Ferill 713. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1672  —  713. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og afstöðu til kjarnavopna.


     1.      Hvaða rök lágu fyrir því að Ísland greiddi atkvæði gegn ályktunartillögu um bann við kjarnavopnum og útbreiðslu þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 2015?
    Ísland talar fyrir kjarnavopnalausri veröld og vill láta eyða kjarnavopnum með mark­vissum og gagnkvæmum hætti. Í atkvæðaskýringum þeirra 27 ríkja, þ.m.t. Íslands, sem ekki studdu umrædda ályktun við afgreiðsluna í fyrstu nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (öryggis- og afvopnunarnefnd) komu þessi stefnumið skýrt fram. Einnig kemur fram í máli ríkjanna að ekkert þeirra efast um geigvænlegar afleiðingar af beitingu slíkra vopna. Munur­inn á þeim ríkjum sem studdu ályktunina og þeim sem gerðu það ekki er sá að Ísland og líkt þenkjandi ríki vilja styðjast við þá samninga og ferli sem fyrir liggja og telja þá leið raun­hæfasta til að ná fram afvopnun og útrýmingu kjarnavopna. Í þessu tilliti má geta þess að Ísland hefur stutt yfirlýsingu um afleiðingar kjarnavopna á vettvangi allsherjarþings Samein­uðu þjóðanna frá árinu 2012 og samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) frá árinu 2013. Síðast vorið 2015 studdi Ísland yfirlýsinguna á endurskoðunarráðstefnu NPT.
    Í þeirri ályktun sem mestur styr stóð um, og afgreidd var úr fyrstu nefnd, er lagður grunnur að nýju ferli sem að mati íslenskra stjórnvalda kynni að veikja enn frekar samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) og samninginn um allsherjarbann við tilraunum kjarnavopna (CTBT) sem eru þeir samningar sem við lýði eru í dag og hafa það að markmiði að draga úr ógninni af kjarnavopnum. Til þess að ná því markmiði að útrýma öllum kjarna­vopnum þurfa allir hlutaðeigandi aðilar að koma að borðinu og mynda núverandi samningar umgjörð um slíkar viðræður. Þegar ályktunin kom til lokaafgreiðslu í allsherjarþinginu sat Ísland hins vegar hjá við atkvæðagreiðslu.

     2.      Kom ekki til greina að láta afstöðu Íslands í ljós með hjásetu líkt og Noregur gerði auk nokkurra fleiri NATO-ríkja?
    Við afgreiðslu ályktunarinnar í allsherjarþinginu sat Ísland hjá við atkvæðagreiðsluna og greiddi atkvæði á sama veg og Noregur.

     3.      Telur ráðherra að framganga og afstaða NATO og einstakra aðildarríkja bandalagsins, sem m.a. birtist í þróun gagneldflaugakerfa og endurnýjun kjarnavopnabúnaðar, sé til þess fallin að stuðla að kjarnorkuafvopnun í heiminum?
    Ríki Atlantshafsbandalagsins hafa tekið virkan þátt í að koma á og reka samninga um af­vopnun og eftirlit með kjarnavopnum og hefðbundnum vopnum, m.a. samninginn um hefð­bundinn herafla (e. Conventional Forces Europe – CFE) og NPT. Í grunnstefnu Atlantshafs­bandalagsins, sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Lissabon árið 2010, er kveðið á um að stefnt skuli að framtíð án kjarnavopna og að afvopnunarmál hljóti aukið vægi í störfum bandalagsins. Varnarstefna og afvopnunar- og eftirlitsstefna bandalagsins haldast í hendur og á varnarviðbúnaður þess ekki að vera umfangsmeiri en þörf krefur hverju sinni. Frá lokum kalda stríðsins hefur kjarnavopnum undir stjórn bandalagsins verið fækkað um allt að 90%. Uppbygging og hönnun gagneldflaugakerfis NATO miðar að því að verja bandalagsríkin fyrir hugsanlegri eldflaugaárás. Í dag er talið að um 30 ríki búi yfir getu til eldflaugaárása og ekki útilokað að hópar hryðjuverkmanna geti einnig komist yfir slíkar flaugar.

