Ferill 892. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1759  —  892. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (afnám banns).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Vilhjálmur Árnason, Ásta Guðrún Helgadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Birgitta Jónsdóttir, Willum Þór Þórsson.


1. gr.

    Orðin „einkaneyslu eða“ í a-lið 2. mgr. 4. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

Um frumvarpið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að bann við framleiðslu áfengis til einkaneyslu verði afnumið.
    Áfengisneysla er rótgróinn hluti af íslenskri menningu. Framleiðsla þess, sala og neysla hafa lengi verið háð miklum takmörkunum vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem áfengisneysla veldur bæði þeim sem þess neyta og samfélaginu í heild.
    Helstu ágreiningsefni síðustu ára hafa snúið að sölufyrirkomulagi, þ.e. hvort áfengi skuli einungis selt í þar til gerðum, ríkisreknum verslunum, einkareknum verslunum eða hvoru tveggja. Með frumvarpi þessu er hvorki lögð til rýmkun á heimildum til dreifingar né breyt­ing á sölufyrirkomulagi.

Staðan í dag.
    Framleiðsla áfengis er samkvæmt núgildandi lögum heimil í atvinnuskyni með leyfi sem útgefið er af ríkislögreglustjóra samkvæmt reglugerð nr. 845/2007. Hins vegar er framleiðsla áfengis til einkaneyslu með öllu óheimil án tillits til eðlis framleiðslunnar eða leyfa.
    Þrátt fyrir þetta hefur framleiðsla áfengis til einkaneyslu tíðkast mjög víða og mjög lengi í samfélaginu, þótt ekki hafi verið áberandi áhugi meðal almennings á því að tekið sé á brot­inu. Þvert á móti hefur á undanförnum árum orðið til rík menning heimabruggunar, en athygli vekur að fólk sem stundar heimabruggun gerir jafnan enga tilraun til að fela hana. Fágun, fé­lag áhugafólks um gerjun, starfar fyrir opnum tjöldum, hefur haldið auglýsta viðburði sem fengið hafa fréttaumfjöllun, sent inn umsögn til Alþingis um frumvarp um breytingu á sölu­fyrirkomulagi áfengis og sömuleiðis komið á fund allsherjar- og menntamálanefndar til þess að ræða þá umsögn. Það er því óhætt að fullyrða að allnokkur hópur fólks stundi framleiðslu áfengis til einkaneyslu án þess að hafa áhyggjur af framfylgni laganna þegar um einkaneyslu er að ræða. Með hliðsjón af háum refsiramma virðist reyndar vera lítil meðvitund um að at­hæfið sé yfirhöfuð bannað.
    Þætti verknaðurinn hneykslanlegur eða brjóta í bága við almannahagsmuni mætti ætla að slík viðhorf kæmu fram í almennri umræðu um áfengismál, en svo er ekki. Áfengismál eru réttilega mjög umdeild og því verður að taka þeirri staðreynd að hvorki virðist áhugi meðal yfirvalda né almennings á því að framfylgja banninu sem vísbendingu um að hið fortakslausa bann við framleiðslu áfengis til einkaneyslu eigi ekki lengur erindi í íslensku samfélagi.

Íslensk bjórmenning.
    Síðustu árin hafa rutt sér til rúms fjölmargar nýjar tegundir af íslenskum bjór. Forvitni ferðamanna og áhugi þeirra á íslenskum bjór hefur aukist samhliða þeirri þróun.
    Óumdeilt þykir meðal þeirra sem til þekkja að heimabruggun eigi ríkan þátt í því að svo margar nýjar gerðir bjóra hafi komið fram á undanförnum árum og aflað sér vinsælda. Það skýtur skökku við að vaxtarbroddur íslenskrar bjórmenningar og sú jákvæða ímynd sem tek­ist hefur að afla íslenskum bjór hvað varðar gæði, grundvallist í reynd á afbroti sem þung refsing liggur við.

Réttindi borgaranna.
    Fólk hefur óskoraðan rétt til þess að geta á raunhæfan hátt kynnt sér þau lög sem ætlast er til að það fari eftir, sbr. 27. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að birta skuli lög. Markmið þeirrar greinar er að einstaklingar hafi raunhæft tækifæri til þess að haga sér í sam­ræmi við væntingar samfélagsins og í samræmi við lög. Þau lög sem hér um ræðir eru sjálf mjög skýr en hins vegar eru væntingar löggjafans og samfélagsins í miklu ósamræmi við lagabókstafinn eða í það minnsta óskýrar. Þótt ákvæðið stangist ekki beinlínis á við 27. gr. stjórnarskrárinnar stangast það hins vegar óneitanlega á við það markmið sem greininni er ætlað að ná, nefnilega það að borgarinn sé meðvitaður um hvaða hegðun teljist ásættanleg að mati löggjafa og samfélags.
    Þótt færa mætti rök fyrir því að sá hluti ákvæðisins sem bannar framleiðslu áfengis til einkaneyslu sé í reynd dauður bókstafur stendur eftir að ákvæðið er enn þá í lögum og í þokkabót mjög skýrt. Lítil almenn meðvitund um bannið ásamt þeirri staðreynd að athæfið er hvort tveggja samfélagslega viðurkennt og viðgengst enn fremur óáreitt veikir hins vegar stöðu borgarans gagnvart geðþóttaákvörðunum yfirvalda. Erfitt er að sjá fyrir fram hvaða afleiðingar það hefði fyrir þá einstaklinga sem framleiða áfengi til einkaneyslu ef yfirvöld tækju skyndilega upp á því að framfylgja banninu.

    Af fyrrgreindum ástæðum leggja flutningsmenn frumvarps þessa til að framleiðsla áfengis til einkaneyslu verði heimiluð með því að fella brott þann hluta ákvæðisins sem varðar ein­vörðungu einkaneyslu.