Ferill 818. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1721  —  818. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Málið var kynnt og reifað í efnahags- og viðskiptanefnd. Málið er flutt samhliða 817. máli um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum (verð­tryggð neytendalán).
    Bæði þessi frumvörp virðast byggjast á áliti nefndar sem í voru sérfræðingar. Það er margt í því áliti sem stenst ekki skoðun. Þar er til dæmis ekki fjallað um tvö grundvallarhugtök fjár­málafræðinnar, ávöxtunarkröfu og núvirðingu. Samanburður á greiðsluferlum í áliti þessarar svokölluðu „sérfræðinganefndar“ er algerlega marklaus.
    Í upphafi er vert að benda á hugtak sem fjallað er um í frumvarpinu, þ.e. „óverðtryggt lán“. Ekki er reynt að skilgreina við hvað er átt. Nafngiftin bendir til að átt sé við lán þar sem vextir taka ekki mið af verðbólgu á hverjum tíma og að vaxtaákvörðun verði óháð verðbólgu. Nafngiftin er augljóslega röng því að vextir af svokölluðum „óverðtryggðum lánum“ taka mið af verðbólgu og verðbólguhorfum á hverjum tíma og lánin eru því augljóslega ekki „óverðtryggð“.
    Ef horft er fram hjá grautarlegri nafngift og fjallað um efnið kemur í ljós að vextir svo­kallaðra „óverðtryggðra lána“ hafa á liðnum 25 árum verið með 0,5–1% hærri ávöxtunar­kröfu en vextir svokallaðra „verðtryggðra lána“. Á undanförnum 4–6 árum virðist munurinn svipaður. Vextir svokallaðra „verðtryggðra lána“ eru ákvarðaðir að hluta til með samningum þar sem raunvextir eru annaðhvort fastir eða breytilegir. Ef um breytilega raunvexti er að ræða er vísað til ávöxtunarkröfu „verðtryggðra“ ríkisskuldabréfa á markaði á þeim tíma sem vextir eru ákvarðaðir. Breytilegi hlutinn, verðbótaþáttur eða „verðtrygging“, er ákvarðaður með hlutlægri mælingu á vísitölu neysluverðs eins og sú vísitala er mæld af Hagstofu Íslands.
    Í stuttu máli er mismunur svokallaðra „verðtryggðra“ og „óverðtryggðra“ lána eftirfar­andi: Vextir „verðtryggðra lána“ eru ákvarðaðir með hlutlægri mælingu, þ.e. verðbótaþáttur­inn, en vextir „óverðtryggðra lána“ eru ákvarðaðir með ágiskun um horfur á hverjum tíma og lánveitandi einn tekur ákvörðun um breytileika með ógagnsæjum hætti.
    Sem fyrr segir er niðurstaðan sú að á liðnum 25 árum hafa svokölluð „óverðtryggð lán“ borið 0,5–1% hærri ávöxtunarkröfu en „verðtryggð lán“. Bjánaskapur þessa frumvarps gagn­ast því engum nema lánastofnunum.
    Það að gera kröfu til þess að einungis sé hægt að greiða andvirði viðbótarlífeyrissparnaðar inn á dýrasta lánsform sem lántakendur eiga kost á er meira en löggjafinn getur borið ábyrgð á. Því er gerð tillaga að breytingu á 3. gr. frumvarpsins. Breytingin miðar að því að heimilt verði að greiða andvirði viðbótarlífeyrissparnaðar inn á lán sem er með veði í fasteign og notað var til að afla eða endurbæta fasteign sem lántaki býr í.
    Lagt er til að frumvarpið verð samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Orðið „óverðtryggðs“ tvívegis í 3. gr. og orðið „óverðtryggt“ í fyrirsögn greinarinnar falli brott.

Alþingi, 27. september 2016.

Vilhjálmur Bjarnason.