     4.      Hversu oft hefur Ísland greitt atkvæði á annan hátt en meginþorri NATO-ríkja í atkvæða­greiðslu um kjarnavopnamál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna? Óskað er eftir yfirliti um allar atkvæðagreiðslur um kjarnavopnamál þar sem Ísland hefur greitt atkvæði eða setið hjá síðustu 25 ár.
    Í þeim 402 kosningum sem áttu sér stað á tímabilinu 1990–2015 greiddi Ísland atkvæði í fjórtán skipti á annan hátt en meginþorri NATO-ríkjanna eða í u.þ.b. 3,5% tilvika. Þessar ályktanir eru eftirfarandi:
     2015
     A/RES/70/48
    Mannúðarheit vegna banns gegn kjarnavopnum eða útrýmingar kjarnavopna (e. Humani­tarian pledge for the prohibition and elimination of nuclear weapons).
    Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
     A/RES/70/56
    Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti hótunar um að beita kjarn­orkuvopnum eða beitingu þeirra (e. Follow-up to the advisory opinion of the ICJ on the legality of the threat or use of nuclear weapons). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
    2014
     A/RES/69/43
    Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti hótunar um að beita kjarn­orkuvopnum eða beitingu þeirra (e. Follow-up to the advisory opinion of the International Court of Justice on the Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
    2013
     A/RES/68/42
    Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti hótunar um að beita kjarn­orkuvopnum eða beitingu þeirra (e. Follow-up to the advisory opinion of the International Court of Justice on the legality of the threat or use of nuclear weapons). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
     2012
     A/RES/67/33
    Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti hótunar um að beita kjarn­orkuvopnum eða beitingu þeirra (e. Follow-up to the advisory opinion of the International Court of Justice on the Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
     2011
     A/RES/66/46
    Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti hótunar um að beita kjarn­orkuvopnum eða beitingu þeirra (e. Follow-up to the advisory opinion of the International Court of Justice on the Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.

     2010
     A/RES/65/55
    Áhrif af notkun vopnabúnaðar og skotfæra er innihalda rýrt úraníum (e. Effects of the use of armaments and ammunitions containing depleted uranium). Ísland studdi ályktunina. Meiri hluti NATO-ríkja sat hjá við afgreiðslu.
     A/RES/65/76
    Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti hótunar um að beita kjarn­orkuvopnum eða beitingu þeirra (e. Follow-up to the advisory opinion of the International Court of Justice on the legality of the threat or use of nuclear weapons). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
     2008
     A/RES/63/54
    Áhrif af notkun vopnabúnaðar og skotfæra er innihalda rýrt úraníum (e. Effects of the use of armaments and ammunitions containing depleted uranium). Ísland studdi ályktunina. Meiri hluti NATO-ríkja sat hjá við afgreiðslu.
     A/RES/63/41
    Draga úr viðbragðsflýti við ákvörðun um notkun kjarnorkuvopna (e. Decreasing the operational readiness of nuclear weapons systems). Ísland studdi ályktunina. Meiri hluti NATO-ríkja sat hjá við afgreiðslu.
     2007
     A/RES/62/36
    Draga úr viðbragðsflýti við ákvörðun um notkun kjarnorkuvopna (e. Decreasing the operational readiness of nuclear weapons systems). Ísland studdi ályktunina. Meiri hluti NATO-ríkja sat hjá við afgreiðslu.
     1997
     A/RES/52/38 O
    Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti hótunar um að beita kjarn­orkuvopnum eða beitingu þeirra (e. Advisory opinion of the International Court of Justice on the Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
     1996
     A/RES/51/45 M
    Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti hótunar um að beita kjarn­orkuvopnum eða beitingu þeirra (e. Advisory opinion of the International Court of Justice on the Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
     1994
     A/RES/49/75 E
    Lækkun kjarnorkuógnar í áföngum (e. Step-by-step reduction of the nuclear threat). Ísland sat hjá við afgreiðslu. Meiri hluti NATO-ríkja greiddi atkvæði gegn ályktuninni.
    
