Ferill 860. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1741  —  860. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni um sjókvíaeldi á laxi af erlendum uppruna.


     1.      Hefur ráðherra látið kanna hvort ástæða sé til þess að gera það að skilyrði fyrir sjókvía­eldi á laxi af erlendum uppruna að um verði að ræða ófrjóan fisk?
    Slíkar hugmyndir hafa verið kannaðar en ekki hefur komið til þess að gera það að skilyrði, ekki síst þar sem óljóst hefur verið um afkomu ófrjós fisks. Lengi hefur verið ljóst að nýting ófrjórra hrogna þar sem svokallaðri þrílitnun er beitt getur leitt til aukinna affalla á hrogna- og smáseiðastigi og þá hefur einnig gætt aukinnar tíðni vanskapaðra seiða. Með auknum rannsóknum og þróun á liðnum missirum hefur komið í ljós að dregið hefur úr þessum neikvæðu áhrifum. Þá hafa tilraunir í Finnmörku og Tromsö í Noregi sýnt að ófrjósemi geti haft jákvæð áhrif í för með sér þar sem svo virðist sem vöxtur sé betri í köldum sjó en hjá frjóum laxi, en töluverð áhersla er lögð á þessar rannsóknir í Noregi. 1 Fyrirtæki sem fengið hafa úthlutað svokölluðu „grænu“ laxeldisleyfi í Norður-Noregi eru bundin þeim kvöðum að mega eingöngu nýta ófrjóan lax til áframeldis og hafa þau keypt slík hrogn af Stofnfiski hf. Ráðuneytið hefur einnig upplýsingar um að í undirbúningi sé tilraun hjá íslensku sjókvía­eldisfyrirtæki í samvinnu við Hafrannsóknastofnun á notkun á ófrjóum laxahrognum frá Stofnfiski hf.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til þess að leyfa því aðeins eldi á laxi af erlendum uppruna í sjókvíum við Ísland að um ófrjóan fisk sé að ræða?
    Áður en hægt er að svara þessari spurningu með fullnægjandi hætti þarf að liggja fyrir reynsla af nýtingu ófrjórra laxa í laxeldi á Ísland. Það er svo ekki eingöngu reynsla í eldinu sjálfu sem skiptir máli því auðvitað verður að liggja fyrir hvernig markaðurinn bregst við afurðum af þrílitna ófrjóum laxi, sem ekki er þýðingarminna í þessu samhengi. Til að útskýra þetta nánar er hægt að vísa til umræðu um erfðabreytt matvæli. Ef afurðir ófrjós lax yrðu felldar þar undir með beinum eða óbeinum hætti gæti það mögulega haft neikvæð áhrif á afsetningu hans á mörkuðum. Þetta er þó ekki þekkt á þessari stundu.

     3.      Telur ráðherra, í ljósi áforma um stóraukið sjókvíaeldi á laxi af erlendum uppruna eða með erlent erfðaefni, að beita ætti heildstæðu mati á landsvísu á grundvelli aðferðafræði við umhverfismat áætlana til að fá vitneskju um áhrif slíkrar starfsemi?
    Ráðherra telur mikilvægt að fyrir liggi hver sé áhætta fyrir þau svæði þar sem nú er stundað laxeldi og þar sem áform eru um eldi lax af norskum uppruna. Í ráðuneytinu er verið að undirbúa gerð stefnumótunar stjórnvalda í fiskeldi. Í tengslum við þá vinnu er gert ráð fyrir að unnið verði mat á þessari áhættu og til hvaða mótvægisaðgerða verði hægt að grípa til að minnka áhættu verði þörf á því.
Neðanmálsgrein: 1
1     forskning.no/fisk-oppdrett-dna/2013/08/en-million-steril-laks-skal-i-sjoen