Ferill 878. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1700  —  878. mál.




Fyrirspurn


til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um stöðu áforma um stórskipahöfn í Finnafirði.

Frá Ögmundi Jónassyni.


          1.      Í eigu hverra er þýska hlutafélagið Bremenports GmbH & Co. KG sem hefur lýst áhuga á að koma upp stórskipahöfn í Finnafirði?
          2.      Hafa íslensk stjórnvöld gert samninga við fyrirtækið um undirbúning eða framkvæmd slíks verkefnis og ef svo er, felast í þeim opinberar fjárskuldbindingar?
          3.      Hafa stjórnvöld gefið fyrirheit um að liðka fyrir verkefninu og þá hvernig?
          4.      Hverjar eru helstu forsendur opinberra aðila á Íslandi fyrir því að ganga til samvinnu við fyrirtækið um þetta verkefni?
          5.      Hafa opinberir aðilar gert skuldbindingar við aðra en Bremenports GmbH & Co. KG vegna áforma um stórskipahöfn og fela þær í sér fjárskuldbindingar?
          6.      Hver eru markmiðin með stórskipahöfn í Finnafirði? Hafa fjármögnunar- og viðskipta­áætlun eða aðrar áætlanir verið kynntar íslenskum stjórnvöldum?
          7.      Hver eða hverjir yrðu eigendur hafnarinnar ef af verður og í hvaða hlutföllum?
          8.      Er talið til hagsbóta að erlend fyrirtæki eigi íslenskar hafnir að hluta eða í heild og annist rekstur þeirra?
          9.      Hver er talinn verða fjárhagslegur ávinningur af stórskipahöfninni fyrir íslenskt sam­félag? Er talið að eignarhald á höfninni skipti máli í því samhengi?
          10.      Hefur mannaflaþörf vegna hafnarinnar verið metin miðað við áform um hana? Er talið unnt að manna reksturinn með innlendu vinnuafli eða mun þurfa erlent vinnuafl og þá í hvaða mæli?
          11.      Hafa verið metin áhrif hafnarinnar á nærsamfélagið, innviði þess og íslenskt samfélag í heild? Er talið að opinberir aðilar geti byggt upp nauðsynlega innviði nægilega hratt til að mæta áhrifum af höfninni?
          12.      Hefur mengunarhætta af starfsemi stórskipahafnarinnar verið metin og hver eru við­horf stjórnvalda til þess hvort slíkur rekstur samræmist alþjóðlegum skuldbindingum um mengunarvarnir, verndun hafsins og samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda, m.a. með tilliti til fyrirætlana um þjónustu við skip sem sigla um norðurpólssvæðið?
          13.      Hvaða kröfur mun starfsemi hafnarinnar gera til íslensks samfélags með tilliti til upp­byggingar mengunarvarna, dráttarskipa, björgunarbúnaðar og ýmiss viðlagabúnaðar?
          14.      Liggur fyrir hversu víðáttumikið svæði færi undir samgöngumannvirki, gámavelli, vöruskemmur, eldsneytisbirgðastöðvar og önnur mannvirki sem tilheyrðu stórskipa­höfninni ef af henni verður? Hefur verið lagt mat á líkleg áhrif slíkra mannvirkja á líf­ríki og náttúrufar á svæðinu?
          15.      Hvernig samræmast áform um stórskipahöfn í Finnafirði landsskipulagi?


Skriflegt svar óskast.