur þessi háttur verið hafður á en rétt er að kveðið sé á um heimildina í lögum.

Um 8. gr.


    Samkvæmt gildandi 14. gr. laganna skipar ráðherra menn til setu í landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn ef aðal- og varamenn forfallast eftir tillögu þeirra samtaka sem kusu þá á Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu skal oddvitum lands- og yfirstjórna falið þetta verkefni í stað ráðherra.

Um 9. gr.


    Í 15. gr. gildandi laga er fjallað um þær kjörstjórnir sem sveitarstjórnir kjósa. Með ákvæð­inu er betur tilgreint að þær kjörstjórnir eru í grundvallaratriðum þrenns konar, þ.e. yfirkjör­stjórnir sveitarfélaga, hverfiskjörstjórnir og undirkjörstjórnir.
    Í nýrri 1. mgr. 15. gr. er kveðið skýrar á um tilvist yfirkjörstjórna sveitarfélaga en í gild­andi 3. málsl. 2. mgr. 15. gr. Er það gert með því að árétta að yfirkjörstjórnir sem kosnar eru samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna fari með hlutverk yfirkjörstjórna sveitar­félaga samkvæmt lögum um framkvæmd alþingiskosninga. Samkvæmt fyrrnefndu lögunum er sveitarstjórnum skylt að kjósa til slíkra yfirkjörstjórna og þykir rétt að þær fari með verk­efni yfirkjörstjórna við framkvæmd alþingiskosninga einnig, að því marki sem þau verkefni eru ekki falin yfirkjörstjórnum kjördæma.
    Í 2. mgr. er kveðið á um tilvist undirkjörstjórna og hverfiskjörstjórna. Skulu undirkjör­stjórnir kosnar ef kjördeildir í sveitarfélagi eru fleiri en ein og hverfiskjörstjórnir ef kjör­deildir eru fleiri en ein á sama kjörstað. Ekki er í frumvarpinu kveðið á um sérstakar kjör­stjórnir til að hafa umsjón með starfi undirkjörstjórna þar sem kjördeildir eru fleiri en ein en ekki á sama kjörstað svo sem gert er í gildandi 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. Er ekki lengur talin þörf á slíkum kjörstjórnum. Í þeim tilvikum þar sem ekki er skylt að kjósa undirkjörstjórn eða hverfiskjörstjórn mundi yfirkjörstjórn sveitarfélags fara með verkefni slíkra kjörstjórna.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að undirkjörstjórnir og hverfiskjörstjórnir skuli skipaðar þremur mönnum og jafnmörgum til vara og að þær skuli kjósa sér oddvita og skipta að öðru leyti með sér verkum. Sama áskilnað er að finna í 1. og 2. mgr. 15. gr. gildandi laga.
    Í 4. mgr. er fjallað um heimild borgarstjórnar Reykjavíkurborgar til að ákveða að yfirkjör­stjórnir Reykjavíkurkjördæma gegni einnig hlutverki yfirkjörstjórnar sveitarfélags. Um er að ræða sömu reglu og fram kemur í 4. málsl. 2. mgr. 15. gr. gildandi laga. Er heimildin háð því að viðkomandi yfirkjörstjórnir samþykki þetta fyrirkomulag. Svo sem kveðið er á um í gildandi lögum skulu þessar kjörstjórnir jafnan vera reiðubúnar að mæta fyrirvaralaust á fund á kjördegi til ákvarðana og úrskurða í sambandi við kosninguna.
    Rétt þykir að kveða skýrlega á um það í 5. mgr. að sveitarstjórn útvegi starfsfólk sem sé til aðstoðar við kosningar og að fyrirmæli um auglýsingu eigi ekki við um ráðningu slíks starfsfólks. Slík fyrirmæli geta verið í lögum, sbr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, í kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga eða í reglum sveitarstjórnar. Hafa slík störf almennt ekki verið auglýst, enda um afar tímabundin störf að ræða og þykir hagræði í því að unnt sé að kalla til sömu einstaklinga og áður hafa gegnt slíkum störfum án þess að auglýsa störfin sérstaklega. Þá eru laun fyrir slík tímabundin störf ekki svo há að þau teljist til ríkra fjárhagslegra hagsmuna sem borgararnir þurfi að eiga jafnan aðgang að.
    Með frumvarpinu er fellt úr gildi ákvæði um það hvenær hverfiskjörstjórnir og undir­kjörstjórnir skuli kosnar. Samkvæmt gildandi lögum skal kjósa þær á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar en einnig hefur þeim verið heimilt að fresta kosningu þeirra þannig að þær verði kosnar til eins árs fyrir hverjar almennar alþingiskosningar. Í framkvæmd hefur víðast tíðkast að umrædd frestunarheimild sé nýtt og er ákvæðið um skyldu til kosninga á fyrsta fundi sveitarstjórna því þýðingarlítið. Þá þykir ekki ástæða til að umræddar kjörstjórnir séu í þeim tilvikum kosnar til eins árs í senn og felst í 2. mgr. að umræddar kjörstjórnir eru aðeins kosnar til að sjá um framkvæmd þeirra alþingiskosninga sem væntanlegar eru þegar kosið er.

Um 10. gr.


    Ákvæði 16. gr. laganna er breytt til samræmis við þá breytingu sem mælt er fyrir um í 4. gr. Óþarfi er að kveðið sé á um í 16. gr. að sá sem eigi sæti í kjörstjórn skuli víkja sæti ef hann er í kjöri til Alþingis, enda mun sú regla framvegis koma fram í 11. gr. laganna. M.a. er kveðið á um vanhæfi vegna þess að til úrskurðar er mál er varðar maka eða fyrrverandi maka þess sem á sæti í kjörstjórn. Orðalagið svarar til 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga en þó er tekið fram að kjörstjórnarmaður skuli einnig víkja sæti ef mál varðar sambúðarmaka eða fyrrverandi sambúðarmaka. Sem fyrr stofnast þó ekki til mægða vegna sambúðar. Að öðru leyti verður að leysa úr álitaefnum um sérstakt hæfi kjörstjórnarmanna á grundvelli ólögfestra reglna um hæfi. Almennt má búast við að slíkar reglur setji nokkuð vægari hæfisskilyrði en hæfisreglur stjórnsýslulaga. Verður þó m.a. að hafa hliðsjón af réttaröryggi þeirra aðila er mál snertir, hversu veigamikla hagsmuni málið snýst um og skilvirkni.

Um 11. gr.


    Í 19. gr. gildandi laga er fjallað um gerðabækur kjörstjórna. Mun 1. málsl. gildandi 1. mgr. 19. gr. standa óbreyttur þess efnis að allar kjörstjórnir skuli halda gerðabækur og bóka gerðir sínar. Ákvæði 2. mgr. 19. gr. um bókanir landskjörstjórna, yfirkjörstjórna og kjörstjórna sem sveitarfélag kýs verður óbreytt að því undanskildu að málsgreininni verður skipt í þrjár málsgreinar, þ.e. 2.–4. mgr. Efni gildandi 3. mgr. verður fellt brott og í þess stað verður kveðið á um í nýrri 5. mgr. að landskjörstjórn setji reglur, sem ráðherra staðfestir, um form og efni gerðabóka. Verður landskjörstjórn heimilt að ákveða að gerðabækur geti verið raf­rænar eða að notuð verði sérstök eyðublöð í stað þeirra og um varðveislu og skil gerðabóka til landskjörstjórnar. Þá verður í 6. mgr. kveðið á um að landskjörstjórn ákveði form og notkun embættisinnsigla og láti kjörstjórnum í té. Landskjörstjórn er því veitt svigrúm til að ákveða form og efni gerðabóka. Markmið breytingarinnar er að skapa samræmi í notkun gerðabóka og að einhver aðili hafi yfirumsjón með því að framkvæmdin sé rétt. Ekki er talin ástæða til að viðhalda þeirri reglu sem fram kemur í gildandi lögum um það hvaða stjórnvaldi beri að láta hvaða kjörstjórnum í té gerðabækur.

Um 12. gr.


    Samkvæmt gildandi 2. mgr. 20. gr. gildandi laga skal ráðherra auglýsa hvenær reglulegar alþingiskosningar fara fram. Með frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn verði falið þetta verkefni.

Um 13. gr.


    Samkvæmt 22. gr. gildandi laga skulu sveitarstjórnir gera kjörskrár þegar boðað hefur verið til kosninga á grundvelli svokallaðra kjörskrárstofna sem Þjóðskrá Íslands lætur þeim í té. Með frumvarpinu er Þjóðskrá Íslands alfarið falið það verkefni að útbúa kjörskrár.
    Samkvæmt frumvarpinu verður skýrar kveðið á um það tímamark sem miða skal kjörskrá við en gert er í gildandi lögum, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Inntak hennar um viðmiðunardag kjörskrár tekur til þess lögheimilis kjósanda sem miða skal kjörskrá við. Með ákvæðinu er þannig skýrt tekið fram að þegar kjósanda er raðað á kjörskrá skuli miðað við lögheimili hans á því tímamarki sem kveðið er á um í ákvæðinu. Tekur viðmiðunarmark ákvæðisins þar af leiðandi ekki til atriða sem varða kosningarrétt, sbr. 1. gr. laganna. Ber Þjóðskrá Íslands til að mynda ekki að taka mið af viðmiðunardegi í skilningi 2. mgr. við mat á því hvaða kjós­endur hafa uppfyllt aldursskilyrði 1. gr. laganna, enda nægir að fyrirséð sé að kjósendur nái þeim aldri á kjördag.
    Samkvæmt frumvarpinu verður skýrlega kveðið á um í lögum að kjörskrá skuli miðast við lögheimilisskráningu kjósenda í þjóðskrá kl. 16 síðdegis 22 dögum fyrir kjördag. Þeir sem flytjast milli kjördæma eða kjördeilda eftir áðurgreindan tíma skuli þá teknir á kjörskrá þar sem þeir voru skráðir með lögheimili á viðmiðunartímamarkinu. Kjósandi getur þar af leið­andi ekki krafist þess að vera tekinn á kjörskrá ef flutningur hans fór fram eða var tilkynntur á kjörskrá eftir viðmiðunartímamarkið. Ákvörðun um það hvar kjósandi skal vera á kjörskrá ræðst af því sem skráð er í íbúaskrá. Skilyrði þessa eru þá annars vegar að efnislegar for­sendur lögheimilisskráningar séu fyrir hendi á viðmiðunardegi og hins vegar að tilkynning um nýtt lögheimili hafi verið send og hún borist Þjóðskrá Íslands fyrir þann tíma.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að viðmiðunardagur kjörskrár sé 22 dögum fyrir kjördag, en í gildandi lögum miðast viðmiðunardagurinn við fimm vikur eða 35 daga. Í kosningum til sveitarstjórnar, við þjóðaratkvæðagreiðslur og við kjör forseta Íslands er viðmiðunardagur kjörskrár þremur vikum fyrir kjördag eða 21 degi fyrr. Þar sem kjördagur er laugardagur þykir heppilegra að miða viðmiðunardaginn við föstudag. Í samræmi við frumvarpið að öðru leyti er frestum og ákvörðunum á tíma lýst í dögum en ekki vikum.
    Í 3. mgr. er lagt til að kjörskrár skuli annars vegar vera prentaðar og hins vegar rafrænar. Jafnframt er áréttuð sú meginregla að kjörstjórnir skuli notast við rafræna kjörskrá við atkvæðagreiðslu á kjördegi, sbr. 20. gr. frumvarpsins, þ.e. breytta 29. gr. laganna.

Um 14. gr.


    Í 23. gr. laganna er fjallað um það hverja skuli taka á kjörskrá. Ákvæði nýrrar 1. mgr. eru efnislega þau sömu og í gildandi lögum. Í frumvarpinu felst þó sú viðbót að í a-lið er kveðið á um það hvernig taka skuli á kjörskrá þá sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga um réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi, nr. 18/1944, sbr. 1. gr. laga nr. 85/1946. Skv. b-lið skulu kjósendur bú­settir í útlöndum færðir á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast lögheimili svo sem kveðið er á um í gildandi lögum.
    Í 2. mgr. er fjallað um hvernig taka skal kjósendur á kjörskrá í þeim tilvikum þar sem lög­heimili var síðast skráð í Reykjavík. Kemur fram sama regla og í 2. mgr. 23. gr. gildandi laga. Þar sem Reykjavík er skipt í tvö kjördæmi sem eru því sem næst jafnstór með tilliti til fjölda kjósenda ber nauðsyn til að skipta þessum hópi, svo og öðrum óstaðsettum í Reykja­vík, milli kjördæmanna. Miðar skiptingin við fæðingardag og hefur hún tryggt tiltölulega jafna aldursdreifingu innan hvors hópsins. Sú viðbót er gerð við gildandi ákvæði að kveðið er á um hvernig fara skuli með þá sem eru með skráð lögheimili hjá utanríkisþjónustunni en í framkvæmd hafa þeir verið teknir á sama hátt á kjörskrá og þeir sem eru „óstaðsettir“ í Reykjavík. Í stað þess að tala um „óstaðsetta“ í Reykjavík er lagt til að talað verði um þá sem hafa „ótilgreint“ lögheimili í Reykjavík.

Um 15. gr.


    Samkvæmt 25. gr. gildandi laga skal ráðuneytið eigi síðar en tólf dögum fyrir kjördag birta í Ríkisútvarpi, þ.e. hljóðvarpi og sjónvarpi, auglýsingu um framlagningu kjörskráa. Með frumvarpinu er lagt til að það sé landskjörstjórnar að auglýsa að kjörskrár hafi verið gerðar en ekki ráðuneytis eins og er samkvæmt gildandi lögum. Skal það gert jafnskjótt og Þjóðskrá Íslands tilkynnir kjörstjórninni að kjörskrár hafi verið samdar og eigi síðar en 20 dögum fyrir kjördag. Er því miðað við að kjörskrá sé tilbúin fyrr en samkvæmt gildandi lögum. Auglýst skal í B-deild Stjórnartíðinda, Ríkisútvarpinu og dagblöðum en með dagblöðum er venju samkvæmt átt við blað sem gefið er út a.m.k. fjórum sinnum í viku og er dreift á landsvísu.
    Þá er í frumvarpinu kveðið á um að kjörskrá verði almenningi aðgengileg á vefsíðu Þjóð­skrár Íslands og vef landskjörstjórnar en samkvæmt gildandi lögum hefur aðeins verið skylt að leggja kjörskrá fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag, sbr. 26. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að ráðuneytið, að fengnum tillögum landskjörstjórnar og Þjóðskrár Íslands, setji reglugerð um þær upplýsingar sem birta skal úr kjörskrám.
    Í 2. mgr. er kveðið á um reglugerð sem ráðherra skal setja að fengnum tillögum lands­kjörstjórnar og Þjóðskrár Íslands. Skal þar nánar kveðið á um hvernig birta skuli upplýsingar úr kjörskrá. Er samkvæmt ákvæðinu heimilt að kveða á um að upplýsingarnar skuli birtar á öðrum vefsíðum en greinir í 1. mgr.
    Umræddar reglur skulu koma fram í 24. gr. laganna en sú regla sem fram kemur í því ákvæði gildandi laga fellur brott.

Um 16. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu skal Þjóðskrá Íslands veita stjórnmálasamtökum aðgang að kjörskrá í heild eða að hluta í aðdraganda kosninga sé þess óskað. Reglan tekur til þess þegar kjörskrá hefur verið gerð og tekur til stjórnmálasamtaka sem eru á skrá landskjörstjórnar, þ.e. hafa uppfyllt skilyrði 2. eða 3. mgr. nýrrar 30. gr. Aðgangur að kjörskrá í því formi sem hér er lagt til tekur ekki til merkinga við kjósendur í kjörskrá á kjördegi. Um aðgang stjórnmálasamtaka eða umboðsmanna þeirra að upplýsingum um kosningaþátttöku einstakra kjósenda fer á hinn bóginn eftir c-lið 23. gr. frumvarpsins sem verður 47. gr. c laganna.
    Gert er ráð fyrir því að stjórnmálasamtök fái afrit af kjörskránni óski þau þess. Geta afrit verið prentuð og rafræn. Ákvæðið er í samræmi við áralanga framkvæmd þar sem Þjóðskrá Íslands hefur látið stjórnmálasamtökum í té kjörskrárstofna. Að baki býr sá tilgangur að gera stjórnmálasamtökum kleift að hafa eftirlit með kjörskrárgerð og framkvæmd kosninga. Auk þess þykir ekki ástæða til að hefta aðgang stjórnmálasamtaka að upplýsingum um kjósendur á kjörskrá að því leyti sem þau nota þær í því skyni að koma upplýsingum á framfæri við þá í aðdraganda kosninga. Í þeim tilgangi hafa stjórnmálasamtök einnig átt kost á því að fá afhenta límmiða með heimilisföngum kjósenda. Þjóðskrá Íslands hefur jafnan gætt þess að ekki séu veittar upplýsingar um þá sem merktir eru á bannskrá Þjóðskrár Íslands. Þá er einnig til þess að líta að ekki þykir rétt að aðstöðumunur sé milli stjórnmálasamtaka hvað varðar upplýsingar um mögulega kjósendur. Í áliti stjórnar Persónuverndar 13. mars 2014 í máli nr. 2013/828 kemur á hinn bóginn fram að í lög hafi skort heimild til þess að afhenda stjórnmála­samtökum kjörskrárstofna. Rétt er að bregðast við slíku og mæla nánar fyrir um afhendingu kjörskrárstofna til stjórnmálasamtaka og um meðferð þeirra í samræmi við áralanga framkvæmd.
    Tekið er fram að kjörskráreintak skuli afhent án endurgjalds, svo og önnur gögn sem kunna að vera tilgreind í reglugerð. Með öðrum gögnum er átt við þau gögn sem vísað er til í dæmaskyni í 2. mgr.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að í reglugerð, sem ráðherra setur að fengnum tillögum landskjörstjórnar, verði sett nánari fyrirmæli um framkvæmd greinarinnar.

Um 17. gr.


    Í 26. gr. gildandi laga er kveðið á um að kjörskrá skuli leggja fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag. Auk umræddrar reglu mælir frumvarpið fyrir um að Þjóðskrá Íslands skuli senda sveitar­stjórnum kjörskrár og að móttaka þeirra skuli verða staðfest. Samkvæmt frumvarpinu mun sveitarstjórnum sem fyrr vera skylt að leggja kjörskrár fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað. Skal það gert eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag svo sem skylt er samkvæmt gildandi lögum og skal það auglýst. Eins og áður er það sveitar­stjórna að meta hvar og á hve mörgum stöðum í sveitarfélagi kjörskrá er lögð fram.

Um 18. gr.


    Í 27. gr. gildandi laga er fjallað um athugasemdir við kjörskrá en samkvæmt gildandi lögum hafa sveitarstjórnir tekið slíkar athugasemdir til meðferðar. Með frumvarpinu er lagt til að Þjóðskrá Íslands fjalli um athugasemdir við kjörskrá og geri viðeigandi leiðréttingar. Gera má leiðréttingar fram á kjördag svo sem samkvæmt gildandi lögum. Ákvarðanir Þjóð­skrár Íslands um leiðréttingar á kjörskrá er unnt að kæra til úrskurðarnefndar kosningamála samkvæmt nýrri 28. gr., sbr. 19. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpsákvæðinu, 2. mgr., eru taldar upp þær leiðréttingar sem Þjóðskrá Íslands er heimilt að gera á kjörskrám en samkvæmt gildandi lögum hefur sveitarstjórnum með almennum hætti verið falið það verkefni að gera „viðeigandi leiðréttingar“. Markmið breyt­inganna er að lögfesta skýrari reglur um það hvernig leiðrétta skuli kjörskrár auk þess að samræma verklag þar að lútandi.
    Samkvæmt a-lið 2. mgr. er heimilt að leiðrétta kjörskrá ef stofnun hefur ekki skráð lög­heimili kjósanda til samræmis við tilkynningu flutnings hans. Hafi Þjóðskrá þannig fengið tilkynningu um lögheimilisbreytingu fyrir viðmiðunardag kjörskrárinnar, en breytingin ekki skilað sér á kjörskrá, ber Þjóðskrá að breyta kjörskrá til samræmis við tilkynninguna. Er þannig miðað við að í umræddum staflið felist sama regla og fram kemur nú í 3. mgr. 27. gr. laganna þess efnis að óheimilt sé að breyta kjörskrá vegna nýs lögheimilis nema flutningur hafi átt sér stað fyrir viðmiðunardag og tilkynning um nýtt lögheimili hafi borist Þjóðskrá Íslands til skráningar fyrir sama tíma. Verður kjörskrá því ekki leiðrétt hafi kjósandi óskað eftir flutningi lögheimili síns eftir viðmiðunardag kjörskrár. Hafi kjósandi á hinn bóginn tilkynnt lögheimilisflutning fyrir viðmiðunardag en Þjóðskrá ekki uppfært íbúaskrá áður en kjörskrá var útbúin ber Þjóðskrá að bregðast við og leiðrétta kjörskrána.
    Samkvæmt b-lið 2. mgr. skal Þjóðskrá Íslands leiðrétta kjörskrá ef stofnuninni berst vitneskja um andlát kjósanda. Þá skal stofnunin gera slíkt hið sama skv. c-lið ef henni berst vitneskja um að erlendur ríkisborgari hafi öðlast íslenskt ríkisfang eða að kjósandi hafi misst íslenskt ríkisfang. Reglurnar eru því þær sömu og fram koma í 4. mgr. 27. gr. gildandi laga um að sveitarstjórn skuli fram á kjördag leiðrétta kjörskrá berist henni slík vitneskja. Varða þessir stafliðir báðir tveir að þessu leyti þá stöðu þegar kjósendur hafa misst kosningarrétt eða geta eðli máls samkvæmt ekki kosið.
    Að því er varðar c-lið er að öðru leyti mælt fyrir um það nýmæli að breyta skuli kjörskrá hafi erlendur ríkisborgari öðlast íslenskt ríkisfang og þar með kosningarrétt, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Hefur kjörskrám hingað til verið breytt af þessum sökum á grundvelli almennrar heimildar sveitarstjórna til að leiðrétta kjörskrár. Skal í slíkum tilvikum miðað við lögheimil­isskráningu hins nýja ríkisborgara á viðmiðunartíma kjörskrár án tillits til þess hvort viðkom­andi var þá búsettur hér á landi eða ekki og hvert ríkisfang hans var.
    Í d-lið er kveðið á um að leiðrétta skuli kjörskrá ef Þjóðskrá Íslands berist vitneskja um að danskur ríkisborgari eigi rétt skv. 1. gr. laga nr. 18/1944 eins og henni var breytt með lögum nr. 85/1946. Skal þá taka kjósanda á kjörskrá þar sem lögheimili hans var á viðmið­unartíma kjörskrár.
    Á hinn bóginn skal taka mið af nýju lögheimili íslensks ríkisborgara sem áður hefur misst kosningarrétt skv. b-lið 2. mgr. 1. gr. og flust hefur til Íslands og skráð lögheimili sitt eftir viðmiðunardag kjörskrár. Skulu slíkir kjósendur teknir á kjörskrá í þeim sveitarfélögum þar sem lögheimili þeirra er þegar beiðni um leiðréttingu berst Þjóðskrá Íslands, sbr. e-lið. Sama regla á við ef íslenskur ríkisborgari hefur aldrei átt lögheimili á Íslandi en flyst til landsins eftir viðmiðunartíma kjörskrár. Í f-lið er Þjóðskrá Íslands loks veitt heimild til að leiðrétta kjörskrá ef stofnunin verður þess áskynja að villa við skráningu kjósanda hafi átt sér stað við kjörskrárgerðina. Nauðsynlegt er að stofnuninni sé unnt að leiðrétta kjörskrá ef augljóst er að villa er í henni. Gætu slíkar villur einkum verið þær að kjósendur sem með réttu hefðu átt að fara inn á kjörskrá að teknu tilliti til íbúaskráningar þeirra á viðmiðunardegi hefðu af einhverjum ástæðum ekki verið teknir inn á kjörskrá. Til dæmis gæti hafa verið ranglega gengið út frá að tiltekin heimilisföng tilheyrðu öðrum kjördeildum, sveitarfélögum eða kjördæmum en raunin væri eða að það færist fyrir að skrá kjósendur í kjörskrá. Heimildinni verður á hinn bóginn ekki beitt ef kjósandi telur að kjörskrá eigi að endurspegla skráningu nýs lögheimilis hans eftir viðmiðunardag, enda væri þá ekki um villu í skráningu kjörskrár að ræða, sbr. ákvæði laganna um viðmiðunartíma.
    Í 2. mgr. er fjallað um meðferð Þjóðskrár Íslands á beiðnum um leiðréttingu kjörskráa. Skal viðkomandi sveitarfélögum og kjósendum tilkynnt um leiðréttingar sem gerðar eru á kjörskrá og þau varða. Eðli máls samkvæmt verður látnum kjósanda ekki tilkynnt um að kjör­skrárskráningu hans hafi verið breytt en í öðrum tilvikum skal kjósendum tilkynnt um breytingar. Eftir því sem kostur er skal Þjóðskrá tilkynna kjósendum eða viðkomandi sveitar­stjórnum að borist hafi athugasemd við skráningu í kjörskrá áður en tekin er ákvörðun um leiðréttingu. Ákvæðið stendur því ekki í vegi að Þjóðskrá fjalli um athugasemdir við kjörskrá sem berast frá öðrum en kjósendum eða sveitarfélögum, til að mynda frá stjórnmálasam­tökum.
    Loks er áréttað að sveitarstjórn sé óheimilt að láta færa á kjörskráreintök sín aðrar leið­réttingar en þær sem Þjóðskrá Íslands hefur heimilað. Er með þessu áréttuð sú meginstefna frumvarpsins að miðað er við að kjörskrárgerðin, þ.m.t. leiðréttingar á henni, verði hjá Þjóð­skrá Íslands.

Um 19. gr.


    Í ákvæðinu er heimild til að kæra ákvarðanir Þjóðskrár um leiðréttingu kjörskrár til úr­skurðarnefndar kosningamála. Bæði er unnt að kæra leiðréttingar og synjanir um leiðréttingar og geta bæði viðkomandi kjósendur og sveitarstjórnir kært ákvarðanir að því gefnu að kær­andi sé ósammála niðurstöðu Þjóðskrár Íslands. Þá er ekki útilokað að aðrir en kjósendur eða sveitarstjórnir hafi nægjanlega hagsmuni af ákvörðunum Þjóðskrár til að eiga aðild að slíkum kærumálum. Verður t.d. að telja varhugavert að úrskurðarnefndin vísi frá kærum stjórnmála­samtaka sem telji að skráning í kjörskrá sé röng, enda kunna þau að eiga óbeina hagsmuni af slíkum málum.
    Kærufrestur er skammur eða einn sólarhringur frá dagsetningu ákvörðunar Þjóðskrár. Er því mikilvægt að Þjóðskrá komi ákvörðunum skjótt á framfæri við þá kjósendur eða sveitar­stjórnir sem mál varðar. Verður að tryggja að kjósandi eða sveitarstjórn hafi verið unnt að kynna sér ákvörðun áður en kærufrestur rennur út, enda kann að öðrum kosti að vera af­sakanlegt að kæra berist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er rétt að Þjóðskrá komi ákvörðunum sínum á framfæri rafrænt og leiti staðfestingar viðtakanda á móttöku áður en kærufrestur er liðinn.
    Úrskurðarnefndin skal veita kæranda hæfilegan frest til að koma að frekari gögnum áður en hún fellir úrskurð í málinu. Ekki er gert ráð fyrir að öðrum sé veitt færi á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, enda má ætla að afstaða þeirra liggi þegar fyrir vegna meðferðar málsins hjá Þjóðskrá. Telji úrskurðarnefndin á hinn bóginn ástæðu til standa lögin því ekki í vegi að aflað sé frekari afstöðu Þjóðskrár Íslands eða eftir atvikum kjósanda eða sveitar­stjórnar.

Um 20. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um form kjörskrár. Fram til þessa hafa kjörskrár verið prentaðar og gefnar út með staðfestingu sveitarfélags en með frumvarpinu er lögð til sú breyting að kjör­skrá verði að meginreglu rafræn. Í sjálfu sér er kjörskrá á Íslandi rafræn og hefur verið það í áratugi þar sem kjörskrárstofninn, sem er grunnurinn að kjörskrá, hefur verið unninn í tölvu­kerfi. Með rafrænni kjörskrá er átt við miðlægan gagnagrunn sem hefur að geyma sömu upplýsingar og koma fram í kjörskrá og er uppfærður jafnóðum um atkvæðagreiðslur kjósenda. Þjóðskrá Íslands hefur unnið að verkefni um gerð rafrænnar kjörskrár en rafræn kjörskrá er eitt af markmiðunum í stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið 2013–2016 (www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2013/Voxtur-i-krafti-netsins-b.pdf). Segir orðrétt í kaflanum um lýðræði: „Komið verði á rafrænni kjörskrá, rafrænum íbúakosn­ingum og undirskriftasöfnunum í sveitarfélögum sem verði undanfari tilraunar með rafrænar sveitarstjórnarkosningar“.Tilraunaútgáfa af hugbúnaði fyrir rafræna kjörskrá er nú tilbúin til prófunar hjá Þjóðskrá Íslands.
    Töluvert hagræði getur verið fyrir kjósendur að kjörskrá sé rafræn og aðgengileg í öllum kjördeildum kjördæmis. Verða kjósendur þá ekki bundnir við að kjósa á tilteknum kjörstað eða í tiltekinni kjördeild kjördæmis heldur geta kosið þar sem hentugast er fyrir þá, að því tilskildu að þeir kjósi innan síns kjördæmis. Ef rafræn kjörskrá er notuð við atkvæðagreiðslu leiðréttir Þjóðskrá Íslands kjörskrána samkvæmt nýrri 27. gr., sbr. 18. gr. frumvarpsins, jafnóðum og ákvarðanir eru teknar. Með innleiðingu rafrænnar kjörskrár verður auðveldlega hægt að fá fram tölfræði um kjörsókn og hvernig hún dreifist á aldur og kyn og mun hún því einnig verða til mikils hagræðis fyrir starfsmenn yfirkjörstjórna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að kjósendum sé heimilt að greiða atkvæði í öllum kjördeildum kjördæmis. Kjósandi sem er á kjörskrá í kjördæmi mun því geta kosið í hvaða kjördeild kjör­dæmisins sem er. Eðli máls samkvæmt munu kjósendur í Reykjavíkurkjördæmunum þurfa að kjósa í eigin kjördæmi, þótt rafræn kjörskrá verði notuð í sveitarfélaginu öllu, enda ekki unnt að blanda saman atkvæðum kjósenda tveggja kjördæma.
    Í 3. mgr. er fjallað um meðferð yfirkjörstjórna á utankjörfundaratkvæðum þegar notast er við rafræna kjörskrá. Samkvæmt gildandi lögum hafa undirkjörstjórnir séð um meðferð utan­kjörfundaratkvæða, enda er þeim falið að merkja við nöfn kjósenda í kjörskrám. Með tilkomu rafrænnar kjörskrár verður unnt að sjá hverjir hafa kosið við lok kjörfundar án þess að búið sé að safna saman kjörskráreintökum undirkjörstjórna. Verður því ekki sama þörf og áður að utankjörfundaratkvæðum sé dreift til undirkjörstjórna og að þær meðhöndli atkvæðin. Þá felast ótvíræðir kostir í því að meðferð utankjörfundaratkvæða sé miðlæg, enda minnkar það hættu á villum við uppgjör kosninga, eykur samræmi við meðferð utankjörfundaratkvæða og minnkar umsýslu við flutning atkvæða. Loks mun slík miðlæg vinnsla einfalda störf undir­kjörstjórna. Í þessum tilvikum skulu kjörstjórar koma utankjörfundaratkvæðum til yfirkjör­stjórnar sem skal fylgja ákvæðum laganna um meðferð þeirra eftir sem við á. Verður að hafa í huga að þótt atkvæðin séu í vörslum yfirkjörstjórnar geta kjósendur þeirra sem fyrr kosið á kjördag og þannig ógilt utankjörfundaratkvæðin. Verða yfirkjörstjórnir við skráningu utankjörfundaratkvæða að gæta að því að merkja ekki endanlega við kjósendur í rafrænni kjörskrá fyrr en að loknum kjörfundi svo að tryggt sé að kjósandi greiði ekki hvorutveggja utankjörfundar og á kjörfundi. Þá leiðir af 67. gr. laganna, sem verður 68. gr. þeirra að kjósendur munu ekki geta gengið að utankjörfundaratkvæði sínu á kjörstað ef kjörskrá er rafræn, enda hefur yfirkjörstjórn þá atkvæðið undir höndum. Vilji kjósandi nota þennan rétt sinn verður hann því að leita til yfirkjörstjórnar.
    Þótt frumvarpið geri ráð fyrir að kjörskrá verði alls staðar rafræn þykir rétt að sveitarfélög geti sótt um undanþágu og fengið að notast við prentaða kjörskrá. Einnig þarf að gera ráð fyrir tilteknum aðlögunartíma og má gera ráð fyrir að rafræn kjörskrá yrði innleidd í áföng­um. Ástæður sem kunna að réttlæta að vikið sé frá meginreglunni um rafræna kjörskrá geta t.d. verið að tæknilega sé af einhverjum orsökum ómögulegt eða afar erfitt að notast við rafræna kjörskrá í sveitarfélagi. Kunna þá til að mynda að koma til skoðunar sjónarmið eins og að ekki sé unnt að tryggja rafræna tengingu við hinn miðlæga gagnagrunn á kjörstað. Við skýringu ákvæðisins verður að taka mið af því að um er að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að kjörskrá skuli vera rafræn og þurfa gild rök að vera að baki ákvörðun um að heimila að notuð sé kjörskrá á pappírsformi.
    Mælt er fyrir um að umsókn sveitarfélags skuli berast landskjörstjórn eigi síðar en 36 dögum fyrir kjördag og að landskjörstjórn skuli taka afstöðu til hennar eigi síðar en viku eftir það tímamark. Að því gefnu að kosið sé á laugardegi renna umræddir frestir þá út á föstu­dögum rétt rúmlega fimm vikum annars vegar og fjórum vikum hins vegar fyrir kjördag. Umræddum frestum er ætlað að stuðla að því að fyrir liggi með góðum fyrirvara hvaða form verði á kjörskrá. Mælt er fyrir um að landskjörstjórn skuli heimilt að taka til meðferðar um­sókn sem berst að liðnum fresti ef mjög veigamiklar ástæður mæla með því að fallist verði á hana. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að unnt sé að bregðast við ófyrirséðum atvikum og að í öllu falli sé ávallt unnt að grípa til þess að nota kjörskrá á pappírsformi ef ljóst þykir eftir að tímafrestir eru runnir út að alls ómögulegt sé að framkvæma kosningu með rafrænni kjörskrá. Eins og orðalag ákvæðisins gefur til kynna er um að ræða algjöra undantekningar­heimild.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um að Þjóðskrá Íslands ákveði gerð og útlit kjörskrár og útvegi sveitarfélögum viðeigandi hugbúnað til notkunar rafrænnar kjörskrár. Ákvæðið kemur í stað þeirrar reglu sem kemur fram í gildandi 24. gr. er fjallar um gerð kjörskrár. Samkvæmt ákvæðinu skal Þjóðskrá hvort tveggja útbúa rafræna kjörskrá og prentaða kjörskrá. Á hinn bóginn fellur það í hlut sveitarfélaganna sjálfra að útvega þann tækjabúnað sem nauðsynlegur er til að nota kjörskrána. Felst í því einkum að í hverri kjördeild verður að vera tölva sem tengist rafrænni kjörskrá í gegnum netið.
    Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji, að fengnum tillögum landskjörstjórnar og Þjóðskrár Íslands, reglugerð með nánari fyrirmælum um ýmis atriði, svo sem um öryggi, aðgangs­heimildir, miðlun upplýsinga og hvernig bregðast skuli við bilunum eða truflunum á starf­semi rafrænnar kjörskrár. Í þeirri útgáfu rafrænnar kjörskrár sem Þjóðskrá Íslands hefur unnið að er stuðst við innskráningarþjónustu Ísland.is og er aðgangi að kerfinu stjórnað með svo­kölluðu umboðskerfi Ísland.is. Aðgangur að kerfinu verði með styrktum Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Þjóðskrá Íslands hlaut í febrúar 2006 vottun frá Bresku staðlastofnuninni, BSI, samkvæmt ISO 27001:2005 staðlinum um stjórnun upplýsingaöryggis og hefur haldið vottun­inni síðan. Hinn 18. nóvember 2014 hlaut stofnunin vottun samkvæmt nýrri útgáfu staðalsins ISO/IEC 27001:2013. Skoðunarmenn BSI koma reglubundið til að gera úttekt á starfseminni og fullvissa sig um að starfsemin sé í samræmi við ákvæði staðalsins. Öflug gæðakerfi, byggð á viðurkenndum stöðlum, undir eftirliti óháðs aðila, er sú leið sem stofnunin hefur valið til að tryggja eins og framast er unnt öruggt skráarhald og skilvirka starfshætti. Þar sem tækn­inni fleygir stöðugt fram í síbreytilegu umhverfi er þessi nálgun á uppfyllingu gæða- og ör­yggiskrafna að mörgu leyti virkari aðferð til þess að tryggja öryggi upplýsinga og kerfa en að festa í reglugerð eða lagatexta tilteknar aðferðir. Hins vegar er það ljóst að til þess að viðhalda öryggisstigi er nauðsynlegt að festa í sessi reglubundnar úttektir á öryggisþættinum og væri því æskilegt að kveða í reglugerð á um að reglulegar öryggisúttektir af sérfróðum aðila skuli fara fram.
    Reglu gildandi 29. gr. verður ekki að finna í lögunum eftir samþykkt frumvarpsins en þar er nú fjallað um það hlutverk sýslumanns að gera nauðsynlegar ráðstafanir ef hann verður þess áskynja að kjörskrá hafi ekki verið samin eða lögð fram í tæka tíð. Ekki er talin þörf á slíku ákvæði.

