Ferill 882. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1710  —  882. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 35/1970, um Kristnisjóð o.fl., með síðari breytingum (ókeypis lóðir).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir.


1. gr.

    5. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 5. gr. laga um Kristnisjóð, nr. 35/1970, er kveðið á um skyldu kaupstaða og kauptúna um að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Einnig er til­greind sama skylda þegar um er að ræða íbúðarhús prests ef um lögboðið prestssetur er að ræða.
    Samkvæmt 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nýtur Hin evangelíska lúterska kirkja stöðu þjóðkirkju á Íslandi og skal ríkið að því leyti vernda hana og styðja. Í 65. gr. stjórnar­skrár er hins vegar kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efna­hags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.
    1. málsl. 5. gr. er svohljóðandi: „Sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna er skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi.“ Þótt Kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju hafi á hendi umsjón og stjórn Kristnisjóðs og beri ábyrgð fyrir kirkju­þingi á stjórn hans, þá nefnir ákvæðið ekki sérstaklega kirkjur þjóðkirkjunnar, heldur kirkjur almennt. Því verður ekki í fljótu bragði séð að 5. gr. laganna grundvallist á 62. gr. stjórnar­skrárinnar sem veitir þjóðkirkjunni sérstaka vernd og stuðning.
    Frá árinu 1999 hefur Reykjavíkurborg túlkað ákvæðið út frá almennum jafnræðissjónar­miðum og þar með haft það sem stefnu að gera ekki upp á milli trúfélaga þegar kemur að úthlutun ókeypis lóða undir tilbeiðsluhús, hvort sem um er að ræða kristnar kirkjur, musteri, moskur eða hof. Ákvæðið og afleiðingar þess urðu þannig til þónokkurrar umræðu í kosning­um til sveitarstjórna árið 2014 vegna fyrirhugaðrar byggingar mosku.
    Þótt Reykjavíkurborg vísi ekki til 65. gr. stjórnarskrárinnar sérstaklega við túlkun ákvæð­isins heldur til almennra jafnræðissjónarmiða, þá verður ekki hjá því litið að 65. gr. stjórnar­skrárinnar er ætlað að tryggja jafnræði fyrir lögum óháð trúarskoðunum. Þrátt fyrir þá túlkun ákvæðisins að það tilgreini einungis ókeypis lóðir undir kirkjur þjóðkirkjunnar, þá stendur eftir að sú takmörkun kemur ekki fram með berum orðum í lagagreininni sjálfri. Sömuleiðis verður ekki hjá því litið að þegar sveitarfélög hafa litið til almennra jafnræðissjónarmiða, sambærilegra við þau sem 65. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja, hafa sveitarfélög einnig veitt öðrum söfnuðum ókeypis lóðir undir sín tilbeiðsluhús. Óhætt er því að segja að ákvæðið sé nógu óskýrt til að vera túlkað misjafnlega af ólíkum aðilum með tilheyrandi laga­legum og pólitískum ágreiningi.
    Tvær leiðir má fara til þess að skýra ákvæðið með hliðsjón af 62. og 65. gr. stjórnarskrár­innar. Önnur er sú að ákvæðið tilgreini kirkjur þjóðkirkjunnar sérstaklega, en þá mætti ætla að ákvæðið væri ótvírætt í samræmi við þá mismunun á grundvelli trúarskoðana sem 62. gr. stjórnarskrárinnar heimilar þrátt fyrir 65. gr. um jafnræði fyrir lögum. Ætla mætti að túlkun sveitarfélaga á ákvæðinu yrði framvegis sú að einungis bæri að úthluta ókeypis lóðum undir kirkjur þjóðkirkjunnar en ekki annarra safnaða. Flutningsmenn frumvarps þessa telja að slík breyting væri skref aftur á bak en ekki í takt við þróun samfélagsins í átt til umburðarlyndis og jafnræðis fyrir lögum óháð trúarskoðunum. Einnig telja flutningsmenn ekki forsvaranlegt að eftir umræðu sem beinist gegn einu tilteknu trúfélagi sé ákvæðið sniðið sérstaklega að öðru trúfélagi enda mætti ætla að slíkt yki enn frekar á þá spennu og þann ágreining sem ákvæðið hefur þegar valdið.
    Hin leiðin er að fella greinina brott. Flutningsmenn frumvarps þessa telja ákvæðið barn þess tíma þegar trúarskoðanir og fyrirkomulag trúar- og lífsskoðunarfélaga voru talsvert eins­leitari en nú er raunin. Flutningsmenn telja enn fremur engin góð rök standa fyrir því að sveitarfélögum sé gert skylt að láta af hendi lóðir án endurgjalds til trúfélaga frekar en ann­arra félaga.
    Trúar- og lífsskoðunarfélög eru í eðli sínu umdeild og stutt getur verið í hatursfulla orð­ræðu sem er á skjön við markmið opinnar og upplýstrar umræðu. Það er mjög óheppilegt að íslensk lög séu þess valdandi að misjafn skilningur á markmiði og túlkun þeirra valdi ágrein­ingi, bæði um hvort mismunun sé til staðar í lögum eða jafnvel hvort hún eigi að vera til stað­ar. Óhætt er að segja að ætlun löggjafans hafi aldrei verið að valda samfélagsnúningi þegar ákvæðið var fyrst sett í lög en flutningsmenn frumvarps þessa telja einföldustu lausnina á þeim vanda vera þá að fella greinina brott. Með þeirri breytingu vonast flutningsmenn enn fremur til þess að með auknu og skýrara jafnræði fyrir lögum án tillits til trúarskoðana megi fyrirbyggja óþarfan ágreining í framtíðinni þegar kemur að úthlutun lóða til trúfélaga.