Ferill 679. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1768  —  679. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).

Frá atvinnuveganefnd.


     Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ragnar Aðalsteinsson fyrir hönd Félagsbúsins Miðhrauns 2 sf., Sturlu Böðvarsson fyrir hönd Stykkishólmsbæjar og Finn Árnason frá Þörungaverksmiðjunni hf. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bjarna Kristjánssyni, Félagsbúinu Miðhrauni 2 sf., rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Samtökum eigenda sjávarjarða, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Þörungaverksmiðj­unni hf.
    Í frumvarpinu eru lagðar til lagabreytingar í því skyni fella töku þangs og þara í atvinnuskyni undir lagaákvæði á sviði fiskveiðistjórnar og að samtímis verði rannsóknir á sjávargróðri efldar. Lagðar eru til nokkrar viðbætur við frumvarpið:
    Í fyrsta lagi er lagt til að við frumvarpið bætist ný grein um leyfi til að starfrækja móttöku­stöð fyrir þang. Lagt er til að ráðherra geti með reglugerð mælt fyrir um að ekki megi starfrækja slíka stöð til þurrkunar í atvinnuskyni og til frekari vinnslu nema hafa til þess leyfi frá Fiskistofu. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi og er kveðið á um hvaða upplýs­ingar skuli koma fram í umsókn. Samkvæmt breytingartillögunni er heimilt, ef umsóknir berast um móttöku meiri afla en ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar nemur, að úthluta leyfum til takmarkaðs fjölda umsækjenda þannig að hver fái heimild til móttöku tiltekins afla á ári eða lengra tímabili. Einnig er kveðið á um að leitast skuli við að ekki færri en tveir aðilar hafi heimild til móttöku afla frá viðkomandi svæði og heimilt sé að líta til þekkingar og stöðu umsækjenda sem og til framlags til rannsókna og áhrifa starfseminnar á byggð á svæðinu. Þá er kveðið á um að leyfi gildi í 15 ár, séu endurskoðuð á 5 ára fresti og að leyfishafi skuli skrá móttekinn afla eftir því hvar hann var tekinn. Jafnframt er kveðið á um að heimilt sé að breyta eða afturkalla leyfi hvenær sem er ef nauðsyn krefur vegna verndar umhverfisins og til að endurskipuleggja stjórn nýtingar í nánar tilgreindum tilvikum.
    Í öðru lagi er lagt til að við a-lið 5. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein þess efnis að skip sem stunda öflun sjávargróðurs skuli leggja aflann upp í móttökustöð fyrir viðkomandi svæði.
    Í þriðja lagi er lagt til að við lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða í þá veru að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um leyfisbindingu fyrir að starfrækja stöð til móttöku á þangi frá Breiðafirði enda liggi ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir. Kveðið er á um að Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum njóti forgangs umfram aðra umsækjendur við útgáfu leyfa skv. nýrri 15. gr. c sem nemi allt að 20 þús. tonnum. Miðað er við að þessi heimild verði nýtt einu sinni við útgáfu leyfis verði frumvarpið að lögum enda verði umsóknir um móttöku þangs í Breiðafirði verulega umfram ráðgjöf Hafrannsókna­stofnunar. Þannig felur heimildin ekki í sér neins konar lágmarksviðmiðun án tillits til lífríkisins eða hagsmuna annarra mögulegra leyfishafa í Breiðafirði.
    Í fjórða lagi er lagt til að ákvæði frumvarpsins um álagningu veiðigjalds falli brott og telur nefndin brýnt að fyrst um sinn verði ekki um slíka gjaldtöku að ræða. Í þessu sambandi vekur nefndin athygli á því að aðilar sem nýta eða hyggjast nýta þörunga við Breiðafjörð í atvinnu­skyni hafa átt samstarf við Hafrannsóknastofnun um rannsóknir og m.a. lagt fram tæki, vinnu og þekkingu, eins og fram hefur komið við meðferð málsins. Nefndin vísar jafnframt til þess að við fyrirhugaða endurskoðun laga um veiðigjald gefst færi á að skoða þetta atriði frekar. Nefndin leggst gegn því að veiðigjald verði lagt á þara- eða þangtöku innan netlaga og skal bent á að um er að ræða gróður sem vex innan eignarmarka og því er ekki um fiskstofn að ræða.