    Ítarlegt yfirlit yfir ályktanir um málaflokkinn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er að finna í skjali sem vistað er á vef utanríkisráðuneytisins, sbr. eftirfarandi hlekk. Um er að ræða afgreiðslu frá allsherjarþinginu en ekki úr fyrstu nefnd. Vert er að taka fram að ekki kemur fram í yfirlitinu hvernig orðalag ályktananna tekur hugsanlega breytingum ár frá ári.
www.utanrikisraduneyti.is/media/Varnarmal/ISL_25_ara_Kjarnavopnasaga_29012016.xlsx

     5.      Hversu oft hefur afstaða Íslands verið frábrugðin afstöðu annarra ríkja á Norðurlöndum við atkvæðagreiðslu um kjarnorkumál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna? Óskað er eftir yfirliti sem nær til síðustu 25 ára.
    Ísland hefur þrisvar greitt atkvæði á annan veg en meginþorri Norðurlandanna á tímabilinu 2015–1990. Þær þrjár atkvæðagreiðslur sem um ræðir, eru um eftirfarandi ályktanir:
     2014
     A/RES/69/58
    Eftirfylgni fundar háttsettra á vettvangi allsherjarþingsins 2013 til að draga úr kjarnorku­vígbúnaði (e. Follow-up to the 2013 high-level meeting of the General Assembly on nuclear disarmament). Ísland og Danmörk greiddu atkvæði gegn ályktuninni. Noregur og Finnland sátu hjá við afgreiðslu. Svíar studdu ályktunina.
     2004
     A/RES/59/75
    Aðgerðir til að flýta fyrir framkvæmd skuldbindinga um kjarnorkuafvopnum (e. Accelera­ting the implementation of nuclear disarmament commitments). Ísland og Danmörk sátu hjá við afgreiðslu. Noregur, Svíþjóð og Finnland studdu ályktunina.
     1994
     A/RES/49/75 E
    Aðgerðir til að draga úr kjarnorkuógn í áföngum (e. Step-by-step reduction of the nuclear threat). Ísland og Svíþjóð sátu hjá við afgreiðslu. Danmörk, Noregur og Finnland greiddu atkvæði gegn ályktuninni.

    Ítarlegt yfirlit yfir ályktanir um málaflokkinn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er að finna í skjali sem vistað er á vef utanríkisráðuneytisins, sbr. eftirfarandi hlekk. Um er að ræða afgreiðslu frá allsherjarþinginu en ekki úr fyrstu nefnd. Vert er að taka fram að ekki kemur fram í yfirlitinu hvernig orðalag ályktananna tekur hugsanlega breytingum ár frá ári.
www.utanrikisraduneyti.is/media/Varnarmal/ISL_25_ara_Kjarnavopnasaga_29012016.xlsx

     6.      Hvernig hefur ráðherra beitt sér á fundum samningsins um að dreifa ekki kjarnavopnum (Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons – NTP) til að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu?
    Endurskoðunarráðstefnur NPT eru haldnar á fimm ára fresti og eru jafnan sóttar af íslensk­um stjórnvöldum. Málflutningur Íslands á fundum NPT-samningsins tekur mið af grunn­stefjum íslenskrar utanríkisstefnu og er þar talað máli afvopnunar og gegn útbreiðslu kjarna­vopna. Þá tekur Ísland virkan þátt í norrænu samstarfi og samráði á vettvangi samningsins.
    Rétt er að geta þess að það hefur löngum verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að á Íslandi skuli ekki vera kjarnavopn. Kemur sú afstaða fram í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi árið 1985 og er áréttuð enn frekar í nýrri þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem sam­þykkt var á Alþingi í apríl sl. Í þjóðaröryggisstefnunni segir að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Friðlýsingin nái til íslensks lands og landhelgi að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, líkt og hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, og skuldbindinga innan stofnana og samninga sem Ísland á aðild að. Þá er kveðið á um að íslensk stjórnvöld muni tala fyrir þessu sjónar­miði á alþjóðavettvangi og í tvíhliða samskiptum við önnur ríki. Stjórnvöld munu enn fremur beita sér fyrir vitundarvakningu og opinni umræðu um kjarnorkumál og stuðla þannig að afvopnun og friði.