Um 21. gr.


    Með 21. og 22. gr. frumvarpsins er lagt til að skýrari reglur verði settar um meðferð fram­boðslista og skráningu nýrra stjórnmálasamtaka auk þess sem landskjörstjórn er falið að sjá um skráningu nýrra stjórnmálasamtaka og úthlutun listabókstafa. Í gildandi lögum er að finna VII. kafla sem ber yfirskriftina „Framboð“ og fjallar um form framboðslista og hvernig haga skuli tilkynningum um að stjórnmálasamtök hyggist bjóða sig til Alþingis. Hefur kaflinn að geyma 30.–37. gr. laganna og eru þar ákvæði um málsmeðferð yfirkjörstjórna vegna forms framboðslista. Þá er að finna í lögunum VIII. kafla með yfirskriftina „Listabókstafir stjórn­málasamtaka“ þar sem fjallað hefur verið um það verkefni innanríkisráðuneytisins að ákveða stjórnmálasamtökum listabókstafi og auglýsa skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka.
    Með 21. gr. frumvarpsins lagt til að í nýjum VII. kafla, sem beri yfirskriftina „Stjórnmála­samtök og listabókstafir“, verði að finna ákvæði um stjórnsýslu landskjörstjórnar. Mun hún einkum lúta að því að halda skrá um stjórnmálasamtök sem boðið hafa fram í alþingis­kosningum og listabókstafi þeirra og sérstaka málsmeðferð kjörstjórnarinnar vegna nýrra slíkra framboða. Í kaflanum verði að finna 30.–36. gr. laganna svo sem nánar greinir hér á eftir. Í 22. gr. er síðan lagt til að VIII. kafli beri yfirskriftina „Framboð“ og þar verði fjallað um stjórnsýslu yfirkjörstjórna vegna allra framboða í viðkomandi kjördæma. Í þeim kafla verði að finna 11 nýjar greinar. Þær efnisbreytingar sem felast í kaflanum eru m.a. þær að framboðsfresti ljúki fyrr en samkvæmt gildandi lögum auk skýrari reglna um skoðun yfirkjörstjórna á framboðum.
     Um a-lið (30. gr.).
    Í a-lið 21. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nýja 30. gr. laganna. Í 1. mgr. er að finna sömu reglu og fram kemur í gildandi 1. málsl. 2. mgr. 32. gr. laganna. Kveðið er á um það í 2. mgr. að stjórnmálasamtök sem boðið hafa fram lista við almennar alþingiskosningar eigi rétt á að bjóða fram lista við næstu alþingiskosningar. Þýðing ákvæðisins er annars vegar að undirstrika strax í upphafi gildandi skilgreiningu á hugtakinu stjórnmálasamtök, sbr. enn fremur 1. tölul. 2. gr. laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, og hins vegar að aðgreina stjórnsýslu vegna slíkra samtaka frá þeirri meðferð sem mælt er fyrir um í 3. mgr. greinarinnar sem skal viðhöfð vegna stjórn­málasamtaka sem ekki hafa boðið fram áður við almennar alþingiskosningar. Af gagnályktun af orðalagi 2. mgr. leiðir að stjórnmálasamtök sem ekki hafa áður boðið fram lista við al­mennar alþingiskosningar teljast ný stjórnmálasamtök í skilningi 3. mgr. Samtök sem hafa fengið skráð heiti og úthlutað listabókstaf í aðdraganda annarra kosninga, en af einhverjum ástæðum hafa ekki boðið fram lista, þurfa ekki að tilkynna sig á ný til landskjörstjórnar og fá skráð heiti sitt og listabókstaf. Þrátt fyrir að samtök mundu í þessum tilvikum ekki uppfylla áskilnað 2. mgr. mundu þau uppfylla skilyrði 3. mgr. og því ekki ástæða til að leita nýrrar skráningar hjá landskjörstjórn.
    Í 3. mgr. er kveðið á um meðferð mála hjá öðrum stjórnmálasamtökum en þeim sem falla undir 2. mgr. Í gildandi lögum er aðeins að finna sérstakar reglur um slík við ákvörðun lista­bókstafa, sbr. 2. mgr. 38. gr. gildandi laga. Samkvæmt því hefur innanríkisráðuneytið tekið við tilkynningum slíkra stjórnmálasamtaka. Samkvæmt tillögum frumvarpsins mun lands­kjörstjórn sjá um þetta verkefni auk þess sem ný samtök munu þurfa skráningu kjörstjórn­arinnar á heiti sínu.
     Um b-lið (31. gr.).
    Í b-lið 21. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nýja 31. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu skal tilkynning nýrra stjórnmálasamtaka send landskjörstjórn eigi síðar en sjö sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út en samkvæmt gildandi lögum hefur tímamarkið verið þegar þrír sólarhringar hafa verið til loka framboðsfrests. Eru því gerðar ríkari kröfur til nýrra stjórnmálasamtaka um að þau tilkynni sig tímanlega en af þessu leiðir að landskjörstjórn mun hafa aukið ráðrúm til að fjalla um slíkar tilkynningar. Sem fyrr skal tilkynning undirrituð af a.m.k. 300 einstaklingum sem hafa kosningarrétt í kosningum til Alþingis og skal tilgreina nöfn þeirra, kennitölur og heimili. Í frumvarpinu er samsvarandi regla og í gildandi lögum um tilkynningar um breytt heiti eða listabókstaf, sbr. 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar. Rétt þykir að sama regla gildi jafnframt um það þegar starfandi stjórnmálasamtök óska eftir því að verða úthlutað nýjum listabókstaf.
    Samkvæmt 3. mgr. 31. gr. getur sá sem hefur undirritað tilkynningu stjórnmálasamtaka afturkallað hana fram til þess að samtökin hafa tilkynnt sig til landskjörstjórnar. Er við­komandi stjórnmálasamtökum skylt að eyða nafni viðkomandi af listanum, enda leiðir af orðalagi ákvæðisins að kjósandi getur ekki snúið sér til landskjörstjórnar og óskað þess að nafn hans verði tekið af tilkynningunni. Á hinn bóginn kann kjósandi að tilkynna landskjör­stjórn um það samtímis og hann tilkynnir stjórnmálasamtökunum að honum hafi snúist hugur með undirskrift sína sem þá hefur ekki borist landskjörstjórn. Bærist landskjörstjórn slík yfirlýsing kjósanda áður en tilkynning stjórnmálasamtakanna bærist kjörstjórninni væri henni rétt að líta framhjá undirritun kjósandans. Yrði landskjörstjórn tilkynnt um hughvarf kjós­andans eftir að tilkynning samtakanna bærist, stæði undirritun kjósandans.
     Um c-lið (32. gr.).
    Í c-lið 21. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nýja 32. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að ráðherra muni að fengnum tillögum landskjörstjórnar setja reglugerð um form skv. 1. mgr. 31. gr., söfnun stuðningsyfirlýsinga, meðferð þeirra, eftirlit og eyðingu. Í slíkri reglugerð verði enn fremur kveðið á um atriði eins og form undirskrifta, hvernig þær skuli staðreyndar og þeim verði loks eytt. Í ákvæðinu er m.a. annars kveðið á um að heimilt sé að mæla fyrir um að söfnun undirskrifta geti verið rafræn. Ætla verður að í reglugerð verði þá kveðið á um hvað teljist vera fullgild rafræn undirskrift í slíkum tilvikum.
     Um d-lið (33. gr.).
    Í d-lið 21. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nýja 33. gr. laganna. Koma þar fram þau atriði sem geta staðið því í vegi að ný stjórnmálasamtök geti fengið skráð heiti sitt. Í gildandi lögum er aðeins kveðið á um að heiti nýrra stjórnmálasamtaka megi ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem séu yfir stjórnmálasamtök. Með frumvarps­ákvæðinu er ætlunin að skýra nánar hvaða heiti geti villt um fyrir kjósendum. Þannig geta ný stjórnmálasamtök ekki fengið skráð heiti sem þegar er notað af viðurkenndum stjórn­málasamtökum og hefur verið skráð skv. 30. gr., sbr. a-lið 2. mgr. greinarinnar. Af b-lið leiðir að ekki er sjálfgefið að ný stjórnmálasamtök geti notast við heiti stjórnmálasamtaka sem bjóða ekki lengur fram til Alþingis, enda þurfa tvennar alþingiskosningar að hafa farið fram án þess að eldri samtökin bjóði fram til að heitið megi nota á ný af öðrum samtökum. Ekki skiptir máli í því samhengi hversu löng kjörtímabilin eru á milli kosninga.
    Samkvæmt frumvarpinu mun landskjörstjórn fjalla um hverja og eina tilkynningu nýrra stjórnmálasamtaka. Í samræmi við almennar reglur um málshraða mun kjörstjórnin fjalla um beiðnir í þeirri röð sem þær berast. Af c-lið nýrrar 33. gr. leiðir að sæki tvenn ný stjórn­málasamtök um sama heiti munu þau samtök sem tilkynntu fyrr um heiti sitt fá það samþykkt að öðrum skilyrðum uppfylltum. Í d-lið er síðan mælt fyrir um að ný samtök geti ekki fengið skráð heiti sitt ef ætla má að villst verði á því og heiti samtaka sem vísað er til í a–c-lið. Með umræddu ákvæði eru réttaráhrif framangreindra stafliða gerð víðtækari svo að umræddar reglur taki ekki aðeins til skráðra heita stjórnmálasamtaka heldur einnig heita sem ætla má að megi villast á. Ekki er unnt að tilgreina með tæmandi hætti hvers konar tilvik ættu undir ákvæðið. Heiti sem í daglegu tali eru notuð yfir þegar samþykkt stjórnmálasamtök eða fylgis­menn þeirra geta fallið undir ákvæðið. Við núverandi skipan stjórnmálaflokka gætu ný stjórnmálasamtök því tæplega fengið skráð heitin „Framsókn“, „Jafnaðarmannaflokkur Íslands“, „Flokkur sjálfstæðismanna“, „Vinstri græn“, „Sjóræningjaflokkurinn“ eða „BF“.
     Um e-lið (34. gr.).
    Í e-lið 21. gr. frumvarpsins er lögð til ný 34. gr. laganna um úthlutun eða ákvörðun lista­bókstafa. Ekki er miðað við að önnur stjórnmálasamtök en þau sem falla undir 3. mgr. 30. gr. þurfi að fá skráð heiti sitt hjá landskjörstjórn. Landskjörstjórn ákveður öllum stjórnmála­samtökum listabókstafi í samræmi við þá meginreglu sem birtist í 1. mgr. um að stjórnmála­samtök skuli halda þeim listabókstaf sem þau hafa haft við fyrri alþingiskosningar. Regla 2. málsl. 1. mgr. er fyrst og fremst til áréttingar á þessari meginreglu. Þannig geta ný stjórn­málasamtök ekki vænst þess að fá úthlutað listabókstaf sem eldri samtök hafa notað þótt staf­urinn sé meira einkennandi fyrir nafn nýju samtakanna. Komi upp ágreiningur milli tveggja eða fleiri samtaka um hvert þeirra hafi boðið fram áður undir merkjum tiltekins bókstafs skal litið til þess hvaða samtök hafi formlega notað listabókstafinn, fremur en hvaða stefnumál samtökin hafi eða hvaða einstaklingar standa að baki viðkomandi samtökum.
    Um f-lið (35. gr.).
    Samkvæmt nýrri 35. gr., sbr. f-lið 21. gr. frumvarpsins, skal landskjörstjórn í síðasta lagi tveimur sólarhringum eftir að liðinn er frestur til að sækja um skráningu heitis tilkynna fyrir­svarsmönnum nýrri og eldri stjórnmálasamtaka hvort heiti og listabókstafir nýrra samtaka hafi verið skráð eða því hafnað. Auk þess sem fyrirsvarsmönnum viðkomandi samtaka skal tilkynnt um ákvörðun landskjörstjórnar skal hún birt á vef kjörstjórnarinnar, sbr. nýja 35. gr. Ekki þykir ástæða til að tekin sé sérstök ákvörðun um úthlutun listabókstafs til eldri samtaka, enda gæti slík úthlutun í raun aðeins orðið umdeild vegna samsvarandi ákvörðunar um út­hlutun til nýrra stjórnmálasamtaka. Í 2. mgr. er að finna heimild til að kæra ákvarðanir skv. 1. mgr. til úrskurðarnefndar kosningamála. Til að tryggja hraða málsmeðferð er kærufrestur skammur og einnig frestur nefndarinnar til að úrskurða um fram komnar kærur.
     Um g-lið (36. gr.).
    Ný 36. gr. laganna fjallar um auglýsingu og skrá yfir heiti og listabókstafi stjórnmála­samtaka og þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.


