Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1703  —  169. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir um málið bárust frá Betra peningakerfi, Hags­munasamtökum heimilanna, Klaus Karwat, Positiva Pengar Sweden, Panayotis Economo­poulos, Positive Money, Joseph Huber, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Victoriu Chicki, prófessor emeritus.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að skipuð verði nefnd þingmanna til að vinna úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar í landinu og gera tillögur að umbótum. 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að gerð verði breyting á orðalagi tillögugreinarinnar á þann veg að í stað þess að tiltaka fjölda þingmanna í nefndinni komi fram að nefndin skuli skipuð þingmönnum frá hverjum þingflokki. Bent var á að Alþingi „skipar“ ekki fólk til starfa, eins og tíðkast oft um heimildir t.d. ráðherra, réttara orðalag er að Alþingi „kjósi“ menn til starfa. 1. minni hluti gerir tillögu að breytingu til að koma til móts við þessa athuga­semd.
    Skrifstofa Alþingis sjái nefndinni fyrir starfsaðstöðu, starfsmanni og nauðsynlegri sér­fræðiaðstoð auk þess sem viðeigandi stofnanir hins opinbera verði nefndinni til ráðgjafar. Nefndin skili niðurstöðum sínum með skýrslu til Alþingis eigi síðar en tíu mánuðum eftir skipunardag.
    Umsagnir voru almennt jákvæðar, nema umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja sem leggst gegn tillögunni. Fram kom í umsögn Seðlabanka Íslands að umræða um fyrirkomulag pen­ingamyndunar væri alla jafna gagnleg. 1. minni hluti vekur athygli á að hollenska þingið hefur nýverið samþykkt að fela hollensku ríkisstjórninni að vinna skýrslu um fyrirkomulag peningamyndunar og mögulegar úrbætur á því.
    1. minni hluti telur tillöguna til þess fallna að auka þekkingu þingmanna á peningakerfinu og að úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar geti í framhaldinu orðið grundvöllur fyrir upplýstari umræðu í þinginu um þetta mikilvæga málefni.
    1. minni hluti leggur til að tillagan verði  samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að kjósa nefnd þingmanna til að vinna úttekt á fyrirkomulagi peninga­myndunar í landinu og gera tillögur að umbótum. Nefndin verði skipuð einum þingmanni frá hverjum þingflokki. Alþingi skal kjósa nefndina eigi síðar en 1. desember 2016. Skrifstofa Alþingis sjái nefndinni fyrir starfsaðstöðu, starfsmanni og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð auk þess sem viðeigandi stofnanir hins opinbera verði nefndinni til ráðgjafar. Nefndin skili niður­stöðum sínum með skýrslu til Alþingis eigi síðar en tíu mánuðum eftir skipunardag.

Alþingi, 21. september 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Willum Þór Þórsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir.