Ferill 817. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1739  —  817. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum (verðtryggð neytendalán).

Frá 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Frumvarpið er líkast til tilraun til að uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar um að afnema verðtryggingu. Lítill gjaldmiðill og fábreytt atvinnulíf hafa valdið því að í gegnum tíðina hafa orðið miklar sveiflur í efnahagslífi landsins. Verðbólga verður ekki afnumin með því að afnema verðtryggingu. Verðtrygging verður óþörf ef efna­hagslífið er stöðugt.
    Í frumvarpinu er lagt til að 40 ára jafngreiðslulán verði bönnuð með ákveðnum undantekn­ingum. Þessi lán eru algengustu íbúðalán í landinu. Þetta eru lánin með lægsta greiðslubyrði á fyrstu árum, þeim árum sem oftast eru erfiðust íbúðakaupendum. Í riti Seðlabanka Íslands, Efnahagsmálum nr. 6, frá desember 2013, er fjallað ítarlega um verðtryggingu. Þar kemur fram að meginávinningurinn af verðtryggingu er að hún eyðir verðbólguáhættu. „Einmitt þess vegna er reynslan sú að raunvextir verðtryggðra lána eru jafnan lægri en raunvextir óverðtryggðra lána, þ.e. vegna þess að óverðtryggð lán fela í sér viðbótaróvissu um verðmæti endurgreiðslna eða með öðrum orðum að óverðtryggð langtímalán eru áhættusamari en verðtryggð, bæði fyrir lánveitanda og lántakanda. Þetta má sjá á mynd 4 sem sýnir að raun­vextir hafa að jafnaði verið hærri á óverðtryggðum en verðtryggðum lánum.“

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Einnig segir í ritinu „Í löndum þar sem verðbólga er mikil um langt skeið þróast oft mark­aður fyrir verðtryggð skuldabréf og verðtryggð lán. Verðtryggð ríkisskuldabréf hafa t.d. verið gefin út í Ísrael frá árinu 1955, í Brasilíu og Íslandi síðan árið 1964, í Síle og Kólumbíu síðan árið 1967, á Nýja-Sjálandi frá 1977, á Bretlandi frá árinu 1981, í Ástralíu síðan árið 1985 og í Mexíkó frá árinu 1989. Á tíunda áratugnum bættist fjöldi landa í hópinn: Kanada árið 1991, Pólland árið 1992, Svíþjóð árið 1994, Ungverjaland árið 1995, Grikkland, Tyrkland og Bandaríkin árið 1997, Frakkland árið 1998 og Kasakstan árið 1999 (Deacon, Derry og Mir­fendereski, 2004). Á þessari öld hefur enn fjölgað löndum þar sem gefin eru út verðtryggð ríkisskuldabréf og sú þróun hefur haldið áfram að útgefendur einskorðast ekki lengur við lönd sem glíma við þráláta verðbólgu. Tilgangurinn er fyrst og fremst að draga úr fjármagns­kostnaði ríkissjóðs því verðtryggðir raunvextir eru jafnan lægri en raunvextir á óverðtryggðri fjármögnun, eins og áður hefur verið rakið. Þessi bréf hafa einnig verið eftirsótt af lífeyris­sjóðum, enda passa þau vel við fjárhagsskuldbindingar þeirra.“
    Einnig er bent á í skýrslunni að verðtrygging sé „ein leið til þess að eyða þeirri óvissu sem skapast um raunvirði endurgreiðslna lána og skuldabréfa vegna sveiflukenndrar verðbólgu yfir samningstímann. Verðtrygging dregur því úr óvissu og þar með áhættuálagi. Raunvextir verðtryggðra bréfa verða því lægri en sambærilegra bréfa sem ekki eru verðtryggð (sjá t.d. Reschreiter, 2004).“
    Í athugasemdum með frumvarpinu er verðtryggðum jafngreiðslulánum til langs tíma líkt við lán sem ekki fela í sér afborgun á höfuðstól (e. interest only loans) og lán með neikvæðri höfuðstólsafborgun (e. negative amortization). Jafngreiðslulán ( annuitet) til langs tíma eiga ekkert skylt við hin tvö lánsformin. Þessi framsetning er beinlínis villandi og er hreint ekki til þess fallin að uppfræða almenning.
    Í umsögn frá Seðlabanka Íslands við frumvarpið segir m.a. „Í rökstuðningi fyrir frum­varpinu er vísað í skýrslu sérfræðingahópsins um afnám verðtryggingar frá því í janúar 2014. Í erindisbréfi sérfræðingahópsins kemur hins vegar skýrt fram að honum var falið að útfæra afnám verðtryggingar en ekki að leggja mat á hvort það væri æskilegt.“
    Þegar þetta bætist við það sem getið er hér að framan verður að segja að greinargerð og rökstuðningur fyrir frumvarpinu er óljós ef ekki beinlínis villandi. Að mati 4. minna hluta stingur þetta nokkuð í stúf við áhyggjur af því að lántakendur séu ekki nógu meðvitaðir um áhættu er varðar löng jafngreiðslulán. Í einu orðinu er lögð áhersla á upplýsingu og þörf á leiðbeiningum, en í hinu er slegið ryki í augu manna í greinargerð og rökstuðningi með frum­varpinu.
    Fjörutíu ára jafngreiðslulán eru ekkert sérstakt íslenskt fyrirbæri. Þau þekkjast víða. Eignamyndun hefst ekkert fyrr í fasteign sem fjármögnuð er með löngum jafngreiðslulánum í útlöndum en hér á landi. Það sem er íslenskt er hin háa verðbólga sem hér hefur verið og einnig og ekki síst að ofan á verðtrygginguna bætast vextir sem einir og sér eru háir miðað við vexti af íbúðalánum í öðrum löndum.
    Í frumvarpinu er sterk forsjárhyggja og virðist fyrst og síðast nauðsyn á að hafa vit fyrir þeim sem komnir eru yfir 35 ára aldur. Í umsögn Seðlabanka Íslands segir: „Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að með aldursmörkunum vinnist að lítill hluti lánsins standi eftir við eftirlaunaaldur. Tilgangur þess að beina sparnaði í auknum mæli í fasteignir frekar en dreifðari eignasöfn er óljós og getur aukið áhættu lántakandans. Þá má benda á að hin veðsetta eign stendur til tryggingar láninu og það er því líftími eignarinnar sem skiptir fyrst og fremst máli en ekki lífaldur lántakandans.“ Það mætti t.d. hugsa sér að fólk sem er vel við aldur og á dýra eign vildi taka lán gegn veði í hinni dýru eign og njóta lífsins í stað þess að skilja óveðsetta eign eftir fyrir erfingja að koma í verð.
    Fjórði minni hluti telur engin rök standa til þess að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslu­lán og leggst því gegn málinu.

Alþingi, 27. september 2016.

Valgerður Bjarnadóttir.