Ferill 631. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1727  —  631. mál.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum (fjárfestingarheimildir).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin afgreiddi málið 19. september sl. með breytingartillögu. Í kjölfarið bárust nefnd­inni erindi frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Samtökum fjármálafyrirtækja og fékk nefnd­in á sinn fund Guðjón Rúnarsson, Hreiðar Bjarnason, Stefán Pétursson, Unu Steinsdóttur og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Áhættustýring.
    Í 1. málsl. 1. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins segir að lífeyrissjóður skuli tilnefna starfsmann hjá sjóðnum til að bera ábyrgð á greiningu, mati, vöktun og stýringu áhættu. Landssamtök lífeyrissjóða lögðu til að í stað orðanna „mati, vöktun og stýringu“ kæmi „mælingu og skýrslugjöf um“ til að árétta að það væri á ábyrgð lífeyrissjóðs í heild og stjórnar hans að stýra áhættu, en ekki eins starfsmanns. Nefndin fellst á rökin og leggur til slíka breytingu.

Sértryggð skuldabréf.
    Í breytingartillögu nefndarinnar var lagt til að c-liður 2. tölul. 2. efnismgr. 5. gr. og 2. mgr. b-liðar 6. gr. (36. gr. c) frumvarpsins, sem greiða fyrir fjárfestingum lífeyrissjóða í sértryggð­um skuldabréfum, féllu brott. Tilgangur þess var að standa vörð um innstæður í bönkum og sparisjóðum.
    Tillagan sætti gagnrýni Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fjármálafyrirtækja. Sam­tökin töldu ákvæðin mikilvæg til að auka fjárfestingarmöguleika lífeyrissjóða og treysta langtímafjármögnun fjármálafyrirtækja. Þau töldu heppilegra að vernda innstæður með öðr­um hætti og bentu á ýmsar ráðstafanir til þess sem væru þegar í gildi eða í undirbúningi. Samtök fjármálafyrirtækja lögðu fram útreikninga sem sýndu að lífeyrissjóðir hefðu lítið svigrúm til frekari kaupa á sértryggðum skuldabréfum fjármálafyrirtækja ef frumvarps­ákvæðin yrðu ekki að lögum.
    Nefndin telur rétt að koma til móts við þessi sjónarmið og leggur því til að frumvarps­ákvæðin falli ekki brott. Nefndin telur þó að sinni rétt að stíga varfærnara skref en gert er ráð fyrir í 2. mgr. b-liðar 6. gr. (36. gr. c) frumvarpsins með því að miða við 10% fremur en 15%.

Gildistaka.
    Í breytingartillögu nefndarinnar var lagt til að lögin öðluðust gildi 1. janúar 2017. Af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða kom fram að lengri tíma þyrfti til að undirbúa framkvæmd laganna. Nefndin leggur því til að lögin öðlist þess í stað gildi 1. júlí 2017.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „mati, vöktun og stýringu“ í 1. málsl. 1. efnismgr. 3. gr. komi: mælingu og skýrslugjöf um.
     2.      B-liður 3. tölul. brtt. á þskj. 1686 falli brott.
     3.      C-liður 4. tölul. brtt. á þskj. 1686 orðist svo:
                 Í stað „15%“ í 2. mgr. b-liðar (36. gr. c) komi: 10%.
     4.      Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2017“ í 7. tölul. brtt. á þskj. 1686 komi: 1. júlí 2017.

    Sigríður Á. Andersen og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Vilhjálmur Bjarnason ritar undir álit þetta með fyrirvara. Birgitta Jónsdóttir sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og styður álit þetta.

Alþingi, 28. september 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Guðmundur Steingrímsson.
Katrín Jakobsdóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason,
með fyrirvara.
Willum Þór Þórsson.