Ferill 794. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1724 — 794. mál.
2. umræða.
Breytingartillaga
við frumvarp til laga um námslán og námsstyrki.
Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (UBK, LínS, GÞÞ, HE, JMS).
1. Við 9. gr. bætist ný málsgrein sem verði 2. mgr., svohljóðandi:
Hafi námsmaður fullnýtt rétt sinn til námsaðstoðar skv. 1. mgr. getur hann sótt um undanþágu til Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir allt að 60 ECTS-einingum til viðbótar vegna doktorsnáms.
2. 2. mgr. 11. gr. falli brott.
3. Við 12. gr. bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Sjóðurinn skal gera einstaklingum kleift að áætla greiðslubyrði af mögulegum námslánum hjá sjóðnum með einföldum hætti.
Sjóðurinn skal reglulega veita lánþegum upplýsingar um væntanlega greiðslubyrði námslána miðað við stöðu þegar tekinna lána.
4. Lokamálsliður 13. gr. falli brott.
5. 2. og 3. mgr. 14. gr. falli brott.
6. Á eftir 14. gr. komi tvær nýjar greinar sem orðist svo ásamt fyrirsögnum:
a. (15. gr.)
Fyrirkomulag útborgunar námsstyrkja.
Heimilt er að greiða út námsstyrk með mánaðarlegum fyrirframgreiðslum meðan á námi stendur, til námsmanna sem sækja um slíkt og hafa áður lokið a.m.k. einu missiri í aðstoðarhæfu námi.
Fyrirframgreiðsla námsstyrks er háð því skilyrði að þiggjandi námsstyrks uppfylli kröfur um eðlilega námsframvindu á viðkomandi námsmissiri, sbr. 10. gr.
Ekki skal greiða út fyrir fram hærri námsstyrk meðan á námi stendur en sem nemur lágmarksnámsframvindu. Ekki er heimilt að greiða námsstyrk út fyrir fram ef námsmaður hefur fengið fyrirframgreiðslu á fyrra missiri án þess að hafa síðan uppfyllt kröfur um lágmarksnámsframvindu á viðkomandi missiri né endurgreitt ofgreiddan námsstyrk, sbr. 5. mgr.
Í lok missiris þegar námsframvinda liggur fyrir skal lokauppgjör námsstyrks fara fram í samræmi við námsframvindu. Komi í ljós, við uppgjör missiris, að námsmaður uppfylli ekki lágmarksnámsframvindukröfur á því missiri sem hann sótti um námsstyrk vegna eða hann af öðrum orsökum uppfyllir ekki skilyrði til að fá námsstyrk skal hann endurgreiða fyrirframgreiddan styrk, sbr. ákvæði 17. gr.
Nánar skal mælt fyrir um framkvæmd þessar greinar í úthlutunarreglum. Þar má m.a. mæla fyrir um að við mat á námsframvindu megi líta til skólaársins í heild.
b. (16. gr.)
Fyrirkomulag útborgunar námslána.
Heimilt er að greiða námslán út skv. 13. gr. með mánaðarlegum fyrirframgreiðslum meðan á námsmissiri stendur til námsmanna sem hafa lokið a.m.k. einu missiri í aðstoðarhæfu námi. Fyrirframgreiðsla námslána er háð því skilyrði að lántaki uppfylli kröfur um eðlilega námsframvindu á viðkomandi námsmissiri, sbr. 10. gr. Ekki skal greiða út hærra námslán skv. 13. gr. fyrir fram meðan á námsmissiri stendur en sem nemur rétti til láns miðað við lágmarksnámsframvindu.
Heimilt er að greiða út námslán skv. 14. gr. fyrir fram til námsmanna sem sækja um slíkt og hafa lokið a.m.k. einu missiri í aðstoðarhæfu námi.
Sækja skal sérstaklega um fyrirframgreiðslu námslána og undirritað skal skuldabréf vegna hverrar útborgunar til lántaka.
Ekki er heimilt að greiða út námslán skv. 13 og 14. gr. fyrir fram ef námsmaður hefur fengið fyrirframgreiðslu á fyrra missiri án þess að hafa síðan uppfyllt kröfur um lágmarksnámsframvindu á viðkomandi missiri eða endurgreitt ofgreitt námslán, sbr. 7. mgr.