    Í fimmta lagi er lagt til að lögin öðlist gildi 1. apríl 2017 og því gefst tími til að undirbúa gildistökuna og koma þau þá að fullu til framkvæmda á þessum tíma. Einnig er lögð til breyting á frumvarpinu í þá veru að hefja skuli endurskoðun laganna eigi síðar en 1. janúar 2020.
    Nefndin beinir því til ráðherra að fara að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um nýtingu sjávargróðurs og að auki þurfi að horfa á samspil lífríkisins í heild. Má þar t.d. nefna upp­vaxtarskilyrði grásleppu. Jafnframt bendir nefndin á mikilvægi þess að tryggt verði fjármagn til rannsókna á auðlindinni sem nú verða lögfest ákvæði um nýtingu á, verði frumvarpið að lögum. Nefndin telur brýnt að öll nýting sjávargróðurs verði sjálfbær og bendir á að eftir því sem fleiri nýta auðlindina þeim mun frekar þurfi að gæta að því að grafa ekki undan þeirri vottun ábyrgra framleiðsluaðferða sem þeir sem nú nýta auðlindina hafa öðlast.
    Áhugaverð tækifæri kunna að gefast við nýtingu á sjávargróðri og er lögð áhersla á að virðisauki af hráefnatöku verði sem mestur hér á landi. Því telur nefndin mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt og þá verður í fyrsta sinn markaður rammi um nýtingu á þangi og þara. Afar mikilvægt er að ekki verði settar hömlur á aðkomu nýrra aðila að nýtingu sjávargróðurs. Nýting þangs og þara er frábrugðin öðrum sjávarnytjum þar sem hráefni er safnað bæði innan netlaga jarða og utan þeirra. Grundvallarrannsóknir skortir um bæði magn og einnig endurnýjun þangs og þara til að hægt sé að meta umfang auðlindarinnar. Þó er hægt að vísa til 40 ára reynslu Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. Samspil nýtingar þangs og þara við vöxt og viðgang fiskstofna ber einnig að hafa í huga.
    Í þangi og þara geta falist umtalsverð verðmæti og möguleikar til að nýta það hráefni til virðisaukandi framleiðslu. Slík vinnsla krefst verulegrar sérhæfingar og fjárfestingar. Því er mikilvægt að löggjöfin tryggi starfsemi af þessu tagi nauðsynlegan fyrirsjáanleika. Nefndin bendir á að víða við strendur landsins má finna auðug svæði. Þó að talið sé að allt að helm­ingur auðlindarinnar geti verið við Breiðafjörð ber ekki að líta á frumvarpið þannig að það gildi aðeins um það svæði. Nefndin leggur áherslu á að forgangur verksmiðjunnar á Reykhól­um til nýtingar á þangi og þara er afar mikilvægur. Afkoma byggðarinnar í Reykhólasveit byggist að verulegu leyti á starfsemi verksmiðjunnar. Bændur og aðrir landeigendur hafa einnig nokkrar tekjur af þangslætti. Áratugareynsla af nýtingu í Breiðafirði er því afar mikilvæg til að skapa grundvöll fyrir sjálfbæra nýtingu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara. Bendir hún á mikilvægi þangs og þara fyrir lífríki grunnsævis og að grot úr þangi og þara nýtist fjölmörgum lífverum og nái áhrif þess langt út fyrir útbreiðslusvæði þörunganna. Einnig bendir hún á að áhrif nýtingar hafi ekki verið rannsökuð hér á landi og því séu rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar mjög mikilvægar og að komið verði á fót vöktunarkerfi. Mikilvægt sé við rannsóknir að beitt sé sjónarhorni vistkerfisnálgunar og að tryggt sé að áhrif stóraukinnar nýtingar þörunga ógni ekki öðru lífríki og öðrum atvinnutengdum hagsmunum.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins (símafundur) en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Jón Gunnarsson, Björt Ólafsdóttir og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. október 2016.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
1. varaform., með fyrirvara.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Páll Jóhann Pálsson. Líneik Anna Sævarsdóttir. Þórunn Egilsdóttir.