Ferill 893. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1767  —  893. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum (frestun réttaráhrifa).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (UBK, VilÁ, JMS, WÞÞ, PJP).


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. 32. gr. frestar kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar í þeim tilvikum sem falla undir d-lið 1. mgr. 32. gr. Ákvæði þetta gildir til 1. janúar 2017.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpinu er kveðið á um að til 1. janúar 2017 muni kæra í tilteknum málum umsækjenda um alþjóðlega vernd, þar sem Útlendingastofnun hefur ákveðið að viðkomandi skuli yfirgefa landið, ekki fresta réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Tekur ákvæðið til þeirra mála þar sem umsækjandi kemur frá ríki á lista yfir örugg upprunaríki, sbr. 3. mgr. 50. gr. d, og Útlendingastofnun metur umsóknina að öðru leyti bersýnilega tilhæfulausa.
    Tilgangur ákvæðisins er að létta því mikla álagi sem verið hefur á móttöku- og búsetu­úrræðum fyrir hælisleitendur með því að stytta dvalartíma í þeim málum þar sem lægra stjórnsýslustig hefur metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og umsækjandi kemur frá ríki á lista yfir örugg upprunaríki. Ef fram fer sem horfir stefnir í að um 1000 manns sæki um hæli hér á landi á árinu og má því segja að ákveðið neyðarástand ríki í þessum málum. Gera má ráð fyrir að kostnaður á fjárlagalið hælisleitenda á þessu ári verði um 1,7 milljarðar kr. Af þeim umsóknum sem borist hafa er um helmingur frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki. Því er ljóst að kostnaður vegna umsókna frá þessum ríkjum er verulegur.
    Líkt og áður segir er því lagt til að umsækjandi fari úr landi svo fljótt sem verða má eftir að niðurstaða liggur fyrir á fyrsta stjórnsýslustigi. Það áréttast að með þessu er hvorki slegið af kröfum til réttlátrar málsmeðferðar á fyrsta stjórnsýslustigi né rétti umsækjanda til að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar.