Ferill 870. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1749  —  870. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (eintakagerð til einkanota).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Agnesi Guðjónsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Jakob Frímann Magnússon frá Sam­bandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Gunnar Guðmundsson frá Innheimtumiðstöð gjalda, Smára McCarthy frá IMMI – alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, Björn Th. Árnason og Gunnar Hrafnsson frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna og Aðalstein Ásberg Sigurðsson frá Rithöfundasambandinu. Þá hélt nefndin símafund með Rán Tryggva­dóttur frá höfundaréttarnefnd.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Félagi hljómplötuframleiðenda, Félagi íslenskra hljóm­listarmanna, Félagi leikstjóra á Íslandi, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, höf­undaréttarnefnd, Innheimtumiðstöð gjalda, Myndstefi, Rithöfundasambandi Íslands, Sam­bandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar og stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna.
    Samkvæmt ákvæði 11. gr. höfundalaga er einstaklingum heimilt „að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi“. Ákvæðið gerir að verkum að gerð eintaka af höfundaréttarvörðu efni, sem ella væri háð einkarétti höfundar efnisins, er heimil einstaklingum svo fremi sem eintakagerðin er til einkanota og ekki í fjár­hagslegum tilgangi. Ríkið er skuldbundið til að greiða höfundum bætur kjósi það að lögfesta á þennan hátt undantekningu frá einkarétti höfunda til eintakagerðar, m.a. skv. b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB. Hafa 3.–4. mgr. 11. gr. höfundalaga að geyma ákvæði um slíkar bætur. Breyttar neytendavenjur samhliða örri þróun á tækni og tækjabúnaði sem beita má til eintakagerðar hafa hins vegar gert að verkum að ákvæði 3. og 4. mgr. 11. gr. höfundalaga hafa úrelst og bætur til höfunda vegna heimildarákvæðis 1. mgr. stórlækkað á undanförnum árum. Aðalefni frumvarpsins, sbr. b- og c-lið 1. gr. þess, lýtur að breytingum á 3. og 4. mgr. 11. gr. höfundalaga sem taki tillit til breyttra venja og þeirrar þró­unar sem orðið hefur. Meðal gesta sem fjölluðu um málið á fundum nefndarinnar og aðila sem sendu nefndinni umsagnir um frumvarpið ríkir einhugur um þessa liði frumvarpsins.
    Á fundum nefndarinnar var mikið rætt um a-lið 1. gr. frumvarpsins. Samkvæmt þeim lið bætist nýr málsliður við 1. mgr. 11. gr. höfundalaga þess efnis að heimild til gerðar stafræns eintaks sé bundin við einstakling sem hefur lögmæt umráð eða aðgang að upprunaeintaki sem er dreift eða gert aðgengilegt með heimild rétthafa þess. Á fundi nefndarinnar lýstu fulltrúar ráðuneytisins sögulegum aðdraganda að þessu ákvæði og því að ákvæðinu væri ætlað að staðfesta það sem þegar teldist gildandi réttur. Hið sama kemur fram í athugasemdum frumvarpsins við a-lið 1. gr. þar sem segir jafnframt að ráðuneytið telji mikilvægt „að áréttað verði í 11. gr. höfundalaga að heimild til stafrænnar eftirgerðar til einkanota verði framvegis bundin við lögmætan eiganda upprunalegs eintaks.“ Innan nefndarinnar átti sér stað nokkur umræða um að merking hugtaka kynni að vera óljós og um hugsanlegar afleiddar afleiðingar þessa ákvæðis, yrði því bætt við 11. gr. höfundalaga í óbreyttri mynd. Þá benti fulltrúi IMMI – alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningafrelsi á það á fundi nefndarinnar að a- liður 1. gr. frumvarpsins væri til þess fallinn að draga úr tilhneigingu rekstraraðila kaffihúsa, veitingastaða o.fl. til að bjóða upp á óheftan aðgang gesta að netinu af ótta við að gerast þannig hugsanlega sekir um lögbrot. Einnig vekti ákvæðið spurningar um hvort hversdags­legar athafnir á borð við að sækja skjöl af vefsíðum, t.d. með því að vista myndir eða mynd­bönd eða taka skjáskot af vefsíðu, teldust lögbrot ef sá sem það gerði gengi ekki úr skugga um að hann hefði lögmætan aðgang að upprunaeintaki þess sem hann vistar. Erfitt, jafnvel ómögulegt, gæti orðið að meta hvort tiltekin hegðun stangaðist á við lög. Nefndin telur ljóst að umtalsverð óvissa ríki um túlkun ákvæðisins í a-lið 1. gr. frumvarpsins og telur heillavæn­legt að nánari og upplýstari umræða fari fram um orðalag þess og ætluð áhrif þess og afleið­ingar áður en það verður að lögum. Þar sem tilgangi ákvæðisins hefur verið lýst þannig að því sé ætlað að festa í sessi gildandi rétt telur nefndin skaðlaust að gildistöku þess að lögum sé frestað að sinni. Nefndin leggur því til að a-liður 1. gr. frumvarpsins falli brott en beinir því til ráðuneytisins að hafa milligöngu um nánari umræðu um ákvæðið þar sem andstæð sjónarmið verði rýnd og metin.
    Á fundum nefndarinnar var jafnframt rætt um fjármögnun þeirra greiðslna sem renna skulu til höfunda vegna heimildar til eintakagerðar en skv. b-lið 1. gr. frumvarpsins, sem verður 3. mgr. 11. gr. höfundalaga, skulu þær greiðast árlega með fjárveitingu samkvæmt fjárheimild í fjárlögum og er það breyting frá núverandi fyrirkomulagi. Nefndin leggur áherslu á að fjárveiting þessi komi af sérstökum lið í fjárlögum og komi til að mynda ekki til skerðingar á framlögum til menningarmála.
    Auk fyrrgreinds leggur nefndin til orðalagsbreytingu á 2. mgr. 61. gr. höfundalaga og að 7. tölul. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga falli brott. Er þetta gert til samræmis við þær breytingar sem verða á 11. gr. höfundalaga, verði frumvarpið að lögum, og þær breytingar á hugtaka­notkun sem í frumvarpinu felast.
    Að fyrrgreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      A-liður 1. gr. falli brott.
     2.      Á eftir 1. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (2. gr.)
                      7. tölul. 2. mgr. 54. gr. laganna fellur brott.
                  b.      (3. gr.)
                      Í stað orðsins „endurgjalds“ í 2. mgr. 61. gr. laganna kemur: sanngjarnra bóta.
     3.      Í stað tilvísunarinnar „b-lið“ í 2. gr. komi: a-lið.

    Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar undir álitið með fyrirvara um hugtakanotkun. Hann telur hugtakið „sanngjarnar bætur“, sem notað er yfir þær greiðslur sem renna til höfunda vegna lagaheimildar um eintakagerð til einkanota, óheppilegt þar sem það gefi m.a. í skyn að höf­undar verði fyrir beinu tjóni vegna slíkrar eintakagerðar án þess að slíkt hafi verið sannreynt.
    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Haraldur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu máls­ins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Al­þingis.

Alþingi, 4. október 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Jóhanna María Sigmundsdóttir,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Haraldur Einarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Vilhjálmur Árnason.