Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1761  —  383. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um fasteignalán til neytenda.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason frá fjár­mála- og efnahagsráðuneyti, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Tómas Möller og Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Birgi Runólfsson og Odd Ólafsson frá Íslandsbanka hf., Gísla Örn Kjartansson og Jón Þór Sturluson frá Fjár­málaeftirlitinu, Áslaugu Jósepsdóttur, Lúðvík Elíasson og Sigríði Benediktsdóttur frá Seðla­banka Íslands, Magnús Jóhannesson og Magnús Ægi Magnússon frá Kreditskor ehf., Hákon Stefánsson og Sigríði Laufeyju Jónsdóttur frá Creditinfo, Ástu S. Helgadóttur, umboðsmann skuldara, og Lovísu Ósk Karlsdóttur frá embætti umboðsmanns skuldara, Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur og Gunnhildi Gunnarsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Ólaf F. Þorsteinsson frá Sam­keppniseftirlitinu, Magnús M. Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Eirík Sigurjón Svav­arsson frá Lögmannafélagi Íslands, Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu, Jóhannes Gunnlaugsson og Hrannar Má Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Einar Sigurbergsson og Jakob Jakobsson frá Neko funding ehf. og Grétar Jónasson og Ingibjörgu Þórðardóttur frá Félagi fasteignasala.
    Umsagnir bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssamtökum lífeyrissjóða, Íslands­banka hf., Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, Kreditskor ehf., Creditinfo, umboðsmanni skuldara, Íbúðalánasjóði, Samkeppniseftirlitinu, Alþýðusambandi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Neytendastofu, Neytendasamtökunum, Neko funding ehf. og Félagi fasteignasala. Auk þess barst minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti um framkomnar athugasemdir.
    Frumvarpið fjallar um veitingu fasteignalána til neytenda í atvinnuskyni. Með frumvarp­inu er innleidd tilskipun 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði (fasteignalánatilskipunin). Nú gilda lög um neytendalán, nr. 33/2013, um allar lánveitingar til neytenda í atvinnuskyni, þ.m.t. fasteignalán.

3. gr. um undanþágur.
    Meiri hlutinn telur æskilegt að unnt sé fá lán til viðhalds á fjöleignarhúsum, til kaupa eða breytinga á húsnæði vegna sérþarfa vegna fötlunar eða veikinda og til endurfjármögnunar fasteignalána án tillits til takmarkana VII. kafla á veðsetningarhlutföllum. Meiri hlutinn legg­ur því til að slík lán verði undanþegin ákvæðum VII. kafla.

4. gr. um skilgreiningar.
    Meiri hlutinn leggur til að skilgreiningar á hugtökunum gistiríki og heimaríki í 4. gr. verði felldar brott þar sem þau koma hvergi annars staðar fram í frumvarpstextanum.
    Meiri hlutinn leggur til að bætt verið við skilgreiningu á greiðsluerfiðleikum sem er sam­hljóða núverandi skilgreiningu í c-lið 2. gr. reglugerðar um lánshæfis- og greiðslumat, nr. 920/2013.

7. gr. um skyldu til að veita neytendum upplýsingar án endurgjalds.
    
Oft hefur verið bent á að lántökugjöld umfram kostnað lánveitenda við gerð lánasamninga hamli samkeppni á lánamarkaði þar sem þau gera lántakendum erfiðara að færa sig milli lán­veitenda. Í samanburði á lagareglum um kostnað vegna fasteignalána á Norðurlöndunum sem fjármála- og efnahagsráðuneyti lagði fram kemur fram að lántökugjöld sem eru hlutfall af upphæð láns þekkjast ekki í Danmörku og Noregi, eru óheimil í Svíþjóð og mun lægri í Finn­landi en hérlendis. Meiri hlutinn telur tímabært að takmarka slík gjöld hérlendis og leggur því til að óheimilt verði að krefja neytanda um önnur gjöld við gerð samnings um fasteigna­lán en þau sem stafa af beinum kostnaði lánveitanda af gerð samningsins.

9. gr. um þekkingar- og hæfniskröfur fyrir starfsmenn.
    Bent var á að nauðsynlegt væri að skilgreina hvað félli undir miðlun lána skv. 1. mgr. 9. gr. Til að taka af öll tvímæli leggur meiri hlutinn til smávægilegar breytingar á 1. mgr. 9. gr. og 13. tölul. 4. gr.
    Meiri hlutinn leggur til að í ákvæði til bráðabirgða verði kveðið á um hæfilegan frest til aðlögunar að þeim kröfum sem gerðar eru til þekkingar og hæfni starfsfólks skv. 9. gr. frem­ur en að ráðherra verði veitt heimild til þess eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

12. gr. um almennar upplýsingar um lánaframboð.
    Í 6. og 7. tölul. 2. mgr. 12. gr. kemur fram að veita skuli skýringardæmi um þýðingu verð­tryggingar láns eða tengingar láns við erlenda gjaldmiðla. Bent var á að rétt væri að veita einnig skýringardæmi um þýðingu breytilegra vaxta á óverðtryggðu láni. Meiri hlutinn telur einnig æskilegt að neytendur geti kynnt sér við hvaða aðstæður og með hvaða hætti vextir breytast áður en þeir fá lánstilboð í hendur. Meiri hlutinn leggur því til smávægilega breyt­ingu á 5. tölul. 2. mgr. 12. gr.

14. gr. um almennar upplýsingar um þróun verðlags, vaxta og gengis erlendra gjald­miðla.
    Meiri hlutinn leggur til að upplýsingar skv. 1. mgr. 14. gr. skuli veittar á pappír eða öðrum varanlegum miðli til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins sem fjalla um upplýsinga­skyldu lánveitanda.

19. gr. um útreikning viðbótar-árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.
    Í 1. tölul. 19. gr. kemur fram að viðbótar-árleg hlutfallstala kostnaðar skuli miðuð við há­marksvexti ef samningur um fasteignalán felur í sér breytilega vexti. Kveði samningur ekki á um hámarksvexti skuli hlutfallstalan miðast við hæstu ársvexti sambærilegra lána hjá lán­veitanda síðustu 15 ár.
    Meiri hlutinn leggur til að miðað verði við 20 ár í stað 15 ára til samræmis við fasteigna­lánatilskipunina. Meiri hlutinn leggur einnig til að ráðherra verði falið að setja reglur í reglu­gerð um útreikninginn þegar ekki liggur fyrir 15 ára vaxtasaga. Viðmið þar að lútandi koma fram í leiðbeiningum við 4. hluta töflu í viðauka II við fasteignalánatilskipunina.

20. gr. um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats.
    Í nokkrum umsögnum kom fram að ekki væri skýrt hvort lánveitanda væri heimilt skv. 20. gr. að styðjast við lánshæfis- eða greiðslumat frá þriðja aðila. Meiri hlutinn tekur af því tilefni fram að ekki er um efnislega breytingu frá gildandi rétti að ræða. Áfram verður heimilt að byggja á lánshæfis- eða greiðslumati þriðja aðila, en ábyrgðin á slíkri lánveitingu verður engu síður lánveitanda.

21. gr. um greiðslumat fasteignalána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.
    Það getur freistað neytenda að taka lán sem tengjast lágvaxtamyntum. Slíkum lánum fylgir þó jafnan gengisáhætta sem erfitt er að meta. Reynslan sýnir að sveiflur í gengi gjaldmiðla geta verið bæði óvæntar og miklar og valdið óvörðum neytendum með lán tengd erlendum gjaldmiðlum og lánveitendum miklu tjóni. Ekki hafa verið færð rök fyrir því að nauðsynlegt sé að veita óvörðum neytendum slík lán og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gerir ekki kröfu um að svo langt verði gengið. Meiri hlutinn telur því rétt að stíga varlega til jarðar í þessu efni.
    Meiri hlutinn bendir á að fjárhagslegir burðir óvarinna lántaka koma ekki í veg fyrir að lán tengd erlendum gjaldmiðli magni upp hagsveiflur og ógni fjármálastöðugleika, eins og rakið er ítarlega í áliti meiri hluta nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um neytendalán (384. mál). Meiri hlutinn leggur því til að einungis verði hægt að veita lán tengd erlendum gjald­miðlum til neytenda sem eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu út lánstímann.

22. gr. um ákvörðun um lánveitingu.
    Meiri hlutinn leggur til að í stað orðanna „til þess fallið að valda neytanda tjóni“ í 1. málsl. 10. mgr. 22. gr. komi „sé það neytanda í óhag“ til samræmis við orðalag 1. málsl. 4. mgr. 18. gr. fasteignalánatilskipunarinnar.