    Svo sem að framan greinir felur ákvæðið í sér að reglur um meðferð yfirkjörstjórna á framboðum eru gerðar skýrari. Í gildandi lögum er umræddar reglur að finna í VII. kafla lag­anna. Samkvæmt frumvarpinu verður umræddar reglur að finna í 11 nýjum greinum í VIII. kafla sem mun sem fyrr bera heitið „Framboð“.
     Um a-lið (37. gr.).
    Í a-lið er kveðið á um framboðsfrest en sambærilegt ákvæði er að finna í 30. gr. gildandi laga. Framboðsfresti lýkur samkvæmt gildandi lögum 15 dögum fyrir kjördag en með frum­varpinu er lagt til að það gerist fyrr eða 36 dögum fyrir kjördag. Það nýmæli er í ákvæðinu að framboð skulu afhent á eyðublaði sem landskjörstjórn hefur staðfest. Er þetta til að fyrir­byggja annmarka á framboðum og einfalda vinnu stjórnmálasamtaka og yfirkjörstjórna.
     Um b-lið (38. gr.).
    Í b-lið er mælt fyrir um nýja 38. gr. og kemur þar til að mynda fram sama regla og er í 31. gr. gildandi laga um að á framboðslista skuli vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri, enda nauðsynlegt til að nægur fjöldi vara­manna sé til reiðu. Samkvæmt gildandi lögum hefur verið miðað við að nöfn frambjóðenda skuli rituð eins og þau eru skráð í þjóðskrá á hverjum tíma. Í 2. mgr. felst breyting á þessari framkvæmd. Áfram er byggt á framangreindri meginreglu, en á hinn bóginn er frambjóðanda heimilað að láta nafn sitt vera ritað á annan hátt en í þjóðskrá óski hann þess. Ljóst er að það getur skipt frambjóðendur miklu að þeir hafi möguleika til þess að fá nafn þeirra ritað með þeim hætti sem þeir eru vanir og eru þekktir undir, enda er slíkt allnokkuð þekkt í fram­kvæmd. Með því að setja fram almennar reglur um ritun nafna er stuðlað að samræmi milli og innan kjördæma og ekki síst jafnræði á milli frambjóðenda.
     Um c-lið (39. gr.).
    Í c-lið 22. gr. frumvarpsins er ákvæði sem verður ný 39. gr. laganna. Fjallar það um þau gögn sem skulu fylgja framboðslista sem sendur er yfirkjörstjórn kjördæmis. Er að hluta til um að ræða reglur sem þegar er að finna í gildandi lögum en einnig nokkur nýmæli.
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. þarf framboðslista nýrra stjórnmálasamtaka að fylgja staðfesting landskjörstjórnar á að hún hafi skráð heiti og listabókstaf nýrra stjórnmálasamtaka. Vísar stafliðurinn til þeirrar málsmeðferðar þegar ný framboð eiga í hlut, sbr. VII. kafla laganna, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Tilgangur reglunnar er fyrst og fremst að vekja athygli nýrra stjórn­málasamtaka á að ekki er unnt að bjóða fram lista nema landskjörstjórn hafi þegar skráð heiti þeirra og ákveðið þeim listabókstaf. Ekki er nauðsynlegt að stjórnmálasamtök sem áður hafa boðið fram í einhverju kjördæmi og hafa fengið úthlutaðan listabókstaf láti staðfestingu skv. a-lið fylgja framboði sínu til yfirkjörstjórnar. Þá telst annmarki á framboði er lýtur að því að staðfesting landskjörstjórnar fylgir ekki framboðslista til yfirkjörstjórnar ekki galli í skilningi laganna ef eftirgrennslan yfirkjörstjórnar leiðir í ljós að framboð hafi í raun verið skráð af landskjörstjórn og fengið listabókstaf. Hafi framboðið á hinn bóginn ekki gert það leiðir af ákvæðum laganna að slíkur annmarki verður ekki leiðréttur sé frestur til að tilkynna ný stjórnmálasamtök liðinn. Er yfirkjörstjórn rétt við móttöku framboðslista að gæta að hvort um nýtt framboð sé að ræða og hvort skráning í skilningi a-liðar fylgi framboði og eftir atvikum leiðbeina viðkomandi framboði um málsmeðferð samkvæmt nýrri 3. mgr. 30. gr., sbr. 21. gr. a frumvarpsins, sé frestur þar að lútandi ekki liðinn. Án tillits til þess hvort slíkar leiðbeiningar séu veittar er það á ábyrgð stjórnmálasamtaka að sjá til þess að skilyrðum laganna sé fullnægt.
    Samkvæmt b-lið 1. mgr. skal hverjum framboðslista fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann. Sömu reglu er að finna í 1. málsl. 1. mgr. 32. gr. gildandi laga.
    Samkvæmt c-lið 1. mgr. skal framboðslista fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Í ákvæðinu kemur fram hvaða upplýsingar þurfi að koma fram um hvern og einn meðmælanda. Meðmælendur þurfa að vera á kjörskrá í kjördæmi sem viðkomandi listi er boðinn fram í. Vitaskuld þurfa meðmælendur úr Reykjavík að vera úr réttu kjördæmi eins og annars staðar. Þá skal fjöldi meðmælenda vera marg­feldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki. Sömu reglu er að finna í 1. mgr. 32. gr. gildandi laga. Þingsætatala á að endurspegla að einhverju marki fjölda kjósenda kjördæmis. Miða skal við heildarfjölda þingsæta, þ.e. hvorutveggja kjör­dæmasæti og jöfnunarsæti. Markmið reglunnar er að stuðla að því að að baki hverju framboði sé full alvara og það eigi sér einhvern raunverulegan hljómgrunn meðal kjósenda.
    Framboðslista skal skv. d-lið fylgja yfirlýsing meðmælenda um fyrir hvaða stjórnmála­samtök hann sé boðinn fram. Sama regla kemur fram í 2. mgr. 32. gr. gildandi laga. Kveðið er á um réttaráhrif þess ef yfirlýsinguna vantar en þá skal litið svo á að listinn teljist sérstakt framboð.
    Samkvæmt e-lið 1. mgr. skal fylgja tilkynning frá þeim stjórnmálasamtökum sem boðið hafa fram listann um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans er taki við athuga­semdum yfirkjörstjórnar um ágalla sem kunna að vera á framboðinu. Um er að ræða nýtt ákvæði. Þar sem framboð hafa aðeins skamman frest til að bæta úr ágöllum á framboðum er mikilvægt að fyrir liggi hverjir umboðsmenn þeirra séu svo að unnt sé að koma boðum til þeirra jafn skjótt og afstaða yfirkjörstjórna liggur fyrir um annmarka á framboðum. Yfirkjör­stjórnum er rétt að gæta að því þegar við móttöku framboðslista hvort umboðsmanna sé getið. Ef umboðsmenn eru ekki tilgreindir skal yfirkjörstjórn í samræmi við nýja 47. gr. c sam­kvæmt frumvarpsinu beina því til frambjóðenda í aðalsætum að bæta úr annmarkanum.
    Í f-lið 1. mgr. er að finna nýtt ákvæði þess efnis að framboði skuli fylgja staðfesting á skráningu stjórnmálasamtaka samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá. Það leiðir af ákvæðum laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, og lögum nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, að stjórnmálasamtök eru yfirleitt skráð í fyrirtækjaskrá. Slíkt er þó ekki skylt samkvæmt lögum. Hafi stjórnmálasamtök verið skráð í fyrirtækjaskrá skal framboð láta staðfestingu á skráningunni fylgja framboðsyfirlýsingu, en hafi samtökin ekki verið skráð telst það eðlilega ekki ágalli á framboðinu.
     Í 2. mgr. er að finna ákvæði sem svarar til 3. mgr. 32. gr. gildandi laga og í 3. mgr. er að finna ákvæði sem nú eru í 33. gr. gildandi laga.
     Um d-lið (40. gr.).
    Í d-lið 22. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nýja 40. gr. laganna. Í 1. mgr. er að finna sömu reglu og er í 1. mgr. 35. gr. gildandi laga. Hið sama á við um 1. málsl. 2. mgr. um aftur­köllun meðmæla. Rétt þykir að kveða á um það hvenær frambjóðandi annars vegar og meðmælandi hins vegar geti í síðasta lagi afturkallað samþykki sitt svo að áhrif hafi á fram­boð. Í 2. málsl. 2. mgr. er að finna nýja reglu þess efnis að meðmæli sem safnað er til stuðn­ings framboði megi ekki nota í öðrum tilgangi. Sá tilgangur sem heimilt er að nota meðmælin til er aðeins að lýsa þeirri afstöðu meðmælanda gagnvart viðkomandi yfirkjörstjórn, auk landskjörstjórnar, að hann mæli með lista til framboðs. Er stjórnmálasamtökum óheimilt að nota meðmælin sjálf sem samþykki meðmælandans fyrir því að hann teljist meðlimur samtakanna, kynna nafn hans í kosningabaráttu sinni eða nota það í innra starfi sínu. Á hinn bóginn er ekkert því til fyrirstöðu að nota meðmæli í þessum tilgangi samþykki viðkomandi meðmælendur það sérstaklega og með skýrum hætti. Hafi samþykki eða yfirlýsing verið afturkölluð skal eyða henni, sbr. 3. mgr.
     Um e-lið (41. gr.).
    Í e-lið 22. gr. frumvarpsins er lagt til ákvæði nýrrar 41. gr. um hlutverk ráðherra við reglusetningu vegna meðferðar yfirkjörstjórna á framboðslistum. Markmið ákvæðisins er m.a. að tryggja samræmda framkvæmd yfirkjörstjórna kjördæma og gefa þannig kost á að settar séu tilteknar reglur um það hvernig framboðslistar skuli úr garði gerðir að forminu til. Kann það að vera til að auðvelda hvorutveggja í senn yfirkjörstjórnum og framboðum að fullnægja kröfum laganna. Þá er miðað við að ráðherra geti, að fengnum tillögum lands­kjörstjórnar, sett stjórnvaldsfyrirmæli um að meðmælum skuli safnað með rafrænum hætti á eyðublöðum eða viðmóti sem Þjóðskrá Íslands lætur í té.
     Um f-lið (42. gr.).
    Með f-lið er kveðið skýrt á um að það sé hlutverk yfirkjörstjórnar að rannsaka framlögð gögn skv. 38. og 39. gr. laganna og ganga úr skugga um að uppfylltar séu tilskildar kröfur. Er þar með hvorutveggja ljóst að yfirkjörstjórn á að framkvæma slíka rannsókn og að það sé ekki verkefni annarra stjórnvalda. Í samræmi við ákvæði laganna er þetta þó einnig verkefni landskjörstjórnar á síðara stigi. Samsvarandi ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum.
     Um g-lið (43. gr.).
    Í g-lið 22. gr. er lögð til ný 43. gr. og svarar greinin til 37. og 45. gr. gildandi laga. Fjallar fyrrnefnda ákvæðið um heimild til að setja nýjan frambjóðanda á lista í stað annars sem deyr áður en kosning fer fram. Hið síðarnefnda lýtur á hinn bóginn að skyldu yfirkjörstjórnar til að tilkynna um breytinguna til landskjörstjórnar og ráðuneytisins og skyldu landskjörstjórnar til að birta listann þannig breyttan á tiltekinn hátt. Rétt þykir að ákvæði þessi séu sameinuð í eina lagagrein. Að því er varðar þá reglu sem nú kemur fram í 37. gr. mælir frumvarpið fyrir um þá breytingu að ekki er gerð krafa um að helmingur meðmælenda listans krefjist þess að settur sé annar maður í stað hins látna frambjóðanda. Nægir að umboðsmenn lista lýsi því yfir gagnvart yfirkjörstjórn að framboðið hyggist skipta um frambjóðanda. Búa þau rök að baki breytingunni m.a. að torvelt kann að vera að hafa upp á meðmælendum við þessar aðstæður og mikilvægt sé að breytingar séu tilkynntar kjörstjórnum sem fyrst. Af ákvæðinu leiðir að deyi frambjóðandi fjórum dögum áður en framboðsfrestur er liðinn, eða ef umboðsmenn lista krefjast ekki breytingar innan viku frá andláti, skal nafn látins frambjóðanda standa á lista.
    Í gildandi 45. gr. er kveðið á um að hlutaðeigandi yfirkjörstjórn skuli tilkynna landskjör­stjórn um breytingu á framboðslista skv. 37. gr. séu skilyrði síðarnefnda ákvæðisins fullnægt. Með frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn fari með það verkefni að meta hvort skilyrði ákvæðisins sé fullnægt, enda mikilvægt að samræmi sé í framkvæmd þar að lútandi, auk þess sem skýrar er kveðið á um verkaskiptingu kjörstjórna að þessu leyti.
    Á sama hátt og í gildandi ákvæði er ekki kveðið á um nein síðari tímamörk þegar andlát frambjóðanda ber að nærri kosningum. Skal landskjörstjórn í þessum tilvikum birta breyttan lista í Lögbirtingablaði og á vef sínum. Þá skal landskjörstjórn birta í Ríkisútvarpinu aug­lýsingu um breytinguna. Skv. 1. mgr. 54. gr. laganna skulu kjörseðlar að jafnaði fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag en gert er ráð fyrir að heimilt sé að víkja frá því tíma­marki. Kann því að vera tilefni til að útbúa nýja kjörseðla í þeim tilvikum þar sem skipt hefur verið um frambjóðenda vegna andláts.
     Um h-lið (44. gr.).
    Í h-lið 22. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nýja 44. gr. laganna. Þar er fjallað er um meðferð yfirkjörstjórnar á framboðslistum. Samkvæmt ákvæðinu skal yfirkjörstjórn halda fund að liðnum framboðsfresti sem umboðsmönnum hlutaðeigandi stjórnmálasamtaka skal gefinn kostur á að sækja. Samsvarandi ákvæði er að finna í 1. mgr. 41. gr. gildandi laga.
    Hafi kjörstjórnin fundið galla á framboðslista skal viðkomandi umboðsmönnum gerð grein fyrir þeim og þeim veitt færi á að leiðrétta þá. Skulu umboðsmenn fá frest til að leiðrétta listana og skal hann að jafnaði vera einn sólarhringur. Sú breyting felst í frumvarpinu að yfirkjörstjórn er ekki falið að úrskurða um hvort listi teljist ógildur heldur er landskjörstjórn falið það verkefni, sbr. i-lið 22. gr. frumvarpsins (nýja 45. gr.). Í h-lið 22. gr. frumvarpsins (nýrri 44. gr.) er því ekki að finna samsvarandi reglu og kemur fram í 3. málsl. 41. gr. gildandi laga um að yfirkjörstjórn skuli úrskurða um galla á framboðslistum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að yfirkjörstjórn taki við framboðslistum og geri umboðsmönnum lista grein fyrir því ef ágallar finnast. Framboðslistunum sé síðan komið til landskjörstjórnar en umboðsmenn lista sem eru gallaðir komi lagfærðum listum beint til landskjörstjórnar án milligöngu yfir­kjörstjórnar. Orðalag ákvæðisins um að frestur framboða til að bæta úr ágöllum á þeim skuli að jafnaði vera sólarhringur felur í sér að miðað skuli við að sólarhringsfrestur sé megin­reglan og sérstakar aðstæður þurfi til að víkja frá honum, svo sem ef undirskrift frambjóð­anda vantar og fyrirliggjandi er að ómögulegt er að afla hennar innan sólarhrings frests. Skal takmarka frávik svo sem unnt er. Af i-lið 22. gr. frumvarpsins (nýrri 45. gr.) leiðir á hinn bóginn að framlengdur frestur getur sjaldnast orðið lengri en tveir sólarhringar, og aldrei þrír sólarhringar, enda skal landskjörstjórn funda með umboðsmönnum eigi síðar en þremur sólarhringum og fjórum stundum frá lokum framboðsfrests.
    Miðað við að kjördagur sé á laugardegi rennur framboðsfrestur út á föstudegi og skal þá halda fundinn þann sama dag. Gerir frumvarpið síðan að öðru leyti ráð fyrir að degi síðar, yfirleitt á laugardegi, hafi yfirkjörstjórn sent framboðslista til landskjörstjórnar. Sama laugardag skal frestur framboða til að bæta úr ágöllum að jafnaði renna út.
    Ágallar sem yfirkjörstjórn fjallar um eru einkum þeir sem lúta að formkröfum kaflans að öðru leyti, sbr. einkum a–d-lið 22. gr. frumvarpsins (nýjar 37.–40. gr. laganna). Eins og greinir í k-lið 22. gr. frumvarpsins (ný 47. gr. laganna) skal yfirkjörstjórn ekki fjalla um kjör­gengi frambjóðenda. Í ákvæðinu felst það nýmæli að tekið er fram að athugasemdir yfirkjör­stjórnar skulu tilkynntar umboðsmönnum skriflega. Mikilvægt er að kveðið sé á um þetta í lögum, enda þurfa umboðsmenn lista að hafa skýrar upplýsingar um annmarkana til að unnt sé að bæta úr þeim innan þess skamma tíma sem þeim gefst til að bæta úr.
     Um i-lið (45. gr.).
    Í i-lið 22. gr. frumvarpsins (nýrri 45. gr. laganna) er fjallað um meðferð landskjörstjórnar á framboðslistum sem sendir skulu kjörstjórninni af yfirkjörstjórn. Ákvæðið svarar til 43. og 44. gr. gildandi laga.
    Munu yfirkjörstjórn og landskjörstjórn fjalla báðar um það hvort framboð uppfylli skilyrði laga. Taki yfirkjörstjórn við framboðum og meti hvort á þeim séu ágallar og gefi framboðum frest til að bregðast við ef svo er raunin. Á hinn bóginn sé það síðan landskjörstjórnar að fjalla um það hvort framboð hafi bætt úr. Er þetta breyting frá því sem nú er, enda gera gildandi lög ráð fyrir að yfirkjörstjórn kunni að ógilda framboðslista en slíkum úrskurði kunni að verða skotið til yfirkjörstjórnar. Í breytingunni felst að yfirkjörstjórn er ekki ætlað að meta hvort framboð hafi bætt úr annmörkum sem yfirkjörstjórn sjálf hefur fundið. Úr­skurðum landskjörstjórnar verður síðan skotið til úrskurðarnefndar.
    Sé miðað við að kjördagur sé á laugardegi ættu framboðslistar og nauðsynleg fylgigögn að berast landskjörstjórn frá yfirkjörstjórnum á laugardegi sem er degi síðar en sá föstudagur þegar framboðsfrestur rennur út. Sama dag ættu úrbætur framboða að berast í þeim tilvikum þar sem yfirkjörstjórn hefur veitt frest þar að lútandi. Metur landskjörstjórn hvort úrbæturnar séu fullnægjandi en leggur einnig mat á sömu atriði og yfirkjörstjórnir hefur þegar gert, sbr. a-lið 1. mgr. Í b-lið er að finna sömu fyrirmæli og í 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. Ákvæði c- og d-liðar svara til ákvæða 43. gr. gildandi laga. Í e-lið er síðan nýtt ákvæði þess efnis að lands­kjörstjórn skuli gæta þess að samræmis sé gætt milli yfirkjörstjórna um framsetningu og frágang framboðslista, þar á meðal um ritun nafna frambjóðenda.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að þremur sólarhringum og fjórum stundum frá lokum fram­boðsfrests skuli landskjörstjórn eiga fund sem umboðsmenn framboða skulu boðaðir til. Sé kosið á laugardegi rennur framboðsfrestur út á hádegi á föstudegi og mundi landskjörstjórn þá funda á mánudegi klukkan fjögur síðdegis. Umboðsmönnum er heimilt að kæra ákvarðanir landskjörstjórnar til úrskurðarnefndar kosningamála en kærufrestur er 20 klukkustundir. Að öllu jöfnu mundi fresturinn því renna út á hádegi þriðjudags.
    Landskjörstjórn er hvorutveggja ætlað að fjalla um ágalla sem yfirkjörstjórn finnur á fram­boðum sem og ágalla sem landskjörstjórn sjálf verður vör við. Hvorki er gert ráð fyrir sér­stökum andmælarétti framboða vegna annmarka sem landskjörstjórn uppgötvar né gefst þeim kostur á að leiðrétta annmarkana fyrir landskjörstjórn. Þess í stað er í 2. mgr. kveðið á um að úrskurðarnefnd kosningamála skuli þegar fjalla um slíka annmarka, að því gefnu að lands­kjörstjórn telji þá þess eðlis að hafna hafi átt viðkomandi lista.
     Um j-lið (46. gr.).
    Í j-lið 22. gr. frumvarpsins (nýrri 46. gr. laganna) er að finna sambærilegt ákvæði og er í 2. mgr. 44. gr. gildandi laga. Orðalagi ákvæðisins er breytt til samræmis við breytingar á meðferð landskjörstjórnar á framboðslistum. Þá þarf landskjörstjórn ekki framar að auglýsa framboðslista í blöðum eins og samkvæmt gildandi lögum. Loks er gerð sú breyting að auglýsingar skulu birtar fyrr en nú er gert. Í 4. mgr. er kveðið á um að landskjörstjórn endur­sendi yfirkjörstjórnum listana ásamt greinargerð um afgreiðslu sína og er sá áskilnaður í sam­ræmi við 3. mgr. 44. gr. gildandi laga. Á hinn bóginn er ekki með sama hætti kveðið á um að innanríkisráðuneytinu skuli sendir listarnir. Sú regla var tilkomin vegna þess að ráðuneyt­ið sér samkvæmt gildandi lögum um að útbúa kjörseðla en verkefnið verður með frumvarpinu falið landskjörstjórn. Er því ekki lengur til staðar þörf á að ráðuneytinu verði formlega sendir listarnir.
     Um k-lið (47. gr.)
    Í k-lið 22. gr. frumvarpsins (nýrri 47. gr. laganna) er að finna ákvæði þess efnis að ekki sé nauðsynlegt að kjörgengi frambjóðenda sé sannað fyrir yfirkjörstjórn eða landskjörstjórn. Reglan á sér samsvörun í 36. gr. gildandi laga.

