Ferill 818. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1720  —  818. mál.
Undirskrift.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Á síðasta fundi núverandi ríkisstjórnar í Hörpu voru kynntar aðgerðir sem annars vegar var ætlað að styðja sérstaklega við möguleika ungs fólks til að kaupa sér eigið húsnæði og hins vegar var ætlað að draga úr vægi verðtryggingar.
    Við skoðun og rýni þessara frumvarpa sem kynnt voru við talsverða viðhöfn hefur komið í ljós að þau duga skammt til að uppfylla yfirlýst markmið. Verður hér fjallað um frumvarp um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð en um takmarkanir á verðtryggðum lánum verður fjallað í öðru nefndaráliti.
    Samkvæmt frumvarpinu um verður þeim sem hafa ekki áður átt fasteign heimilt að nýta séreignarsparnað sinn skattfrjálst í allt að 10 ár til öflunar íbúðarhúsnæðis. Heimildin nær til bæði eigin framlags launamanns (allt að 4% af launum) og framlags launagreiðanda (2% af launum), samtals að hámarki kr. 500.000 á einstakling á hverju 12 mánaða tímabili. Ráð­stöfunin nær til iðgjalda í séreignarsparnað sem greidd eru á 10 ára tímabili sem getur hafist í fyrsta lagi frá gildistöku laganna 1. júlí 2017.
    Í umsögnum ýmissa aðila um frumvarpið hafa komið fram talsverðar efasemdir um að það þjóni þeim yfirlýsta tilgangi að styðja ungt fólk til kaupa á fyrstu íbúð með fullnægjandi hætti. Enginn vanþörf er þó á því að staða ungs fólks verði skoðuð sérstaklega þegar kemur að húsnæðismarkaðnum en ekki síður þegar kemur að kjörum ungs fólks almennt.

Staða ungs fólks.
    Fram kemur í skýrslu fjármálaráðherra um kynslóðareikninga (613. mál) að almenn þróun á Íslandi og nágrannalöndum okkar sé sú að ungt fólk hefur dregist aftur úr í tekjum síðustu áratugi. Hér á landi hafa tekjur yngsta hópsins lækkað mest eða, um 24%, en munurinn snýst við þegar komið er að hópnum 35–39 ára. Þegar íslensk gögn frá árunum 1990 og 2014 eru borin saman sést einnig að tekjur yngri hópanna hafa lækkað hlutfallslega miðað við meðal­talið á undanförnum aldarfjórðungi, en tekjur þeirra eldri hafa hækkað. Gögnin gefa til kynna lækkun aldurshópa milli 1990 og 2014 fram að 35–39 ára aldri, en hækkun eftir það. Hæstu tekjum nær fólk nú á aldrinum 45–49 ára, en ekki við 40–44 ára aldur eins og var árið 1990. Þegar þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna einstakra aldurshópa er skoðuð yfir tímabilið 1990–2014 kemur í ljós að til ársins 1997 hreyfast ferlarnir nánast alveg í sama takti. Eftir það verður framvindubrot þar sem eldri hóparnir taka verulega fram úr þeim yngri og verður bilið sífellt meira fram að fjármálakreppunni. Eftir það dregur verulega úr bili milli hópa, en þó þannig að elstu hóparnir halda forskotinu.
    Í skýrslu fjármálaráðherra um kynslóðareikninga sést að sterk tengsl eru milli kaupmáttar ráðstöfunartekna og húsnæðisverðs. Ef einstakir hópar dragast aftur úr í kaupmætti getur það leitt til þess að húsnæðiskaup verða þeim erfið. Gögn frá 2004 sýna að þung undiralda er í þá átt að hlutdeild eigin húsnæðis minnki hjá yngstu aldurshópum. Fasteignaverð hefur tvöfaldast að raunvirði frá 1990, en raunvextir hafa lækkað um helming á sama tímabili. Þegar litið er til greiðslubyrði nýrra lána togast því á hækkun fasteignaverðs og lækkun raunvaxta. Þegar þessi þróun er sett í samhengi við kaupmátt yngstu hópanna kemur í ljós að greiðslubyrði af dæmigerðu láni hefur ekki breyst mikið milli áranna 1990 og 2014. Sú staðreynd að fasteignaverð hefur hækkað verulega umfram ráðstöfunartekjur þessara aldurs­hópa bendir til að um þessar mundir sé greiðslubyrði lána ekki aðalvandamálið fyrir ungt fólk heldur öllu fremur getan til að safna fyrir útborgun, sem reynist erfiðari hjalli að yfir­stíga. Spurningin er hvort það verður gert með aðgerðaáætlun um nýtt húsnæðisstuðnings­kerfi eða með því að beina sjónum að því að bæta kjör ungs fólks sem dregist hafa aftur úr, eins og komið er að í umfjöllun um umsögn Viðskiptaráðs síðar í þessu nefndaráliti.

