Ferill 876. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1765  —  876. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um heimild til handa Landsneti hf. til að reisa og reka 220 kV raflínur frá Kröflustöð að Þeistareykjavirkjun og að iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi.

Frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Það frumvarp sem hér er fjallað um er fyrir margra hluta sakir sérstakt en þó aðallega vegna mjög óvæntrar stöðu sem upp er komin og menn sáu ekki fyrir hvað varðar þær mikil­vægu framkvæmdir á iðnaðarsvæðinu í landi Bakka, þ.e. byggingu kísilvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun og þarna á milli.
    Þessi staða er upp komin vegna bráðabirgðaúrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í framhaldi af kæru Landverndar og Fjöreggs í Mývatnssveit þar sem fram­kvæmdaleyfi tveggja sveitarfélaga er kært og er verkefnið komið í algjört uppnám.
    Fyrsti minni hluti telur helstu ástæðu þessarar stöðu vera þá að Alþingi lögfesti ekki skýrt lagaskilaákvæði í nýjum náttúruverndarlögum sem tóku gildi 15. nóvember 2015. Telja verð­ur að kveða hefði þurft á um lagaskil hvað varðar verkefni sem eru hafin og búið er að vinna samkvæmt gildandi lögum á þeim tíma, þ.e. sem skipulagsáætlanir og umhverfismat framkvæmdanna, þ.m.t. línulagnir, voru unnin eftir.
    Í nokkra áratugi hefur verið unnið að atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum sem byggist á nýtingu jarðhitaauðlinda svæðisins sem lauk loks með undirritun viljayfirlýsingar milli þáverandi ríkisstjórnar Íslands og fjögurra sveitarfélaga á svæðinu, þ.e. Norðurþings, Skútu­staðahrepps, Þingeyjarsveitar og Tjörneshrepps um samstarf á sviði orkunýtingar og upp­byggingar innviða til að takast á við löngu nauðsynlega atvinnuuppbyggingu innviða svæð­isins, sem eins og áður sagði hefur staðið yfir í áratugi.
    Á vordögum 2013 lagði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fram frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að fjármagna uppbyggingu innviða vegna framkvæmdanna og voru lög samþykkt til þess 28. mars 2013 með miklum meiri hluta og stuðningi allra flokka sem sátu þá á Alþingi. Málið naut mikils stuðnings og var loksins komið á lokastig og ekkert því til fyrirstöðu til að hefja framkvæmdir.
    Alþingi samþykkti lög með miklum meiri hluta atkvæða um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi, nr. 52/2013. Í kjölfarið var ráðist í verulegar fjárfest­ingar vegna atvinnuuppbyggingar á Norðausturlandi. Þessu tengt var gerður fjárfestingar­samningur milli ríkisstjórnar Íslands og PCC SE og PCC BakkiSilicon hf.
    Í framhaldi af því voru gerðir samningar um sölu og flutning raforku við annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Landsnet. Á grundvelli raforkusölusamnings hóf Landsvirkjun byggingu 1. áfanga Þeistareykjavirkjunar til að tryggja orkuöflun, m.a. fyrir iðnaðarsvæðið á Bakka. Bygging virkjunarinnar er á áætlun og mun því Landsvirkjun geta staðið við samninga sína um orkusölu til PCC BakkiSilicon hf. síðla árs 2017, eins og samningar kveða á um. Landsnet hf. hefur um langt skeið unnið að undirbúningi nauðsynlegra flutnings­mannvirkja til að mæta framangreindri uppbyggingu á svæðinu og lauk umhverfismati vegna fyrirhugaðra framkvæmda árið 2010, þegar álit Skipulagsstofnunar lá fyrir. Umsagnir sem bárust við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna gáfu ekki tilefni til að álykta að framkvæmt væri í andstöðu við samfélag og umhverfi. Í samræmi við ákvæði laga hefur því verið fjallað um og lagt mat á umhverfisáhrif nauðsynlegra flutningsvirkja Landsnets hf., Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2 (sem nú bera saman heitið Kröflulína 4) og Þeistareykjalínu 1, 220 kV. Rétt er að taka fram að það er ákvörðun framkvæmdaraðilans Landsnets að reisa línurnar sem 220 kV línur. Sú ákvörðun byggist á mati á framtíðarþörf iðnaðarsvæðisins á Bakka en ekki síður og enn þá mikilvægara er að línur með þá flutningsgetu eru liður í aflflæðistjórnun raforkukerfisins í heild því að mikil þörf er á styrkingu landskerfisins, sérstaklega utan suðvesturhluta landsins. Þeistareykjalína 1 er hluti af uppbyggingu raforku­kerfisins samkvæmt samþykktri kerfisáætlun. Megintilgangur Þeistareykjalínu 1 er að tengja Þeistareykjavirkjun við iðnaðarsvæðið á Bakka en enn fremur að tengja þéttbýlið við Skjálfandaflóa og allt norðausturhorn landsins til að styrkja innviðina á því svæði. Tilgangur Kröflulínu 4 er fyrst og fremst að tengja Þeistareykjavirkjun við landsnetið. Eftirtaldir ferlar eru undangengnir og fjallað hefur verið um og lagt mat á umhverfisáhrif nauðsynlegra flutningsvirkja í:
          Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007–2025.
          Aðalskipulagi Norðurþings 2010–2030.
          Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010–2022.
          Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011–2023.
          Matsskýrslu Landsnets, 2010.
          Matsskýrslu Landsnets, Landsvirkjunar, Þeistareykjavirkjunar og Alcoa, 2010. Sam­eiginlegt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík.
          Áliti Skipulagsstofnunar um háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Jarðstrengur (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu, 2010.
          Áliti Skipulagsstofnunar um sameiginlegt mat, 2010.
          Deiliskipulagi Þeistareykjavirkjunar. Þingeyjarsveit, 2012.
          Matsskýrslu. Kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka við Húsavík, 2013.
          Áliti Skipulagsstofnunar um Kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík, 2013.
    Eins og hér er talið upp hefur mikil vinna farið fram í fjölmörg ár til að undirbúa verkefnið og komst það loks til framkvæmda 18. september 2015 þegar framkvæmdir hófust.