23. gr. um undanþágur frá almennum reglum um lánshæfis- og greiðslumat.
    Meiri hlutinn leggur til að hlutfallið í 4. tölul. 1. mgr. 23. gr. hækki í 20% til að greiða fyrir skilmálabreytingum lána, svo sem ef neytandi vill hækka reglulegar endurgreiðslur til að stytta lánstíma.
    Meiri hlutinn leggur til að undanþága 5. tölul. 1. mgr. 23. gr. nái til maka sem situr í óskiptu búi, auk erfingja.

24. gr. um upplýsingar vegna greiðslumats.
    Meiri hlutinn leggur til að í 5. mgr. 24. gr. komi skýrt fram hverjar afleiðingar það hafi að neytandi veiti ófullnægjandi upplýsingar. Af 4. mgr. 20. gr. fasteignalánatilskipunarinnar má ráða að gerð er krafa um að neytandi skuli upplýstur um að ekki er hægt að veita lán nema hann veiti umbeðnar upplýsingar vegna lánshæfis- og greiðslumats.

25. gr. um hámark veðsetningarhlutfalls.
    Meiri hlutinn leggur til að vísað verði til álits fremur en tilmæla fjármálastöðugleikaráðs í 1. mgr. 25. gr. til samræmis við tillögu Fjármálaeftirlitsins. Af því leiðir að ákvörðun Fjár­málaeftirlitsins um hámark veðsetningarhlutfalls verður ekki háð tilmælum fjármálastöðug­leikaráðs, heldur aðeins því að fyrir liggi álit ráðsins.

Ný grein um takmörkun í hlutfalli við tekjur neytenda
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins var bent á mikilvægi þess að eftirlitsstofnanir hafi mismun­andi stjórntæki tiltæk til að draga úr fasteignabólum og uppsöfnun áhættu út frá aðstæðum hverju sinni. Mismunandi stjórntæki hafi áhrif á mismunandi hópa og með mismunandi hætti og takmörk á veðsetningarhlutfalli séu ekki ávallt áhrifaríkasta leiðin til að vinna gegn útlánasveiflum. Fjármálaeftirlitið lagði því til að sér yrði einnig heimilað, að fengnu áliti fjár­málastöðugleikaráðs, að takmarka fasteignalán eða greiðslubyrði þeirra í hlutfalli við tekjur neytenda.
    Meiri hlutinn fellst á að æskilegt sé að auka við stjórntæki Fjármálaeftirlitsins með þess­um hætti til að gera því betur kleift að beita viðeigandi tæki hverju sinni. Meiri hlutinn leggur því til að slíkri heimild verði bætt við VII. kafla frumvarpsins.

27. gr. um aðgang að gagnagrunni.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 27. gr. frumvarpsins til að árétta að aðgangurinn er háður reglum um persónuvernd, sbr. lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

32. gr. um fasteignalán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.
    Meiri hlutinn leggur til að neytanda verði ávallt heimilt að breyta eftirstöðvum fasteigna­láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur. Það færir gengisáhættuna af lán­taka á lánveitanda. Lánveitendur munu því þurfa að taka meira tillit til gengisáhættu og reikna áhættuna inn í vexti á lánunum. Neytendur geta því betur gert sér grein fyrir raunveru­legum kostnaði lánanna.
    Meiri hlutinn telur einnig nauðsynlegt að eftirstöðvum fasteignaláns sem tengt er erlend­um gjaldmiðlum verði breytt í íslenskar krónur ef neytandi uppfyllir ekki lengur skilyrði 21. gr. og er því ekki lengur varinn gegn gengisáhættu lánsins. Umbreyting í krónur er nauðsyn­leg til að koma í veg fyrir að einstakir neytendur séu óvarðir fyrir gengisáhættu, t.d. vegna breyttra aðstæðna, og einnig til að koma í veg fyrir að með tímanum safnist upp fjöldi óvar­inna lántakenda með stöðu sem gæti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Meiri hlutinn leggur því til að lánveitendum verði skylt að kanna reglubundið varnir neytenda gegn gengisáhættu á lánstíma, eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Viðvarandi eftirlit er nauðsynlegt til að draga úr áhættu neytenda, en jafnframt til þess að veita Fjármálaeftirlitinu rétta mynd af útlánaáhættu lánveitenda. Einnig hefur verið bent á að án viðvarandi eftirlits yrði lántökum mögulegt að afla skammtímagengisvarna til þess eins að standast greiðslumat, en þær varnir yrðu þá ekki til taks ef gengisáhættan raungerðist.