Mismununartæki.
    Í ljósi framangreinds er ekki óeðlilegt að skoðaðar séu leiðir til að styðja ungt fólk til að safna sér fyrir útborgun í fyrstu eign. Umsagnir um tillögu ríkisstjórnar sýna hins vegar svo ekki verður um villst að þeim stuðningi verður afar misskipt milli ólíkra hópa ef frumvarpið verður að lögum. Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir: „Það er mat ASÍ að skattfrjáls nýting séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð gagnast í bráð fyrst og fremst þeim sem eiga eigið fé og hafa greiðslugetu til þess að standast greiðslumat hjá fjármálastofnun. Fyrir þann hóp munu viðbótargreiðslur úr séreignasparnaði inn á húsnæðislán vissulega flýta eignar­myndun og draga úr vaxtakostnaði til lengri tíma. Aðgerðin gagnast hins vegar lítið þeim sem eru í mestum vanda á húsnæðismarkaði.“
    Með umsögn Alþýðusambandsins fylgir viðauki þar sem aðgerðin er greind út frá ólíkum tekjuhópum. Í þeim dæmum sem fram koma í viðaukanum er miðað við að lagt sé fyrir 6% af launum á mánuði (4% framlag launamanns og 2% framlag atvinnurekanda) og þar má sjá að það 10 ára tímabil sem úrræðið nær til dugar í engu tilviki heimilum með tekjur undir 600.000 kr. á mánuði til þess að safna eigin fé til útborgunar í fasteign. Hafi heimilið t.d. 700.000 kr. í samanlagðar mánaðartekjur tekur um átta ár að safna fyrir 20% útborgun í húsnæði sem kostar 20 millj. kr. Ef safna á fyrir útborgun í 28 millj. kr. íbúð tekur það 11 ár.
    Það er öllum ljóst að fasteignir á þessu verði eru sjaldséðir hvítir hrafnar á höfuðborgar­svæðinu. Þetta gæti hins vegar orðið raunin fyrir meiri hluta ungs fólks. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er miðgildi ráðstöfunartekna, þ.e. tekna eftir skatta, ungs fólks á aldrinum 25–34 ára 274.800 kr. á mánuði. Miðgildi ráðstöfunartekna næsta aldurshóps, 35–44 ára, er 306.000. Það virðist því vera nokkuð borðleggjandi að úrræði ríkisstjórnarinnar nýtist fyrst og fremst tekjuhærri hópum ungs fólks.
    Á sama tíma er ljóst að verulega fjármuni skortir til að þau húsnæðisfrumvörp sem urðu að lögum í vor geti þjónað þeim tilgangi sem þeim er ætlað. Í umsögn Alþýðusambandsins er enn fremur bent á að rétt væri að byrja á að forgangsraða nægu skattfé í húsnæðisstuðning og til uppbyggingar í nýja almenna leiguíbúðakerfinu sem gæfi ungu fólki raunhæft tækifæri á öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum á meðan það safnar sér upp nauðsynlegu sparifé til kaupa á eigin húsnæði. Þær 400 almennu íbúðir á ári sem stjórnvöld áætla að styðja byggingu á, samkvæmt fjármálaáætlun til næstu fimm ára, duga þar engan veginn til. Mat ASÍ er að fjölga þurfi almennum íbúðum um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin.
    Ekki ósvipuð sjónarmið má finna í fleiri umsögnum um frumvarpið. Bandalag starfs­manna ríkis og bæja (BSRB) bendir í sinni umsögn á að þær fjárhæðir sem einstaklingur eða sambúðaraðilar geta safnað séu of lágar til að geta staðið undir 20% útborgun af nokkurri íbúð miðað við núverandi fasteignaverð. Því síður eftir fimm ár í ljósi þróunar á hækkun fasteignaverðs og spám um sambærilegar árlegar hækkanir.
    Þegar „afrekaskrá“ núverandi ríkisstjórnar er skoðuð hvað varðar húsnæðisstuðning virðist augljóst að ríkisstjórnin hefur tekið meðvitaða og pólitíska ákvörðun um að beina opinberu fé til tekjuhærri hópa samfélagsins í stað þess að styðja við þá tekjulægri sem augljóslega þurfa fremur á stuðningnum að halda. Í umsögn BSRB er til dæmis bent á að árið 2011 voru vaxtabætur tæplega 19 milljarðar kr. en samkvæmt fjárlögum ársins 2016 voru þær áætlaðar um 6,2 milljarðar kr. vegna ársins 2016. Vaxtabætur hafa því lækkað um sem nemur 70% á fimm árum. Vaxtabætur er sniðnar að þörfum almennings þar sem þeir tekju­lægstu fá mest en svo eru bæturnar skertar með hærri tekjum og eignum. Skattafsláttur á séreignarsparnaði snýr hins vegar að stuðningi við þá tekjuhærri sem fá þá meiri stuðning en tekjulægri. Þessari þróun andmælir BSRB harðlega.
    Búseti á Norðurlandi er á svipuðum slóðum í umsögn sinni hvað varðar það augljósa ranglæti að hið opinbera hampi með þessum hætti tekjuhærri hópum og nýti til þess sam­eiginlegar skatttekjur. Búseti leggur til að fremur verði slíkur stuðningur jafn milli ólíkra hópa og miðist við tiltekna krónutölu. Þá gerir Búseti athugasemdir við að öflun öruggs hús­næðis í samvinnufélagi og/eða sjálfseignarfélagi með búseturétti eða kaupleigurétti verði að njóta fulls jafnræðis á við séreign íbúðar á eigin kennitölu.
    Mismunun eftir tekjum er einnig umfjöllunarefni í umsögn Jafnréttisstofu sem gerir athugasemd við að engar kyngreindar upplýsingar liggja til grundvallar frumvarpinu og bendir á að náms- og starfsval hér á landi sé mjög kynbundið og konur séu mun fleiri í störf­um þar sem greidd eru frekar lág laun. Þá sé kynbundinn launamunur staðreynd auk þess sem mun fleiri konur en karlar séu í hlutastörfum. Út frá þeim staðreyndum sem hér hafa verið taldar upp og endurspegla kerfislægt misrétti kynjanna þegar kemur að launamun má draga þá ályktun að skattahagræði og möguleg eignamyndun nýtist körlum fremur en konum.

