Ferill 885. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1726  —  885. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (forkaupsréttur sveitarstjórnar).

Flm.: Páll Jóhann Pálsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
          a.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Eigi að selja fiskiskip, með eða án aflahlutdeildar, eða framselja aflahlutdeildir af viðkomandi fiskiskipi, sem leyfi hefur til veiða í atvinnu­skyni, til útgerðar sem hefur heimilisfesti í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu ásamt aflahlutdeildum eða eftir atvikum aflahlutdeildum einum og sér.
          b.      Á eftir orðunum ,,að kaupa skipið“ í 4. mgr. kemur: og/eða aflahlutdeildir.
          c.      Á eftir orðunum ,,Sé skipi“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: og/eða aflahlutdeildum.
          d.      Á eftir orðunum ,,sé skip selt“ 2. málsl. 5. mgr. kemur: og/eða aflahlutdeildir fram­seldar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sveitarstjórn eigi einnig forkaupsrétt, skv. 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða, þegar aflahlutdeildir eru framseldar útgerð sem hefur heimilis­festi í öðru sveitarfélagi. Samkvæmt gildandi lögum á sveitarstjórn aðeins forkaupsrétt ef fiskiskip er selt og því geta aflahlutdeildir færst í hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi án þess að sveitarstjórn eigi þess kost að njóta forkaupsréttar.