Um 23. gr.


    Í greininni er lagt til að nýjum kafla, IX. kafla, um umboðsmenn stjórnmálasamtaka, verði bætt við lögin. Í kaflanum verða sjö nýjar greinar, 47. gr. a – 47. gr. g. Að því er varðar um­boðsmenn er að mestu um að ræða sömu ákvæði og heimildir og finna má í gildandi lögum. Þá er með ákvæðunum að mestu áréttaðar reglur sem fram koma annars staðar í lögunum. Í gildandi lögum eru tvær greinar í sérstökum IX. kafla sem fjallar um umboðsmenn en að öðru leyti eru ákvæði um þá dreifð um lögin. Þykir æskilegt og aðgengilegra að þau séu, eftir því sem unnt er, á sama stað í lagatextanum svo sem leiðir af frumvarpinu.
    Í gildandi lögum er hvorutveggja gert ráð fyrir að einstakir listar eigi sína umboðsmenn sem gæti réttinda þeirra gagnvart yfirkjörstjórnum og að stjórnmálasamtök á landsvísu hafi umboðsmenn sem gæti réttinda þeirra fyrir landskjörstjórn. Þá er í gildandi lögum mælt fyrir um að í vissum tilvikum kunni að vera ástæða til að meðmælendur lista tilnefni sértaka full­trúa til að gæta réttinda lista fyrir landskjörstjórn.
    Með frumvarpinu er landskjörstjórn falið það hlutverk að úrskurða um gildi framboðslista og er því nauðsynlegt að umboðsmenn lista eigi þess kost að gæta réttinda listanna fyrir þeirri kjörstjórn. Á hinn bóginn er enn nauðsynlegt að kveðið sé á um rétt stjórnmálasamtaka til að eiga sérstaka umboðsmenn á fundum landskjörstjórnar vegna ágreiningsefna sem varða sam­tökin á landsvísu. Af þessum sökum felur frumvarpið í sér að hvorutveggja umboðsmenn lista og stjórnmálasamtaka eigi rétt á að sækja fundi landskjörstjórnar vegna yfirferðar á fram­boðslistum. Hins vegar gerir frumvarpið ekki ráð fyrir að listar eigi sér sérstaka meðmælendur og er því ekki ástæða til að mæla sérstaklega fyrir um umboðsmenn þeirra í þeim tilvikum svo sem gert er í gildandi lögum.
     Um a-lið (47. gr. a).
    Í a-lið 23. gr. er mælt fyrir um nýja 47. gr. a þar sem finna má sömu reglu og fram kemur í 39. gr. gildandi laga. Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg tilkynning allra fram­bjóðenda listans til yfirkjörstjórnar um það hverjir tveir séu umboðsmenn listans, ásamt skriflegu samþykki þeirra. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um að umboðsmennirnir sjálfir samþykki að þeir gegni því hlutverki. Ekki hefur þótt ástæða til að kveða á um skilyrði sem einstaklingur þurfi að uppfylla til að vera umboðsmaður framboðslista. Í 2. málsl. er fjallað um hverjir teljist umboðsmenn lista tilgreini stjórnmálasamtök ekki umboðsmenn eða umboðsmenn forfallast. Skulu þá frambjóðendur í aðalsætum hver um sig réttir umboðsmenn listans. Sömu reglu er nú að finna í 2. málsl. 39. gr. gildandi laga og er hugsunin sú að tryggt sé að einhver geti komið fram fyrir hönd framboðs og gætt réttinda þess við framkvæmd kosninganna.
    Í 2. mgr. er áréttaður réttur umboðsmanna til að vera viðstaddir fundi yfirkjörstjórnar um framboðslista eftir að fundi lýkur, sbr. einnig h-lið 22. gr. frumvarpsins (nýja 44. gr. laganna) og möguleika þeirra á að leiðrétta framboðslista sem yfirkjörstjórn telur gallaða. Yfirkjör­stjón skal skv. 3. mgr. útbúa sérstök skilríki fyrir umboðsmenn samkvæmt nánari fyrirmælum landskjörstjórnar. Skulu umboðsmenn bera skilríkin við athafnir sínar samkvæmt lögum þessum. Umboðsmenn hafa umtalsverðar heimildir umfram almenning til að kynna sér gögn og framkvæmd kjörstjórna og er ástæða til að skýrt sé hvaða einstaklingar það eru sem fara með réttindi sem lögin fela umboðsmönnum. Í framkvæmd gildandi laga hefur verið viður­kennt að umboðsmenn geti fengið menn sér til aðstoðar til að hafa eftirlit með framkvæmd kosninga. Ekki hefur verið mælt fyrir um þetta í gildandi lögum. Með 5. mgr. er mælt fyrir um þessa framkvæmd. Samkvæmt ákvæðinu skuli umboðsmenn lista tilkynna yfirkjörstjórn tímanlega um þá einstaklinga sem munu koma fram gagnvart kjörstjórnum sem aðstoðarmenn umboðsmanna. Skal yfirkjörstjórn útbúa skilríki fyrir aðstoðarmenn sem skulu samræmast fyrirmælum landskjörstjórnar. Réttindi og skyldur aðstoðarmanna eru hinar sömu og umboðs­manna.
     Um b-lið (47. gr. b).
    Í b-lið 23. gr. er kveðið á um nýja 47. gr. b laganna. Með ákvæðinu er áréttaður réttur umboðsmanna lista til að vera viðstaddir fundi landskjörstjórna vegna yfirferðar framboðs­lista og heimild þeirra til að skjóta úrskurðum landskjörstjórnar um ógilda framboðslista til úrskurðarnefndar kosningamála. sbr. 2. mgr. i-liðar 22. gr. frumvarpsins (nýja 2. mgr. 45. gr. laganna). Auk þessa er kveðið á um að samhliða því að umboðsmönnum er gert kunnugt um úrskurð um ógildingu skuli þeim afhent afrit úrskurðarins ásamt afriti listans og vottorði um afhendingartímann. Er þetta mikilvægt vegna þess skamma kærufrests sem ákvæðið kveður á um.
    Með frumvarpinu er landskjörstjórn falið að úrskurða um gildi framboðslista en yfirkjör­stjórn fer með það verkefni samkvæmt gildandi lögum. Af þessum sökum er í gildandi lögum ekki sérstaklega vikið að rétti umboðsmanna lista til að vera viðstaddir fundi landskjör­stjórnar vegna yfirferðar á listum. Samhliða breytingunni er nauðsynlegt að umboðsmenn lista geti gætt réttinda listanna fyrir landskjörstjórn og er að þessu leyti um að ræða breytingu frá gildandi lögum. Í 3. mgr. er mælt fyrir um að stjórnmálasamtök sem boðið hafa fram lista eigi rétt á að hafa tvo umboðsmenn viðstadda fundi landskjörstjórnar. Er í raun um að ræða sömu reglu og fram kemur í gildandi 1. mgr. 40. gr.
     Um c-lið (47. gr. c).
    Í c-lið 23. gr. er kveðið á um nýja 47. gr. c laganna. Er þar fjallað um réttindi og skyldur umboðsmanna við kosningarathöfn. Inniheldur lagagreinin ákvæði sem eru á víð og dreif í gildandi lögum, sbr. einkum 5. málsl. 39. gr. um rétt umboðsmanna til að vera viðstaddir kosningar á einstökum kjörstöðum. Það nýmæli er í greininni að áréttaður er réttur umboðs­manna til að sitja við borð í kjörfundarstofu auk þess sem kveðið er á um rétt þeirra til að fá afhent eintak af sérstakri útgáfu kosningalaganna ásamt stjórnarskrá. Þótt víðast hafi réttur umboðsmanna hvað þetta varðar verið virtur í framkvæmd þykir rétt að kveðið sé skýrt á um hann, enda hefur ýmsum kjósendum þótt umdeilanlegt að umboðsmenn væru viðstaddir í kjörfundarstofu. Með ákvæðinu er því að þessu leyti rennt styrkari stoðum undir möguleika umboðsmanna til að hafa mikilvægt eftirlit í kjörfundarstofu. Að sama skapi hefur ekki verið skýrlega kveðið á um rétt umboðsmanna til að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu utan kjör­fundar umfram það sem kemur fram í 39. gr. gildandi laga. Með ákvæðinu er rétturinn áréttaður að þessu leyti og nær hann til allra utankjörfundaratkvæðagreiðslna.
     Um d-lið (47. gr. d).
    Í d-lið 23. gr. er kveðið á um nýja 47. gr. d laganna. Í ákvæðinu er kveðið á um rétt umboðsmanna við ýmis tilefni við upphaf og lok kjörfundar. Umræddar reglur er einkum að finna í gildandi 72., 76. og 89. gr.
     Um e-lið (47. gr. e).
    Í e-lið 23. gr. er kveðið á um nýja 47. gr. e laganna. Er þar fjallað um úrræði umboðs­manna ef þeir telja eitthvað athugavert við framkvæmd kosninga. Umræddar heimildir er nú einkum að finna í 94. gr. gildandi laga.
     Um f-lið (47. gr. f).
    Í f-lið 23. gr. er kveðið á um nýja 47. gr. f laganna. Þar er fjallað um réttindi umboðs­manna til að vera viðstaddir móttöku yfirkjörstjórna á atkvæðakössum áður en talning atkvæða fer fram og til loka talningar. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort slíkt á sér stað áður en kjörfundi er lokað eða við lok hans. Ekki er með skýrum hætti í gildandi lögum kveðið á um að umboðsmenn eigi rétt á að vera viðstaddir móttöku yfirkjörstjórnar á atkvæðakössum að því undanskildu að þeir hafa átt slíkan rétt þegar yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn er viðstödd á kjörstað, sbr. 1. mgr. 96. gr. gildandi laga. Ástæða þykir til að umboðsmenn eigi rétt á að vera viðstaddir móttöku atkvæðakassanna. Svo sem kveðið er á um í gildandi lögum skulu umboðsmenn vera viðstaddir talningu. Mælir frumvarpið fyrir um sömu reglu og í gildandi 2. mgr. 98. gr. um hvernig finna skuli staðgengla þegar umboðs­menn eru ekki viðstaddir talningu og þegar flokkun og talning atkvæða hefst fyrir lok kjör­fundar, sbr. nýja 1. mgr. 98. gr. í 48. gr. frumvarpsins. Reglan er því annars eðlis en aðrar sem fjalla um réttindi umboðsmanna að því leyti að beinlínis er kveðið á um skyldu kjör­stjórnar til að sjá til þess að einhver sé viðstaddur til að gæta réttinda framboðs. Þá felur reglan einnig í sér frávik frá þeirri reglu sem koma skal fram í nýrri 47. gr. a laganna, sbr. 39. gr. gildandi laga um staðgengla í forföllum umboðsmanna. Með frávikinu er ætlunin að tiltölulega auðvelt sé fyrir yfirkjörstjórn að finna staðgengla með skömmum fyrirvara.
     Um g-lið (47. gr. g).
    Í g-lið 23. gr. er mælt fyrir um nýja 47. gr. g laganna. Er þar mælt fyrir um sömu reglu og fram kemur í 1. mgr. 40. gr. gildandi laga.

Um 24. gr.


    Með frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn verði falið það verkefni að láta í té kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í samræmi við aukin verkefni kjörstjórnarinnar við að útbúa kjörgögn. Þá eru gerðar breytingar á ákvæði greinarinnar um afgreiðslu kjörgagna til kjörstjóra í samræmi við aðrar breytingar frumvarpsins er varða það hverjir skuli framkvæma atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Um 25. gr.


    Í gildandi 48. gr. laganna er kveðið á um hlutverk skipstjóra sem kjörstjóra við atkvæða­greiðslur utan kjörfundar. Umrædd heimild mun ekki vera notuð lengur og þekkist ekki að skipstjórar gegni hlutverki kjörstjóra. Með frumvarpinu er því lagt til að ákvæði laganna er lúta að verkefnum skipstjóra verði felld á brott.

Um 26. gr.


    Samkvæmt 49. gr. gildandi laga skal skipstjóri, sem veitir viðtöku utankjörfundargögnum, undirrita drengskaparyfirlýsingu um að kosning í skipi hans muni fara fram samkvæmt fyrir­mælum laganna. Með frumvarpinu er lagt til að samhliða því að skipstjórar hætta að gegna störfum kjörstjóra muni kjörstjórar eða aðrir trúnaðarmenn innan lands, sbr. breytta 58. gr. laganna sem verður 59. gr. þeirra, undirrita sams konar drengskaparlýsingu og skipstjórar gerðu áður. Hefur ekki verið talin þörf á slíku, enda gengið út frá að aðrir kjörstjórar en þeir sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 49. gr. væru opinberir trúnaðarmenn. Nú þykir á hinn bóginn rétt að þessi háttur sé hafður á.

Um 27. gr.


    Samkvæmt 50. gr. gildandi laga er það verkefni innanríkisráðuneytisins að láta gera kjörseðla en með frumvarpinu verður það verkefni landskjörstjórnar. Þá er lagt til að lög kveði ekki sérstaklega á um þyngd pappírs eða að skipt skuli um lit á kjörseðlum, heldur sé það ráðherra að setja reglur þar að lútandi að tillögu landskjörstjórnar.

Um 28. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 29. gr.


    Með frumvarpinu er lagt til að framkvæmd atkvæðagreiðslu verði breytt á þann hátt að kjörstjórnir stimpli kjörseðla kjósenda áður en þeir eru lagðir í atkvæðakassa og að óstimpl­aðir kjörseðlar sem fram komi við talningu atkvæða teljist ógildir. Af þessum sökum er ekki þörf á að svo nákvæmlega sé kveðið á um fjölda og meðferð kjörseðla eins og gert er í gild­andi 53. og 54. gr. Eru því ákvæði 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. sameinaðar í nýja grein sem verður 54. gr. laganna. Eru þessar breytingar í beinu samhengi við þær breytingar sem gerðar eru á prentun kjörseðla og á kosningarathöfninni, sbr. a–c-lið 45. gr. (nýjar 85. gr. a – 85 gr. c).
    Lagt er til að í 1. mgr. verði kveðið á um það að kjörseðlar skuli að jafnaði fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag, sbr. nú 1. mgr. 54. gr. gildandi laga. Þá er í frumvarpinu lagt til að landskjörstjórn láti útbúa kjörseðla og er því lögð til sú breyting að sú kjörstjórn, en ekki ráðuneytið, láti senda þá viðkomandi yfirkjörstjórnum. Þá er í 2. mgr. tekið fram að óprentaða hlið kjörseðilsins skuli snúa út, en þó sé heimilt að hafa á þeirri hlið ferning fyrir stimpil kjörstjórnar eins og nánar er lýst í a-lið 45. gr. frumvarpsins, sbr. nýja 85. gr. a laganna. Loks er tekið fram að landskjörstjórn skuli að öðru leyti ákveða útlit kjörseðils. Er þá einkum hafður í huga sá möguleiki að rasta þá hlið sem snýr út líkt og kjörseðlar eru við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, en með því er síður hægt að sjá hvað kjósandi hefur merkt á kjörseðilinn.

Um 30. gr.


    Samhliða því að tekin verður upp notkun stimpla við atkvæðagreiðslu er ekki þörf á að svo nákvæmlega sé kveðið á um fjölda og meðferð kjörseðla eins og gert er í gildandi 53. og 54. gr. Eru ákvæði 2.–4. mgr. 54. gr. því felld úr gildi og verður gildandi 1. mgr. 54. gr. ný 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 53 gr. verður ný 2. mgr. 53. gr. laganna.
    Með 30. gr. frumvarpsins er landskjörstjórn falið það verkefni að láta gera stimpla sem notaðir skulu við atkvæðagreiðslu á kjörfundi og utan kjörfundar. Hefur landskjörstjórn svigrúm til að ákveða hvort stimplar séu allir eins og hversu oft skuli skipt um stimpla. Gert er ráð fyrir að yfirkjörstjórnir og kjörstjórar muni varðveita stimpla milli kosninga nema landskjörstjórn ákveði að skipt skuli um stimpla. Mikilvægt er stimplar séu vandlega varð­veittir og landskjörstjórn sé tilkynnt um það ef stimplar glatast eða eyðileggjast. Skal lands­kjörstjórn þá útvega nýja stimpla.

Um 31. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 32. gr.


    Í 57. gr. gildandi laga er kveðið á um að kosningu utan kjörfundar skuli hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hafi verið auglýstur en þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Enn fremur segir að eftir þann tíma og „til kjördags“ eigi kjósandi rétt að greiða atkvæði utan kjörfundar.
    Með frumvarpinu er lagt til að atkvæðagreiðslan hefjist síðar, þ.e. svo fljótt sem kostur er eftir að framboðslistar hafa verið auglýstir, en þó eigi síðar en 29 dögum fyrir kjördag, sbr. 32. gr. frumvarpsins (nýja 58. gr. laganna).
    Áréttað er með 2. mgr. að kosning utan kjörfundar skuli einnig standa fram til kl. 17 á sjálfan kjördaginn. Með þessu er leitast við að samræma þá mismunandi framkvæmd sýslu­manna að gefa kost á atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á kjördag með mismunandi hætti. Í síðustu alþingiskosningum mun lengst hafa verið hægt að greiða atkvæði hjá sýslumanni til kl. 17 á meðan aðrir hafi ekki haft opna starfsstöð en auglýst að kjósendur gætu gefið sig fram með því að hringja í tiltekið símanúmer vildu þeir greiða atkvæði utan kjörfundar. Rétt þykir hins vegar að atkvæðagreiðslunni ljúki fyrr erlendis, enda á þá eftir að koma atkvæði til Íslands.
    Loks er í 3. mgr. tekin upp sú regla lokamálsliðar 57. gr. gildandi laga að atkvæðið teljist greitt þann dag sem fylgibréf er dagsett.

Um 33. gr.


    Í 58. gr. gildandi laga er að finna meginákvæði laganna um hvar utankjörfundaratkvæða­greiðslur skuli fara fram innan lands. Skv. a-lið 1. mgr. fara slíkar atkvæðagreiðslur fram hjá sýslumönnum. Getur sýslumaður ákveðið að atkvæðagreiðslan fari fram á aðalskrifstofu eða í útibúi auk þess sem heimilt er að koma upp sérstökum kjörstað vegna atkvæðagreiðslunnar. Sýslumaður ákveður hverjir starfsmenn hans skuli vera kjörstjórar og ræður aðra trúnaðar­menn til þeirra starfa. Í 2. og 3. mgr. eru síðan heimildir til að framkvæma atkvæðagreiðsluna annars staðar þegar aðstæður kjósanda eru með tilteknum hætti.
    Með a-lið 33. gr. frumvarpsins er lagt til að gildandi a-lið 1. mgr. 58. gr. laganna sem verður 59. gr. þeirra verði skipt upp í tvær málsgreinar. Auk þess er lagt til að sýslumenn skuli tilkynna landskjörstjórn hverju sinni hverjir séu kjörstjórar í þeirra umboði.
    Þá er áréttað að sýslumaður geti að ósk sveitarstjórnar skipað kjörstjóra, sem geti verið starfsmaður sveitarfélags, til þess að annast atkvæðagreiðsluna. Þótt gildandi lög hafi ekki staðið þessari framkvæmd í vegi þykir rétt að mælt sé fyrir um hana í lögunum til að sveitar­félögum og sýslumönnum sé ljóst að hún sé þeim möguleg. Í slíkum tilvikum yrði nafn­greindur starfsmaður sveitarfélags skipaður kjörstjóri og mundi í eigin nafni starfa í umboði viðkomandi sýslumanns og undir boðvaldi hans.
    Meginbreyting a-liðar 33. gr. frumvarpsins er sú að felldur er niður gildandi b-liður 1. mgr. 58. gr. þar sem mælt er fyrir um að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skuli fara fram hjá hreppstjórum, í skrifstofu eða á heimili hreppstjóra. Á síðustu árum hefur heimildin sjaldan verið notuð. Þykir heimild sýslumanna til að skipa sérstaka kjörstjóra nægja til að unnt sé að sinna þeirri þörf sem b-lið 1. mgr. 58. gr. gildandi laga er ætlað að uppfylla.
    Í b-lið 33. gr. frumvarpsins er orðalagi breytt lítils háttar.
    Með d-lið 33. gr. frumvarpsins er lagt til að lokamálsliður 3. mgr. 58. gr. laganna falli brott. Umrædd málsgrein fjallar um atkvæðagreiðslur í heimahúsum. Samkvæmt málsliðnum hefur kjörstjóra verið heimilt að tilnefna í sinn stað tvo trúnaðarmenn til að sjá um atkvæða­greiðslunnar hjá kjósanda. Ekki þykir ástæða til að kjörstjórar hafi slíka heimild, enda dugar að sýslumönnum sé heimilt að fela sérstökum kjörstjórum slíkt verkefni.
    Ákvæði c- og f-liðar eru tilkomin vegna þeirrar breytingar að a-lið 1. mgr. er skipt upp í 1. og 2. mgr. Þarf því að uppfæra tilvísanir til lagaákvæða í greininni að öðru leyti.
    Í 5. mgr. 58. gr. laganna er kveðið á um að innanríkisráðuneytið setji nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslna á stofnunum og í heimahúsum. Með d-lið 33. gr. er lagt til að reglurnar séu settar að tillögu landskjörstjórnar og að ráðuneytið skuli tilkynna landskjör­stjórn sérstaklega um það þegar slíkar reglur séu settar.

Um 34. gr.


    Í 59. gr. gildandi laga er fjallað um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar erlendis. Tvær efnislegar breytingar eru lagðar til á ákvæðinu. Annars vegar er lagt til að felldur verði brott áskilnaður um að atkvæðagreiðslan fari fram hjá fastanefndum Íslands hjá alþjóðastofnunum. Slík starfsemi þykir ekki falla vel að verkefnum fastanefnda og hefur utanríkisráðuneytið leitast við að beina kjósendum fremur til sendiráða eða kjörræðismanna. Hins vegar er lagt til að utanríkisráðuneytið upplýsi landskjörstjórn um tiltekin atriði varðandi atkvæðagreiðslu utan kjörfundar erlendis til að frekari heildarsýn verði til yfir framkvæmd kosninga en nú er.

Um 35. gr.


    Svo sem að framan greinir er með frumvarpinu lagt til að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefjist nokkru síðar en samkvæmt gildandi lögum Er nú mælt fyrir um að atkvæðagreiðsluna skuli hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur en eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Skv. 32. gr. frumvarpsins er á hinn bóginn gert ráð fyrir því að atkvæða­greiðslan megi að meginstefnu til hefjast 29 dögum fyrir kjördag.
    Ástæða þykir til að svipta kjósendur ekki með öllu möguleika á að greiða atkvæði fyrir þetta tímamark. Með 35. gr. frumvarpsins er því lagt til að kjósendur muni sem fyrr eiga þess kost að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá sýslumanni frá og með þeim degi þegar um átta vikur eru til kjördags. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 8. kafla norsku kosningalaganna. Heimildin verður takmörkuð við þau tilvik þegar kjósandi getur sýnt fram á að hann muni hvorki eiga þess kost að kjósa utan kjörfundar með hefðbundnum hætti né á kjörfundi. Heimildin verður aðeins nýtt hjá sýslumanni, sbr. nýja 2. mgr. 58. gr. laganna sem verður 59. gr. þeirra. Tilvik sem kunna að falla undir ákvæðið eru t.d. ef kjósandi getur sýnt fram á að hann verði hvorki á landinu á því tímabili sem unnt er að kjósa utan kjörfundar né á kjördag. Þá þarf að liggja fyrir að kjósandi muni ekki á sama tímabili eiga þess kost að greiða utan kjörfundar samkvæmt öðrum ákvæðum XII. kafla laganna. Einkum koma til greina tilvik þar sem kjósandi getur sýnt fram á að hann verði staddur erlendis þegar hefðbundin atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram og muni starfs eða heilsu sinnar vegna ekki eiga þess kost að greiða atkvæði utan kjörfundar þar. Í því tilliti nægir ekki að kjósandi sé erlendis, búsettur fjarri íslensku sendiráði, sendiræðisskrifstofu eða skrifstofu kjörræðismanns. Tilvik sem kynnu að falla undir heimildina væru t.d. ef fyrir lægi að kjósandi yrði á siglingu erlendis allt umrætt tímabil eða við störf sem krefðust stöðugrar nærveru hans fjarri íslensku sendiráði, sendi­ræðisskrifstofu eða skrifstofu kjörræðismanns. Þá gæti heimildin átt við ef kjósandi hygðist sækja sér læknismeðferð erlendis á umræddu tímabili og líklegt væri að hann mundi heilsu sinnar vegna ekki eiga þess kost að kjósa í íslensku sendiráði, sendiræðisskrifstofu eða skrif­stofu kjörræðismanns í viðkomandi ríki. Er rétt að sýslumaður geri þá kröfu að kjósandi leggi fram einhver þau gögn sem geti rennt stoðum undir ástæður sem þessar og gæti vottorð frá yfirmanni eða lækni dugað í framangreindum tilvikum eða aðrar upplýsingar sem vörpuðu ljósi á aðstæður.
    Í 60. gr. gildandi laga er kveðið á um heimild kjósenda sem eru í áhöfn eða eru farþegar um borð í íslensku skipi í siglinum erlendis eða á fjarlægum miðum megi kjósa um borð í skipinu. Í þessum tilvikum eru skipstjórar eða þeir sem skipstjórar tilnefna kjörstjórar. Um­rædd heimild hefur ekki verið nýtt um langa hríð og þykir hún óþörf. Er því lagt til að ákvæðið verði fellt brott.

Um 36. gr.


    Í 63. gr. gildandi laga er fjallað um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Í 1. mgr. er tilgreint hvernig kjósandi skal gera grein fyrir sér. Miðað hefur verið við að sjálfsagt sé að kjósandi greini frá nafni, heimili og fæðingardegi. Í gildandi lögum er nefnt í dæmaskyni að kjósandi skuli gera grein fyrir sér með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini. Með kennivottorði hefur verið átt við vegabréf, ökuskírteini, bankakort, greiðslukort o.fl. en orðið kennivottorð þykir ógagnsætt nú á dögum. Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði fram að framvísa þurfi persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, svo sem talið hefur verið að þyrfti til þessa, og nefnd verði í dæmaskyni skilríki sem kjósendur nota alla jafnan núorðið, þ.e. vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini. Getur nægt að kjósandi framvísi greiðslukorti í þessu skyni, að því tilskildu að þar komi fram nafn, kennitala og mynd. Sem fyrr verður kjörstjórum þó eftirlátið mat um það hvað þurfi til að koma til að kjósandi hafi gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt. Þekki kjörstjóri kjósanda er t.d. óþarfi að hann geri grein fyrir sér með því að framvísa skilríkjum.
    Í b-lið ákvæðisins er lögð til sú breyting á 2. mgr. 63. gr. gildandi laga að áskilið verði að loka þurfi kjörseðilsumslagi tryggilega auk þess sem kveðið verði á um það skýrlega hvernig kjörstjóri skuli votta atkvæðagreiðsluna. Eru þessar orðalagsbreytingar í samræmi við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslna til þessa. Með frumvarpinu er gerð sú megin­breyting að kjörseðlar þurfa að vera stimplaðir til teljast gildir. Þarf kjörstjóri því að stimpa bakhlið kjörseðils áður en hann er lagður í kjörseðilsumslagið.
    Með c-lið ákvæðisins er lögð til breyting á 6. mgr. 63. gr. gildandi laga. Ekki er gert ráð fyrir að umslag sé áritað til hreppstjóra, enda er lagt til í frumvarpinu að afnumið sé hlutverk þeirra við framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Í stað orðanna „telur sig standa“ á kjörskrá kemur „telur sig vera“ á kjörskrá. Þá er lagt til að aftan á svokallað sendiumslag skuli aðeins rita kennitölu viðkomandi kjósanda en ekki nafn hans og lögheimili, enda rétt að auðkenna atkvæði einstakra kjósenda ekki frekar en nauðsynlegt er. Er slíkt enn fremur til einföldunar auk þess sem það kemur í veg fyrir hættu á að sendiumslagið fari á heimili kjósandans. Enn fremur er lagt til að við ákvæðið bætist nýr málsliður um að í stað upplýs­inga um kennitölu kjósandans verði heimilt að merkja sendiumslagið með sérstöku merki er geymi kennitölu hans. Mun landskjörstjórn setja sérstök fyrirmæli um útlit þeirra og notkun.

Um 37. gr.


    Í 64. gr. gildandi laga er kveðið á um að kjósandi megi fá annan kjörseðil ónýtist sá seðill sem hann hefur þegar fengið. Með frumvarpinu er lagt til að kjörstjóri skuli farga ónýta kjörseðlinum í viðurvist kjósanda.

Um 38. gr.


    Lögð er til breyting á 2. mgr. 65. gr. gildandi laga þannig að ekki fari á milli mála að kjós­andi getur farið fram á að kjörstjóri komi atkvæðabréfinu í póst og greiði jafnframt undir það almennt póstburðargjald. Óski kjósandi eftir því að atkvæðabréfið sé sent með öðrum hætti, svo sem hraðþjónustu ber kjósandi sjálfur kostnað af sendingunni sem kjörstjóri kemur í póst eins og á við þegar kjósandi gerir það sjálfur.

Um 39. gr.


    Með frumvarpinu er lagt til að orðalagi 4. mgr. 66. gr. gildandi laga verði breytt. Í 1. mgr. 66. gr. er fjallað um skrá sem kjörstjóri skal halda yfir nöfn þeirra kjósenda sem greiða atkvæði hjá honum utan kjörfundar og í 2. mgr. um skrár yfir annars vegar greidd og hins vega móttekin atkvæði. Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um að umboðsmönnum sé heimilt að kynna sér skrárnar á skrifstofu kjörstjóra en nú er aðeins kveðið á um að umboðsmenn skuli hafa aðgang að skránum. Með breytingunni er skýrar mælt fyrir um að umboðsmenn skuli ekki fá afrit af skránum til skoðunar utan skrifstofu kjörstjóra.

Um 40. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um ýmis atriði er varða kjörfundarstofu og kjörklefa. Í gildandi 2. mgr. 69. gr. er kveðið á um að atkvæðakassi skuli þannig búinn að ekki sé unnt að ná kjörseðli úr honum án þess að opna hann, svo sem gert er í frumvarpinu, en einnig að unnt skuli vera að læsa kassanum. Með frumvarpinu er lagt til að hvorutveggja sé heimilt að nota kjörkassa sem unnt er að læsa en einnig kjörkassa sem aðeins eru innsiglaðir. Ef farin er sú leið að innsigla kassa skal það þannig gert að þess sjáist merki ef þeir eru opnaðir. Réttaráhrif þess að innsigli sé rofið verða þá þau sömu og ef í ljós kemur að kjörkassi hafi verið ólæstur eða hann brotinn upp. Þótt að öllu jöfnu sé auðveldara að rjúfa innsigli en opna lása verður talið að þessi leið dragi ekki um of úr öryggi kosninga, enda þekkist í öðrum löndum að búið sé með þessum hætti um atkvæðakassa.
    Það er nýmæli að tekið er fram að í upphafi kjörfundar skuli kjörstjórn ganga úr skugga um að kjörkassar séu tómir og læstir eða innsiglaðir. Ákvæðið er annars samhljóða gildandi 69. gr. að því undanskildu að landskjörstjórn í stað innanríkisráðherra er falið að setja reglur um gerð atkvæðakassa en auk þess er kjörstjórninni falið að setja reglur um tilhögun í kjör­fundarstofu og um innsigli. Samhliða þessu er felld brott krafa um að í kjörklefa sé lítið borð sem megi skrifa við, enda verður fjallað um slík atriði í reglum landskjörstjórnar. Ljóst er að með frumvarpinu er vægi innsigla nokkuð aukið að þessu leyti. Er því mikilvægt að í reglunum sé mælt fyrir um hvernig innsigli skuli úr garði gerð, hverjir skuli fara með vörslur þeirra og hvernig þau skuli eftir atvikum vera skráð.

Um 41.–43. gr.