36. gr. um greiðslu fyrir gjalddaga.
    Margir umsagnaraðilar lýstu áhyggjum af því að hámarksviðmið uppgreiðslugjalds skv. 3. mgr. 36. gr. væri of hátt. Bent var á að það gæti verið til bóta að kveða á um fast hámark á hlutfall uppgreiðslugjalds. Sjónarmið um neytendavernd vega þungt í þessu samhengi og telur meiri hlutinn rétt að bregðast við framangreindum áhyggjum umsagnaraðila. Leggur meiri hlutinn því til að uppgreiðslugjald megi ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur 4% af endurgreiðslu.

38. gr. um eftirstöðvar í kjölfar nauðungarsölu á fasteign.
    Nefndinni barst ein umsögn þar sem athugasemd var gerð við 38. gr. frumvarpsins. Fram kom að skýra þyrfti á hvaða grundvelli lánveitanda væri skylt að bjóða upp á samkomulag um endurgreiðslu eftirstöðva. Umsagnaraðili lagði til að lánveitandi gæti krafist þess að fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar um fjárhag lántaka, að ekki væri hætta á undanskoti eigna og að greiðslugeta gæfi tilefni til þess að eftirstöðvar yrðu endurgreiddar innan hæfilegs tíma og mætti líta til eignastöðu og fara fram á tryggingar væru þær til staðar. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og gerir tillögu að slíkri breytingu á 38. gr.

42. gr. um umsókn og skilyrði skráningar.
    Í 42. og 46. gr. frumvarpsins er notast við hugtakið „óflekkað mannorð“. Meiri hlutinn leggur til að fremur verði rætt um „gott orðspor“ til að gæta samræmis við hugtakanotkun í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

45. gr. um skráningu lánamiðlara.
    Bent var á að þeir aðilar sem taldir eru upp í 2. tölul. 2. mgr. 45. gr. sinni ekki lánamiðlun eða lánaráðgjöf eins og þau hugtök eru skilgreind í frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur því til að töluliðurinn falli brott.

46. gr. um skilyrði fyrir skráningu.
    Í 3. tölul. 1. mgr. 46. gr. er fjallað um hæfisskilyrði stjórnarmanna lánamiðlara, sem starf­ar sem lögaðili. Meiri hlutinn leggur til að hæfisskilyrðin gildi einnig um framkvæmdastjóra lánamiðlara til samræmis við hæfisskilyrði lánveitenda í 2. tölul. 1. mgr. 42. gr.
    Meiri hlutinn leggur til að ráðherra verði skylt fremur en heimilt að ákveða lágmarks­fjárhæð starfsábyrgðartryggingar lánamiðlara í reglugerð, sbr. 2. mgr. 46. gr.

52. gr. um stjórnvaldssektir.
    Í samræmi við ábendingu umsagnaraðila leggur meiri hlutinn til að felldur verði brott 19. tölul. 1. mgr. 52. gr. frumvarpsins, sem heimilar Neytendastofu að leggja stjórnvaldssektir á lánveitanda eða lánamiðlara sem brýtur gegn 25. gr. um hámark veðsetningarhlutfalls. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á lánveitanda eða lánamiðlara sem brýtur gegn ákvæðinu skv. 3. tölul. 1. mgr. 56. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn telur óheppi­legt að tvær stofnanir fari með það vald.

61. gr. um gildistöku.
    Lögin kalla á talsverða aðlögun lánveitenda að nýjum og auknum kröfum við meðferð og umsókn fasteignalána til neytenda. Meiri hlutinn leggur því til að gildistöku laganna verði frestað frá 1. september 2016 til 1. apríl 2017.

63. gr. um breytingu á öðrum lögum.
    Í e-lið 1. tölul. 63. gr. er lagt til að 25. gr. laga um neytendalán falli brott þar sem hún varðar fasteignalán og mælt er fyrir um sambærilega upplýsingaskyldu í 14. gr. frumvarpsins. Í áliti meiri hluta nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verð­tryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um neytendalán (384. mál) var lagt til að aukið yrði nokkuð við upplýsingaskyldu skv. 25. gr. laga um neytendalán. Í ljósi þeirra breyt­ingartillagna leggur meiri hlutinn til að e-liður 1. tölul. 63. gr. þess frumvarps sem hér er til umræðu falli brott.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgitta Jónsdóttir sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og styður álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 7. október 2016.


Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Anna Margrét Guðjónsdóttir,
með fyrirvara.
Katrín Jakobsdóttir,
með fyrirvara.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Willum Þór Þórsson.