Aðrar athugasemdir.
    Gagnrýni á frumvarpið kemur úr fleiri áttum. Til að mynda bendir Viðskiptaráð á að með frumvarpinu sé ekki ráðist að rót vandans sem sé óhagfelld launaþróun yngri kynslóða. Nær væri að leggja fram aðgerðaáætlun um þau efni fremur en að bæta við enn einu stuðnings­kerfinu í húsnæðismálum eins og það er orðað í umsögn Viðskiptaráðs.
    Samband íslenskra sveitarfélaga bendir í umsögn sinni á að verði frumvarpið að lögum muni það hafa í för með sér verulegan kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin, eða 7,2 milljarða kr. á þeim tíu árum sem úrræðið á að standa til boða. Sveitarfélögum hefur ekki verið bættur skaðinn af núgildandi úrræði um ráðstöfun iðgjalda í séreignarsparnað.
    Fram kemur í umsögn Allianz, sem hefur frá árinu 2002 haft heimild fjármálaráðuneytis­ins til að bjóða viðskiptavinum hér á landi samninga um viðbótartryggingavernd í samræmi við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, að við­skiptavinir þeirra muni ekki geta nýtt sér þetta úrræði en um 22 þúsund Íslendingar ráðstafa mánaðarlega viðbótariðgjaldi sínu inn á lífeyristryggingasamning hjá Allianz, eða 25–30% þeirra Íslendinga sem ráðstafa viðbótariðgjaldi mánaðarlega skv. 8.–10. gr. lífeyrislaganna samkvæmt könnunum Capacent og Verdicta.
    Þegar allt er tekið saman virðist það vera morgunljóst að ríkisstjórnin hefur farið fram af kappi fremur en forsjá við gerð frumvarps um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Ýmsir tækni­legir ágallar eru á frumvarpinu, óleyst mál varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga, sem og mismunun þeirra aðila sem halda utan um viðbótarlífeyrissparnað.

Niðurstaða.
    Flumbruganginn mætti fyrirgefa ef ekki skini í gegn sú augljósa stefna ríkisstjórnarinnar að nýta sameiginlega sjóði skattgreiðenda til að mismuna ólíkum tekjuhópum þannig að þeir tekjuhærri fái hærri skattafslátt en hinir tekjulægri og þar með hærra hlutfall af opinberu fé í húsnæðisstuðning. Þetta er algjör stefnubreyting frá því húsnæðisstuðningskerfi sem um langt skeið hefur ríkt sæmileg sátt um, þ.e. vaxtabætur sem tekið hafa mið af tekju- og eigna­stöðu. Þær hafa nú verið skornar niður um 70% á fimm árum en á móti eru lagðar til aðgerðir sem beinlínis auka mismunun og ójöfnuð í samfélaginu. Staðreyndin er sú að miðað við þá útreikninga sem farið hefur verið yfir í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar er afar ólíklegt að þetta úrræði gagnist stórum hluta ungs fólks ef miðað er við þróun fasteignaverðs og miðgildi ráðstöfunartekna tveggja yngstu aldurshópanna (25–34 ára og 35–44 ára). Fyrst og fremst mun þetta verða ráðstöfun opinbers fjár til tekjuhærri hópa. Það hlýtur að teljast afar óskynsamleg ráðstöfun á skattfé.
    Birgitta Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi styður álit þetta.

Alþingi, 27. september 2016.

Katrín Jakobsdóttir, frsm. Guðmundur Steingrímsson.