Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1659  —  680. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).

Frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar


    Fyrsti minni hluti leggur til að farið verði að tillögum Samkeppniseftirlitsins um að fella úr gildi undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og að gefinn verði rúmur frestur til þess eða til 1. janúar 2020. Með gildistöku fram í tímann vill 1. minni hluti koma til móts við sjónarmið um að langan aðdraganda þurfi að slíkri breytingu. Þetta sjónarmið hefur kom­ið fram við meðferð málsins í nefndinni og í umræðum í þingsal.
    Fyrsti minni hluti ítrekar að hann telur það afleita stöðu fyrir Alþingi að hafa svo tak­markaða möguleika til að gera breytingar á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. 1. minni hluti leggur því til að ráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um samningsmarkmið ríkisins um endurskoðun búvörusamninga og búnaðarlagasamnings eigi síðar en í lok janúar 2019. Þau samningsmarkmið sæti þinglegri meðferð og við þau yrði stuðst í viðræðum við bændur og í fyrirhugaðri endurskoðun.
    Í áliti 1. minni hluta við 2. umræðu málsins kom fram að ekki hefði tekist að fá upplýsing­ar um tolltekjur af innfluttum landbúnaðarvörum. Í umfjöllun í nefndinni eftir 2. umræðu bár­ust þær upplýsingar og má sjá þær í töflu í fylgiskjali með áliti þessu.

Alþingi, 12. september 2016.

Kristján L. Möller.



Fylgiskjal.


Tolltekjur af innfluttum landbúnaðarvörum fyrir árin 2014 og 2015
Flokkur Kafli Heiti Gjaldfærð
upphæð
2014
Gjaldfærð
upphæð
2015
I 1. kafli Lifandi dýr 0 0
I 2. kafli Kjöt og ætir hlutar af dýrum 744.322.928 840.753.698
I 4. kafli Mjólkurafurðir; fuglaegg; náttúrlegt hunang; ætar vörur úr dýraríkinu, ót.a. 87.787.441 92.614.612
I 5. kafli Vörur úr dýraríkinu, ót.a. 0 0
II 6. kafli Lifandi tré og aðrar plöntur; blómlaukar, rætur og þess háttar; afskorin blóm og lauf til skrauts 21.429.519 15.089.116
II 7. kafli Matjurtir og tilteknar rætur og hnýði 136.422.567 172.042.271
II 8. kafli Ætir ávextir og hnetur; hýði af sítrusávöxtum eða melónum 0 0
II 9. kafli Kaffi, te, maté og krydd 0 0
II 10. kafli Korn 36.931 25.467
II 11. kafli Malaðar vörur; malt; sterkja; inúlín; hveitiglúten 592.841 341.576
II 12. kafli Olíufræ og olíurík aldin; ýmiss konar sáðkorn, fræ og aldin; plöntur til notkunar í iðnaði og til lyfja; hálmur og fóður 0 3.178
II 13. kafli Kvoðulakk, gúmkvoða og resín og aðrir jurtasafar og jurtakjarnar 0 0
II 14. kafli Fléttiefni úr jurtaríkinu; vörur úr jurtaríkinu, ót.a. 0 0
III 15. kafli Feiti og olíur úr dýra- og jurtaríkinu og klofningsefni þeirra; unnin matarfeiti; vax úr dýra- eða jurtaríkinu 4.605.976 9.268.200
IV 16. kafli Framleiðsla úr kjöti, fiski eða krabbadýrum, lindýrum eða öðrum vatnahryggleysingjum 103.431.099 156.961.939
IV 17. kafli Sykur og sætindi 14.376.027 14.457.505
IV 18. kafli Kakaó og framleiðsla úr kakaói 93.350.011 101.331.187
IV 19. kafli Framleiðsla úr korni, fínmöluðu mjöli, sterkju eða mjólk; sætabrauð 189.697.197 210.743.827
IV 20. kafli Framleiðsla úr matjurtum, ávöxtum, hnetum eða öðrum plöntuhlutum 389.536.403 437.121.279
IV 21. kafli Ýmis matvælaframleiðsla 118.025.435 146.185.885
IV 22. kafli Drykkjarvörur, áfengir vökvar og edik 20.187.053 21.305.932
IV 23. kafli Leifar og úrgangur frá matvælaframleiðslu; unnið skepnufóður 918.347 5.170.437
IV 24. kafli Tóbak og framleitt tóbakslíki 0 0
Samtals 1.924.719.775 2.223.416.109
Heimild: Tollstjóri (2014, 2015)