Í lok missiris, þegar námsframvinda liggur fyrir, skal gera upp missirið og greiða út námslán sem nemur mismun þegar greidds námsláns og heildarfjárhæðar námsláns á missirinu sem viðkomandi námsmaður sótti um og á rétt til samkvæmt lögum þessum.
Komi í ljós við uppgjör missiris skv. 5. mgr., að námsmaður sem fékk námslán greidd fyrir fram uppfyllti ekki lágmarksnámsframvindu á því missiri, eða hann af öðrum orsökum uppfyllir ekki skilyrði til að fá námslán, er heimilt að fella í gjalddaga skuldabréf sem veitt voru vegna fyrirframgreiðslu og innheimta þau samkvæmt ákvæðum 17. gr.
Nánar skal mælt fyrir um framkvæmd þessarar greinar í úthlutunarreglum. Þar má m.a. mæla fyrir um að við mat á námsframvindu megi líta til skólaársins í heild.
7. Við 16. gr., er verði 18. gr.
a. 1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Vextir af lánum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir hvert skólaár skulu vera að hámarki 2,5% að viðbættu 0,5 % álagi til að mæta væntum afföllum af endurgreiðslu námslána.
b. 2. málsl. 2. mgr. falli brott.
c. Við 2. mgr. bærist nýr málsliður, svohljóðandi: Vextir skulu ákvarðaðir í úthlutunarreglum hvers árs með hliðsjón af meðaltalslánakjörum sjóðsins.
8. Við 1. mgr. 17. gr., er verði 19. gr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við upphaf endurgreiðslna námslána skal sjóðurinn gefa út greiðsluáætlun til lánþega sem tekur mið af árlegri meðalverðbólgu síðustu 12 mánaða.
9. Á eftir 18. gr., er verði 20. gr., komi ný grein sem orðist svo ásamt fyrirsögn:
Niðurfelling afborgana.
10. Í stað 25. gr. komi tvær nýjar greinar sem orðist svo ásamt fyrirsögnum:
a. (28. gr.)
Upplýsingaskylda umsækjanda og lántaka.
Umsækjanda og lántaka er heimilt að veita skriflegt umboð fyrir því að sjóðurinn afli nauðsynlegra upplýsinga og gagna til að afgreiða umsókn eða erindi viðkomandi, sbr. 29. gr.
Verði breytingar á högum viðkomandi eftir veitingu upplýsinga skal hann þegar í stað skýra sjóðnum frá þeim ef ætla má að þær hafi áhrif á ákvörðun um námsaðstoð eða afgreiðslu erindis. Heimilt er að afturkalla samþykki fyrir veitingu námsaðstoðar eða afgreiðslu erindis sem byggðist á röngum eða villandi upplýsingum og endurheimta þá ofgreiðslu eða annan fjárhagsávinning sem viðkomandi fékk skv. 17. gr.
b. (29. gr.)
Heimild til upplýsingaöflunar.
Lánasjóði íslenskra námsmanna er heimilt að afla upplýsinga um tekjur lántaka frá ríkisskattstjóra í því skyni að reikna tekjutengda afborgun námsláns sem veitt var í tíð eldri laga og meta hvort skilyrði séu uppfyllt vegna umsókna skv. 20. og 21. gr. Þá er sjóðnum heimilt við afgreiðslu umsókna um frestun endurgreiðslu eða niðurfellingu afborgana, sbr. 20. og 21. gr., og við afgreiðslu umsókna um viðbótarlán vegna maka, sbr. 13. gr. og úthlutunarreglur hvers skólaárs, að afla upplýsinga um tekjur einstaklings sem er samskattaður með umsækjanda en viðkomandi skal þá upplýstur um vinnsluna með sannanlegum hætti.
Þau stjórnvöld sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr. skulu láta sjóðnum í té upplýsingar sem óskað hefur verið eftir.