Kæra Landverndar.
    Eins og áður hefur komið fram kærði Landvernd framkvæmdaleyfi sveitarfélaganna sem gefin voru út fyrr á þessu ári til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í bráðabirgða­úrskurðum nefndarinnar frá júní og ágúst sl. voru yfirstandandi framkvæmdir við lagningu línanna stöðvaðar og sá úrskurður m.a. rökstuddur með vísan til nýrra náttúruverndarlaga sem tóku gildi 15. nóvember 2015 eins og áður sagði. Þessi úrskurður sem kemur svo seint í ferlinu sem raun ber vitni hefur sett málið í grafalvarlega stöðu. 1. minni hluti ítrekar að þessi kæra byggist á lagaheimild og telur afar brýnt að útgáfa framkvæmdaleyfa færist mun framar í ferli framkvæmda og þannig verði unnt að stuðla að betri og vandaðri stjórnsýslu.

Línulögn og jarðstrengir.
    Ein af kröfum Landverndar er að kannaður verði frekar möguleikinn á að leggja jarð­strengi um viðkvæm svæði frekar en loftlínu. 1. minni hluti tekur undir það sjónarmið að notkun jarðstrengja verði að koma til frekari skoðunar og notkun þeirra verði að aukast á viðkvæmum svæðum í framtíðinni. Í þessu tilviki er það ekki hægt vegna þess að fram kom á fundi nefndarinnar með fulltrúum Skipulagsstofnunar að slíkt mundi kalla á endurskoðun skipulagsáætlana sveitarfélaganna sem og nýtt mat á umhverfisáhrifum. Tíminn leyfir því ekki slíka skoðun í þessu tilviki enda eru framkvæmdir hafnar og undir ákveðinni tímapressu eins og áður hefur komið fram. 1. minni hluti ítrekar að leggja þurfi meiri áherslu á jarð­strengi umfram loftlínur þar sem það á við og ber að kanna þann möguleika betur við framkvæmdir komandi ára. Á síðasta þingi samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnu stjórn­valda um lagningu raflína og eru þar tilgreind atriði sem horfa skuli til við ákvörðun um hvort leggja skuli línu í jörð eða í loft og er þar gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða hið lágspennta dreifikerfi raforku, landshlutakerfi raforku eða meginflutningskerfið (þingsályktun nr. 11/144).

Áskorun sveitarstjórna.
    Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Norðurþings samþykktu allar áskor­un til stjórnvalda 20. september sl. og er sú áskorun fylgiskjal með nefndaráliti þessu.

Lokaorð.
    Með vísan til framangreinds og allrar þeirrar löngu og faglegu vinnu samkvæmt gildandi lögum sem hefur átt sér stað telur 1. minni hluti ekki annað hægt en að bregðast við svo óvæntri og erfiðri stöðu með því að samþykkja frumvarpið. 1. minni hluti styður breytingar­tillögu meiri hluta nefndarinnar og áréttar að ekki beri að líta á lagasetningu þessa sem fordæmisgefandi.

Alþingi, 29. september 2016.

Kristján L. Möller.



Fylgiskjal.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.







Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.