    Með frumvarpinu er lagt til að verklagi við atkvæðagreiðslu á kjörfundi verði breytt nokkuð. Gert er ráð fyrir að kjörseðlar verði aðeins teknir gildir við talningu hafi þeir hlotið stimpil kjörstjórnar eftir að kjósandi hefur merkt á kjörseðil hvernig hann hyggst greiða atkvæði. Af þessum sökum breytist verklag kjörstjórnar nokkuð. Að því er varðar 75. og 79. gr. gildandi laga skiptir máli að þær athafnir kjörstjórnar sem þar er fjallað um, þ.e. merk­ingar í kjörskrá og auðkenning kjósenda, munu formlega fara fram eftir að kjósandi hefur farið í kjörklefa. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að fjallað verði um þessi atriði í nýrri 85. gr. og nýjum 85. gr. a – 85. gr. c laganna, sbr. 44. og 45. gr. frumvarpsins. Í samræmi við 30. og 32. gr. frumvarpsins er ekki lengur þörf á að nákvæmlega sé kveðið á um það hvernig fara skuli með kjörseðla.
    Með greinunum eru 75. og 79. gr. laganna felldar úr gildi.
    Í 77. gr. gildandi laga er fjallað um upplýsingar og gögn sem skulu vera fyrir hendi í kjörfundarstofu. Með 42. gr. frumvarpsins er það verkefni að útvega viðkomandi gögn falið landskjörstjórn í stað innanríkisráðuneytisins.

Um 44. gr.


    Ákvæðið svarar efnislega til 79. og 85. gr. gildandi laga. Sú breyting er gerð að kjósandi gerir kjörstjórn grein fyrir sér eftir að hafa greitt atkvæði í kjörklefa en áður en atkvæðið er lagt í atkvæðakassa. Þá er orðalagi breytt um það hvernig kjósandi skuli gera grein fyrir sér. Í gildandi lögum er nefnt í dæmaskyni að kjósandi skuli gera grein fyrir sér með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini. Með kennivottorði hefur verið átt við vegabréf, ökuskírteini, bankakort, greiðslukort o.fl. en orðið kennivottorð þykir ógagnsætt nú á dögum. Með frumvarpsákvæðinu er lagt til að tekið verði fram að framvísa þurfi persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, svo sem talið hefur verið að þyrfti til þessa, og nefnd verði í dæmaskyni skilríki sem kjósendur nota alla jafnan núorðið, þ.e. vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini. Getur nægt að kjósandi framvísi greiðslukorti í þessu skyni, að því tilskildu að þar komi fram nafn, kennitala og mynd. Sem fyrr verður kjörstjórn þó eftirlátið mat um það hvað þurfi til að koma til að kjósandi hafi gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt. Þekki kjör­stjórn kjósanda er t.d. óþarfi að hann geri grein fyrir sér með því að framvísa skilríkjum.

Um 45. gr.


    Ákvæðið felur í sér að á eftir 85. gr. laganna komi þrjár nýjar greinar 85. gr. a – 85. gr. c. Greinarnar ásamt 44. gr. frumvarpsins leiða allar af breyttri kosningaathöfn sem lýkur með því að kjörstjórn eða fulltrúi hennar setur stimpil hennar á bakhlið kjörseðilsins áður en kjósandi leggur hann í atkvæðakassann.
     Um a-lið (85. gr. a).
    Ákvæðið felur í sér nýja grein, 85. gr. a, og svarar efnislega til lokamálsliða 79. og 85. gr. gildandi laga. Með frumvarpinu er verklagi á kjörstað breytt á þann hátt að atkvæði verði aðeins metið gilt hafi kjörstjón stimplað bakhlið kjörseðils. Mun kjósandi merkja á kjörseð­ilinn í kjörklefa hvernig hann hyggst greiða atkvæði og því næst gera grein fyrir sér hjá kjörstjórn. Kosningaathöfninni lýkur þegar kjósandi hefur lagt kjörseðilinn í atkvæðakassann, en þá hefur hann greitt atkvæði. Leiði athugun kjörskrár í ljós að kjósandi sé á kjörskrá, sbr. 85. gr. a, skal stimpla bakhlið kjörseðils og kjósandi síðan leggja hann í atkvæðakassa. Mikil­vægt er að kjósandi og kjörstjórn gæti að því að hvorki kjörstjórn né aðrir sem mögulega eru viðstaddir nái að greina hverjum kjósandi hyggst greiða atkvæði sitt.
     Um b-lið (85. gr. b).
    Ákvæði felur í sér nýja grein 85. gr. b. Í gildandi 75. gr. laganna er kveðið á um að oddviti kjörstjórnar og annar meðkjörstjóranna skuli hafa fyrir sér hvor sitt eintak kjörskrárinnar. Skuli þeir gera merki við nafn hvers kjósanda um leið og hann hafi neytt kosningarréttar síns. Með tilkomu rafrænnar kjörskrár er þörf á að breyta umræddu ákvæði sem sýnilega vísar til prentaðrar kjörskrár. Ekki þykir lengur ástæða til að áskilið sé í lögum að tveir kjörstjórnar­menn merki við nafn kjósanda. Þess í stað muni einn kjörstjórnarmaður skrá atkvæðagreiðslu kjósanda í rafræna kjörskrá en annar gæti að því að merking hans sé rétt.
    Samkvæmt frumvarpinu mun í undantekningartilvikum verða heimilt að notast við prentaða kjörskrá. Í 2. mgr. er kveðið á um hvernig haga skuli merkingum í slíkum tilvikum. Er ákvæðið efnislega hið sama og í gildandi 75. gr. Ekki þykir ástæða til að taka upp breytt verklag í þessum tilvikum.
     Um c-lið (85. gr. c).
    Ákvæðið felur í sér nýja grein, 85. gr. c. Kosning getur ekki átt sér stað nema kjörstjórn hafi aðgang að kjörskrá og er nauðsynlegt að lögin geri ráð fyrir þeim möguleika að bilun eða annars konar truflun valdi því að ekki sé unnt að nota rafræna kjörskrá á kjörfundi. Er fjallað um framkvæmd í slíkum tilvikum í greininni. Slíkar bilanir geta hvorutveggja verið bundnar við tiltekna kjördeild eða kjörstað en einnig verið miðlægar og tekið til rafrænnar kjörskrár í heild sinni. Þá kunna slíkar truflanir að vera tilkomnar vegna annarra atriða en virkni kjör­skrárinnar sjálfrar og má í því samhengi nefna rafmagnstruflanir eða bilanir í tölvubúnaði kjörstjórnar. Miða verður við að ekki sé unnt að nota rafræna kjörskrá við kosningu ef kjör­stjórn getur ekki fengið tæmandi upplýsingar um það hvaða kjósendur hafi hverju sinni kosið í öllum kjördeildum sveitarfélags eða ef einhver kjörstjórn getur ekki jafnóðum komið upp­lýsingum um kosningu í sinni kjördeild til annarra kjörstjórna. Truflanir á notkun rafrænnar kjörskrár geta því hvorutveggja verið almennar og staðbundnar.
    Þótt leggja verði áherslu á að draga úr hættu á slíkum bilunum eða truflunum, og að tryggt verði að slíkt ástand vari aðeins í skamma stund, er mikilvægt að lögin geri ráð fyrir því að kosning geti farið fram engu síður. Af þessum sökum er í 1. mgr. að finna heimild til að halda kosningu án þess að merkt sé við kjósendur í kjörskrá. Skal þá kjósandi fá sérstakt kjörseðils­umslag sem kjörseðill er settur í og árita sendiumslag þar sem getið er um ástæðu þess að kosið sé með þessum hætti. Er atkvæðið síðan látið í atkvæðakassa eins og vant er. Undir­kjörstjórn skrifar í þessum tilvikum hvergi niður eða merkir við nafn kjósanda en heldur þess í stað utan um þann fjölda atkvæða sem greidd eru með þessum hætti. Um uppgjör þessara atkvæða er síðan fjallað nýrri grein, 99. gr. a, sbr. 52. gr. frumvarpsins.
    Ætla verður að sjaldan muni reyna á það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í ákvæðinu, enda verði kapp lagt á að hin rafræna kjörskrá virki. Ljóst er að framkvæmd verður um­talsvert þyngri í vöfum ef kjósa þarf samkvæmt ákvæðinu til lengri tíma á kjördegi auk þess sem uppgjör atkvæða verður nokkuð flóknara. Komi upp bilun sem hamlar því að rafræn kjörskrá sé notuð er rétt að kjörstjórn stöðvi þegar hefðbundna atkvæðagreiðslu og hefji undirbúning atkvæðagreiðslu samkvæmt ákvæðinu. Um leið gefst viðeigandi stjórnvöldum tækifæri til að bæta úr þeirri bilun eða truflun sem upp hefur komið. Rétt er að töf á atkvæða­greiðslu vegna þessa verði alls ekki lengri 30 mínútur. Hafa skal í huga að staðbundnar bil­anir munu að öllum líkindum hafa takmörkuð áhrif á stærri þéttbýlissvæðum, enda mun kjós­endum þá vera unnt að kjósa í öðrum kjördeildum þar sem rafræn kjörskrá hefur ekki orðið fyrir truflun. Í slíkum tilvikum mun einfaldast vera að beina kjósendum í aðra kjördeild þar sem vitað er að rafræn kjörskrá er í lagi.

Um 46. gr.


    Orðalagi f-liðar 1. mgr. 91. gr. laganna er breytt til samræmis við breytingar á XI. kafla laganna um kjörgögn er lúta að því að landskjörstjórn en ekki innanríkisráðuneytið skal útbúa kjörgögn og láta þau kjörstjórnum í té.

Um 47. gr.


    Með frumvarpinu er lagt til að atkvæði verði aðeins talið gilt hafi kjörseðill verið stimpl­aður af kjörstjórn. Er því ekki þörf á að lögin hafi að geyma jafn skýrar reglur um meðferð kjörseðla. Því mælir frumvarpið fyrir um að felld verði úr gildi ákvæði 1. mgr. 95. gr. gild­andi laga um varðveislu á ónýtum og ónotuðum kjörseðlum í sérstökum umslögum.

Um 48. gr.


    Þótt ráða mætti af 2. mgr. 95. gr. gildandi laga að atkvæðakassar skuli ætíð sendir yfir­kjörstjórn eftir að atkvæðagreiðslu er slitið er skýrt af 3. mgr. 99. gr. laganna að gert hefur verið ráð fyrir að atkvæðakassar séu í einhverjum tilvikum afhentir fyrr, enda kveður síðar­nefnda ákvæðið á um að heimilt sé að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra fyrir luktum dyrum áður en kjörfundi lýkur. Með frumvarpinu er lagt til að á eftir 1. mgr. 98. gr. komi ákvæði sem mæli fyrir um heimild yfirkjörstjórnar til þess að hefja flokkun og talningu atkvæða fyrir luktum dyrum, til að mynda með því að flokka atkvæði í tölusetta bunka eftir framboðslistum. Þá skuli skýrlega kveðið á um að rýmið skuli vera lokað og vaktað af hálfu yfirkjörstjórnar þar til kjörfundi er lokið. Ákvæðið felur því í sér undantekningu frá þeirri reglu sem fram kemur í 1. mgr. 98. gr. um að talning atkvæða skuli fara fram fyrir opnum dyrum. Er því enn mikilvægara en ella að við þessar aðstæður sé gætt að því að viðstaddir séu umboðsmenn lista eða valinkunnir menn úr sömu stjórnmálasamtökum, sbr. 2. mgr. 98. gr. laganna sem verður 3. mgr. ákvæðisins.

Um 49. gr.


    Heimild til flokkunar atkvæða í 3. mgr. 99. gr. laganna á ekki við, þar sem lagt er til í 52. gr. frumvarpsins að heimilt verð að hefja flokkun og talningu atkvæða áður en kjörfundi er lokið.

Um 50. gr.


    Í nýrri 99. gr. a er kveðið á um hvernig fara skuli með atkvæði sem greidd eru skv. 85 gr. c. Skal yfirkjörstjórn eða umdæmiskjörstjórn þá safna saman þeim ytri umslögum sem í ljós koma þegar atkvæðakassar eru opnaðir og fara yfir hvort taka skuli atkvæðin til talningar eða hvort þau teljist ógild. Á hið síðarnefnda við ef kjósandi hefur kosið oftar en einu sinni á grundvelli 85. gr. c eða ef hann hefur hvoru tveggja kosið þannig og einnig samkvæmt rafrænni kjörskrá. Hafi kjósandi kosið með aðstoð rafrænnar kjörskrár er það atkvæði tekið til talningar en atkvæði skv. 1. mgr. telst ógild. Leiðir sú niðurstaða af því að fyrrnefnda atkvæðið er ekki sérgreint og verður ekki hjá því komist að taka það til talningar. Hafi kjósandi oftar en einu sinni kosið skv. 85. gr. c er fyrsta atkvæðið tekið til talningar en hin síðari ógilt. Af þessum sökum er mikilvægt að undirkjörstjórnir sem sjá um kosningu skv. 85. gr. skrásetji á ytra umslagið hvenær atkvæðagreiðsla fór fram. Ekki þykir ástæða til að gefa kjósendum kost á að skipta um skoðun og taka síðara atkvæðið sem greitt er skv. 85. gr. c gilt.
    Þegar yfirkjörstjórn hefur fjallað um það hvaða atkvæði sem greidd hafa verið skv. 85. gr. c skuli taka til talningar eru þau kjörseðilsumslög sett óopnuð í ílát það sem kveðið er á um í 1. mgr. 99. gr. laganna. Eru umslögin síðan opnuð og atkvæðaseðlar flokkaðir skv. 2. mgr. 99. gr. laganna. Með þessu verklagi skal tryggt að rofin séu tengsl atkvæðaseðlanna við ytri umslög þeirra sem svo sem að framan greinir eru merkt nöfnum kjósenda. Atkvæði sem ógildast, sbr. niðurlag 99. gr. a, skulu geymd þar til úrskurðað hefur verið um gildi kosninga eins og almennt á við um ógild atkvæði.

Um 51. gr.


    Breytingarnar eru gerðar samhliða því að tekið er upp það verklag að kjörstjórnir og kjós­andi stimpli kjörseðla til marks um að kjósandi sé á kjörskrá og hafi réttilega greitt atkvæði utan kjörfundar eða á kjörfundi. Skulu atkvæði talin ógild ef þau hafa ekki verið stimpluð. Áskilið er að notaður sé stimpill sem landskjörstjórn hefur látið gera til verksins, sbr. breytta 54. gr. laganna sem verður 55. gr. þeirra.

Um 52. gr.


    Í 104. gr. gildandi laga er fjallað um frágang yfirkjörstjórnar að lokinni talningu atkvæða. Gert er ráð fyrir því að varðveitt séu eftirrit af gerðabók yfirkjörstjórnar ásamt ágreinings­seðlum auk kjörskráa. Hefur innanríkisráðuneytið séð um að varðveita umrædd gögn sam­kvæmt gildandi lögum. Með frumvarpinu er lagt til að þetta verkefni verði falið landskjör­stjórn.
    Þá er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein til samræmis við þá breytingu að tekin verði upp rafræn kjörskrá sem meginregla. Merkingar í slíka kjörskrá á kjörfundi og varð­veisla hennar að loknum kosningum lúta sömu reglum og kjörskrá á pappírsformi. Því er nauðsynlegt að kveðið verði sérstaklega á um varðveislu slíkrar kjörskrár sem Þjóðskrá Íslands heldur utan um og eyðingu hennar. Samhliða þessu er lagt til að í 116. gr. laganna verði fjallað um aðgang Hagstofu Íslands að upplýsingum úr rafrænni kjörskrá.

Um 53. gr.


    Samkvæmt 111. gr. gildandi laga hefur landskjörstjórn fengið kjörnum þingmönnum kjör­bréf sem samin skulu samkvæmt fyrirmynd sem innanríkisráðuneytið hefur sagt fyrir um. Með frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn ákveði sjálf hvernig kjörbréfið skuli úr garði gert.

Um 54. gr.


    Í 2. málsl. 112. gr. gildandi laga er mælt fyrir um að landskjörstjórn skuli senda ráðuneyt­inu eftirrit af gerðabók sinni um úthlutun þingsæta, svo og skýrslur þær og skilríki frá yfir­kjörstjórnum sem ágreiningur kann að vera um. Skal ráðuneytið síðan leggja umrædd gögn fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum og það tók við því. Með frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn skuli sjálf varðveita umrædd gögn og láta Alþingi í té með sama hætti og ráðuneytinu bar áður.

Um 55. gr.


    Í 1. mgr. 115. gr. gildandi laga er fjallað um uppkosningar vegna ógildingar kosninga. Samkvæmt ákvæðinu skal ráðuneytið þá kveðja til nýrra kosninga með auglýsingu og ákveða kjördag svo sem nánar er tilgreint í lögunum. Með frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn verði falið þetta verkefni.

Um 56. gr.


    Með greininni er mælt fyrir um aðgang Hagstofu Íslands að upplýsingum úr rafrænni kjör­skrá við hagskýslugerð sína. Lagt er til að sú upplýsingaöflun fari fram samhliða annarri upplýsingagjöf yfirkjörstjórna til Hagstofunnar. Merkingar um kosningaþátttöku í rafræna kjörskrá geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Því er mikilvægt að fram komi að við vinnslu upplýsinga úr rafrænni kjörskrá skulu yfirkjörstjórnir og Hagstofan gæta ákvæða laga um persónuvernd.

Um 57. gr.


    Í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru til á 116. gr. laganna, sbr. 56. gr. frumvarpsins, er fyrirsögn XIX. kafla laganna breytt til samræmis.

Um 58. gr.


    Í greininni er fjallað um sérstaka úrskurðarnefnd kosningamála. Nefndinni er ætlað að fjalla um kærur er varða ágreining um hvort og hvar skuli taka kjósanda á kjörskrá og ákvarðanir landskjörstjórnar um skráningu stjórnmálasamtaka, þ.m.t. heiti þeirra, úthlutun listabókstafa og gildi framboðslista.
    Fjallað er um skipan nefndarinnar í 1. mgr. Ráðherra skipar nefndarmenn en er bundinn af tilnefningum þeirra sem nefndir eru í ákvæðinu. Þannig skulu Hæstiréttur Íslands, Alþingi og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefna eða kjósa hver sinn nefndarmanninn og skal Hæstiréttur Íslands tilnefna formann nefndarinnar. Áskilið er að Alþingi og Samband ís­lenskra sveitarfélaga tilnefni einstaklinga sem hafa reynslu af framkvæmd kosninga. Er umræddum aðilum falið að meta hvað telst nægjanlegt í þessum efnum en ljóst er að til að skilyrðinu sé fullnægt verða nefndarmenn að hafa gegnt einhverju starfi við framkvæmd kosninga. Nægjanlegt verður að telja að viðkomandi hafi setið í kjörstjórn þótt ekki væri nema í eitt sinn. Ekki er nauðsynlegt að starfið sé einvörðungu á sviði kosninga og mundi nægja að viðkomandi hefði starfað hjá embætti sýslumanns eða hjá Þjóðskrá Íslands að því tilskildu að hann eða hún hefði þar fengist við störf tengd kosningum. Þá verður ekki gerð sú krafa að starfið sé á vegum hins opinbera og kæmi því til greina að einstaklingar sem hefðu verið umboðsmenn framboðslista tækju sæti í úrskurðarnefndinni. Á hinn bóginn nægir ekki að einstaklingur hafi verið á framboðslista, enda gera lögin ekki ráð fyrir að þeir hafi sérstakt hlutverk við sjálfa framkvæmd laganna nema í undantekningartilvikum. Ekki verður gerð sú krafa að framangreind reynsla sé fengin af framkvæmd alþingiskosninga og mundi einstaklingur sem hefði setið í kjörstjórn í kosningum til sveitarstjórnar, forsetakosningum eða þjóðaratkvæðagreiðslum sem framkvæmdar eru með stoð í lögum uppfylla umrætt hæfisskilyrði. Á hinn bóginn mundi einstaklingur ekki uppfylla skilyrðið sem aðeins hefði reynslu af framkvæmd kosninga sem ekki teljast almennar eða væru framkvæmdar á grund­velli laga, svo sem á vettvangi félaga eða frjálsra félagasamtaka, eða íbúakosninga, um af­mörkuð málefni sveitarfélags.
    Samkvæmt gildandi lögum hafa sveitarstjórnir hvorutveggja samið kjörskrá og fjallað um athugasemdir kjósenda við þær. Með frumvarpinu er Þjóðskrá Íslands falið að semja kjör­skrárnar og fjalla um athugasemdir en kjósendum síðan gert kleift að kæra niðurstöður Þjóð­skrár til sérstakrar úrskurðarnefndar. Ákvarðanir um leiðréttingar á kjörskrá er unnt að taka alveg fram á kjördag og gera lögin ráð fyrir að lengd fresta taki mið af því að unnt sé að framkvæma málsmeðferð samkvæmt lögunum áður en kjördegi lýkur. Kærufrestur vegna þessara ákvarðana er skammur eða sólarhringur frá því að Þjóðskrá tekur ákvörðun. Á hinn bóginn er ekki kveðið á um það hvenær úrskurðarnefndin skal hætta að taka við kærum. Nefndinni ber því að taka við öllum þeim kærum sem berast á kjördag og gera það sem unnt er til að úrskurða um þær áður en honum lýkur. Þegar kjörfundi lýkur hafa kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfu sína og ber þá að vísa þeim kærum sem eftir standa frá nefndinni. Synjun Þjóðskrár á umsókn kjósanda um að verða tekinn á kjörskrá samkvæmt nýrri 2. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 1. gr. frumvarpsins, er einnig kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. tölul. 2. mgr. greinarinnar. Í slíkum tilvikum á kjósandi einn rétt á að kæra synjun Þjóðskrár til nefndarinnar.
    Í 2. tölul. 2. mgr. er vísað til heimildar 35. gr. laganna til að kæra ákvarðanir landskjör­stjórnar um skráningu stjórnmálasamtaka og úthlutun listabókstafa, sbr. nánar tiltekið 3. mgr. umræddrar lagagreinar. Önnur stjórnmálasamtök sem fá ekki skráð heiti sitt eða úthlutað þeim listabókstaf sem sóst er eftir geta kært ákvarðanir landskjörstjórnar þar að lútandi til úrskurðarnefndarinnar. Að sama skapi geta eldri stjórnmálasamtök sem telja ákvarðanir landskjörstjórnar í málum nýrri samtaka brjóta gegn réttindum sínum kært umræddar ákvarð­anir til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt gildandi lögum er það innanríkisráðuneytið sem sér um úthlutun listabókstafa og hefur eins konar eftirlit með því hvort nöfn nýrra stjórnmála­samtaka séu villandi. Ekki hefur verið unnt að skjóta ákvörðunum ráðuneytisins þar að lút­andi til úrskurðaraðila innan stjórnsýslunnar.
    Í 3. tölul. 2. mgr. er vísað til heimildar 45. gr. laganna til að kæra ákvarðanir landskjörstjórnar um gildi framboðslista og önnur atriði sem landskjörstjórn ber að fjalla um samkvæmt því ákvæði. Reynt getur á ýmsa þætti ákvarðana landskjörstjórnar hvað þetta varðar. Fyrst og fremst kunna umboðsmenn lista að kæra ákvarðanir landskjörstjórnar er lúta að gildi hans en ekki er unnt að útiloka að aðrir umboðsmenn kæri ákvarðanir um að framboðslisti sé gildur. Samkvæmt nýrri 47. gr. b eiga umboðsmenn stjórnmálasamtaka einnig rétt á að vera viðstaddir fundi landskjörstjórnar skv. 45. gr. Kunna þeir að eiga rétt á að kæra einstakar ákvarðanir landskjörstjórnar sbr. t.d. ákvarðanir um það hverjum samtökum skuli telja einstaka framboðslista eða merkingu lista, sbr. b- og c-lið 1. mgr. 45. gr., sbr. 22. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 128 gr. b, sbr. b-lið 62. gr. frumvarpsins, gilda stjórnsýslulög, nr. 37/1993, um meðferð fyrir úrskurðarnefndinni. Svo sem almennt á við er unnt að leita til dómstóla vegna úrskurða nefndarinnar en það á raunar við um þær ákvarðanir sem unnt er að kæra til nefndarinnar. Þá er áréttað að kæra til nefndarinnar frestar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og á slíkt hið sama við ef umræddar ákvarðanir eru bornar undir dómstóla. Loks er áréttað að úrskurðum nefndarinnar verði ekki skotið til annars stjórnvalds.

Um 59. gr.


    Í 118. gr. gildandi laga er að finna heimild kjósenda til að kæra kosningu til Alþingis. Samkvæmt ákvæðinu skal ráðuneytið taka við kærunni og koma henni til Alþingis og um­boðsmanna viðkomandi framboðslista sem kæran varðar. Með frumvarpinu er lagt til að landskjörstjórn verði falið þetta verkefni ráðuneytisins.

Um 60. gr.


    Í 120. gr. gildandi laga er fjallað um úrskurð Alþingis um gildi kosninga. Lagt er til að ný málsgrein bætist við lagagreinina þess efnis að landskjörstjórn skuli leggja fyrir Alþingi rökstudda umsögn um kærur út af gildi kosninga og mati á kjörgengi kjörinna fulltrúa. Með slíku er leitast við að tryggja að mál sé sem best upplýst og að fyrir liggi sjónarmið og þær röksemdir sem kæra um gildi kosninga byggist á. Þá er áréttað að landskjörstjórn skuli láta Alþingi í té öll þau gögn og upplýsingar sem það hefur þörf fyrir við umfjöllun sína um gildi kosninga. Á slíkt til að mynda við um ýmsa útreikninga sem liggja að baki úthlutun þingsæta. Þykir rétt að skýrt sé kveðið á um þessa skyldu þess stjórnvalds sem frumvarpið gerir ráð fyrir að hafi yfirumsjón með framkvæmd kosninga.

Um 61. gr.


    Í 123. gr. gildandi laga er fjallað um greiðslu kostnaðar við framkvæmd á lögunum. Skv. a-lið þeirrar greinar skal ríkissjóður greiða nauðsynlegan kostnað við störf landskjörstjórnar og fyrir kjörgögn þau og áhöld er ráðuneytið eða landskjörstjórn lætur í té, svo og fyrir húsnæði til afnota fyrir landskjörstjórn. Í frumvarpinu er miðað við að ráðuneytið muni ekki lengur láta í té kjörgögn eða neins konar áhöld vegna framkvæmdar kosninga. Er því lagt til að tilvísun til ráðuneytisins í þessu samhengi verði felld brott.

Um 62. gr.


    Í greininni er lagt til að við lögin bætist nýr kafli, XXV. kafli, sem innihaldi ýmiss konar ákvæði, 128. gr. a – 128. gr. c.
     Um a-lið (128. gr. a).
    Í a-lið er lagt til að í nýrri grein, 128. gr. a, verði kveðið á um hlutverk sérstakra kosninga­eftirlitsmanna en slík ákvæði hefur skort í gildandi lög. Gera lögin ráð fyrir að slíkir eftirlitsmenn starfi á vegum stofnana eða samtaka og fái heimild landskjörstjórnar til að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Geta viðkomandi stofnanir eða samtök, sem og kosningaeftirlitsmennirnir sjálfir, verið annaðhvort innlend eða erlend. Er hér m.a. haft í huga að hingað til lands hafa komið erlendir eftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem Ísland er aðili að, til að fylgjast með framkvæmd kosninga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um á að hafi landskjörstjórn veitt eftirlitsmönnum heimild til slíks eftirlits skuli þær kjörstjórnir og stofnanir sem sjá um framkvæmd kosninga taka á móti þeim og auðvelda þeim allt eftirlitsstarf. Á hið sama við um landskjörstjórn og alla þá sem starfa á vegum allra framangreindra aðila. Í þessu skyni skal landskjörstjórn útbúa sérstök skilríki sem eftirlitsmennirnir skulu bera við störf sín.
     Um b-lið (128. gr. b).
    Í b-lið er kveðið á um nýja 128. gr. b sem fjallar um gildissvið gagnvart öðrum lögum, þ.m.t. óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Á liðnum árum hafa komið upp tilvik þar sem vafi hefur þótt leika á að hvaða leyti starfsemi þeirra stofnana sem sjá um framkvæmd kosninga fellur undir almenn lög sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera. Er því ástæða til að skýrt sé kveðið á um þessi atriði að því er varðar þær stofnanir sem nefndar eru í ákvæðinu. Verður ekki gagnályktað frá ákvæðinu í þá veru að umrædd lög skuli ekki taka til starfsemi sem ekki er talin upp í því. Jafnframt er tekið fram að nefndum stofnunum beri í störfum sínum að fylgja almennum óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins, en slíkt getur haft þýðingu, til að mynda um hvernig þessar stofnanir haga úrlausn ákveðinna mála, svo sem svörum við erindum sem ekki eru hluti af sérstöku stjórnsýslumáli sem getur lokið með stjórnvalds­ákvörðun og einnig þegar kemur að mati umboðsmanns um hvernig rétt sé að þessar stofnanir standi að málum. Eftir sem áður mun til að mynda starfsemi þess ráðuneytis sem fer með kosningamál falla undir upplýsingalög þótt það sé ekki tiltekið í ákvæðinu. Meðferð Þjóðskrár Íslands á málum þar sem taka á stjórnvaldsákvarðanir verður einnig bundin stjórn­sýslulögum auk þess sem upplýsingalög gilda um starfsemi stofnunarinnar vegna framkvæmdar kosninga sem endranær. Auk þess sem almennar óskráðar reglur stjórnsýsluréttar eiga við.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að stjórnsýslulög skuli gilda þegar helstu stofnanir sem fara með framkvæmd kosninga taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í ákvæðinu felst fyrst og fremst að ekki þarf að taka afstöðu til þess hvort stjórnsýsla umræddra stofnana uppfylli áskilnað 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Við mat á því hvort stjórnsýslulög gildi um tiltekna stjórnsýslu reynir því einkum á hvort um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna. Við það mat reynir á hefðbundin sjónarmið við skýringu þess ákvæðis. Í fyrri málslið 2. mgr. er kveðið á um að upplýsingalög taki til starfsemi sömu kjörstjórna eða stofnana. Í ákvæðinu felst að þegar tekin er afstaða til gildissviðs upplýsingalaga gagnvart stjórnsýslu vegna kosninga þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort viðkomandi kjörstjórn eða stofnun teljist stjórnvald í skilningi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Gilda upplýsingalög því um framkvæmd kosninga. Í því samhengi ber þó að hafa í huga að ýmiss konar gögn og upplýsingar yrðu talin undanþegin ákvæðum upplýsingalaga og þá sérstaklega með hliðsjón af ákvæðum laga um framkvæmd kosninga sem gilda um takmarkanir á aðgangi að kjör­skrám, þagnarskyldu og refsiábyrgð ef ljóstrað er upp um kosningu kjósanda.
    Í síðari málslið 2. mgr. er kveðið á um að umboðsmaður Alþingis hafi eftirlit með stjórn­sýslu úrskurðarnefndar kosningamála, landskjörstjórnar, yfirkjörstjórna kjördæma, yfirkjör­stjórna sveitarfélaga og kjörstjóra. Í ákvæðinu felst að við afmörkun starfssviðs umboðs­manns samkvæmt lögum nr. 85/1997 þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort umrædd stjórn­sýsla teljist til „stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga“ í skilningi 1. mgr. 3. gr. laganna. Þá verður stjórnsýsla kjörstjórna og annarra stofnana ekki undanþegin starfssviðinu á grundvelli a-liðar 3. mgr. 3. gr. þótt til að mynda Alþingi kjósi til landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna kjör­dæma. Eftir sem áður verða störf dómstólanna þó undaþegin starfssviðinu að því marki sem stjórnsýsla kosningamála kann að koma inn á borð þeirra. Þá ber að hafa í huga að enn mun þurfa að uppfylla skilyrði 6. gr. laga nr. 85/1997 til að umboðsmaður taki kvörtun vegna framkvæmdar kosninga til meðferðar. Þannig getur umboðsmaður ekki fjallað um stjórnsýslu kjörstjórna eða annarra stofnana fyrr en kæruleiðir til stofnana samkvæmt þessu frumvarpi eða stjórnvalda sem ef við á hafa verið tæmdar og endanlegur úrskurður þeirra liggur fyrir. Ber í því samhengi að hafa í huga að í mörgum tilvikum kunna landskjörstjórn og úrskurðar­nefnd kosningamála að hafa eftirlitsheimildir vegna framkvæmdar kosninga en einnig kann úrskurðarnefndin að fjalla um mikilvægar ákvarðanir kjörstjórna í kjölfar kæru.
    Að baki ákvæðinu býr sú hugsun að ekki sé ástæða til að undanþiggja þessa framkvæmd kosninga frekar þeim almennu málsmeðferðarreglum sem gilda um starfsemi hins opinbera en gengur og gerist. Framkvæmd kosninga er mikilvæg í lýðræðisríkjum og æskilegt að réttindi stjórnmálasamtaka og kjósenda séu tryggð og framkvæmd sé ekki síður gegnsæ og stjórnsýsla almennt. Æskilegt er að umboðsmaður Alþingis hafi eftirlit með stjórnsýslu um framkvæmd kosninga, enda eru annmarkar þar að lútandi í mörgum tilvikum þess eðlis að úrlausnar um þá verður ekki leitað fyrir dómi. Er eftirlit umboðsmanns til þess fallið að skapa mikilvægt aðhald með framkvæmd á þessu sviði.
     Um c-lið (128. gr. c).
    Í c-lið er kveðið á um nýja 128. gr. c þar sem fjallað er um þagnarskyldu. 1. mgr. ákvæðisins er almennt þagnarskylduákvæði, en 2. mgr. þess er sérstakt ákvæði um þagnar­skyldu vegna tiltekinna upplýsinga sem bannað er að upplýsa. Með 2. mgr. ákvæðisins er áréttuð þagnarskylda sem refsiábyrgð gildir um skv. 126. gr. laganna, sbr. einnig áskilnað um þagnarskyldu í sömu tilvikum sem mælt er fyrir um í 86. gr. laganna, sbr. einnig 3. mgr. 63. gr. gildandi laga.

Um 63. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað sérstaklega um þá dönsku ríkisborgara sem eiga hér kosningarrétt á grundvelli laga nr. 85/1946 sem breyttu lögum nr. 18/1944, um réttindi danskra ríkis­borgara á Íslandi. Þar sem um er að ræða tímabundinn rétt og þeim Dönum sem hann hafa hefur fækkað umtalsvert er um að ræða sérstakt sólarlagsákvæði. Í framkvæmd hefur verið tekinn saman listi yfir þá Dani sem eiga kosningarrétt hér á landi á grundvelli nefndra laga. Við alþingiskosningarnar árið 2013 voru eftir á listanum sjö kjósendur. Eðlilegt er að um kosningarrétt þessara aðila sé fjallað í kosningalögum.

Um 64. gr.


    Með ákvæðinu er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2017. Er þá miðað við að rúmur tími gefist til þess að innleiða þær breytingar sem frumvarpið felur í sér. Er þá sérstaklega horft til breytts hlutverks landskjörstjórnar og þess að næstu kosningar til sveitarstjórna verða 2018, en þá gefst tækifæri til að hrinda í framkvæmd m.a. ákvæðum frumvarpsins um rafræna kjörskrá og um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Mikilvægt er að nýta þá reynslu sem þannig fæst við undirbúning síðari alþingiskosninga.