Telji umsækjandi að upplýsingar sem sjóðurinn aflar frá þeim stjórnvöldum sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr. séu rangar skal viðkomandi tilkynna sjóðnum um það og leggja fram gögn því til staðfestingar.
Sjóðurinn getur aflað upplýsinga skv. 1. og 2. mgr. rafrænt eða á annan hátt sem hann ákveður. Tryggja skal að upplýsingaöflun og vinnsla persónuupplýsinga gangi ekki lengra en þörf krefur til að unnt sé að afgreiða umsókn umsækjanda.
Nánar skal mælt fyrir um upplýsingaskyldu og fræðslu til umsækjanda, og eftir atvikum til maka hans, í úthlutunarreglum.
11. Við 26. gr., er verði 30. gr.
a. Í stað orðanna „og aðilar sem fá upplýsingar frá sjóðnum í tengslum við hefðbundna starfsemi hans, svo sem verktakar, sérfræðingar eða starfsmenn Stjórnarráðsins“ í 1. mgr. komi: verktakar og sérfræðingar á vegum Lánasjóðsins.
b. 2. mgr. falli brott.
12. Við 27. gr., er verði 31. gr.
a. Í stað orðsins „námsaðstoðar“ í 1. mgr. komi: námsstyrks.
b. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lánasjóður íslenskra námsmanna skal þó veita ríkisskattstjóra reglulegar upplýsingar um fjárhæð tekjuskattsskyldra námsstyrkja sem greiddir eru út.
13. Í stað orðanna „1. ágúst 2016“ í 1. mgr. 29. gr., er verði 33. gr., komi: 1. ágúst 2017.
14. Í stað orðanna „1. desember 2018“ í 31. gr., er verði 35. gr., komi: 1. desember 2019.
15. Í stað orðanna „31. desember 2021“ í 32. gr., er verði 36. gr., komi: 31. desember 2022.
16. Við 36. gr., er verði 40. gr.
a. Í stað orðanna „2015–2016“ í fyrri málslið 1. mgr. komi: 2016–2017.
b. Í stað orðanna „15. janúar 2017“ í síðari málslið 1. mgr. komi: 15. janúar 2018.
17. Ákvæði til bráðabirgða I orðist svo:
Úthlutun námslána vegna skólaársins 2016–2017, þ.m.t. sumarannar 2017, fer eftir úthlutunarreglum þess skólaárs.
18. Í stað orðanna „2015–2016“ í ákvæði til bráðabirgða II komi: 2016–2017.
19. Við bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
a. (III.)
Ráðherra skal skipa fimm manna starfshóp til að útfæra tillögu um leiðir til að koma á hvatakerfi í gegnum skattkerfið við endurgreiðslu námslána, til stuðnings byggðastefnu. Annars vegar skal hópurinn útfæra hvatakerfi fyrir háskólamenntað fólk til að setjast að á svæðum á landsbyggðinni þar sem búsetuþróun er neikvæð og hins vegar skoða hvort nýta megi sambærilegt kerfi sem hvata til að sækja menntun sem fyrirsjáanlegur skortur er á í samfélaginu. Samstarfsnefnd háskólastigsins, Byggðastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga skulu tilnefna einn nefndarmann hver. Tveir nefndarmanna skulu skipaðir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Starfshópurinn skal skila tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. mars 2017.
b. (IV.)
Ráðherra skal skipa fimm manna starfshóp til að yfirfara samspil laga þessara og laga um námsstyrki, nr. 79/2003. Í vinnunni skal hópurinn hafa það að markmiði að allir framhaldsskólanemendur og nemendur í grunnnámi á háskólastigi sem geta ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili hér á landi eða öðrum jafngildum dvalarstað njóti ferðastyrkja óháð því hvort þeir nýta sér dvalarstyrki samkvæmt lögum um námsstyrki eða námsaðstoð Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þá skal hópurinn yfirfara samspil laganna að öðru leyti. Samband íslenskra framhaldsskólanema, Skólameistarafélag Íslands, samstarfsnefnd háskólastigsins og Samband íslenskra sveitarfélaga skulu tilnefna einn nefndarmann hver. Einn nefndarmaður skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Starfshópurinn skal skila tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. mars 2017.